Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Firring: Kortlögð örvænting

 

STJÓRNUN Á RÚMI OG TÍMA, AÐ KANNA RÝMI OG FERÐAST INNAN ÞEIRRA. 

  Í heimi nútímans er fólki sjálfkrafa stýrt gegnum þau rými sem það lifir í og fer um. Það lifir í ákveðnum athöfnum – vinnu, „frítíma,“ neyslu, hlýðni – því heimur þess er hannaður fyrir þær og ekkert annað. Allir vita að verslunarmiðstöðvar eru til þess að versla í þeim, skrifstofur eru ætlaðar fyrir vinnu, stofan fyrir sjónvarpsgláp og í skólann fer maður til að fara eftir því sem kennarinn segir. Öll þau rými sem fólk ferðast í gegnum hafa ákveðinn tilgang sem er fyrirfram ákveðinn og til að fá fólk til að hegða sér áfram eins, þarf aðeins að gæta þess að það haldi sig á sömu leiðum og það er vant. Það er erfitt að finna nokkuð annað að gera í Hagkaup en að virða fyrir sér og kaupa vörur. Vaninn gerir það einnig að verkum að erfitt er að láta sér detta í hug að eitthvað annað sé hægt að gera þar hvort eð er þar sem nokkurn veginn ólöglegt er að gera nokkuð annað þar inni en að versla.

  Það eru stöðugt færri rými í heiminum sem eiga sig sjálf, svæði þar sem fólk getur leyft líkama og anda að leika lausum hala. Nærri því hver staður sem komið er á tilheyrir einhverjum einstaklingi eða hóp sem hefur þegar ákveðið tilgang og hlutverk hans: Einkaeign, verslunarsvæði, umferðargata, skólastofa eða þjóðgarður.  Þessar afar fyrirsjáanlegu leiðir sem fólk fylgir um heiminn eru varla nokkurn tímann að leiða fólk inn á þau svæði sem enn eiga sig sjálf.

  Þessum svæðum, þar sem hugur og hamingja geta verið frjáls í öllum skilningi, er rutt úr vegi fyrir umhverfi sem er stýrt út í ystu æsar, eins og Disneyland. Þannig eru langanir fólks hannaðar fyrirfram og síðan seldar því aftur svo það tapar bæði peningum og tilfinningu fyrir eigin löngunum. Það er grundvallaratriði í lífi hverrar manneskju að gefa heiminum merkingu og skapa sér eigin leiðir til að njóta hans. Þar sem nútímafólk rambar aldrei inn á svæði sem hvetja til þessa ætti það ekki að koma nokkrum manni á óvart að svo margir lifa í örvæntingu og ófullnægðir. En þar sem heimurinn á svo fá laus rými til og hin daglega rútina leiðir ekki inn á þau, neyðist fólk til að fara á staði eins og Disneyland til að upplifa eitthvað í líkingu við spennu og skemmtun. Því raunverulega ævintýri sem hjörtu fólks þarfnast hefur verið meira og minna skipt út fyrir auglýsingar og sköpunargleðinni hefur verið skipt út fyrir áhorfendahlutverk.

  Tími fólks er jafn þéttsetinn og skipulagður og rýmið, raunar er ástand rýmisins í heiminum lýsing á því sem þegar hefur hent tímann. Heimurinn í heild sinni þrífst samkvæmt stöðluðu tímakerfi sem er hannað til að samræma hreyfingar fólks frá einni hlið plánetunnar til hinnar.

  Innan stóra kerfisins stýrist líf fólks af vinnutíma og/eða skólastundum og útfrá strætisvagnaferðum, opnunartímum o.s.frv. Þessi skipulagning á lífi fólks byrjar í barnæsku, er hárfín og ristir djúpt. Fólk má gleyma því að líftími þess er, þegar upp er staðið, þess eigin til að fara með eins og því lystir og þess í stað hugsar fólk útfrá vinnudögum, matartímum og helgum. Líf án utanaðkomandi áhrifa er óhugsandi fyrir flest fólk og það sem kallast „frítími“ er tími sem er skipulagður fyrir eitthvað annað en vinnu. Hversu oft nær lesandinn að fylgjast með sólarupprásinni? Hversu oft nær hann skemmtilegum kvöldgöngum? Ef lesandanum byðist óvænt að skreppa í ferðalag þessa viku gæti hann látið verða af því? 

