Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

MIÐLUN 

Þegar reiði okkar gegn kerfinu er til sölu, og kerfið er að græða á því –  þá erum við búin að vera. 

Ef þú fellir þá á eigin bragði hefurðu þegar tapað.  

  Segjum sem svo að ákveðinn maður sé í hljómsveit, hann hafi róttækar hugmyndir og hann langi til að koma þeim til sem flestra og reyni því að verða mjög vinsæll og selja fullt af plötum. Eða kannski er hann virkur í pólitík og telur nauðsynlegt að nota vinsæla fjölmiðla til að fræða fólk um ákveðin málefni. Það lítur út fyrir að vera rétta leiðin að hann notar þessar aðferðir til að ná til fólks, því hvernig ætti fólk annars að taka eftir honum? Hann slær auðvitað af sínum kröfum gagnvart sjálfu kerfinu sem hann reynir að berjast gegn, en þegar upp er staðið mun það borga sig …. það þurfa hvort eð er allir að slá af sínum kröfum einhvern tímann. Eða hvað?

  En það er rétt spyrja sig hvort að fólk þurfi nokkuð að slá af, rétt eins og það er rétt að efast um að framabraut innan kerfis, sem byggt er utan um miskunnarlausa samkeppni og markaðssetningu, muni nokkurn tímann hjálpa nokkrum að breyta heiminum. Hvað myndi breytast ef að fólk hætti að slá af kröfum sínum, hætti bara alveg að spila með í þessum leik og einbeitti sér að því að byggja upp eigin leiðir til að útbreiða hugmyndir sínar? 

SJÓNVARPIÐ MUN EKKI SÝNA BEINT FRÁ BYLTINGUNNI  

Auðvitað eru framleiðendur til í að fá hvern sem er í spjallþáttinn og á útvarpsstöðina,  rokkhátíðina og í útgáfu hjá stórfyrirtækinu. Þeim er sama hvort þeir selja munnskol eða anarkistabyltingu svo lengi sem fólk horfir á og kaupir. Þeir vita að fyrr eða síðar mun fólk verða leitt á heilalausu og andlausu kjaftæðinu sem venjulega er í boði og þeir treysta á að framtakssamt fólk komi fram með nýjar hugmyndir og stílbrögð sem þeir geta nýtt sér. Ef það kæmi ekki til hefðu þeir ekkert nýtt að selja fólki. Þeir vita að ef þeir geta fundið leið til að selja fólki aftur þeirra eigin reiði og græða þannig á þeirri örvæntingu sem kerfið skapar, eru þeir búnir að vinna. Þeir vita að engin skilaboð sem hægt er að dreifa gegnum þeirra útsendingar eru sterkari en þau sem framtakssama fólkið sendir: Verið rétt stillt.

  Engin vitundarvakning sem hægt er að ná fram með því að koma fram í sjónvarpi eða að selja diska í verslanaklösum er mikilvægari en vakningin um kraft einstaklinganna til að taka sjálfir á málum. Sjónvarpsgláp og búðaráp halda fólki viljalausu, það horfir á fyrirbæri sem það getur aldrei tekið þátt í og fólk sem það mun aldrei hitta, kaupir það sem stórfyrirtæki markaðssetja í stað þess að búa til sitt eigið, vinna í sínum eigin hugmyndum og sínu eigin lífi. Til að fá fólk til að taka á málum þarf að ná beinu sambandi við það. 

FJÖLDAFRAMLEITT VERÐMÆTAMAT 

  Fólki er kennt að meta ágæti sitt í tölum. Ef það er jákvætt að hafa áhrif á líf einnar persónu þá hlýtur að vera frábært að ná að ýta við þúsundum. Þar sem allt samfélagið snýst um fjöldaframleiðslu lærir fólk að hugsa á þeim nótum að því fleiri einingum sem hægt er að koma frá sér, þeim mun betra. Viðskiptavini verður að afgreiða sem flesta á sem stystum tíma, safna verður stöðugt fleiri atkvæðum gegn vafasömum loforðum og því meira af peningum og dóti sem hægt er að eignast því betra, eða hvað?

  Er kannski ekki hægt að snerta við þúsund manns jafn kröftuglega og hægt er að snerta við einni eða tíu manneskjum? Það er langt frá því jafn byltingarkennt og það lítur út fyrir að vera þegar einn maður eða einn hópur af fólki segir öllum öðrum hvað eigi rétt á sér. Væri ekki betra að láta reyna á breiðvirka nálgun þar sem allir vinna náið með þeim sem standa þeim næst frekar en að fáir aðilar leiði nafnlausan almúgann? Á einhver einn að sjá um að bjarga heiminum? Hví skyldi sá aðili ekki treysta öllum öðrum til þess að gera það með sér? (þarf ekki að vaða yfir ansi marga á þeirri vinsældabraut sem þarf til að rödd einhvers nái til þúsunda).

  Pólitísk hljómsveit sem spilar á tónleikum fyrir níu hundruð manns, hrópar kannski byltingarkennd slagorð sem allir á staðnum ná að heyra, en hljómsveitin er flestum viðstöddum utan seilingar því þeir eru á palli sem „listamenn,“ eða „rokkarar.“Á hinn bóginn er hljómsveit sem leikur af sama krafti á tónleikum fyrir fjörutíu manns, í mun meiri nálægð við gestina og getur myndað persónuleg tengsl við alla sem eru inni og komið því skýrt á framfæri að allir aðrir geta gert það sama og þeir eru að gera. Þannig að þeir hafa möguleikann á að verða kveikjan að fjórum nýjum hljómsveitum (eða einhverjum öðrum umrótsverkefnum) og þannig hafa mun víðtækari áhrif. Sama dæmi á svo við um útgáfufyrirtæki, rithöfunda, ræðuhaldara og listafólk og auðvitað skipuleggjendur og „leiðtoga“ af öllu tagi.

