Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Hér er afrit af bréfinu:

 Sem kunnugt er standa fjölmörg hús auð og ónotuð víðsvegar um borgina. Á sama tíma eru margir heimilislausir, hugsanlega yfir hundrað manns. Auk þeirra er stór hópur fólks sem vart hefur efni á leiguíbúðum.

Í ljósi þessa þykir mér undarlegt að enginn hafi komið með þá tillögu sem ég útlista hér að neðan. Hugsanlega er þar um að kenna hugmyndaleysi þó sjálfsagt komi þar að fleiri þættir, svo sem mótstaða húsnæðiseigenda - þeirra sem hvað mest græða á hinu háa leiguverði- og verktaka sem láta hús drabbast niður í þeim tilgangi að fá leyfi til niðurrifs.

Hver svo sem ástæðan er breytir það ekki stöðunni. Því kem ég með þá tillögu að slá þessar tvær flugur í einu höggi: nýta það húsnæði sem autt stendur og minnka fjölda heimilislausra í borginni. Lausnin er einföld, svo einföld að það er ótrúlegt að enginn hafi borið fram tillögu þessa efnis á hinu háa Alþingi. Lausnin er að setja hústökulög.

Í Bretlandi, Hollandi og víðar hafa hústökulög verið við lýði í lengri tíma, víða með góðum árangri. Þó fjöldi heimilislausra í þessum löndum sé meiri en hér leyfi ég mér að fullyrða að staðan væri verri ef ekki væri fyrir hústökulögin. Í löndunum í kringum okkur er að finna fjöldann allan af yfirteknum húsum -jafnvel heilu hverfin- og nægir þar að nefna Kristjaníu í Kaupmannahöfn, Ernst-Kirchweger-Haus í Vín og Can Masdeu í Barcelona.

Í Hollandi er leyfilegt að yfirtaka hús hafi það staðið autt í tólf mánuði eða lengur og eigandinn hafi ekki brýna þörf fyrir notkun þess (svo sem útleigu sem hefst innan mánaðar). Hústökufólkið sendir síðan eiganda og lögreglu tilkynningu um að húsið hafi verið yfirtekið og geta þeir aðilar þá skoðað húsnæðið og gengið úr skugga um að ekki hafi verið unnar skemmdir á því. Einnig staðfesta þeir að viðkomandi hústökuaðili búi þar, þ.e. að á staðnum sé rúm, borð og stóll, sem og lás sem hústökuaðili hefur lykil að.

Í Bretlandi eru svipuð lög, hústökuaðili verður að hafa lyklavöld að húsnæðinu og eigandi má ekki vísa hústökufólki á dyr án dómsúrskurðar þess efnis. Varla væri erfitt að setja svipuð lög hérlendis og hef ég tekið saman nokkra punkta sem mættu vera til staðar í lögum:

1. Hafi hús staðið autt og ónotað í eitt ár (12 mánuði) eða lengur má aðili annar en eigandi setjast þar að án sérstaks leyfis.

2. Hústökuaðili skal skipta um lása, gera við brotnar rúður með viðeigandi hætti, greiða fyrir vatn og rafmagn sem hann kann að nota (og hugsanlega skrá lögheimili sitt í húsnæðinu). Séu þessi skilyrði uppfyllt má eigandi ekki vísa hústakanda úr húsnæðinu án dómsúrskurðar þess efnis.

3. Þegar hústakandi hefur uppfyllt þau skilyrði sem nefnd eru í 2. lið skal hann tilkynna eiganda um hústökuna, sem og lögreglu, og skulu þeir aðilar (ásamt félagsráðgjafa ef svo ber við) staðfesta að húsnæði og hústakandi uppfylli skilyrðin.

4. Til að eigandi fái dómsúrskurð skal hann sýna fram á með fullnægjandi hætti að hann eða leiguaðilar muni nýta húsnæðið innan mánaðar, og skulu tvær vikur þess mánaðar vera "uppsagnarfrestur" hústakanda, en hinar tvær seinni nýttar til að gera úrbætur á húsnæðinu ef þess þarf.

5. Hústakandi má ekki vinna aðgang að húsinu með ólöglegum hætti, svo sem innbroti, en skal njóta vafans hafi skemmdir áður verið unnar á húsnæðinu án þess að sannað verði hver hafi staðið þar að verki.

 

Ég trúi því að setning hústökulaga verði til góðs, bæði fyrir heimilislausa og borgina alla. Nú þegar kreppa er í sjónmáli má búast við því að heimilisleysi aukist frekar en hitt og því nauðsynlegt að bregðast við með lagasetningu til verndar málsaðilum. Það er til háborinnar skammar að hér á landi skuli finnast heimilislausir á sama tíma og tugir húsa standa auðir og yfirgefnir, sérstaklega í ljósi þess hve auðvelt væri að ráða bót á vandanum.

 

 

Til baka í greinar