Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

HVAÐ ER SVONA SLÆMT VIÐ KAPÍTALISMA?! 

OG HVAÐ ER KAPÍTALISMI ANNARS? 

Kapítalismi, það er jú eins og lýðræði, ekki satt? (og eru þá ekki andstæðingar kapítalismans óvinir lýðræðisins?) 

  Kapítalismi og lýðræði eru mjög ólík fyrirbæri. Lýðræði er sú hugmynd að fólk eigi að hafa stjórn á lífi sínu, að vald eigi að dreifast jafnt milli allra frekar en að skiptast milli nokkurra. Kapítalismi er eitthvað allt annað.

  Meðal vestrænna þjóða er fólk vant því að heyra að það búi í samfélagi sem byggi á lýðræði. Vissulega kallast ríkisstjórnin lýðræðiskjörin, en hvort að samfélagið er lýðræðislegt er allt annað mál (og vert er að spyrja sig hvort að fólk hafi jafnan rétt til að láta í sér heyra eða hvort það hafi yfirhöfuð eitthvað að segja í jafnkyrkingslegu „fulltrúalýðræði“ og um er að ræða).

   Ríkisstjórnin er bara einn þáttur í samfélaginu og langt frá því að vera sá mikilvægasti þegar grannt er gluggað í daglega lífið. Efnahagskerfi hvers samfélags hefur meiri áhrif á daglega lífið en nokkurt þing eða löggjafarvald. Efnahagskerfið segir til um hver ræður yfir landinu, auðlindum þess og tækjum samfélagsins, auk þess sem efnahagskerfið stýrir því hvað fólk þarf að gera til að lifa af og „komast áfram í lífinu“ og það hefur sterk áhrif á hvernig þetta sama fólk horfir á heiminn og hefur samskipti.

  Kapítalismi er ekki lýðræðislegt hagkerfi. Í lýðræðislegu hagkerfi myndi hver einstaklingur innan samfélagsins hafa jafnmikið að segja um auðlindanýtingu og vinnutilhögun. Í kapítalísku hagkerfi, þar sem allar auðlindir eru í einkaeign og allir keppa um þær sín á milli, lenda þær hins vegar undir stjórn fárra einstaklinga (lesist, stórfyrirtækja). Þeir geta þá ákveðið hvernig allir aðrir eiga að vinna, þar sem fæstir hinna geta dregið fram lífið án þess að vera þeim háðir um atvinnu og laun. Þessir fáu útvöldu ákvarða einnig landslagið þar sem þeir eiga landið og með sterka fjölmiðla undir sinni stjórn ráðskast þeir með sálfélagslegt ástand samfélagsins. En þegar upp er staðið eru þeir eiginlega ekki við stjórnvölinn heldur, því slaki þeir á verðinum og hætta að hamast við að halda sér á floti, lenda þeir fljótt á botni pýramídans með öllum hinum.

  Niðurstaðan er að undir hinu kapítalíska kerfi er enginn raunverulega frjáls, allir eru jafnmikið komnir upp á náð og miskunn(arleysi) samkeppninnar. 

HVERNIG GENGUR KAPÍTALISMINN FYRIR SIG? 

  Frjálsum markaði er ætlað að virka á nokkurn veginn svona: Fólki er frjálst að freista gæfunnar að vild og þau sem leggja harðast að sér og færa þannig samfélaginu hvað mest, er launað með mestum auði. Kerfið hefur hins vegar þann galla að ekki bjóðast öllum sömu tækifæri. Uppgangur á „frjálsum markaði“ er nær eingöngu háður því hve miklum auð einstaklingurinn hefur aðgang að fyrir.

  Þegar höfuðstóll er í einkaeign eru tækifæri einstaklingsins til að læra, vinna og auðgast beintengd fjármagninu sem hann eða hún hefur aðgang að. Einhverjir styrkir breyta engu um þetta. Til að framleiða verðmæti þarf auðlindir og ef einstaklingur hefur ekki í auðlindir að sækja sjálfur er viðkomandi háður þeim sem hafa þær. Á meðan ná þau sem þegar hafa yfir auðlindum að ráða til sín meiri peningum og þannig safnast megnið af auðæfum samfélagsins á fárra hendur. Niðurstaðan er að allt hitt fólkið hefur engan höfuðstól að selja nema eigin vinnu og til að lifa af verða það að selja hana kapítalistunum (sem stjórna flestum framleiðsluleiðum).

  Þetta hljómar ruglingslega en er í raun afar einfalt. Samsteypa á borð við Nike hefur nóg af umframpeningum til að opna nýja skóverksmiðju, kaupa nýjar auglýsingar og selja fleiri skó og græða þannig meiri peninga, sem nota má í frekari fjárfestingar. Blankur launaþræll (flokkurinn sem allur almenningur er í) á rétt svo næga peninga til að opna kaffistand og geri hann það er nokkuð líklegt að honum verði bolað burt úr bransanum af stærra og betur stæðu fyrirtæki á borð við Pepsi, sem hefur meiri peninga til að eyða í kynningu á sinni vöru (auðvitað eru til uppgangssögur af smámennum sem ná á toppinn í samkeppninni, en nokkuð augljóst er að slíkt á sér ekki oft stað). Mestar líkur eru á að sá framtakssami endi í vinnu hjá þeim stóru til að hafa í sig og á. Vinna hans hjá stórbokkanum mokar undir þann síðarnefnda, því þótt hann borgi laun er fullvíst að greiðslan miðar ekki við framleiðni launamannsins, því þannig hagnast þeir. Sá eða sú sem vinnur í verksmiðju og býr til vélarhluta að verðmæti 100.000 krónur á dag fær líklega ekki borgað meira en 10.000 krónur í daglaun. Það þýðir að einhver er að græða á verkinu og því lengur sem þeir eru að því, því meiri auðæfum safna þeir og því fleiri tækifæri hafa þeir til þess, á kostnað launamannsins. 

