Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Inngangur

Ætlun mín er að gera grein fyrir einum anga anarkískrar hugmyndafræði,

anarkó-kapítalísma („anarcho-capitalism“ upp á ensku) og þeim styr sem staðið hefur um þessa stefnu.

Hugmyndin um anarkó-kapítalisma er runnin undan rifjum bandarískra hagfræðinga og er David Friedman þeirra helstur. Megineinkenni stefnunnar er sú krafa að allar stofnanir samfélagsins einkavæðist og að ríkið með sín samfélagslegu afskipti og yfirráð hverfi þar með algerlega.

Þeir sem telja sig vinna innan vébanda anarkisma hafa mótmælt anarkó-kapítalískri hugmyndafræði á þeim grundvelli að hún geti ekki verið til sem slík þar sem hugmyndin um kapítalisma gangi í berhögg við eðli og rætur anarkismans.

Í upphafi greinarinnar verður fjallað almennt um anarkismann. Síðan verður gerð grein fyrir því hvað felst í anarkó-kapítalisma og að lokum farið í gagnrýni þá sem hann hefur fengið á sig.

Umfjöllunin um anarkó-kapítalismann var að miklu leyti unnin með hjálp internetsins. Gagnrýnin var fengin þaðan að öllu leyti en einnig vill svo skemmtilega til að þeir Bryan Kaplan og David Friedman sem báðir eru hallir undir anarkó-kapítalismann eru með heimasíður, þar sem þeir reifa helstu hugmyndir sínar um fræðileg málefni. Síða Kaplans er með mjög gott yfirlit um anarkisma og (meintar) rætur anarkó-kapítalismans í honum.

Annars er yfrið nóg af efni um anarkisma og frjálslyndisstefnu á netinu. Það er kannski engin tilviljun þar sem að Friedman lítur á netið sem einn mögulegan vettvang þess að koma á anarkó-kapítalísku samfélagi, kallar það „crypto-anarchy“ (Friedman, D. D., 1998) og anarkistarnir sjá netið sem anarkíska birtingarmynd frjáls vettvangs þar sem allskyns hugmyndir fá að flæða um óhindrað (Elkin, G., Flood, A., McKay, I., Neal, D. et al., 1998).

Anarkismi

Anarkisminn er tærasta birtingarmynd einstaklingshyggju í pólitískri hugmyndafræði.

Rætur anarkismans liggja í þeim efnahagslegu aðstæðum sem urðu til í kjölfar iðnbyltingarinnar miklu í Evrópu á 18. öld. Hún leiddi til aukins skrifræðis og stjórnkerfi yfir mönnum varð að ópersónulegu bákni. Fólkið sem var undir þessu kerfi hvarf sem skapandi einstaklingar og urðu að sauðsvörtum almúga sem seldur var undir almenn lög og reglugerðir sem gerðu ekki ráð fyrir einstaklingsbundinni og skapandi hugsun (Baradat, L. P., 1993).

Anarkisminn hefur verið heldur misskilin hugmyndastefna. Flestir samsama hann ofbeldi og upplausn af ýmsu tagi. Fræðilegir anarkistar gera aftur á móti skýran greinarmun á „chaos“ (glundroða) og „anarchy“ (stjórnleysi). Í þeirra augum ríkir glundroði og upplausn í heiminum í dag vegna þess að „stjórnleysi“ er ekki til staðar. Ef því yrði komið á þá myndi samhljómur og regla á meðal manna komast á (Baradat, L. P., 1993).

Það eru nefnilega hin ýmsu stjórnkerfi yfir mönnum sem eru helsti þröskuldurinn fyrir farsælu og þroskandi lífi skvt. anarkismanum og vilja fylgismenn hans að þau hverfi að hluta til eða þá algerlega (Baradat, L. P., 1993).

