Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

 

 

SIÐABOР

  Einusinni var ég að fletta í gegnum bók um barnasálfræði og rakst á kafla um tilhneigingu unglinga til uppreisnar. Í bókinni stóð að á fyrsta hluta uppreisnar barnsins gegn foreldrum sínum gæti komið til þess að það reyndi að aðgreina sig frá þeim með því að saka þau um að vera ekki samkvæm sjálfum sér. Til dæmis ef foreldrarnir hafa kennt barninu að mikilvægt sé að sýna öðrum tillitsemi og vinsemd, sakar barnið þau um að vera sjálf ekki nægilega tillitsöm eða vinsamleg. Í þessu tilfelli hefur barnið ekki enn skilgreint sjálft sig og sín eigin gildi, það tekur enn tillit til þeirra gilda og hugmynda sem foreldrarnir miðluðu til þess og er því einungis fært um að ákveða eigin ímynd innan þess ramma. Það er ekki fyrr en seinna sem það getur orðið að sjálfstæðum einstakling, þegar það fer að efast um þau sannindi og siðaboð sem því voru kennd.

  Alltof mörg þeirra sem kenna sig við róttækni virðast aldrei hafa náð lengra en að þessu fyrsta uppreisnarstigi. Þau gagnrýna hegðun þeirra sem fylgja straumnum og hvað þeirra samfélag leggur á menn og dýr, þau ráðast gegn fáfræði og grimmd kerfisins en það er varla að þau staldri við til að efast um eðli þess sem fólk almennt er sátt við að kalla „siðferði.“ Gæti verið að þetta „siðferði“ sem þau dæma aðra útfrá sé eitthvað sem ætti að taka til athugunar? Þegar því er haldið fram að slæm meðferð á dýrum sé „siðferðilega röng“ hvað er þá átt við? Er þá verið að taka almennt gildismat í sátt og snúa því gegn þeim sem fara illa með dýr í stað þess að skapa eigin siðferðisviðmið?

  Kannski er lesandinn að hugsa núna „hvað er átt við með því að búa til eigin siðferðisviðmið? Hlutirnir eru annaðhvort siðferðilega réttir eða ekki – þú býrð ekki til siðferði, það er ekki spurning um skoðun.“

  Með þessu er lesandinn að taka einni af grundvallarkennisetningum samfélagsins sem ól hann upp sem gefinni: Að rétt og rangt séu ekki mat hvers einstaklings heldur undirstöðulögmál sem gilda jafnt um allan heim. Þessi hugmynd, sem er leifar af hinu framliðna kristnihaldi, er hluti af kjarna siðmenningar vestrænna manna. Ætli einhver sér að draga í efa réttmæti hinna ráðandi afla ætti viðkomandi fyrst að efast um lögmál siðmenningarinnar. 

HVAÐAN KEMUR HUGMYNDIN UM „SIÐFERÐISLÖGMÁL?“ 

  Einusinni trúðu næstum allir því að til væri guð. Þessi guð réð yfir heiminum. Hann hafði algert vald yfir öllu í honum og hann hafði sett lögmál sem allar mannverur urðu að hlýða. Gerðu þær það ekki urðu þær fyrir skelfilegum refsingum af hans hendi. Að sjálfsögðu fór flest fólk eftir þessum lögmálum eftir bestu getu þar sem ótti þeirra við eilífar vítiskvalir var sterkari en löngun þess til að gera eitthvað sem var bannað. Þar sem allir lifðu eftir sömu lögmálum gátu þau verið sammála um hvað „siðferði“ væri; það var þau gildi sem lögmál guðs ákvarðaði. Þannig að gott og illt og rétt og rangt var ákveðið samkvæmt guðs valdi og allir sættust á það þar sem þau þorðu ekki annað.

  Einn góðan veðurdag byrjaði fólk að taka við sér og átta sig á því að það var ekki til neitt sem hét guð. Það var ekkert fyrir hendi sem sýndi fram á tilveru hans og það voru fáir sem fannst eitthvað vit í því að hafa áfram trú á rökleysu. Guð hvarf því að mestu leyti og enginn óttaðist hann eða refsingar hans lengur. En undarlegur hlutur átti sér stað. Þrátt fyrir að þetta fólk þyrði að efast um tilveru guðs og jafnvel afneita henni upp í opið geðið á þeim sem enn trúðu á hann, þá þorði enginn að efast um réttmæti þess siðferðisboðskapar sem lögmál hans höfðu innleitt.  Kannski datt þeim það ekki einusinni í hug. Allir voru aldir upp við sömu siðferðilegu sannfæringuna og skildu hvort annað þegar þau töluðu um rétt og rangt, svo að kannski fannst þeim munurinn á góðu og illu augljós, hvort sem að guð var til staðar eða ekki. Einnig getur verið að fólk hafi verið svo vant því að lifa við þessi lögmál að það þorði ekki að einusinni velta fyrir sér möguleikanum á því að þessi lögmál væru ekki til frekar en guð.