 

SIGRAST Á KERFINU INNANFRÁ 

  Fæstum líkar vel þau verk sem fylgja starfi innan kerfisins. Flestir skólanemendur myndu frekar vilja lesa bækur að eigin vali í stað þess að skrifa ritgerðir og vinnandi fólk myndi frekar vilja beita hæfileikum sínum, orku og tíma til að vinna að sínum eigin verkefnum en að leigja sig vinnuveitendum. En fólki líður eins og það þurfi að vinna fyrir þá hvort sem því líkar betur eða verr. Gagn og gaman þess að rífa vinnukraft sinn úr þeirra höndum og gera eitthvað annað við hann hvarflar ekki þeim. Auðvitað yrði það erfitt fyrst en væri það erfiðara en að þurfa að sætta sig við allt þetta kjaftæði það sem eftir er ævinnar? Það er betra að taka á málum og vinna að því að skipta kjaftæðinu út fyrir eigin sköpun heldur en að bara glíma við það áfram.

  En fólk andmælir enn og segir að til að berjast gegn kyrrstöðunni breyti maður hlutunum innanfrá. Auðvitað hefur kerfið „rétta farvegi“ fyrir vandamál, sem eiga að geta bætt úr þar sem óánægt og reitt fólk kvartar. Þær leiðir eru öryggisventill til að losa um þrýsting þegar æsingurinn verður of mikill. Það skal enginn halda að yfirvöld myndu í alvöru láta einhvern nota lög þeirra og vinnuaðferðir til að koma þeim fyrir kattarnef. Ef þetta kerfi byði uppá raunverulegar lausnir hefði fólk nýtt sér þær fyrir lifandis löngu. Kynslóð eftir kynslóð hefur fólk sett sér það markmið að hafa betur þar sem öðrum gekk illa, úr þeim slag skilar fólk sér í hlutverk lögfræðinga og blaðamanna. Þeir eru bitur lík hugsjónafólks sem héldu að hægt væri að betrumbæta kerfið.

  Treystir nokkur maður sér til þess að vinna á réttum forsendum innan kerfisins? Fólk er almennt stillt inn á að vilja „frama“ og meta sig útfrá auð og félagslegri stöðu, hvort sem því líkar betur eða verr. Líklega sækist fólk eftir frama sem blaðafólk, stjórnmálafræðingar eða rokkstjörnur vegna þess að það getur ekki af neinni alvöru tekið neina aðra möguleika inn í dæmið. Aðrir möguleikar geta sýnt fram á fallvaltleika þess öryggis sem þau halda sig geta keypt gegnum lífsstílinn. Hvernig er líka hægt að vera viss um að það séu ekki skuggahliðar sálarinnar sem fá fólk til þess að þrá framabrautina, þær hliðar sem þrá athyglina og mikilmennskuruglið sem félagsleg staða vinsældanna færir fólki? Auðvitað er það góð tilfinning að geta sagt foreldrum sínum frá markmiðum sínum og finna þau fagna ákvörðun sinni … en er það rétta leiðin til þess að breyta heiminum?

  Fólk þarf að hlusta á hjarta sitt, treysta innsæi sínu og neita að taka þátt í hverju því sem því leiðist eða sem gengur fram af því. Það þarf að rækta hugsjónir sínar og vilja sinn til að taka áhættu í stað þess að finna nýjar leiðir til að aðlaga örvæntingu sína og vilja til breytinga því samfélagi sem skóp það. Hver dagur í viðbót sem fer í að „nota kerfið“ er enn einn dagur sem fer í að bíða eftir að ný tengsl við umhverfið og betra líf taki við af því gamla. 

HVERNIG KEMST FÓLK ÚT ÚR ÞESSU? 

  Fyrir þau sem vilja taka til hendinni án þess að sjá hugmyndir sínar einangrast innan einhverra neðanjarðarhreyfinga, virðist sem ekki sé um neina möguleika að ræða, nema að vinna „innan kerfisins.“ En hversvegna þurfa neðanjarðarhreyfingar að vera í svo föstum skorðum? Ef fjöldi manns setur allan sinn kraft í að stækka félagsleg svæði svo þau teygi sig lengra utan um margvísleg samskipti frjálsra einstaklinga á jafnræðisgrundvelli, í stað þess að reyna að lappa uppá kerfisvélarnar, þá mun það átak hafa heilmikil áhrif. Þá er hægt að ímynda sér hvaða áhrif það hefði ef fólk almennt hefði alla möguleika sína í eigin höndum og harðneitaði að sóa þeim á nokkurn hátt frekar í vinnu fyrir kerfið.

  Það er ekkert sem afsakar það að fólk sem stendur gegn þeirri heimsmynd sem búið er við beiti kröftum sínum til að styðja hana. Þess í stað ætti það að lifa og berjast af svo miklum krafti að allir hinir sem lifa í búrum taki eftir því og hrífist með í höfnun á gamla heiminum og hans kjaftæði. Samfélög manna gætu verið svo miklu meira en þau eru, miklu opnari og meira lifandi þannig að allir gætu tekið þátt í þeim.

  Kerfið býður aðeins upp á tapleik, svo það tekur því ekki að spila. Það er undir öllum komið að búa til nýja og skemmtilegri leiki. Það þýðir ekkert að reyna að slá þeim við í þeirra leik, frekar að fá þá til að ganga til leiks með almenningi. 

 

 

Til baka í greinar