Enginn hefur rétt til þess að skipta sér af okkar lífi, hvorki einstaklingar né stjórnvöld. Við þurfum ekki á stjórnvöldum að halda til að kenna okkur rétta siðlega breytni. Gott uppeldi og virðing fyrir náunganum á að sjá til þess (NN, ártal vantar). Kenning Rousseau um að maðurinn sé í eðli sínu góður liggur því til grundvallar heimspeki anarkista og er anarkisminn í raun einhverskonar „rökrétt niðurstaða“ hugmyndarinnar sem spratt upp úr frönsku byltingunni um frelsi til handa öllum mönnum.

Anarkistar trúa því að þættir eins og efnahagslegt misrétti valdi því að fólk er knúið gegn vilja sínum til þess að rjúfa hin félagslega samhljóm með glæpum og svikaplottum. Í samfélagi þar sem þörfum allra er fullnægt, efnislegum sem andlegum, sé ekki þörf á ofbeldi og ránum (NN, ártal vantar).

Anarkistar eru því á móti hverskyns efnislegri auðsöfnun og gerviþörfum og kjósa þá heldur einfaldan lífsstíl þar sem mannkostir hvers og eins fái að njóta sín til fulls án nokkurra hafta frá einum né neinum.

Anarkisminn leggur til að samfélögum manna sé skipt upp í litlar „kommúnur“ sem hafi algert sjálfræði. Þar myndu einhverjir aðilar sjá um stjórn ákveðinna mála en sú stjórn hefur ekkert með vald að gera heldur einungis „að málum sé háttað á hina skynsamlegasta máta“. Sem sagt reglur en ekki lög (NN, ártal vantar).

Anarkisminn er í eðli sínu öfgastefna og hefur skýr hugmynd um algert frelsi einstaklingsins til lífs og athafna verið mörgum heillandi og hafa þeir tekið upp lífshætti skvt. hugmyndum anarkismans og reynt að raungera þær með ýmsum ráðum.

Dæmi um þetta væri væri Crass-flokkurinn sem varð til í Englandi í lok áttunda áratugarins er pönktónlistin var í algleymi. Hann notaði ýmis ráð (öll friðsamleg) til að breiða út boðskap anarkismans.

Helsta vandamál anarkismans sem hugmyndastefnu virðist liggja í þeirri þversögn að hún vill koma á fullkomnum  samhljómi  í samfélaginu um leið og gerð er krafa um algert einstaklingsfrelsi. Þetta atriði er vafalaust ein ástæða þeirrar rimmu sem fjallað verður um hér á eftir.

2. Helstu stefnur innan anarkismans

Nú ætla ég rétt að tipla á helstu tilbrigðum anarkismans og einnig að lýsa í stuttu máli hugmyndum helstu fræðimanna hans.

Samkvæmt upprunalegum hugmyndum anarkismans þá er hann í eðli sínu til vinstri á hinum pólitíska kvarða, þó að flestir anarkistar væru á móti því að stefnan sé sett í einhvern flokk.

Anarkisminn á rætur sínar í sósíalisma 19. aldar og lengi vel var rætt um helstu kyndlabera anarkismans sem róttæka sósíalista. Hinn hugmyndafræðilegi munur á þessum tveimur stefnum felst í því að anarkistar gátu ekki sætt sig við þá tilætlun marxista að nota ríkið til að koma á byltingu. Þó að skvt. kenningu Marx og Engels myndi ríkið gufa upp eftir að verkalýðurinn yrði tímabundið við völd þá óttuðust anarkistar að ríkið yrði notað til áframhaldandi kúgunar á þeim sem væru ekki við völdin hvort sem valdahafarnir væru burgeisar eða vel meinandi marxistar. Í þessu sambandi reyndust anarkistarnir líka býsna sannspáir (Stromberg, R.,1994).

Marxismi og anarkismi stefna semsagt báðir að ríkislausu samfélagi en anarkistar vilja að ríkið hverfi strax og í stað þess sé komið á litlum sjálfstjórnarkommúnum (Stromberg, R., 1994).