SVÆÐI ER EKKI TIL FYRR EN ÞAÐ HEFUR VERIÐ KANNAÐ. MAÐUR SKAPAR SVÆÐI MEÐ ÞVÍ AÐ HLAUPA, STÖKKVA, DANSA OG KLIFRA GEGNUM ÞAÐ. 

  Þessar umgjarðir og tímatöflur draga stórkostlega úr möguleikum fólks í lífinu. Þær einangra fólk frá öðru fólki. Í vinnunni fer megnið af tíma þess í eitthvað ákveðið verk með ákveðnum hópum af fólki á ákveðnum stað (eða allavega í ákveðinni umgjörð eins og smiðir og íhlaupafólk upplifir). Svo takmarkandi reynsla byggð á endurtekningum gefur fólki afar afmarkaða sýn á heiminn og kemur í veg fyrir að það kynnist fólki með annarskonar bakgrunn en það sjálft. Heimili fólks einangra það enn frekar, það heldur sig afsíðis inni í litlum kössum, að hluta til vegna ótta við þau sem kapítalisminn hefur farið verr með en það sjálft og að hluta til vegna þess að fólk trúir ofsóknaræðisáróðri fyrirtækja sem selja öryggiskerfi. Úthverfi nútímaborga eru grafreitir samfélaga, fólkinu er pakkað hverju fyrir sig inn í kassa….rétt eins og vörunum, pakkað inn til að viðhalda „ferskleikanum.“ Þar sem þykkir veggir skilja milli fólks og nágrannans og fjölskylda og vinir dreifast um borgir og bý er erfitt að upplifa nokkurskonar samfélag, hvað þá að deila félagslegu svæði með öðrum þannig að fólk geti lært af að umgangast aðra. Þaraðauki sjá bæði heimili og vinna til þess að fólk er bundið einum stað. Fólk er skorðað fast og ófært um að ferðast um heiminn nema í niðursoðnum sumarfríum.

  Jafnvel ferðalög eru niðurnjörvuð og bindandi. Það hvernig fólk fer milli staða – í bílum, rútum, lestum og flugvélum – heldur fólki á ákveðnum leiðum þar sem það fylgist með heiminum fara hjá gegnum gler, eins og hann væri alveg sérlega leiðinlegt sjónvarpsefni. Hver og einn lifir í persónulegum heimi sem er aðallega samsettur úr kunnugum áfangastöðum (vinnustaðurinn, kjörbúðin, íbúð vinar, skemmtistaðurinn) sem eiga sér nokkrar tengslaleiðir (sitjandi í bílnum, standandi í strætó, gangandi upp stigann) og möguleikarnir til að upplifa eitthvað óvænt eða uppgötva nýja staði eru heldir klénir. Maður gæti ferðast á hraðbrautum tíu þjóða án þess að nokkurn tímann sjá nokkuð nema malbik og bensínstöðvar. Fólk er svo fast í sama farinu að ekki er hægt að ímynda sér raunverulegt ferðalag óháð utanaðkomandi aðilum. Landkönnunarleiðangra sem myndu tengja fólk beint við ókunnugt fólk og glænýja hluti við hverja beygju. Þess í stað sitja manneskjur í umferðarhnútum, umkringd hundruðum annara manna og kvenna í sömu klípunni, en skilin frá þeim af stálbúrum bílanna – svo að í annara augum verða þau hlutir á leið þess frekar en manneskjur. Fólk heldur sig vera að ná til stærri hluta af heiminum með ferðamáta nútímans þegar það í raun sér minna af honum, ef það sér þá eitthvað yfir höfuð. Því fleiri möguleika sem fólk hefur til að fara á milli staða, því lengra yfir landslagið teygja borgirnar sig. Þegar fjarlægðin verður meiri þarf fleiri bíla, fleiri bílar taka upp meira rými og þannig eykst fjarlægðin enn og aftur. Með sama hraða munu hraðbrautir og bensínstöðvar einn daginn hafa tekið við af hverju því sem einu sinni var þess virði að ferðast til … það er að segja, hverju því sem ekki er þegar búið að breyta í skemmtigarð eða annað sem á að draga að túrista.