  Þannig að mannkyn var í frekar undarlegri aðstöðu: Þó að ekkert yfirvald væri lengur til staðar til að ákveða muninn á réttu og röngu þá var almenn sátt um þá hugmynd að sumir hlutir væru réttir eða rangir frá náttúrunnar hendi. Þó að fólk hefði ekki lengur trú á guðlegri veru hafði það enn trú á alþjóðlegum siðareglum sem allir áttu að fara eftir. Þó fólk tryðu ekki lengur á guð hafði það ekki enn öðlast nægilegt hugrekki til að hætta að fylgja skipunum hans. Fólk hafði losað sig við hið guðlega yfirvald en ekki heilagleika hins guðlega siðaboðskapar. Þessi óvéfengjanlega hlýðni við lögmál hins löngu liðna himnaföður hefur alla tíð síðan verið martröð sem mannkyn er rétt að byrja að vakna upp af. 

GUÐ ER DAUÐUR OG SIÐALÖGMÁL HANS EINNIG. 

  Án guðs er enginn hlutlægur staðall lengur til að dæma útfrá hvað sé gott og illt. Heimspekingar höfðu miklar áhyggjur af þessu fyrir nokkrum öldum en þessi staðreynd hefur lítil áhrif haft meðal annara hópa. Flestir sem velta þessu fyrir sér virðast enn trúa því að hægt sé að byggja heimssiðferði á einhverju öðru en lögmálum guðs: Því sem komi sér vel fyrir fólk, því sem sé gott fyrir samfélagið eða því sem fólki finnst vera skylda sín. Erfiðara er að fá fram skýringar á hversvegna þessa staðla þarf að heimfæra upp á allan heiminn. Ástæðurnar eru yfirleitt tilfinningamál frekar en bein rök: „En finnst þér ekki rangt að nauðga?“ Spyrja siðameistarar rétt eins og alheimssannleikur spretti upp af því að við séum sammála um eitt atriði. „Finnst þér ekki að fólk verði að trúa á eitthvað æðra sér sjálfum?“ halda þeir áfram eins og þörfin fyrir að trúa einhverju geri það að sannleika. Þeir grípa jafnvel til ógnana: „Hvernig myndi fara ef allir tækju þá ákvörðun að hvorki gott né illt sé til? Myndum við ekki öll bara drepa hvort annað?“

  Helsti gallinn við þá hugmynd að til séu ákveðin siðferðislögmál sem eiga við allan heiminn, er að hún gerir ráð fyrir tilveru einhvers sem engin leið er að vita eða sanna. Fólk sem trúir á gott og illt vill að allir trúi því að til sé „siðferðilegur sannleikur“- þ.e. að sumir hlutir séu siðferðilega réttir alveg eins og himininn er blár. Þau halda því fram sem alheimssannleik að morð sé siðferðilega rangt alveg eins og það er rétt að vatn frýs við núll gráður. Munurinn er að frostmark vatns er hægt að rannsaka, það er hægt að mæla það og sammælast um að hafa fundið einhvern „hlutlægan“ sannleik eins framarlega og það er hægt. Hvernig er rannsakaður sannleiki þess að morð sé rangt? Það eru engar lögmálstöflur á fjallstindi sem hægt er að fara eftir og engin boðorð letruð í himininn, fólk hefur bara sína eigin eðlisávísun til að fara eftir auk fullyrðinga presta og annara sjálfskipaðra siðfræðinga sem eru ekki einusinni sjálfir á eitt sáttir. Fyrst að þeir geta ekki komið fram með nein sönnunargögn sem eru grunduð í einhverju áþreifanlegu hversvegna skyldi fólk trúa þeim? Hvað varðar eðlisávísun fólks – ef því finnst eins og eitthvað sé rétt eða rangt, þá virkar það þannig gagnvart því sjálfu en er ekki sönnun þess að þar sé komið alheimslögmál. Þannig að það er ekkert annað en hjátrú að til séu siðferðislögmál sem gilda fyrir alla.

