Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

P fyrir Pólitík 

Reyndu að fatta þetta - Þessi pólitík þín er óstjórnlega leiðinleg. 

  Það vita allir að þetta er satt. Hvers vegna er fólk annars að ygla sig þegar pólitík ber á góma? Hversvegna fækkar þeim stöðugt sem mæta á fundi hjá umræðuhóp sósíalistafélagsins? Hvernig stendur á því að kúgaðir öreigar hafa ekki áttað sig og gengið til liðs við baráttuna fyrir frjálsum heimi?

  Byltingarmaðurinn er kannski farinn að kenna þeim um ástandið eftir að hafa rembst svona lengi við að uppfræða þau. Þetta fólk hlýtur bara að vilja láta kremja sig undir hæl kapítalismans, annars hlytu þau að sýna áhuga á málstaðnum? Af hverju hafa þau ekki gengið til liðs við Che Guevara klúbbinn og farið líka að hlekkja sig við húsgögn og hrópa slagorð á feimnislegum mótmælaaðgerðum og hversvegna hafa þau heldur ekkert verið að hanga á kaffihúsum bóhema? Þetta lið hefur ekki heldur sest niður og lært utanað öll fræðiheitin sem þarf til að skilja grundvallaratriðin í kenningum Marx?

Sannleikurinn er sá að almennum launþegum finnst grasrótarpólitík hundleiðinleg og hún skiptir þau ekki máli. Þau vita að þessi klassíski mótmælastíll, með fundahöldum,  fjöldagöngum og skilti á lofti, getur ekki breytt neinu því hann er orðinn hluti af kyrrstöðunni. Þau vita að þetta síð-marxíska kjaftæði kemur fólki almennt úr stuði því í raun er það bara tungumál fræðilegra rökræðna í stað þess að vera vopn á móti stofnanavaldi. Þau vita að innherjadeilurnar, klofningshóparnir og þessar endalausu deilur um hverfular kenningar munu aldrei geta haft nein áhrif á þann heim sem þau lifa dags daglega. Þau vita að það er sama hverjum var veitt staða, hvaða lög standa í bókunum og hvaða „isma“ bókabéusarnir marséra undir, því líf þeirra mun ekki breytast. Þau (við) vita að leiðindin sem þau finna fyrir sannar að þessi „pólitík“ eru ekki lykillinn að neinni raunverulegri umbreytingu lífsins. Það er nógu leiðinlegt að draga fram daglega lífið þó að þetta kjaftæði bætist ekki við!

  Þetta vita líka allir sem taka þátt. Hversu mörgum þeirra finnst pólitík vera ábyrgðarhlutverk? Eitthvað sem maður tekur þátt í því manni ber skylda til þess. Innst inni veit maður að það eru milljón aðrir hlutir sem meira gaman væri að vera að gera. Þessi sjálfboðavinna sem sumir taka þátt í … Er hún það skemmtilegasta sem þeir gera eða sinna þau henni af skyldurækni? Hversvegna heldur fólk að það sé svona erfitt að fá aðra í þetta? Gæti það verið vegna þess að það er fyrst og fremst sektarkennd sem fær fólk til að uppfylla „skyldu“ sína sem pólitískt virkir einstaklingar? Kannski reynir það að hleypa lífi í hlutina með því að (ómeðvitað eða ekki) lenda upp á kant við yfirvöld og vera handtekinn. Ekki að það sé málstaðnum neitt til góða heldur gerir hlutina meira spennandi og hleypir í þá smá gamaldags rómantík. Þegar grasrótarfólkinu sjálfu líður stundum eins og það sé hluti af ritúali sem það langar að flýja vegna leiðinda og stöðnunar, þá er engin furða að fáir hafi gengið til liðs við hópinn og hans aðgerðir. Það segir við sjálft sig að þó að það sé vanþakklátt starf þá verði einhver að gera það en svarið er NEI.

  Það er raunar verið að gera öllum mikinn ógreiða með þessum þreytandi og þurrlega pólitíska vaðli. Því að sannarlega er ekkert mikilvægara en stjórnmál. Hér er EKKI átt við stjórnmál hins íslenska „lýðræðis“ og lagabálka þess, eins og það skipti máli hver er kjörinn til að viðhalda kerfinu. Ekki heldur stjórnmál þessa -ég fór í róttæka vinstripólitík því mér finnst svo gaman að babbla um innihaldslaus smáatriði og skrifa tilgerðarlegar greinar um útópíu sem aldrei verður til -anarkista. Ekki heldur stjórnmál nokkurs leiðtoga eða hugmyndafræði sem krefst þess að fólk fórni sér fyrir „málstaðinn.“ Hér er átt við stjórnmál hins daglega lífs.