Sumir líta á internetið sem síðasta vígið sem óháð og ónumið rými þar sem enn má flakka frjáls um. Það má vel vera að netheimurinn sé að einhverju marki að bjóða eða bjóða ekki uppá frelsi fyrir þau sem hafa efni á að nota hann og kanna. En sama hvað hann hefur uppá að bjóða þá er það háð því skilyrði að líkaminn sé skilinn eftir við innganginn. Manneskjur eru jafnmikið líkamlegar verur og andlegar. Frelsi netheimsins er frelsið til að sitja og stara í blikkandi ljós í einhverja klukkutíma, án þess að bragða, snerta eða finna lykt af nokkrum hlut. Eru allir búnir að gleyma því hvernig það er að ganga berfættur á blautu grasi eða heitum sandi, að finna ilminn af trjám og grasi. Man einhver hvernig kertaljós glitrar eða hversu gefandi er að hlaupa, synda og snerta?

  Hægt er að snúa sér að internetinu til skemmtunar án þess líða strax eins og svindlað hafi verið á manni því líf nútímamannsins er svo skorðað og fyrirsjáanlegt að fólk hefur gleymt því hvernig ánægjustundir og gleðiríkar athafnir í raunheimi geta verið. Hversvegna að láta sér nægja það afar takmarkaða frelsi sem internetið býður uppá þegar raunheimurinn býður uppá svo mikla reynslu og skynjun? Fólk ætti að vera að hlaupa, dansa og róa á bátum, drekka lífið í sig, kanna nýja heima (hvaða nýju heima?). Fólk verður að enduruppgötva líkama sína, skynjun sína, rýmið í kringum sig og síðan er hægt að færa þetta rými inn í nýjan heim þar sem fólk getur komið upplifun sinni á framfæri.

  Til að nálgast þetta markmið verður að finna upp á nýjum leikjum sem hægt er að fara í, í þeim rýmum heimsins sem þegar er búið að taka yfir, í verslunarmiðstöðvum, veitingahúsum og kennslustofum, svo að fólk geti brotið upp þær merkingar sem gefið hefur verið leyfi fyrir og gefið þeim nýjar útfrá eigin draumum og löngunum. Fólk þarf leiki sem tengja það við annað fólk, það þarf losa sig úr einangrunarvist eigin heimila og beina sér inn á félagsleg svæði þar sem það getur haft hag af félagsskap og sköpunargleði hvors annars. Á sama hátt og náttúruhamfarir og rafmagnsleysi geta leitt fólk saman og hresst uppá það (því þannig uppákomur eru stundum spennandi tilbreyting ef að heimur þinn er leiðinlega fyrirsjáanlegur), þá munu leikir fólks tengja það saman við að gera nýja og spennandi hluti. Fólk ætti að mála ljóð á veggi verslunarhverfanna, halda tónleika á götunum, elskast í görðum og kennslustofum, hafa ókeypis nestisferðir inni í stórmörkuðum, halda hátíðir á hraðbrautum….

  Fólk verður að finna upp ný hugtök yfir tímann og nýjar leiðir til að ferðast. Prófa sig áfram við að lifa án klukku -  án þess að samræma líf sitt við afganginn af þessum alltof önnum kafna heimi. Prófa að ferðast lengri leiðir gangandi eða á hjóli, þannig að það komi beint að öllu sem það rambar á, án þess að gler komi á milli. Prófa að kanna sitt eigið hverfi, horfa á það ofan frá þökunum og kíkja handan við horn sem það hefur ekki tekið eftir áður og það mun undrast hversu mikið ævintýri bíður. 

SÉ HJARTA ÞITT FRJÁLST, ER LANDIÐ SEM ÞÚ STENDUR Á FRELSAÐ SVÆÐI. ÞITT ER AÐ VERJA ÞAÐ. 

 

 

 

Til baka í greinar