HVER ERU ÁHRIFIN Á HINN ALMENNA LAUNÞEGA? 

  Þetta þýðir að tími og sköpunarkraftur launamannsins er keyptur af honum, sem er það versta við þetta allt saman. Þegar launamaðurinn hefur ekki annað að selja en eigin vinnukraft neyðist hann til að selja tilveru sína í smáskömmtum til þess eins að draga fram lífið. Hann kemur til með að eyða stórum hluta lífs síns í að gera hvaðeina sem hann fær mest laun fyrir í stað þess að gera hluti sem hann virkilega langar til. Hann skiptir út draumum sínum fyrir peninga og frelsi sínu skiptir hann út fyrir efnislegar  eigur. Í sínum „eigin“ tíma getur hann keypt aftur það sem hann bjó til í vinnutímanum (þannig hagnast vinnuveitendur enn frekar) en hann getur aldrei keypt aftur tímann sem hann eyddi í vinnu. Sá hluti lífsins er farinn og launamaðurinn hefur ekkert til marks um hann nema reikningana sem hann náði að borga.

  Þar kemur að launamaðurinn fer að líta á sköpunarhæfileika sína og vinnukraft sem eitthvað utan eigin áhrifavalds. Hann fer nefnilega að tengja hvaðeina sem hann gerir við lítillækkunina sem því fylgir að gera eins og honum er sagt en ekki það sem hann langar til (nema rétt á meðan hann slappar af, svona til að ná sér eftir vinnuna). Hugsunin um að gera eitthvað á eigin forsendum og stefna að eigin markmiðum hvarflar ekki lengur að honum nema í tengslum við áhugamál hans.

Jújú, hluti fólks finnur leiðir til að fá greitt fyrir að gera nákvæmlega það sem það langar til. En hvað þekkir lesandinn mikið af fólki sem þetta á við um? Þessum einstöku, stálheppnu einstaklingum er flaggað sem sönnun þess að kerfið virki og fólki skipað að leggja sig fram af alefli til að einn góðan veðurdag geti það líka notið sömu sælu. Sannleikurinn er að framboðið er ekki nægt til að allir geti orðið rokkstjörnur eða hálaunaðir rithöfundar. Einhverjir verða að vinna í verksmiðjunum og fjöldaframleiða plöturnar og bækurnar. Ef launamaðurinn skyldi ekki ná því að verða næsta heimsfræga körfuboltahetja og enda í því að selja íþróttaskó í einhverri verslanamiðstöðinni þá hefur hann að líkindum ekki lagt nógu hart að sér og getur sjálfum sér um kennt ef honum leiðist þar, eða hvað? En það var ekki hans hugmynd að það séu þúsund skósölumenn fyrir hvern atvinnumann í körfubolta. Ef hægt er að kenna launaþrælnum um eitthvað, þá er það að taka aðstæðum sem bjóða ekki fleiri möguleika.

  Frekar en að keppa að því að komast á toppinn í lífsgæðakapphlaupinu eða verða næsti vinningshafi í lottóinu ætti fólk frekar að reyna að átta sig á hvernig mögulegt væri fyrir alla gera það sem þeir vilja við líf sitt. Því jafnvel þó að einhver verði svo heppinn að komast á toppinn, hvað þá með þær þúsundir á þúsundir ofan sem náðu því ekki — alla þessa niðurdregnu skrifstofuþræla, misheppnuðu listamenn, lystarlausu grillara og hundleiðu þjónustustúlkur? Er það öllum fyrir bestu að lifa í heimi fullum af fólki sem nær aldrei að eltast við drauma sína, eða náði jafnvel aldrei að eignast neina drauma? 

HVAÐ FÆR KAPÍTALISMINN FÓLK TIL AÐ META MEST? 

  Undir kapítalisma fer líf fólks að snúast um hluti, eins og hamingjuna sé að finna í eignum frekar en frelsi til athafna. Þeir sem sitja á auðæfum gera það vegna þess að hafa eytt miklum tíma og orku í að finna út hvernig ætti að ná þeim af öðru fólki. Til að komast af þurfa þeir sem lítið hafa milli handanna að verja stærstum hluta ævi sinnar í vinnu og það eina sem þeir hafa sér til huggunar eftir að hafa púlað alla ævi, er að mannssálin skilur samkennd betur en samkeppni og fjölskylda og vinir ganga ekki kaupum og sölum. Milli þessara tveggja stétta er miðstéttin, sem allt frá barnæsku hefur verið hýdd með auglýsingum og öðrum áróðri sem fullyrðir að hamingju, æskufjör, merkingu og allt annað í lífinu sé að finna í veraldlegum eigum og stöðutáknum. Þau læra að eyða lífi sínu við að vinna að söfnun þessa í stað þess að nýta hvert tækifæri til að leita ævintýra og ánægju.

