Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Í fyrir ÍMYND 

1.  Ímynd og hungurshagfræði sjálfsins.

 

  Eftir að Jónas var farinn sagði Maggi sisona: „Þegar ég hitti einhvern þá þoli ég ekki þegar hann eða hún byrjar strax að baktala aðra. Mig langar ekki að heyra hverjum fólk er á móti heldur hvað það er sjálft að gera.“

„Jamm Maggi minn. Ég held að Jónas hafi, á sinn fátæklega hátt, verið að reyna að segja þér hvað hann er að gera, það sem hann er að gera er bara að „vera á móti“ þeim sem hann var að tala um. Kannski hefur hann bara enga hugmynd um hvernig hægt er að gera nokkuð meira en að taka afstöðu gegn einhverju. Hann er svo sannarlega ekki einn um það.“

  Samkeppni í mannlegum samskiptum leiðir af sér umkomuleysi einstaklinga og þrífst á því um leið. Þetta er einskonar hungurshagfræði sálarinnar því að í þessari aðstöðu er andinn ófær um að gera eins og hann langar og um leið verður hann að upplifa umkomuleysi og fátækt hins daglega lífs til að hafa nokkra löngun til að taka þátt í valdaleik þeirra sem eru dæmdir til að tapa. Til að lifa með umkomuleysinu eltist einstaklingurinn ekki bara við efnislegar eigur - sem leiða hvort eð er til sömu niðurstöðu – heldur leitar hann sér að ímynd, sem er huggun þeirra sem lifa ófrjáls (fyrst ég „get“ ekki, ætla ég bara að „vera“).

  Ímynd virkar í sjálfu sér eins og stillt sé upp andstæðum: Maður „er“ eitthvað annað andstætt „hinum“ sem aftur „eru“ ekki eins og eitthvað annað, þannig að fyrir hina glötuðu sál nútíma samfélags er ekkert verðugra en andstæðingar, fólk sem hægt er að fyrirlíta til að fullvissa sjálfan sig um eigið mikilvægi sem, til dæmis, sannfærðan fylgismann hugmyndafræði X. Hinn ungi „aktívisti“ er óafvitandi stórtækur þátttakandi í að viðhalda firringu annarra og það ætti engan að undra þegar hann spilar sig ógnandi eða yfir aðra hafinn o.s.frv. til að halda ákveðinni fjarlægð milli sín og „venjulega“ fólksins.

  Ef meiningin er að láta til sín taka sem róttækur einstaklingur (en ekki bara láta eins og róttæklingur) er gagnslaust að hafa áhuga á að vera róttækur eða að vera „aktívisti“ heldur þarf einungis að langa til að hjálpa til við að róttækir hlutir eigi sér stað.

Fólk getur því alveg hætt þessum heimskulegu deilum og hnýtingum út í aðra hópa. Þegar félagskerfið er ekkert annað en þrætur skipulagðar sem félagsleg tengsl, verður samfélagið ekkert annað en þéttriðið net af hnýtingum og þá verður það að vinna saman raunverulega skilgreining á róttæku átaki. Þar til fólk verður fært um að losna við „ímyndir“ sínar þegar það hittist þá verða það ekki annað en ímyndir sem koma saman, síðan lendir þeim saman og bakvið þær felast manneskjur ófærar um að sjá hverja aðra. 

2.  Stríðum gegn stríði

 

  Meðan staðan er svona getur fólk ekki beitt sér af fullum krafti gegn ríkinu, harðstjórn stórfyrirtækja og öðrum kúgunaröflum því svo lengi sem fólk er ófært um að vinna saman, verður einungis til nýr ráðandi hópur ef baráttufólki verður eitthvað ágengt. Í þannig aðstæðum verður slagurinn við ríkið ekkert annað en innri valdabarátta í staðinn fyrir sjálfstæða þátttöku meðvitaðra einstaklinga. Samfara því að losna undan oki ytri hafta verður fólk að leitast við að finna til með öðrum og vinna með þeim og til þess verður fólk að vera reiðubúið að hrista af sér eigin þörf fyrir ímynd. Það sem liggur mest á eru leiðir til að tala, þannig að það gefi öðrum rödd og verkefni sem virkja aðra (þetta stangast á við fyrrnefnda hungurshagfræði þar sem það eitt að opna munninn lokar á aðra), þau vopn verða ekki af neinum unnin.

Umfram allt þarf að finna sjálfstraust til að tala við og hlusta á aðra, einnig eru til töfrabrögð sem láta gömul rifrildi hverfa þannig að fólk eins og Jónas og samkeppnisaðilar hans geti fundið leiðir til að lifa saman og sýna hvor öðrum stuðning. Bylting snýst ekki um að láta alla sameinast í einni hugsun heldur einfaldlega að byggja upp tengsl milli ólíkra einstaklinga og hópa sem koma báðum aðilum til góða. Það væri betra fyrir mig sjálfa að velta fyrir mér hvernig ég og Jónas getum hafið okkur yfir þessi fyrirsjáanlegu samskipti í stað þess að sitja og skilgreina hann svo að mér líði eins og ég sé klárari og þroskaðri en hann. 

