Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

RITSTULDUR 

EIGNARHALD Á HUGARSMÍÐUM 

  Allt frá barnæsku er fólki kennt að ekkert sé nýtt undir sólinni. Þegar barn hefur máls á spennandi hugmynd sem það hefur fengið, verður alltaf einhver eldri snöggur til þess að benda því á að þetta hafi verið reynt áður og það hafi ekki gengið upp þá, eða að einhver annar hafi þegar fengið þessa hugmynd og sé búinn að útfæra hana betur en barnið muni nokkurn tímann geta. Skilaboðin eru; „lærðu vel þær hugmyndir og sannfæringar sem eru í boði og veldu úr þeim en ekki reyna að leitast við að þróa og útfæra þínar eigin.“ Þessi skilaboð eru skýr í þeim aðferðum sem beitt er við kennslu í bæði almennings- og einkaskólum um allan hinn vestræna heim.

  Þrátt fyrir, eða kannski vegna þessa viðhorfs, er fólk afskaplega fastheldið á hugmyndir sínar. Eignarhald á hugmyndum ristir jafnvel dýpra en mikilvægi þess að halda í efnislegar eigur. Margir hugsuðir hafa lýst því yfir að „eignarhald sé þjófnaður“* hvað viðkemur fasteignum og atvinnutækjum en fáir hafa dirfst að láta eitthvað svipað út úr sér þegar kemur að þeirra eigin hugmyndum. Jafnvel „róttækustu“ hugsuðirnir hafa stoltir lýst því yfir að þeirra hugmyndir séu fyrst og fremst þeirra hugmyndir.

  Þar af leiðandi er lítill greinarmunur gerður á hugsuðum og hugsunum þeirra. Heimspekinemar stúdera heimspeki Descartes. Hagfræðinemar læra um Marx-isma og fólk í listnámi spáir í málverkum Dalí. Í versta falli hindrar sú persónudýrkun sem þróast í kringum fræga hugsuði, að gagnleg umfjöllun eigi sér stað um hugmyndir þeirra eða listir. Hetjudýrkandi fylgismenn sverja ákveðnum hugsuði og öllum hans hugmyndum hollustu um leið og aðrir sem eru ekki jafn hrifnir verða að vera á varðbergi gagnvart því að þróa með sér fordóma gagnvart öllum pakkanum. Í besta falli kemur þessi áhersla á „eigandann“ með tilliti til listaverks mögulegu verðmæti þess ekkert við, jafnvel þó að viðkomandi sé spennandi einstaklingur og hugmyndir hans hvetji aðra til sjálfstæðrar hugsunar.

  Það þarf að skoða þetta eignarnám á hugmyndum betur en gert hefur verið hingað til. Það eru margvíslegir þættir sem hafa áhrif á hugsun og hegðun einstaklinga, ekki síst félagslegt og menningarlegt umhverfi þeirra og innlegg annara persóna. Það væri ofureinföldun að halda því fram að nokkur ein hugmynd eigi sér uppruna hjá aðeins einum manni eða konu.  

·    Þetta er vandasöm ályktun, því að halda því fram að „þjófnaður sé rangur“ gerir þá ráð fyrir því að „rétt sé að virða eignarhald.“

 

  Í þeim samkeppnisbarningi sem markaðshagkerfið gerir úr lífinu, er fólk svo vant því að gera kröfu til hluta og taka þannig kröfum frá öðrum, að það virðist eðlilegt að gera það sama við hugmyndir. En það hlýtur að vera hægt að nálgast hugmyndir á aðra vegu því vandamálið er ekki bara að verið sé að draga athyglina frá pælingunum sjálfum. Þessi hefð, að viðurkenna „rétt einstaklinga til að eiga hugmyndir“ er hættuleg að því leyti til að hún afmarkar hlutverkin „hugsuður“ og „listamaður“ á kostnað allra annarra. Séu hugmyndir alltaf tengdar tilheyrandi nöfnum bendir það til þess að það að hugsa og að skapa séu sérstakir hæfileikar sem tilheyra fáeinum útvöldum einstaklingum. Til dæmis fær dýrkun „listamannsins“ sem hins dæmigerða sérvitra „hugsjónamanns“ í jaðri samfélagsins, almenning til þess að halda listamenn vera, í grundvallaratriðum, öðruvísi en annað fólk. Það getur hver sem er verið listamaður og allir eru það að einhverju marki. En sé fólki gert að trúa því að skapandi og gagnrýnin hugsun séu hæfileikar sem einungis fáir einstaklingar búa yfir, þá munu þau sem ekki eru útnefnd „listafólk“ eða „heimspekingar,“ ekki leggja mikið á sig til að þroska þessa hæfileika. Þar af leiðandi verður fólk öðrum háð um margar hugmyndir sínar og verður að sætta sig við að fá að fylgjast með öðrum skapa.