  Kapítalisminn fær þannig verðmætamat allra til að snúast um hvað fólk hefur fremur en hvað það gerir, með því að láta alla verja lífinu í samkeppni um hlutina sem þeir eiga að þurfa til að lifa af og ná stöðu í félagskerfinu. Fólk myndi líklegar upplifa hamingju í samfélagi sem hvetti það til að meta eigin hæfileika, njóta þess að vera frjálst og umfram allt gera hluti sem það langar sjálf. Til að búa til þannig samfélag verður fólk að hætta að keppast við um stjórnun og fjármagn og finna nýjar leiðir til að skipta niður gæðunum sem vinna þess skapar. Skipulag jafnrar þátttöku sem leitast við að tryggja að allir séu frjálsir til að velja sér líf eftir eigin óskum án þessa að óttast hungur eða útilokun úr samfélaginu. Fólk almennt er félagslega meðvitað. Þessvegna gengur rekstur vinnustaða og heimila upp almennt. 

EN LEIÐIR SAMKEPPNI EKKI TIL FRAMLEIÐNI? 

  Jú, það er vandamálið. Hagkerfi hins „frjálsa“ samkeppnismarkaðar hvetur ekki einungis til framleiðni umfram allt, hann krefst hennar þar sem rekstur sem ekki gætir þess að vera fremstur í flokki í samkeppninni eru troðinn undir. Lítum á hvað verið er að leggja undir í þessari samkeppni?

  Fyrst bera að nefna langar vinnustundir, fjörutíu, fimmtíu og upp í sextíu tímar á viku undir hreytingum yfirmanna eða kúnna þar til fólk er „búið að vera“ í kapphlaupinu um að komast áfram í lífinu. Svo eru það lágu launin. Fæstir fá laun sem nægja fyrir þó ekki væri nema hluta af öllu því sem samfélagið býður til sölu, jafnvel þó að það sé vinnuframlag láglaunafólks um allan heim sem skapar þessa hluti. Ástæðan er sú að á samkeppnismarkaði er vinnandi fólki ekki greitt það sem „það á skilið“, heldur lægstu upphæð sem vinnuveitandinn kemst upp með að borga án þess að það yfirgefi hann í leit að betri kjörum. Þarna fer „lögmálið“ um framboð og eftirspurn. Vinnuveitandinn verður að gera þetta þar sem hann verður að spara sem mest af sínum höfuðstól til að eiga fyrir auglýsingum, frekari þenslu fyrirtækisins og öðrum leiðum til að halda haus í samkeppninni. Annars myndi hann ekki endast lengi sem atvinnurekandi og vinnufólk hans færi að vinna fyrir einhvern sem stæði sig betur í samkeppninni.

  Yfir þessa löngu vinnutíma og óréttlátu laun er til orð: Misnotkun. En þetta er ekki eini ókosturinn við framleiðnina sem samkeppniskerfið ýtir undir. Atvinnurekendur verða að skera niður á þúsund mismundandi vegu. Þessvegna er vinnuumhverfi til dæmis oft hættulegt. Ef einhver spurning er um aðferðir sem eru umhverfinu skaðlegar til að standa sig í framleiðslu og græða peninga þá hefur hagkerfi sem metur framleiðni umfram allt enga ástæðu til að eyðilegga ekki villta náttúru. Í það fóru skógarnir, í það fór ósonlagið, í það fóru hundruð tegunda villtra dýra; þau tróðust undir í lífsgæðakapphlaupinu. Í stað skóga hefur fólk verslunarmiðstöðvar og bensínstöðvar. Loftmengun kemur til af því að það telst mikilvægara að hafa staði til að kaupa og selja heldur en að hafa staði sem bjóða upp á frið og fegurð. Í staðinn fyrir frjálsar og lifandi skepnur eru dýr lokuð í búrum á verksmiðjubúum, umbreytt í mjólkur- og kjötvélar og teiknimyndadýr sem syngja í Disneymyndum. Nær kemst margt fólk ekki því að sjá villtar skepnur. Þetta samkeppnishagkerfi neyðir fólk til að skipta hverju því sem er fallegt og frjálst út, fyrir hvaðeina sem er skilvirkt, mótað og gróðavænt.

  Að sjálfsögðu takmarkast þetta ekki við Vesturlönd eða vestræna menningu. Kapítalisminn og verðmætamat hans hefur breiðst út yfir heiminn eins og faraldur. Fyrirtæki í samkeppni verða stöðugt að stækka markaði sína til að hafa við hvort öðru, hvort sem það gengur fyrir sig með sannfæringu eða átroðningi. Þessvegna er keypt kók í Egyptalandi og étið á McDonald’s í Taílandi. Gegnum söguna má sjá dæmi um hvernig kapítalísk stórfyrirtæki hafa þrengt sér leið inn í eitt landið af öðru og ekki hikað við að nota ofbeldi þar sem þess var talin þörf.

  Í dag selja manneskjur í öllum heimshornum vinnuafl sitt til fjölþjóðasamsteypa, oft fyrir minna en hundraðkall á tímann, fyrir tækifæri til að eltast við þær ímyndir auðvalds og stöðu sem þessi fyrirtæki hafa notað til að heilla. Auðurinn sem þeirra vinna skapar er soginn út úr samfélögum þeirra ofan í vasa fyrirtækjanna og í staðinn er einstakri menningu skipt út fyrir staðlaða einsleitni vestrænnar neysluhyggju.  

JÆJA - HVER ER ÞAÐ SVO SEM HEFUR VÖLDIN UNDIR KAPÍTALISMA? 

  Í kerfi þar sem fólk stríðir um fjármagn og valdið sem því fylgir, ná þeir mestu af báðu sem einskis svífast. Kapítalíska kerfið hvetur þannig til svika, misnotkunar og samviskulausrar samkeppni og verðlaunar þá sem ganga lengst með því að láta þeim í té mest vald innan samfélagsins.