  Um leið og stjórnmál eru skilin frá því sem fólk gerir í daglega lífinu, hætta þau að skipta máli. Þau breytast í einkamál vel stæðra gáfumanna sem eru í aðstöðu til að velta vöngum yfir leiðinlega fræðilegum hlutum. Þegar stjórnmálum er breytt í tómleg og gleðilaus skylduverk íþyngja þau fólki enn frekar í stað þess að vera leið til þess að létta undir með þeim. Allir hafa til einhvers að vinna þegar kemur að því að skoða tilveru sína, spyrja sig sjálf hvað þau vilji fá út úr lífinu og hvernig þau geti nálgast það. En þegar stjórnmál verða sjálfmiðaður, hundleiðinlegur og tilgangslaus listaspíruleikur, kemur hann lífi þeirra ekkert við.

  Hvað er æskilegt að sé pólitískt? Að fólk hafi gaman af því sem færir því salt í grautinn og þak yfir höfuðið. Að samskipti við vini, nágranna og vinnufélaga gefi því eitthvað. Að fólk hafi tækifæri til þess að lifa hvern dag eins og það langar til. „Stjórnmál“ eiga heldur ekki einungis að snúast um að ræða þessar spurningar heldur að vinna beint að því að bæta líf sitt NÚNA. Þau þurfa að vera skemmtileg, spennandi og gefandi því pólitískar aðgerðir sem eru leiðinlegar, þreytandi og þrúgandi munu ekki gefa neitt af sér nema leiða og þreytu. Ekki eyða tíma í að ræða málefni sem skipta vinnandi fólk ekki máli. Ekki meira af þessum leiðinlegu hefðbundnu mótmælum sem yfirvöld vita allt of vel hvernig á að bregðast við og hrekja þannig burt fólk sem hefði viljað taka þátt. Það er auðséð að þannig verður engu áorkað. Fólk skyldi aldrei oftar „fórna sér fyrir málstaðinn“ því að það sjálft, hamingja þess og annara verður að vera málstaðurinn!

  Þegar búið er að fá pólitíkina sína til að vera spennandi og snúast um það sem skiptir máli, þá mun annað fylgja eftir. Fræðileg og hefðbundin pólitík er ekki gefandi. Það er ekki þar með sagt að fólk eigi ekki að sýna áhuga á velferð manneskja, dýra og vistkerfa sem þau eru kannski ekki í beinu sambandi við dags daglega. En grundvallaratriði stjórnmálanna verða að vera á hreinu; þau þurfa að vera laus við milliliði, það þarf að vera hverjum og einum augljóst hvers vegna hann er þess virði að taka þátt í þeim og þau verða að vera skemmtileg. Hvernig er hægt að gera jákvæða hluti fyrir annað fólk ef framtakið sjálft er ekki skemmtilegt?

  Fáum þetta á hreint: Að eyða einu kvöldi í að safna mat frá fyrirtækjum sem annars hefðu hent honum og tilreiða hann fyrir hungrað fólk og fólk sem er orðið leitt á því að vinna fyrir aðra til að borga fyrir mat, er góð pólitísk aðgerð, en bara ef þeim framtakssömu finnst það gaman. Ef það er gert það í góðra vina hóp, ef maður eignast nýja vini á meðan, ef maður verður ástfanginn eða skiptist á skemmtilegum sögum eða er bara ánægður með sjálfan sig vegna þess að maður hjálpaði einhverjum í fjárhagskröggum, þá er það góð pólitísk aðgerð. Á hinn bóginn ef þessari kvöldstund var eytt í að pikka reiðilestursgrein um rétta pólitíska orðanotkun inn á tölvu þá mun það ekki laga nokkurn hlut og allir vita það.

  Kannski er kominn tími á nýtt orð fyrir „stjórnmál“ þar sem búið að gera skammaryrði úr því gamla. Enginn á að þurfa að missa áhugann þegar umræðan snýst um að vinna saman að því að bæta tilveruna.

Svo hér eru settar fram kröfur. Þær eru óhagganlegar og þeim skal mæta hið snarasta því fólk er ekkert að fara að lifa að eilífu. 

1.  Gerið stjórnmál aftur þannig að þau komi daglegum upplifunum fólks við. Því fjarlægari sem hlutverk stjórnmálanna eru því minni merkingu hafa þau fyrir fólki og því leiðinlegri verða þau.

2.  Öll þátttaka í stjórnmálum verður að vera skemmtileg og spennandi. Það er ekki hægt að losna við leiðindi með meiri leiðindum.

3.  Til að ná þessum markmiðum þarf að skapa algerlega nýjar nálganir á stjórnmál. Þær gömlu eru úr sér gengnar og úr tísku. Kannski voru þær ALDREI nokkurs virði og kannski þess vegna sem heimurinn er eins og hann er.

4.  Fólk á að hafa gaman. Það er aldrei hægt að afsaka það að láta sér leiðast … eða að vera leiðinlegur.

 

Breytið „byltingunni“ í leik þar sem meira er lagt undir en í nokkrum öðrum leik en er samt léttur og skemmtilegur.  
 

Til baka í greinar