Þegar tvær manneskjur eru í grundvallaratriðum ósammála um hvað sé rétt og rangt, þá er engin leið til að leysa þá deilu fullkomlega. Það er einungis persónulegt mat þeirra sem skiptir máli. Því verður einungis ein spurning sem skiptir máli; hvaðan gildismat hvers og eins er sprottið. Er það eigin sköpun, útfrá löngunum hvers fyrir sig eða er það komið frá einhverjum öðrum, einhverjum sem dulbjó sínar skoðanir sem „almenn sannindi?“

  Hafa öll alheimssiðaboð ekki alltaf verið frekar varhugaverð? Heimurinn er fullur af einstaklingum og hópum sem vilja snúa fólki á band sinna trúarbragða, sinna kennisetninga, sinnar pólitísku stefnu eða sinna skoðana. Þeir munu auðvitað fullyrða að aðeins einn réttlætisstaðall eigi við alla og að það sé einmitt þeirra sjónarhorn á heiminn sem það eigi við. Því er betra að trúa varlega fólki sem vill markaðssetja hugmyndina um „hinn almenna siðferðilega skilning.“ Tilkallið sem það gerir til siðgæðis sem almenns lögmáls er í grunninn ekkert annað en lúmsk aðferð til að fá fólk til að viðurkenna þeirra gildismat í stað þess að hanna sín eigin, í ótta við að það gæti stangast á við þeirra.

  Svo að fólk geti varið sig fyrir hjátrú siðameistaranna og trúar-brögðum guðspjallamannanna ætti það að losa sig alveg við þá hugmynd að til séu siðferðileg lögmál. Almenningur getur nú gengið inn í nýja tíma þar sem fólk getur ákvarðað sín eigin gildi í stað þess að taka inn siðaboð vegna ótta eða hlýðni. Látum eftirfarandi vera hina nýju trúarjátningu: 

ÞAÐ ERU ENGIN ALMENN SIÐABOÐ SEM  ÆTTU AÐ STÝRA HEGÐUN MANNA. ÞAÐ ER HVORKI TIL GOTT NÉ ILLT, ÞAÐ ER ENGINN ALMENNUR STAÐALL Á RÉTT OG RANGT. OKKAR GILDISMAT OG SIÐFERÐI KEMUR FRÁ OKKUR SJÁLFUM OG TILHEYRIR OKKUR, HVORT SEM OKKUR LÍKAR BETUR EÐA VERR, ÞANNIG AÐ VIÐ SKULUM GERA TILKALL TIL ÞEIRRA SEM OKKAR SKÖPUNAR OG VERA STOLT AF ÞEIM Í STAÐ ÞESS AÐ LEITA EINHVERRAR UTANAÐKOMANDI RÉTTLÆTINGAR Á ÞEIM. 
 

EN EF HVORKI ER GOTT NÉ ILLT OG EKKERT HEFUR EÐLISLÆG SIÐFERÐISVIÐMIÐ, HVERNIG VEIT FÓLK ÞÁ HVAÐ Á AÐ GERA? 

  Skapi hver sínar eigin skilgreiningar á hvað sé gott og hvað sé illt. Ef það eru engin siðferðislögmál þýðir það að fólk er frjálst og hefur frelsi til að gera það sem það vill og vera það sem það vill. Það hefur þá frelsi til að fylgja löngunum sínum án þess að skammast sín. Hver og einn þarf að finna út hvað hann eða hún vill fá út úr lífinu og leita þess. Fólk skapar sér þau siðferðisviðmið sem honum eða henni finnst vera rétt og lifa eftir þeim. Það verður alls ekki auðvelt. Langanir birtast án viðvarana og toga fólk í ólíkar áttir. Að fara eftir leiðbeiningum er auðvitað auðveldara en það eru litlar líkur á að fólk fái það sem það vill út úr lífinu ef að það lifir bara eftir tilsögn. Fólk er hvert öðru ólíkt og þarfir þess eru um leið ólíkar svo hvernig getur eitt sett af „siðferðilegum sannleik“ hentað öllum? Ef fólk tekur ábyrgð á sjálfu sér og setur saman sitt eigið gildismat hefur það möguleika á að nálgast hamingjuna á einhverju stigi. Gömlu siðferðislögmálin eru eftirstöðvar þess tíma þegar fólk lifði í ótta við guð sem aldrei var til, laust við hann getur fólk einnig losað sig við þann heigulshátt, hlýðni og hjátrú sem hefur einkennt siðmenninguna hingað til.

  Sumir misskilja fullyrðinguna um að fylgja eigin löngunum sem hreinan hedonisma (að hegða sér algerlega útfrá eigin duttlungum). Það er ekki verið að tala um hverfula drauma hinnar dæmigerðu frelsishetju heldur dýpstu og varanlegustu langanir og hneigðir einstaklingsins. Verðmætamat hans ætti að mótast af því sem liggur til grundvallar ást hans og hatri. Sú staðreynd að enginn guð er til staðar til að krefjast þess að fólk virði hvort annað eða haldi sig við ákveðnar dyggðir þýðir ekki að fólk ætti ekki að gera það. Margir eru sammála um hvað þeim finnst vera gefandi. Aftur á móti ætti fólk að gera það sem það gerir vegna sjálfra sín, ekki vegna hlýðni! 