  Stórfyrirtækin sem mestum árangri ná eru þau sem gengur hvað best að sannfæra fólk um að það þarfnist framleiðslu þeirra, hvort sem það hefur eitthvað við hana að gera eður ei. Þannig hefur fyrirtæki eins og Coca-Cola, sem framleiðir vöru sem er næsta algjörlega tilgangslaus, náð þeirri valdastöðu sem raun ber vitni. Fyrirtækið er ekki að bjóða upp á eitthvað sem kemur sér vel fyrir samfélagið heldur gengur þeim vel að koma vöru sinni á framfæri. Kók er ekki besti drykkur sem heimurinn hefur smakkað, hann er einfaldlega sá drykkur sem hefur verið markaðssettur á hvað miskunnarlausastan hátt. Fyrirtækjum sem gengur hvað best að skapa umhverfi sem fær fólk til að kaupa vörur þeirra, hvort sem það er með auglýsingaherferðum eða grófari aðferðum, eru þau sem fá flest tækifæri til að halda áfram starfsemi sinni. Þannig geta þau enn frekar stjórnað því umhverfi sem fólk dregur fram lífið í. Af þessum sökum eru borgirnar fullar af auglýsingaspjöldum og skýjakljúfum stórfyrirtækja frekar en almenningsgörðum og svæðum fyrir börn. Þess vegna eru sjónvarpið og dagblöðin uppfull af brengluðum sjónarhornum og beinum lygum. Framleiðendur fyrir sjónvarp og dagblöð eru upp á náð og miskunn auglýsenda komnir og auglýsendurnir sem þeir treysta á eru þeir sem eiga mesta peninga: Það er að segja þeir sem eru til í hvað sem er, jafnvel að snúa við staðreyndum og breiða út lygar, til að halda í sína peninga.

  Kapítalisminn bókstaflega ábyrgist að þeir sem stjórna því hvernig samfélagið gengur fyrir sig séu þeir gráðugustu, illskeyttustu og kaldrifjuðustu. Þar sem allir aðrir eru upp á náð og miskunn þeirra komin og enginn vill vera í tapliðinu, ýtir kapítalisminn undir að allir séu gráðugir, illskeyttir og kaldrifjaðir. Auðvitað er enginn stanslaust eigingjarn og illskeyttur. Afskaplega fátt fólk vill vera þannig eða fær eitthvað út úr því og hvenær sem það sér möguleika á að sleppa því, þá er það gert. En ef einhver kemur svangur og blankur inn í bakarí gerir stefna fyrirtækisins þá kröfu til starfsfólks að það sendi manninn út tómhentan frekar en að láta hann hafa eitthvað án borgunar, jafnvel þó að bakaríið fleygi snúðum í kílóavís í loks hvers dags, sem mun ekki vera óalgengt. Starfsfólkið fer að líta á fátæklingana sem leiðindapakk og fátæklingarnir bölva starfsfólkinu fyrir að hjálpa þeim ekki. Í rauninni er þetta kapítalisminn að egna þau gegn hvort öðru. Sorglegast er að líklega verður sá starfsmaður hækkaður upp í framkvæmdastjóra sem gengur harðast eftir því að framfylgja svona fáránlegum reglum. Fólk sem dirfist að eyða lífi sínu við að gera hluti sem eru ekki gróðavænlegir nýtur hvorki öryggis né virðingar fyrir störf sín. Það gæti verið að gera hluti sem skipta samfélagið miklu máli, eins og að skapa tónlist eða sinna félagsþjónustu. En ef það eru að gera eitthvað sem skilar ekki hagnaði mun það eiga í erfiðleikum með að lifa af, hvað þá að öðlast ný tækifæri til að stækka og útfæra verkefni sín. Þar að auki, þar sem vald kemur fyrst og fremst frá fjármagni, hefur það lítið að segja um gang mála í sínu samfélagi. Þannig að stórfyrirtæki sem hafa engin önnur markmið en að ná til sín meira fé hafa alltaf meiri völd í kapítalistasamfélagi en fólk sem lifir einföldu lífi og vill gera öðrum kleift að gera slíkt hið sama. Á sama tíma eru ekki margir sem hafa tíma til að gera eitthvað sem skiptir máli án þess að það sé arðbært.  

HVERJAR ERU AFLEIÐINGARNAR FYRIR HEIMINN? 

  Kapítalíska kerfið gefur meðalmanninum fá tækifæri til ráðstöfunar varðandi tækni og auðlindir samfélagsins. Þó að það sé vinnukraftur þessa meðalmanns (og allra hinna) sem hefur byggt upp heiminn sem hann eða hún býr í, er upplifunin sú að vinnukrafturinn sé eitthvað sem er í annara höndum, hann sé ósnertanlegur hæfileiki sem verkamaðurinn hefur ekkert um að segja. Ekki er því að undra að fólk finni fyrir örvæntingu, umkomuleysi, óánægju og tómleika. En það er ekki bara þessi óreiða sem gerir kapítalismann andstæðan hamingju mannsins. Í stað lýðræðislegrar stjórnunar á lífi fólks og samfélagi, býr fólk við valdníðslu.

  Ofbeldi á sér ekki einungis stað þegar manneskjur valda hvor annari líkamlegum sársauka. Ofbeldið er til staðar, þó á hógværara formi, hvenær sem manneskjur beita valdi í samskiptum. Rót kapítalismans liggur í ofbeldi. Í kerfi kapítalisma verða hver þau hagfræðilögmál sem lúta að mannslífinu að kúgunartækjum: Þú skalt vinna eða svelta! Troddu á öðrum eða láttu troða á þér! Stattu þig í samkeppninni eða drepstu! Seldu líf þitt til að lifa af eða rotnaðu í fátækt - eða fangelsi!