Svonefndir samfélagslegir eða sósíalískir anarkistar vilja frelsa einstaklinginn frá höftum stjórnkerfisins (ríkisins) svo að hann geti unnið samfélaginu sem heild mestan og bestan veg. Þessi vinstri anarkismi hefur verið kallaður hinn „sanni“ anarkismi og falla flestir fræðimenn hans í þann flokk. Til er afbrigði af anarkisma sem fer langt til hægri í hugmyndafræði sinni og má deila um hvort að það afbrigði geti talist anarkismi (Baradat, L. P., 1993).

Upphaf anarkískrar hugsunar eins og við þekkjum hana í dag má rekja til Gerrard Winstanley (1609-1660). Meginhugmyndir hans voru á þá leið að landeignum skyldi skipt í litlar kommúnur sem stjórnað væri af verkamönnunum sjálfum. Afurðum landsins yrði svo skipt bróðurlega á milli þeirra sem ræktuðu það. Það var einnig skoðun hans að það væru órjúfanleg tengsl á milli einkaeignarréttar og skorts á frelsi (Edwards, P., (ritstj.), 1967).

Hugmyndir William Godwin eru taldar undanfari anarkisma sem sjálfstæðrar hugmyndafræði og flestir fræðimenn setja upphafspunkt anarkisma hjá honum. Hugmyndir hans bera sterkan keim rómantrískrar sýnar frönsku byltingarinnar á getu mannsins til að koma öllu í lag með beitingu hreinnar skynsemi. Að þessu leyti var Godwin á móti byltingu og beinum aðgerðum til að koma á breytingu í samfélaginu. Menn eiga að fylgja eigin skynsemi til þess að meta hvað sé rétt og rangt en ekki utanaðkomandi lögum sem meina manninum að þróast og þroskast.

Godwin var á móti öllu stofnunum, sem og samfélagslegum tengslum sem fela í sér að einn maður ráði yfir öðrum og gekk hann svo langt að nefna starf sinfóníustjórnenda sem dæmi um það síðastnefnda. Hann sá framtíðarskipulag samfélagsins sem laustengt net lítilla kommúna sem myndu einkennast af jafnræði með tilliti til samskipta og skiptingu efnahagslegra þarfa (Edwards, P., (ritstj.), 1967).

Pierre Joseph Proudhon varð fyrstur til þess að kalla sig opinberlega anarkista.

Proudhon lýsti því yfir að eign væri stuldur („property is theft“). Verkamennirnir skapa gildi afurðanna með vinnu sinni og þeir væru síðan sviptir framleiðslu sinni. Verkamennirnir ættu að stofna með sér lítil félög eða samtök („syndicates“) og dreifa afurðunum á sem réttlátastan hátt. Proudhon er því upphafsmaður anarkó-syndíkalisma („anarcho-syndicalism“)  sem náði fótfestu hjá verkalýðsfélögum margra landa í kringum aldamótin, einkum Frakklands.

Proudhon var á móti ofbeldi  til að koma breytingunum á. Verkamennirnir ættu að koma þeim á með friðsamlegri umbreytingu á kerfinu með því að leiða ríkið og starfsemi þess hjá sér og stofna með sér áðurnefnd samtök (Baradat, L. P., 1993).

Einn þekktasti anarkistinn er án efa Mikhail Bakunin en hann er talinn vera upphafsmaður róttæks anarkisma sem einkennist af ofbeldi og beinum aðgerðum til að koma á breytingum. Þessi tegund anarkisma hefur valdið því að fólk hefur verið tortryggið í garð stefnunnar og finnst hún vera tæki til að koma á glundroða og örvilnun. Hugmyndafræði Bakunins hefur verið kölluð „collectivism“ eða samráðshyggja og snýst í stuttu máli um það að verkamennirnir eiga að vinna saman að falli ríkisins (Baradat, L. P., 1993).