Annar þáttur sem virkar fráhrindandi á hvernig hugmyndir eru alltaf kenndar við einstaklinga er að það ýtir undir að sæst sé á þessar hugmyndir í óbreyttri mynd. Þeir sem stúdera heimspeki Descartes eru hvattir til að læra hefðbundið form hennar í stað þess að velta fyrir sér þeim hlutum hennar sem þeim finnst koma sér við og samþætta þær síðan hugmyndum úr öðrum áttum. Af virðingu við þann sem átti upprunalegu hugmyndina eru hugmyndir hans varðveittar en aldrei settar fram í nýju formi eða öðru samhengi sem gæti veitt á þær nýja innsýn. Hamraðar í stein verða margar kenningar algerlega óviðkomandi nútímanum þegar hægt hefði verið að lengja líf þeirra hefði þeim verið tekið af aðeins minni lotningu.

  Þannig að þessi hefð fyrir eignarhaldi hugmynda er ekki holl fyrir gagnrýna hugsun og þann lærdóm sem má draga af listamönnum og heimspekingum fyrri tíma.

Ein möguleg nálgun á það vandamál er ritstuldur. 

         I.      NÚTIMABYLTINGARMAÐURINN OG RITSTULDUR

 

  Ritstuldur er sérlega áhrifarík aðferð við að taka sér hugmyndir og endurgera þær. Hann getur sem slíkur verið notadrjúgt verkfæri fyrir manneskju sem vill hvetja aðra til nýbreytni í hugsanagangi sínum. Þetta er byltingarkennd aðferð vegna þess að hún viðurkennir ekki „eignarhald á hugarsmíðum“ heldur ræðst gegn því og öllum neikvæðum áhrifum þess að virða það.

  Ritstuldur gerir það erfitt að ákvarða uppruna texta og setur þannig athyglina á innihaldið í stað tilfallandi þátta. Eins og komið var inná hér að ofan, er hvort eð er ekki mögulegt að ákvarða raunverulegan uppruna hugmynda og kenninga.  Ritþjófurinn setur textann í nýtt samhengi með því að setja nýtt nafn, eða alls ekkert nafn, við hann. Þetta getur gefið ný sjónarhorn á efnið og fengið fólk til að hugsa það upp á nýtt. Ritstuldur gerir fólki það einnig kleift að skapa nýjan texta úr nokkrum eldri með því að tengja saman það besta eða það sem snýr beinast að manni sjálfum. Það dregur um leið fram nýja gæðapunkta því samþætting efnis af ólíkum uppruna hlýtur að hafa ófyrirsjáanleg áhrif og gæti sýnt fram á duldar merkingar eða möguleika sem hafa árum saman legið í dvala í textanum. Að lokum og umfram allt þá er ritstuldur ný nálgun á hugmyndir: Þegar einstaklingur stelur texta sem talinn er „helgur“ þá afneitar þjófurinn því að nokkur stöðumunur sé á sér og hugsuðinum sem tekið er frá. Þjófurinn tekur hugmyndir hugsuðarins, túlkar þær og tjáir að vild í stað þess að líta á hugsuðinn sem yfirvald sem honum beri skylda til að viðhalda verkum fyrir. Með því að taka hugmyndum hans sem eign mannkyns er þjófurinn að afneita því að nokkur grundvallarmundur sé á hugsuðinum og restinni af mannkyni.

Þegar upp er staðið þá ætti góð hugmynd að vera öllum aðgengileg og ætti að tilheyra öllum sé hún virkilega góð. Í samfélagi sem hefur hamingju manna að markmiði myndu hindranir eins og lög um áskilinn einkarétt, ekki koma í veg fyrir dreifingu og endursamsetningu hugmynda. Þessar takmarkanir gera það erfiðara fyrir einstaklinga að leita uppi ögrandi og gefandi hugmyndir til að taka sér og deila með öðrum.