  Flest fólk fer í vinnu vegna þess að það þarf þess, ekki af því að það langi til þess. Fólk selur tíma sinn til að kaupa mat og húsaskjól og til að borga af öllum stöðutáknunum og lúxusnum sem það hefur verið skilyrt til að sanka að sér, einungis vegna þess að það veit að hinn kosturinn er sultur og útskúfun. Vera má að fólk hafi gaman af ýmsu sem það gerir í vinnunni, en það vildi miklu frekar vera að gera þessa hluti með sjálfu sér, í eigin tíma og á sinn hátt. Og marga aðra hluti vildi það vera að gera, en hefur hvorki tíma né orku til vegna vinnu. Fyrirtæki nota óteljandi stýrikerfi eins og vinnuskemu, stimpilklukkur og vinnustaðaeftirlit til að kreista hámarksafköst út úr fólki sem helst vill vera annarsstaðar en í vinnunni. Verkafólk og verkstjórar í verksmiðjum eru undir sama hatti hagfræðilegs harðræðis og komast að samkomulagi með ósýnilegum hótunum; annar aðilinn hótar atvinnuleysi en hinn hótar lélegu verki og möguleikanum á verkfalli. Flest fólk reynir að halda í eitthvað af eigin sjálfstæði í vinnunni en megininnihald hagkerfisins er samkeppni og stýring. Það sýnir sig alltaf í samskiptum fólks við aðra sem eru undir þeim eða yfir í valdapýramída vinnustaðarins.

  Fólk getur ímyndað sér hve miklu árangursríkara og skemmtilegra það væri fyrir alla ef það gæti látið stjórnast af virðingu frekar en þvingun. Ef fólk gerði hlutina vegna þeirrar ánægju sem það hefur af því að gera þá og ynni saman af því að það langaði til þess, ekki af því að það yrði að gera það? Myndi það ekki gera mikilvæg verk ánægjulegri og öll samskipti fólks um leið?

  Þessi ofbeldismynd blandar sér einnig í aðra þætti lífsins. Þegar fólk venst því að meta manneskjur út frá nýtni þeirra eða ótta sínum er erfitt að skilja þau viðmið eftir þegar farið er heim. Valdapýramídinn sem vinnustaðurinn treður inn á fólk getur sýnt sig hvarvetna annars staðar í samfélaginu, í skólum og kirkjum, innan fjölskyldunnar og í vinasamböndum. Alls staðar eru kraftar stjórnunar og kúgunar að verki. Nærri ómögulegt er því að ímynda sér úr hverju samband byggt á jafnræði ætti að vera samsett í samfélagi þar sem hver og einn er að trana sér fram. Ofbeldi barna er talið vera óeðlilegt en er það nokkuð nema spegilmynd hins ofbeldisfulla samkeppnisheims sem ól þau upp? Þegar einstaklingar sem gætu orðið vinir og elskendur meta hvern annan útfrá félagslegri og fjárhagslegri stöðu frekar en að fylgja hjarta sínu þá eru þeir einfaldlega að sýna hvað þeir hafa lært um „markaðsgildi.“ Þegar lifað er við kapítalíska valdníðslu er nær ómögulegt fyrir fólk að horfa á aðra og heiminn án þess að pæla í hvað það geti grætt.

  Ef fólk lifði í heimi þar sem það gæti fylgt væntingum sínum eins og það lystir án þess að óttast að deyja jafnfátæk og einmana og svo margir lenda í, myndi líf þess og samskipti ekki vera litað af ofbeldi. Kannski væri þá auðveldara fyrir þetta fólk að horfa hvert á annað og sjá hið fallega og einstaka. Fólk gæti horft á náttúruna og virt hana eins og hún er og lifað lífinu án þess að sækjast stöðugt eftir völdum og frama.

Í sögu mannsins hafa verið hundruð annara samfélaga þar sem fólk hefur lifað á þann hátt. Er virkilega til of mikils mælst að halda nútímamanninn geta endurskipulagt sitt eigið samfélag á lýðræðislegri hátt? 

ALLT Í LAGI, EN HVAÐA VALKOSTI HÖFUM VIÐ? 

  Fyrir utan kapítalisma getur fólk valið samfélag byggt á samráði, þar sem fólk getur tekið ákvarðanir sem einstaklingar og í hópum um hvernig líf þess og umhverfi skuli vera, í stað þess að neyðast til að hlýða einhverju lögmálarugli eins og „framboði og eftirspurn.“ Þetta er bara lögmál ef fólk leyfir því að vera það. Erfitt er að ímynda sér samfélag byggt á samvinnu vegna þess að einu samfélögin sem fólk þekkir til eru byggð á samkeppni. En þannig samfélög eru möguleg, hafa oft verið til gegnum söguna og geta orðið það aftur, ef fólk vill.

  Til að slíta af sér fjötra samkeppninnar verður að þróa hagkerfi sem byggist á að gefa frekar en að skipta: Gjafahagkerfi í stað núverandi skiptihagkerfis. Innan þannig kerfis gæti hver einstaklingur gert það sem hann langaði við sitt líf og um leið boðið öðrum það sem honum eða henni fyndist hann eða hún hafa helst hæfileika til að bjóða. Hvernig hlutirnir eru gerðir yrði sameign allra í stað þess að þeir gráðugustu söfnuðu því undir sig. Hver og einn hefði jafnan aðgang að gæðum samfélagsins. Þeir sem vildu gætu málað, þeir sem hafa gaman af að setja saman vélar og tæki gætu gert það, þeir sem bera tilfinningar til reiðhjóla gætu smíðað þau og gert við fyrir aðra. Hinum svokölluðu drulludjobbum yrði komið á fleiri hendur og allir myndu hafa hag af því að geta sinnt fjölbreyttum verkum í stað þess að vera fastir í einni grein eins og tannhjól í vél. „Vinnan“ sjálf yrði þúsund sinnum ánægjulegri þegar ekki væri um að ræða niðurnegldan tíma með kröfuharða yfirmenn á eftir fólki. Þó að þetta kæmi út með hæggengari framleiðslu hefði fólk víðari möguleika á virkjun sköpunarinnar sem gefur lífinu meiri merkingu.

