Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

S fyrir Saga

Mara fortíðarinnar 

  Tíminn leið allt öðruvísi þegar maður var tólf ára. Eitt sumar var eins og heil mannsævi og hver dagur leið eins og mánuðir líða í dag. Þá var allt nýtt. Hver dagur innihélt upplifanir og tilfinningar sem aldrei höfðu gert vart við sig áður og þegar sumarið var liðið varstu allt önnur persóna. Það var tilfinning fyrir frelsi sem nú er horfið. Þá var eins og allt gæti gerst og maður gæti verið hvað sem hugurinn girndist. Það var heldur ekkert svo fjarstæðukennt.

  En sagan drottnar yfir öllu. Því hafa hlutir sem eitt sinn voru nýir og spennandi týnt ferskleika sínum fyrir löngu og framtíðin sem bíður hefur verið ákvörðuð af fortíðinni. Fortíðin liggur á fólki eins og mara sem stýrir því og stjórnar út yfir gröf og dauða. Um leið gefur hún einstaklingnum mynd af sjálfum sér, hún hleður á hann „sjálfsmynd“ þar til hann neyðist til að berja hana af sér vilji hann hafa frelsi til að skilja og skapa sjálfan sig. Sama á við um listamanninn. Ögrandi nýjungar verða að hækjum og klisjum. Um leið og listamaðurinn hefur komið með eina skapandi lausn á ögrandi vandamáli reynist honum erfitt að setja fram aðra möguleika seinna meir. Þess vegna geta mikilsvirtir listamenn eingöngu boðið uppá örfáar góðar, byltingarkenndar hugmyndir. Þeir festast í eigin kerfi og þessi sömu kerfi ginna og binda niður þá sem á eftir koma. Það er erfitt að koma með eitthvað algjörlega nýtt þegar maður keppir við þúsund ár af hefðbundinni listasögu. Sama á við um elskhugann, stærðfræðinginn og ævintýramanninn. Fortíðin stendur gegn framtakssemi í nútíðinni. 
  Það sama gildir um róttæka pólitík. Gömul speki segir að þekking á fortíðinni sé ómissandi hverjum þeim sem berst fyrir frelsi og félagslegum breytingum. Þrátt fyrir að þeir hafi kynnt sér heimspeki og baráttusögur fyrri tíma, eru róttækir hugsuðir og aktívistar engu nær um hvernig á að breyta heiminum, þvert á móti virðast þeir oft fastir í forarvilpu deilna um aðferðir og áherslur og skilja ekki á nokkurn hátt hvað þarf til að breyta nútíðinni. Þeirra staða í hefðbundnum átökum hefur ginnt þá inn í baráttu sem þegar er töpuð, þeir vísa stöðugt til fortíðarinnar og hamast við að verja kenningar sem fyrir löngu eru úreltar og ónothæfar. Þetta gerir þá ekki bara óskiljanlega heldur kemur einnig í veg fyrir að þeir hafi eitthvað að segja um það sem er í gangi í kringum þá.

  Ef einstaklingur hugsar sem svo að heimur hans sé mestmegnis samsettur úr framtíð, finnst honum hann geta komið sínum vilja fram og valið eigin örlög. Aftur á móti ef heimssýn manns er límd við hið liðna er hann um leið áhrifalaus. Ekki aðeins er hann áhrifalaus gagnvart heiminum sem hann lifir í, heldur er framtíðin fyrir honum að mestu ákveðin fyrirfram af atburðum fortíðar.

  Sú tilfinningin að vera merkingarlaust sandkorn í sögunni, nú eftir átta þúsund ár af siðmenningu, fær einstaklinginn til að sjá sjálfan sig án tilgangs. Honum finnst sem allar ákvarðanir hafi þegar verið teknar fyrir hann. Það má vera að tíminn teygi sig endalaust í allar áttir, en þannig upplifir fólk ekki heiminn, það horfir á líf sitt sem ferli í eina ákveðna átt. Það þorir ekki að ímynda sér heiminn sem teygjanlegt hugtak heldur, því þá finnst því botninn detta úr tilverunni um leið. Ef fólk þorir, þarf það að stíga út fyrir söguna.