Svo ef það eru í alvöru „ekkert nýtt undir sólinni“ er rétt að taka þau á orðinu og láta eins og það sé rétt. Af því sem eftir liggur af kenningum og kreddum á fólk að taka sér það sem því finnst koma lífi sínu við. Ekki hika við að taka upp texta, orð fyrir orð, sem einhverjum finnst vera fullkomnir og deila þeim með öðrum. Um leið ætti fólk ekki að hika við að ræna hugmyndum af ólíkum uppruna og endurraða þeim eftir leiðum sem því finnst vera gagnlegri og meira spennandi. Hægt er að skapa persónulega heild af gagnrýninni og skapandi hugsun með grunnþáttum úr ýmsum áttum í stað þess að taka einu af þeim hugmyndakerfum sem rétt eru að fólki. Er það ekki annars fólk sem fær hugmyndir eða eru það hugmyndir sem fá fólk?  

       II.      TUNGUMÁL OG SPURNINGIN UM HÖFUNDARRÉTT

 

  Orð, listir, tákn og tónlistaruppákomur eru einhvers virði eingöngu vegna þess að einhver hópur hefur á þeim sameiginlegan skilning, einungis þannig verða þau gjaldgeng í samskiptum. Rétt eins og allt annað í heiminum eru manneskjur ekki einangruð fyrirbæri. Allir eru hluti af stóru neti. Enginn væri það sem hann er ef ekki væri fyrir það fólk sem kom á undan því og er í kringum það og allan hinn náttúrulega heim. Hugsanir fólks eru samsettar úr þeim tungumálum sem töluð eru í kringum það. Sögur manna eru samtíningur þess sem fólk hefur hirt upp af leið sinni. Hver og einn er eigin fulltrúi í þeim samsetningum sem þróast hafa í menningarhópnum.

  Það er ekki þar mað sagt að ekkert sé lengur nýstárlegt því að allt er nýstárlegt. Hver tjáning, sérhver aðgerð, sama hversu oft hún er endurtekin, á sér uppruna í einstökum punkti í vef mannlegra samskipta. En um leið þýðir þetta að endurframsetning grundvallaratriða sem þegar eru til (og sumir kalla „ritstuld“) er bráðnauðsynleg öllum samskiptum. Sé sérhver tjáning bæði nýstárleg og fengin að láni þá virðist það fáránlegt að setja tjáningu í einn eða annan flokk. Allir taka þátt í viðhaldi og þróun þeirra tungumála sem töluð eru, en þegar upp er staðið þá er línan milli eftiröpunar og uppfinningar svo óskýr að allar skilgreiningar hljóta að vera vafasamar. Sé það rétt þá skulum við láta vísindamönnum það eftir að finna út smáatriðin í sambandi við hver var fyrstur til að raða orðum og tónum upp á sérstaka hátt. Mikilvægara fyrir fólk almennt er hvað það geti gert við þessar samsetningar sem það á sameiginlega.

Sumir gera kröfu til þess að hafa verið fyrstir til ákveðinna verka og segjast eiga þau. Rökstuðningur þeirra er að þessi ákveðnu verk séu fullkomnar túlkanir á tilfinningum þeirra eða upplifunum og að þau sem lesa eða hlusta fái þannig beina innsýn inn í sálarlíf þeirra. En raunar hefur ljóð eða sönglag alltaf aðra merkingu fyrir hlustandann og lesandann en það hafði fyrir höfundinn. Lesandinn tengir orðin við eigin reynslu og leitar í hjarta sínu að samhljómi við tilfinningar sínar. Um leið og eitthvað er skapað og sent út í heiminn, eignast það sjálfstætt líf í þeim viðbrögðum og tilfinningum sem það vekur hjá öðrum. Það líf mun ekki vera fulltrúi neins eða hlýða kalli neins nema fyrir tilviljun. Gagnvart rithöfundinum liggur hin eiginlega merking verka hans í sköpuninni, í endurröðum og mótun forma. Þau sem vonast til að hafa stjórn á verkum sínum eftir á lifa í afneitun.

  Þannig að fólk getur losað sig við allar hugmyndir um að eiginhandaráritun rithöfunda fylgi einhver dulúð. 
 

 

Til baka í greinar