  Þetta lítur út eins og draumsýn og þetta er það, en það þýðir ekki að fólk geti ekki látið líf sitt verða líkari þessu en það er í dag. Horfa má til fleiri dæma um líf utan kapítalisma en hjá Búskmönnum í Kalahari-eyðimörkinni . Í vestrænu samfélagi eru jafnvel í dag fjölmörg tækifæri til að sjá hversu miklu betra lífið er þegar ekkert er verðlagt.

  Hvenær sem sjálfshjálparhópur kemur saman til að rækta vinskap og styðja hvert annað, hvenær sem fólk fer saman í útilegu og deilir með sér verkunum, í hvert skipti sem fólk vinnur saman að eldamennsku eða tónlist eða hverju öðru sem það gerir ánægjunnar vegna en ekki peninga er þar virkt gjafahagkerfi. Einn af mögnuðust hlutunum við að vera ástfangin eða að eiga náinn vin er að vera metin eins og maður „er“ en ekki hvers „virði“ maður er.

  Góð tilfinning er að njóta hluta sem fólk fær upp í hendurnar ókeypis án þess að þurfa að meta hversu mikið af sjálfu sér það er að gefa fyrir þá. Jafnvel í dag er næstum því hvaðeina sem fólk fær raunverulega ánægju út úr upprunnið utan hins kapítalíska kerfis. Hversvegna skyldi fólk ekki gera þá kröfu að njóta þess alla daga sem gengur upp í einkalífi þess? Ef það fær svo miklu meira út úr samskiptum þegar þau eru laus við kúgun eignarréttarins og samkeppninnar, því skyldi það ekki sækjast eftir að frelsa einnig „vinnusamskiptin“ frá þeirri kúgun?

 

En hver á að hirða ruslið ef við öll gerum það sem okkur stendur hugur til? 

  Þegar vinahópur býr saman í íbúð er þá ekki farið út með ruslið? Verið getur að það gerist ekki jafn reglulega og þegar húsvörður skrifstofubyggingar sér um það af skyldurækni, en það er farið með það út af sjálfsdáðum og það er ekki alltaf sami einstaklingurinn sem þarf að gera það. Sama hvað lesandinn hefur heyrt margar dæmisögur sem segja þetta ekki ganga upp…ef hópurinn ákveður að gera þetta þá er það hópsins að gera það. Að halda því fram að fólk geti ekki sinnt eigin þörfum án þess að yfirvald þröngvi því til þess er stórkostlegt vanmat á mannkyni og grófleg móðgun við það um leið. Sú hugsun að fólk myndi allt sitja á rassinum í aðgerðaleysi ef ekki kæmi til vinna fyrir yfirmann, kemur til af þeirri staðreynd að þar sem fólk verður að vinna fyrir yfirmann til að lifa af, velur það frekar aðgerðaleysið ef það kemst upp með það. En ef fólk hefði orku sína og tíma fyrir sig sjálft, myndi það enduruppgötva hvernig á að njóta þess að starfa, hvort sem það væri í háalvarlegum tilgangi eða ekki. Rifja má upp hversu margir hafa gaman af garðyrkju, garðyrkjunnar vegna, án þess að hún sé eitthvað lífsspursmál. Glætan að fólk myndi svelta í hel í samfélagi þar sem það deildi ákvörðunum og valdi í stað þess að láta kúga sig til hlýðni, sú staðreynd að fjöldi fólks sveltur í dag bendir til þess að kapítalismi sé engu síður illa skilvirkur en hvað annað kerfi getur verið.

  Fullyrt er að græðgi sé hluti af „eðli mannsins“ og þessvegna sé heimurinn eins og hann er. Tilvist annar samfélaga og annars lífsstíls mælir gegn þessu. Um leið og fólk hefur áttað þig á því að nútíma kapítalískt samfélag er aðeins ein af þúsund leiðum sem manneskjur geta lifað saman sér það að þessi umsögn um „eðli mannsins“ er vitleysa. Fólk mótast fyrst og fremst af því umhverfi sem það elst upp í og manneskjur hafa kraftinn til að byggja sitt eigið umhverfi. Manneskjur geta hagað umhverfi sínu nákvæmlega eftir eigin höfði, ef þær hafa viljann til þess. Auðvitað hrjáir fólk græðgi og árásargirni þar sem það lifir í heimi efnishyggju og ofbeldis. En ef umhverfi þess væri skilningsríkara gæti það lært að umgangast hvort annað þannig að það væri ánægjulegra fyrir alla. Þá væri fólk allt gjafmildara og nærgætnara. Í heimi þar sem maður verður að selja hluta af sjálfum sér til að fá eitthvað yfirhöfuð er erfitt að vera gjafmildur. Ef þannig er litið á málið þá er í raun ótrúlegt hvað fólk gefur hvort öðru mikið af gjöfum.