EN HVERNIG ER HÆGT AÐ RÉTTLÆTA ÞAÐ AÐ MIÐA SIG VIÐ SIÐAREGLUR EF EKKI ER HÆGT AÐ BYGGJA ÞÆR Á ALMENNUM SIÐFERÐILEGUM SANNLEIK? 

  Fólk hefur alltaf þurft að lifa við að verðmætamat þess kemur frá ytri öflum. Að byggja verðmætamat sitt á eigin löngunum var (að sjálfsögðu) skilgreint sem óviðunandi af prédikurum lögmálsins. Almennt finnur fólk á sér að hvað sem það gerir verður það að réttlæta út frá einhverju utanaðkomandi, einhverju „stórkostlegra“ en sjálfu sér – ef ekki guði, þá siðferðislögmáli, ríkislögum, almenningsáliti, réttlæti, „ást á mannkyni“ o.s.frv. Öldum saman hefur mannkyn spurt leyfis um hvernig því megi líða og hvort það megi gera ákveðna hluti. Það hefur ekki þorað að byggja nokkra ákvörðun á eigin þörfum og er þessvegna skilyrt til að telja sig enn vera að hlýða æðra máttarvaldi þegar það bregst við samkvæmt eigin sannfæringu. Það virðist vera einhvernveginn auðveldara að verja gerðir sínar þegar þær koma til af hlýðni við einskonar yfirvald heldur en þegar þær spretta af eigin hneigðum. Fólk skammast sín svo ferlega fyrir það sem það langar og þráir að það vill frekar tengja gerðir sínar við eitthvað „æðra.“ Hvað getur verið mikilvægara en eigin hjartaþrá og hvað annað getur réttlætt hegðun manns? Á fólk að þjónusta eitthvað utanaðkomandi án samráðs við eigin vilja og þá gera eitthvað sem það vill alls ekki?    

  Þegar kemur að þessari réttlætingarspurningu hafa margir róttækir einstaklingar og hópar farið villu vegar. Þau ráðast ekki gegn því sem þeim finnst vera óréttlátt vegna þess að þau vilji ekki sjá það eiga sér stað heldur vegna þess að þau telja það „siðferðilega rangt.“ Þannig leita þau eftir stuðningi allra annara sem enn trúa á lygasöguna um siðferðislögmálin og fara að líta á sig sjálf sem þjóna sannleikans. Róttæklingar eiga ekki að notfæra sér almennar ranghugmyndir til að koma sínum málstað á framfæri, heldur ættu þeir að storka almennum haldreipum og efast um gildi siðvenja í öllum sínum aðgerðum. Ef framfaraspor hvað varðar t.d. lífsréttindi dýra, nást í nafni almenns réttlætis og siðfræði, leysir það eitt vandamál um leið og það viðheldur öðru. Auðvitað ætti að leysa þessháttar vandamál á öðrum grundvelli (enginn sem kafar djúpt í málið langar virkilega að drepa dýr og misþyrma þeim að nauðsynjalausu, er það?), í stað þess að nota aðferðir sem eru leifar af kristinni hjátrú. Því miður gerir margra alda skilyrðing það svo þægilegt að finna fyrir réttlætingu „æðri máttar,“ að hlýða „siðferðislögmálum,“ að framfylgja „réttlætinu“ og berjast við „hið illa,“ að fólk festist auðveldlega í hlutverki siðameistara og gleymir að spyrja hvort að hugmyndin um siðferðislögmál standist yfirhöfuð. Þegar maður trúir því að maður sé að þjóna æðra yfirvaldi fylgir því tilfinning um vald, sama tilfinning og laðar fólk að fasisma. Það er alltaf freistandi að mála hverja baráttu sem baráttu milli góðs og ills, milli réttlátra og ranglátra en það er ekki bara ofureinföldun heldur og fölsun, því það er ekkert þannig til.