  Að stíga út fyrir söguna þýðir einfaldlega að vera í nútíðinni, vera maður sjálfur. Léttirinn þegar allt sem tilheyrir því liðna er hrist af sér, er ekki aðeins byrði fortíðarinnar að hverfa, heldur einnig viðjar þess samruna fortíðar og framtíðar sem byggðar hafa verið upp. Að kasta sjálfum sér svona út í tómið þar sem hvað sem er getur gerst og fólk neyðist til að treysta á sitt raunverulega sjálf er ógnvekjandi um leið og það er frelsandi og ekkert falskt eða óþarft getur lengur hengt sig á viðkomandi. Án svona hreinsana mun lífið fyllast af dauða og tómleika þar til því verður varla lifað – rétt eins og það er fyrir marga í dag.

  Það eru alltaf einhverjir sem hóta því að allur heimurinn muni umturnast ef fólk hætti að hafa áhyggjur af fortíðinni og hugsi eingöngu um nútíðina. Hví skyldi hann ekki mega umturnast! Með því að stökkva út úr sögunni og setja saman heim sem það vill lifa í getur fólk gert heiminn að stað sem því finnst hafa tilgang. Nútíðin er þeirra sem geta gripið hana og áttað sig á möguleikunum sem felast í henni. 

Dæmi um áhrifamátt goðsagnar 

  Til að skilja hvernig goðsögn virkar má líta á lágmenningarfyrirbærið pönk. Þar skiptir saga pönksins ekki máli, því hún er alltaf til staðar í heild sinni á öllum uppákomum pönkara og byggir á hefð sem er eldri en nokkur gæti mögulega munað eftir.  Hið ævarandi, tímalausa brjálæði sem gerir pönk einhvers virði til að byrja með hefur alltaf verið til þó það hafi aldrei verið skrásett. Gamlar tónleikamyndir skipta engu máli og gætu ekki fengið neina raunverulega pönkhljómsveit til að vilja vekja upp þennan anda. Hljómsveitin verður sjálf að finna í sér þennan tímalausa, þýðingarmikla þátt sem gerði tónlist fyrirrennara sinna einhvers virði og vita að sama hlutinn mun enginn ná að gera tvisvar. Allar þessar bækur um sögu pönksins ná bara ímyndum og orðum. Þær íþyngja og skipta augljóslega engu máli þegar bandið er snarvitlaust fyrir framan mann að gera og skapa. Ástríðuna í villtu taumleysi bestu pönkhljómsveitanna getur sagan ekki snert, því hana er ekki hægt að útskýra sem hefð eða fræðigrein. Þetta er í raun hefð þess að svívirða hefðir, að brjóta tabú til að víkka heimssýnina. Þegar það gengur upp er goðsögnin um pönkhljómsveitina sem brýtur niður og frelsar í gegnum tónlistina, ekki ímynd sem hægt er að taka sér heldur fyrirmynd sem hvetur fólk til aðgerða. 

Hvernig má afvegaleiða atburðarásir 

  Bakvið söguna bíður heimur veruleikans. Leyndarmál hans hafa farið frá einni kynslóð til annarrar gegnum upplifanir svo magnaðar að þær virðast fara fram úr sjálfum tímanum. Tíminn reynir að bægja þessum upplifunum burt, afneitar þeim og gerir lítið úr þeim. Klukkuvísarnir ýta við fólki og benda því áfram, en svo lengi sem hjartað er á réttum stað munu birtast nýjar leiðir til að lifa eins og hjartað sé að springa. Sagan er ofsótt af sínum eigin forlögum. Ógleymanleg augnablik í byltingu hversdagsins gera upp alla reikninga svo lífið geti virkilega byrjað. Það sem allir þurfa á að halda núna er að finna lífið innra með sér, svo yfirþyrmandi og svo ómótstæðilegt að upplifunin bræði gangverk hins skammtaða tíma. Allt ævintýrafólk ætti að eltast við þessi augnablik út um allan heim því þau eru veiðimenn á eftir sinni dýrmætustu bráð. 
  Við viljum lifa, við viljum vera hér og . Það er þrá sem nær handan fortíðar, nútíðar og framtíðar, tímalaus tilfinning sem ómar í eilífðinni eins og stakur tónn. Rétt eins og sögurnar og örin sem hverfa aldrei þó hugurinn sé hverfull. Í dag finn ég til og er til, að eilífu. Hvað sem öllum klukkum líður. Amen. 