  Fólkið sem talar um „eðli mannsins“ segir að það snúist mestmegnis um löngun til að eiga og stjórna. En hvað með löngun fólks til að deila með öðrum? Þeir einir sem gefist hafa upp á að gera það sem þeir vilja, gleðjast eingöngu yfir því sem þeir hafa. Nær allir vita að meira gefandi er að gefa en að taka. Þeir sem halda að ósanngirni þess sem einungis tekur komi honum vel, hafa einfaldlega misskilið hvað það er sem gerir manneskjur hamingjusamar.

  Freistandi er að líta á kapítalisma sem samsæri hinna ríku gegn öllum hinum og halda baráttuna gegn kapítalisma snúast um baráttu gegn þeim. En í raun kemur öllum best að þessu efnahagskerfi sé komið fyrir kattarnef. Ef að sannur auður samanstendur af frelsi og samkennd þá eru allir skítblankir því að vera ríkur í samfélagi sem stendur gegn frelsi og samkennd er að eiga sem mest af engu. Kerfið er ekki afleiðing fúlmennskuplotts nokkurra glæpamanna sem stefna að heimsyfirráðum og ef svo væri þá hefði þeim tekist að dæma sjálfa sig í fjötra yfirráða og undirlægni um leið og alla aðra. Fólk ætti ekkert vera að öfunda þá of mikið þó að úr fjarlægð virðist þeir öfundsverðir. Hver sá sem hefur vaxið upp innan ríkidæmis getur sagt frá því að þrátt fyrir alla bankareikningana og sjálfvirku garðúðarana er þetta fólk engu hamingjusamara eða frjálsara en blankur almenningur. Fólk ætti að reyna að finna leiðir til að allir sjái arðsemina í að umbreyta samfélaginu og gera alla þátttakendur í því.

  Andspyrnufólk þarf ekki að missa móðinn þó að því finnist þetta erfið áskorun að taka og því finnist stundum að „almúginn“ eigi sinn hlut skilinn fyrir að gangast við eigin lífsstíl. Mundu að kerfið sem þau samþykkja er það sama og allir búa við. Möguleiki á frelsun allra er tengdur þeirra möguleika órjúfanlegum böndum.

Fólk á ekki að láta slá sig út af laginu hve öflin sem standa gegn frelsuninni virðast endalaus, vinnukraftur þeirra afla samanstendur af öðru fólki sem þráir að slíta sig laust úr viðjum. Fólk þarf að finna leiðir til að koma sínu eigið lífi út úr þessu ofbeldisfulla kerfi og taka hina með sér ef það getur. Grípa þarf hverja lausa stund, hvert tækifæri sem gefst. Vera má að hægt sé að selja lífið, en það er ekki hægt að kaupa það til baka, ...bara stela því. 
 

Tölum um lífið eins og það er í raun og veru 

Vitnisburður stálekta verkamanns 

Fólk er aldrei laust við boð og bönn sem eiga að vera „sjálfu því til góðs.“ Allir eiga að hneigja sig og beygja fyrir sérfræðingum, verkstjórum og löggum vegna þess að þeir þjóna háum herrum sem hafa meiri peninga og meiri völd yfir lífi þeirra en það mun nokkurn tímann hafa sjálft. Til að fá frí einn og einn dag þarf fólk að plotta og biðja og ljúga, langi það eins og einu sinni að gera eitthvað fyrir sjálft sig. Fólk hlýðir bjöllum, vélum og klukkum og öðrum sem kannski eru helmingi vitlausari en það sjálft, klætt upp í nákvæmlega eins galla og næsti maður, sameiginlega forritað til að endurtaka staðlaða frasa allan daginn.

  Hélt einhver að það væri tilviljun að Coca-Cola er selt í öllum heimshornum? (1) Finnst fólki að þessu fyrirtæki sé treystandi til að hafa völd til að breyta heiminum? Í hvert skipti sem ég kem heim og sé að á mottunni er stafli af ruslpósti og í hvert skipti sem ég er að borða með einni af hjásvæfunum mínum og símasölumaður hringir er ég minntur á að ég er hluti af samfélagi sem ber meiri virðingu fyrir markaðnum en einkalífinu. Alltaf þegar ég kíki við hjá einhverjum sem er með sjónvarp í gangi og auglýsingaflóðið skellur á okkur man ég hversu litlu máli sannleikur skiptir fyrir þá sem eru þarna úti að „slá í gegn.“ Þegar ég fer út að hjóla fer ég fram hjá skiltum sem lýsa yfir krafti og kynferðislegu aðdráttarafli ýmiskonar vafasams varnings og virkilega fer í taugarnar á mér að hugsa til þess hvað væri hægt að gera gagnlegt við þessi svæði. Ef fólk bara hefði eitthvað að segja um hvað er hengt upp í götunni þess.

Þegar reikningarnir koma er ég aftur minntur á hvað skiptir máli á þessum glæstu tímum. Maður þarf að borga leiguna í upphafi mánaðar áður en ég hef sofið þar eina einustu nótt en útborgað fær enginn fyrr en mánuði eftir að hann byrjar í nýju starfi. Þetta er af því að fólkið sem stjórnar húsnæðinu og vinnustaðnum hefur komið málunum fyrir sér í hag. 