ÍMYND VERULEIKANS TÆLIR 

  Sem barn gluggaði ég gjarnan í glanstímarit og trúði því að einhversstaðar annarsstaðar væri töfraheimur þar sem allt væri fullkomið og væri eins og myndirnar lýstu. Ég sá myndir frá þessum heimi þar sem módelin undu sér í dramatík reykmettaðra, hálfdimmra herbergja. Ég hélt að þarna væri hægt að leita spennu og ævintýra, í heimi þar sem hvert herbergi er snurðulaust og klæðnaður hverrar konu valinn eftir ögrandi smekkvísi. Ég ákvað því að einnig ég skyldi eiga ævintýralegt líf og hóf þegar leitina að þessum konum og þessum stöðum. Síðan þá hef ég komist að því að ástir og ævintýri eiga sjaldnast samleið með þeirri ímynd þeirra sem rétt er að fólki, venjulega er það á hinn veginn; að ævintýrin eiga sér stað þar sem enginn hefur hvorki tíma né orku til að halda uppi framhlið. Samt stend ég mig stundum að því að hugsa sem svo að allt væri fullkomið ef að ég ætti heima í þessum myndræna sumarbústað með teppum öllum í stíl.

  Hvað svo sem það er sem fólk er að leita að, þá virðist það elta langanir sínar með því að elta ímyndir þess sem það langar að hafa. Það kaupir leðurjakka þegar það langar í uppreisn og hættulegt líf. Það kaupir hraðskreiða bíla til að endurheimta glataða æsku. Vilji það breyta heiminum er fjárfest í pólitískum tímaritum. Það gerir einhvernveginn ráð fyrir því að réttu græjurnar fullkomni líf sitt. Þannig er líf fólks sett saman útfrá ímynd, ákveðnu ferli sem þegar er búið að leggja niður fyrir því; rokkari, húsmóðir, viðskiptajöfur, mótmælandi.

  Hvernig stendur á því að svo mikil áhersla er lögð á ímyndir í stað veruleikans, lífsins og upplifunum þess? Ein af ástæðum þess er að ímyndir, öfugt við athafnir, er auðvelt að selja. Auglýsing og markaðssetning er hönnun fyrir vörur hlaðnar ákveðnu táknrænu gildi sem höfðar til kaupenda og þetta hefur umbreytt menningu manna. Stórfyrirtæki hafa dælt í heilu kynslóðirnar áróðri sem er hannaður til að fá fólk til að trúa á töframátt þess sem er til sölu: Svitalyktareyðir sem býður upp á vinsældir, gosdrykkir sem gefa orku og æskufjör, gallabuxur sem gera fólk kynferðislega aðlaðandi. Í vinnunni skiptir fólk út eigin tíma, orku og sköpunargáfu til að geta keypt þessi tákn og það hættir ekkert að kaupa þau því auðvitað er ekki til neitt hámarksmagn af sígarettum sem gefa nokkrum manni siðfágað yfirbragð. Í stað þess að hlutirnir fullnægi þörfum fólks margfaldast þær því fólk verður að selja eigið líf til að geta keypt þær. Fólk kemur alltaf aftur, það kann ekkert annað en að vona að næsti hlutur (sjálfshjálparbók, rokkplata eða sumarbústaður með samstæðum teppum) verði sá sem lagar allt.

  Fólk sættir sig auðveldlega við að eltast við þessar ímyndir, því það er einfaldlega auðveldara að breyta umhverfinu en að breyta eigin lífi. Það væri svo miklu auðveldara og öruggara ef hægt væri að fullkomna lífið með því að bara sanka að sér öllum aukahlutunum. Enginn þarf að gera neitt. Ímyndin felur í sér allt sem þig langaði í og allur tími fólks fer í að ná smáatriðunum rétt (bóheminn mætir á réttu ljóðakvöldin – töffarinn lætur sjá sig með rétta fólkinu á réttu stöðunum) frekar en að það þurfi að átta sig á hvað það langar í. Það er miklu auðveldara að tengja við fyrirfram hannaða ímynd en tengja nákvæmlega við það sem fólk langar að gera við líf sitt. En langi fólk í alvöru í ævintýri þá gagnar ekki að eignast ástralskan veiðimannajakka, eins ef strák langar í alvöru ást þá er næsta víst að kvöldmatur og bíóferð með vinsælustu stelpunni í skólanum uppfylla ekki drauma hans.