Viðauki: Ef ekki núna, hvenær? 

Maðurinn verður að lifa hvern dag, annars mun hann alls ekki lifa neitt. Hamingja hans og frelsi verða að vera hluti af hversdagsleikanum. Hver sem lausnin er, hver sem byltingin er, þá leggjum við til að það verði bundið nútíðinni frekar en framtíðinni ef það á að vera raunverulega byltingarkennt. 

  Kristni krefst þess af fylgjendum sínum að þeir fresti því að gera hvað þá sjálfa langar til að gera þangað til þeir fara yfir í næsta heim, þar sem þeim verður launað hafi þeir hegðað sér vel. Þessari skilyrtu hegðun er ekki ætlað að vera meira gefandi en svo að hana verður að verðlauna. Í þessum hugsunarhætti endurspeglast grundvallar misskilningur varðandi hamingju manna, því hamingjuna er að finna í gera, gera eitthvað sem er spennandi og gefandi í sjálfu sér, en ekki bíða launa fyrir leiðindaverk. Því er ekki að undra að margir þeirra, sem kalla sig sannkristna, séu bitrir og meinfýsnir einstaklingar sem fetta fingur út í heilbrigð og spennandi uppátæki annara. Þar sem þessir vesalingar trúa að þeir muni einungis finna sanna hamingju í „guðslaunum“ fyrir ævintýralausa tilveru, horfa þeir öfundaraugum á frjálslynt og afslappað fólk, því aðeins í sínum „syndugustu“ draumum getur þá dreymt um ævintýri þeirra. Að vísu eru margir kristnir hamingjusamt fólk þrátt fyrir trúarbrögð sín, en þeir miða þá hamingju sína við að fá ánægju út úr lífi sínu og starfi á þessari jörð.

  Íhaldssamir marxistar ganga lengra í mistökum hinna kristnu með því að biðja fylgjendur sína um að vinna að byltingu sem þeir munu ef til vill aldrei lifa nógu lengi til að verða vitni að. Þ.e.a.s. í hinni marxísku „trú“ er hamingjunni frestað það lengi að maðurinn fær aldrei tækifæri til að upplifa hana. Umfram tilboð um „göfuga“ sjálfsfórn, bjóða marxistar uppá sáralitla hvatningu fyrir fólk sem vill í alvöru berjast fyrir hina „kommúnísku byltingu.“ Til mótvægis lofar neyslumarkaður kapítalismans skjótri umbun í formi efnislegra gæða (og þeim goðsögnum og ímyndum sem þeim fylgja) í skiptum fyrir vinnu sem almennt er þreytandi og sjaldan gefandi.

Okkar bylting verður að vera tafarlaus bylting okkar daglega lífs, allt annað er bara krafa um að fólk geri eitthvað sem það vill ekki og haldi áfram að vona að því verði rétt sæmileg sneið af kökunni. Þá sem telja (oft ómeðvitað) að það sem hjartað þráir sé ómögulegt að öðlast - og þar af leiðandi sé vitleysa að berjast fyrir því – dagar uppi sem baráttufólk fyrir þægilega vonlausan málstað. Það er samt hægt að berjast fyrir raunverulegu frelsi (þó að baráttan myndi ekki skila beinum árangri gerir reynslan baráttufólkið sjálft frjálsara) þannig að það er mikilvægt fyrir fólk að leita eftir breytingum. Ekki í nafni einhverrar kennisetningar eða æðra markmiðs heldur frekar fyrir sig sjálft, í sínu eigin nafni, þannig að það verði hæfara til að lifa lífi sem hefur merkingu fyrir það sjálft. Fólk þarf fyrst og fremst að framkvæma byltingarkenndar breytingar í sínu eigin lífi, frekar en að beina spjótum sínum að sögulegum breytingum sem það mun ekki lifa til að sjá. Þannig sóar enginn lífi sínu við að „fórna sér fyrir málstaðinn“ heldur lifir til að njóta uppskerunnar ... sem það vann fyrir
 

Til baka í greinar