  Fólk getur sýnt hvoru öðru umhyggju vegna þess að það langar til þess en ekki bara vegna „siðferðiskenninga.” Fólk þarf ekki viðurkenningu að ofan til að láta sér annt um menn og dýr eða til að bregðast við, þeim til varnar. Fólk þarf bara að finna það í sér að það sé rétt, það þarf engar aðrar ástæður. Þannig að fólk getur réttlætt það þegar það bregst við útfrá sínum siðferðisviðmiðum, án þess að byggja þau á siðferðilegum sannindum, bara með því að skammast sín ekki fyrir langanir sínar, með því að vera nógu stolt af þeim til að sættast við þær því þær eru drifkraftur fólks sem einstaklinga. Viðmið sumra eru ekki allra, en þau eru allt sem fólk hefur, svo að almenningur ætti að þora að standa við þau frekar en að vonast eftir einhverri stórvægilegri réttlætingu sem aldrei kemur. 

EN HVAÐ SVO EF ALLIR ÁKVEÐA FYRIR SIG AÐ ÞAÐ SÉ EKKERT GOTT OG ILLT? DREPUR FÓLK EKKI HVERT ANNAÐ? 

  Þessi spurning gengur út frá því að fólk sé almennt ekki að drepa hvert annað vegna þess að því var kennt að það sé rangt. Er mannkyn í alvöru svo fáránlega blóðþyrst og illgjarnt að almennt myndi fólk nauðga hvert öðru og myrða hvert annað ef það gengst ekki undir heilaþvott? Manni virðist sem fólk vilji frekar láta sér lynda hvert við annað, að minnsta kosti jafnmikið og það langar að skemma og eyðileggja. Flestir segjast hafa þá sannfæringu að samkennd og sanngirni séu siðferðilega rétt en sannfæringin ein hefur gert næsta lítið til að fylla heiminn af samkennd og sanngirni. Gæti það verið að fólk léti eðlislæga mannlega sómatilfinningu ráða ferðinni frekar en ekki ef náungakærleikur og réttlæti væru ekki skylda? Væri hún einhvers virði hvort sem er, þessi „skylda“ að vera góð við hvort annað, ef hún kæmi til bara vegna þess að fólk væri að hlýða siðferðilegum skipunum? Gæfi það ekki meira, að koma fram við hvert annað af tillitsemi, af því fólk vill það en ekki af því finnist það eiga að gera það?

  Ef að goðsögnin um siðferðislögmálið er afnumin og það veldur auknum deilum milli manna, er það ekki samt betra en að lifa eins og þrælar hjátrúar? Deilurnar yrðu þá umfangsminni en þegar deilurnar eru milli einhverra leiðtoga sem fólk hefur lært að fylgja. Ef fólk ákveður sín siðferðilegu viðmið sjálf og hvernig það lifir samkvæmt þeim hefur fólk a.m.k. tækifæri til að eltast við langanir sínar og kannski njóta lífsins, jafnvel þó að það þurfi að kljást við hvort annað. Ef fólk velur að lifa lífinu samkvæmt reglum sem því eru settar af öðrum, gefur það upp á bátinn möguleikann á að ráða örlögum sínum og fylgja draumum sínum. Sama hversu vel færi kannski á með fólki sem er bundið af siðaboðum, er það þess virði að gefa upp sjálfsákvörðunarréttinn? Höfundur þessa greinarkorns hefur það ekki í sér að ljúga því að náunganum að hann eða hún verði að fylgja einhverri siðferðilegri tilskipun, jafnvel þó að sú lygi kæmi í veg fyrir ósætti. Sé mér annt um manneskjur vil ég að þær hafi frelsi til að gera það sem þeim finnst vera rétt. Er það ekki mikilvægara en friður fenginn með einsleitni? Er ekki frelsi, jafnvel hættulegt frelsi, meira virði en þrældómur í öryggi og friður í fáfræði, keyptur með heigulshætti og hlýðni?

Þar að auki má líta á mannkynssöguna. Allar þær blóðsúthellingar, kúgun og svik sem átt hafa sér stað í nafni réttlætis og ranglætis. Í verstu styrjöldum sögunnar hefur verið barist fyrir siðferðilegum sannleik sem báðir aðilar töldu sig fylgja. Hugmyndin um sameiginlegt siðferðislögmál gerir fólk ekki sáttara heldur etur hún því til að stríða um hvers siðalögmál sé það „rétta.“ Það munu engar framfarir í samskiptum manna eiga sér stað fyrr en siðferðileg viðhorf og gildi hvers og eins eru viðurkennd. Fyrst þá getur fólk byrjað að vinna í hversu ólíkir einstaklingarnir almennt eru og læra að lifa saman í stað þess að berjast útaf þessari fáránlegu spurningu um hvers viðmið séu „rétt.“ Fyrir sig sjálft og fyrir mannkyn –  þarf fólk þarf að losa sig við þessi afgömlu viðhorf  gagnvart góðu og illu og skapa sín eigin! 

Til baka í greinar