  Þar sem fólk er svona heillað af ímyndum snýst verðmætamat þess um heim sem það getur aldrei upplifað. Það er engin leið inn í síður glanstímaritanna, það er engin leið til að vera harðasti rokkarinn eða fullkomnasti sölumaðurinn. Fólk er „fast“ hérna úti í raunheiminum, að eilífu. Samt heldur fólk áfram að leita lífsins í kvikmyndum, í tísku, í allrahanda sjónleikjum, hverju því sem hægt er að safna eða horfa á – í stað þess að gera. 

 

FÓLK LEITAR AÐ LÍFINU Í ÍMYND ÞESS 

Fylgst með frá hliðarlínunni. 

  Það er sérstakt við sjónleik hvernig hann lamar áhorfendur, á sama hátt og kringum ímyndina, fer athygli þeirra, verðmætamat og að lokum allt líf þeirra að snúast um eitthvað utanvið þá sjálfa. Það heldur þeim uppteknum án þess að virkja þá og fær þá til að finnast eins og þeir séu að taka þátt án þess að leyfa þeim að ráða. Hver sem er getur bent á fjölda dæma um þetta: Sjónvarpsþættir, spennumyndir, tímarit sem fylgjast með lífi frægs fólks og poppstjarna, sýningar frá íþróttaleikjum, fulltrúalýðræði og kaþólska kirkjan.

  Sjónleikurinn einangrar fólk um leið og hann fangar athygli þess. Mörg okkar vita meira um tilbúna karaktera vinsælla sjónvarpsþátta en ævi og ástir nágrannana – þar sem fólk talar yfirleitt við nágrannana um það sem þau eiga sameiginlegt sem áhorfendur fjölmiðlabáknsins, þ.e. sjónvarpsþætti, fréttirnar og veðrið, sér þetta sem er sameiginlegt til þess að það fjarlægist hvort annað. Þetta er eins og á stórum fótboltaleik, enginn þeirra sem situr á áhorfendapöllunum skiptir máli, sama hver hann er. Þó að þeir sitji næst hver öðrum beinast allra augu að vellinum. Yrði þeir á hvern annan er það aldrei til að spjalla um hvorn annan heldur um leikinn sem er að eiga sér stað fyrir framan þá.

  Þrátt fyrir að þeir sem hafa áhuga á fótbolta geti ekki tekið þátt í leiknum eða haft nein afgerandi áhrif á hann þá er hann þeim afar mikilvægur og þeir tengja leikinn beint við eigin þarfir og langanir á hinn óvenjulegasta hátt. Í stað þess að einbeita sér að hlutum sem hafa eitthvað að gera með eigin langanir umbreyta þeir þeim þannig að þær snúast um þá hluti sem eiga athygli þeirra. Tungutak þeirra fer að litast af gangi máli hjá liðinu sem þeir kenna sig við um leið og þeir tengja hegðun sína við það: Áhangendur sitja á sófanum eða bekknum og æpa „Við skoruðum!“Við unnum!“

Þetta er öfugt við hvernig fólk talar um hluti sem eiga sér stað í þeirra eigin borgum og samfélögum. „Þeir eru að leggja nýjan veg,“ segir fólk um breytingar í sínu hverfi. „Hvað ætli þeim detti í hug næst?“ er innlegg þeirra í umræðuna um framfarir í vísindum. Tungutak fólks sýnir að það lítur á sig sem áhorfendur í eigin samfélögum. En það eru ekki „Þeir,“ þetta dularfulla Annað Fólk sem hafa gert heiminn eins og hann er heldur fólk almennt, mannkynið. Ekkert teymi vísindamanna, borgarfulltrúa eða ríkra möppudýra gæti hafa lagt til alla þá vinnu, skipulagningu og uppfinningar sem þurfti, til að mannkynið gæti umbreytt þessari plánetu. Það þurftu allir að taka á því og fólk er enn að, á hverjum einasta degi. Samt líður flestum eins og þau hafi meiri stjórn yfir fótboltaleikjum dagsins en borginni eða vinnunni eða jafnvel eigin lífi.

  Fólk gæti náð meiri árangri í hamingjuleitinni ef það byrjaði að reyna að raunverulega taka þátt. Í stað þess að taka sér áhorfendahlutverk í íþróttum, samfélagi og tilverunni yfir höfuð er það undir hverjum og einum komið að finna leið til að taka virkan þátt í að skapa heiminn umhverfis sig og innra með sér. Kannski kemur sá dagur að hægt verður að byggja upp nýtt samfélag sem leyfir öllum að eiga hlut í þeim ákvörðunum sem hafa áhrif á það líf sem er lifað. Þá er raunverulega hægt að velja sín eigin örlög. 
 

 

Til baka í greinar