1.  Þegar þetta er skrifað ber Coca-Cola ábyrgð á sölu 60 prósenta alls drykkjarhæfs vökva í sumum löndum Suður-Ameríku. Samkvæmt fimm ára áætlun þeirra er næsta markmið að gera kóksjálfsala algengari en drykkjarfonta. Þeir eru ekki alveg að fatta að þeir eru bara gosdrykkjafyrirtæki. Mannslíkaminn er 90 prósent vatn …hversu mikið af líkama þínum keyptir þú þá af Coca-Cola, eða öðrum stórfyrirtækjum? Fólk er það sem það étur…

 

Frá upphafi vinnuvikunnar þar til ég fæ útborgað fá þeir vaxtalaust lán í formi vinnu minnar og leigusalinn fær lán hjá mér á sömu kjörum þegar ég borga mánuðinn fyrirfram — svo ekki sé minnst á ríkisstjórnina sem tekur skatt af laununum mínum. Vegna þessa verð ég að passa mig á að kynda ekki meira en ég hef efni á eða éta fyrir meira en efni standa til og tala ekki of lengi í símann við vini mína sem búa fjarri. Svo þegar mér er kalt og garnirnar gaula og ég er einmana þá get ég ekki orðið annað en brjálaður af reiði. Tæknin er til staðar til að halda á mér hita og fóðra mig eins vel og mögulegt er en samt þarf ég að borga hvern brauðmola dýrum dómum, til þess að örfáir ríkir menn geti safnað meiri auð á minn kostnað! Ég vinn fjörutíu stundir á viku fyrir kerfi sem gerir öll þessi þægindi möguleg. Á ég ekki skilið að mega skrúfa upp kyndinguna jafn hátt og yfirmaður minn þó að ég verði skítugri en hann við mín verk? Á ég ekki skilið að bragða á matnum á þeim veitingastöðum sem hann stundar þó að mig langi ekki til að berjast upp neinn metorðastiga?

  Sumir vina minna eru í verri málum. Þeir eru líka að borga af kreditkortareikningum og bankalánum. Þessi fyrirtæki hafa þá í hendi sér fyrir lífstíð. Hvað sem þá langar til að gera í næsta mánuði eða eftir tíu ár verða þeir enn upp á náð þeirra og miskunn komnir. Þeir þurfa að borga nokkra tugi þúsunda aukalega í hverjum mánuði og það þýðir að svo fremi að þeir lýsa sig ekki gjaldþrota verða þeir aldrei lausir við að þurfa að selja líf sitt. Ég brjálast í hvert skipti sem ég fæ kreditkortaauglýsingu í póstinum vitandi að þessir drullusokkar gera hvað sem er til að plata mig inn í skuldafenið. Ég kemst við þegar ég horfi upp á vini mína kaupa meira dót í innantómum tilraunum til að hugga sjálfa sig. Auðvitað vilja þeir fá frelsi og spennu út úr sínum lífsstíl en það mun ekki koma til þeirra gegnum græjur eða jeppa. Eyðslumynstrið festir þá enn frekar í kerfinu sem er að stela lífinu frá þeim. Sumir þeirra vinna allt árið, án þess að hafa nokkra ánægju af því, til að spara fyrir nokkurra vikna skíða- eða fjallaferð. Hlutum sem áður voru til reiðu fyrir alla áður en samsteypufyrirtækin pökkuðu öllu inn í steinsteypu.

  Firringin, vantraustið og þreytan sem fólk lifir við innan þessa samfélags herðir á þrá þess eftir einhverju raunverulegu svo það leitar til markaðarins (sem er hlaðinn ímyndum sem tákngera langanir okkar gegnum auglýsingar) í von um björgun. Í hvert skipti sem fólk kaupir eitthvað í þessu kerfi er það að kaupa allt kerfið. Fólk er að gefa samsteypunum peninga sem efla völd þeirra og til þess að komast yfir þessa peninga þarf fólk að gefa þeim vinnu sína líka. Afleiðingin er aukin starfsorka til að halda uppi veltunni og minna frelsi fyrir almenning til að berjast á móti.

  Ég hef ákveðið að koma mér út úr þessu helvíti eftir öllum mögulegum leiðum. Ég ætla að hætta að vinna fyrir þá, hætta að borga fyrir vörurnar þeirra, hætta að trúa goðsögninni um fullkomna heimilið og fullkomna bílinn og að vera á „uppleið“ á vinnumarkaðnum. Ég ætla að skapa mér líf sem ég get glaður lifað eða drepast við að reyna það. En jafnvel þó að mér takist að flýja hvernig get ég þá lifað því lífi sem ég vil lifa vitandi það að allt fólkið sem mér þykir vænt um og allt hitt fólkið í kringum mig og heimurinn sem ég lifi í er áfram undirokaður í þessu kerfi? Ég verð jafn einmana frjáls ef allir aðrir eru áfram fylgjandi leiðbeiningum inni í skólunum, skrifstofunum og verksmiðjunum. Ef mig langar raunverulega að losna við þetta verð ég að finna leið til að taka hin með mér. Ég geng um götu, horfi á reykinn stíga upp af verksmiðjunum og ég þrái heim þar sem er undir okkur komið hvort áfram rýkur úr þessum reykháfum.

  Hvar eru svo garðarnir sem hægt hefði verið að reisa með öllum þessum vinnukrafti? Hvar eru skógar til að ganga um eða ár sem hægt er að drekka úr og vötn sem má synda í? Hvar eru ernirnir og elgirnir eða stjörnurnar í himni fullum af ljós- og reykmengun? Í dagdraumum mínum ferðast ég um í villtri náttúru og rekst á fólk sem á sér einstaka siði og menningu og hefur aldrei heyrt um Pepsi og hefur aldrei eytt degi öðruvísi en að gera eitthvað sem því sjálfu fannst vera nauðsynlegt. Í sameiningu leggjum við á ráðin um hvernig hægt sé að njóta lífsins til fullnustu …og við leggjum saman allt sem okkur langar og allt sem okkur dreymir og gerum úr því hnött sem getur brotið upp hliðin að paradís. 
 

 

Til baka í greinar