Sú stefna Bakunins að taka upp beinar aðgerðir fékk snemma hljómgrunn. Þeir sem framfylgdu þessari stefnu hófu að sprengja allt og alla í loft upp. Öllum táknum ríkisvaldsins svo sem opinberum byggingum var reynt að gereyða og gerðar voru tilraunir til að koma fulltrúum þess fyrir kattarnef og endaði erfingi Austuríkis-Ungverjalands lífið vegna þessa og var fyrri heimsstyrjöldinni þar með hleypt af stokkunum (Baradat, L. P., 1993).

Engir gengu eins langt í þessum hryðjuverkum og hinir rússnesku níhilistar (virkir á milli 1860 og 1880). Að mati þeirra yrðu umbætur bara mögulegar ef ríkinu yrði eytt bókstaflega. Eyðing samfélagsins var eini uppbyggilegi hluturinn í stöðunni. Níhilistinn Sergei Nechayev kemst að kjarna heimspeki þessarar „undirgreinar“ anarkismans með eftirfarandi setningu: „Við verðum að helga okkur algerlega eyðileggingu, stöðugt, látlaust, linnulaust, þar til að allar stofnanir eru á bak og burt fyrir fullt og allt“ (Baradat, L. P., 1993, bls. 136).

Prinsinn Kropotkin var undir sterkum áhrifum frá Bakunin þó að hann sneri síðar á lífsleiðinni frá því að ofbeldisfullar aðgerðir væru leiðin til breytinga. Hann trúði því að ríkið eyðileggði hið samfélagslega eðli manna og sneri þeim gegn hvor öðrum í stað þess að þeir myndu nýta skynsemi sitt og vit til að vinna saman að farsælli samfélagsgerð (Baradat, L. P., 1993).

Rithöfundurinn Leo Tolstoy boðaði kristilegan anarkisma án ofbeldis. Hann vissi að það myndi taka langan tíma að koma á samfélagi án stjórnkerfis þar sem að hugsun manna þyrfti að taka gagngerum breytingum og það myndi ekki gerast á einni nóttu. Hann er því heimspekilegur anarkisti eða „friðvænlegur“ („pacifist“)  anarkisti (Stromberg, R., 1994).

Snúum okkur næst að einstaklingshyggju-anarkismanum eða „individualist-anarchism“. Kenning Max Stirner boðar afnám yfirráða til þess að einstaklingurinn nái sem mestum lífsgæðum sjálfum sér til handa án tillits til þeirra sem í kringum hann standa. Stirner hafnaði ríkinu og samfélaginu og lagði upp með þá skoðun sína að eini raunveruleikinn væri maðurinn sjálfur (þessi stefna hefur einnig verið kölluð Egóismi, Individualistismi) og sá hann tilveruna fyrir sér sem samtök einstaklinga sem bæru gagnkvæma virðingu fyrir hvor öðrum sem „einstökum“ einstaklingum. En þar sem að hið eina raunverulega fyrir manninn er hann sjálfur þá ber hann hvorki ábyrgð né skyldur gagnvart neinu nema sjálfum sér (Stromberg, R.,1994).

Sjálfur Kropotkin fjallar um ögn mildari útgáfu af þessari tegund anarkisma í „Encyclopædia Britannica“, útgáfu frá 1910. Sá anarkismi er kenndur við Bandaríkjamanninn Benjamin Tucker (1854-1939) og er hann undir sterkum áhrifum frá Proudhon. Tucker samþætti hugmyndir Herberts Spencers og Proudhons og taldi að hver maður hefði rétt til að gera eins og honum sýndist. Hann taldi enga hættu vera á því að ójafnrétti myndi skapast af þessu, þar sem að þessi réttur einstaklingsins yrði  tempraðaður niður af samborgurum hans sem hefðu að sjálfsögðu sama rétt. Það kæmist því eðlilegt jafnvægi á ef þessi hugmynd kæmi til framkvæmdar (Chisholm, H., (ritstj.), 1910).

Tucker hafnaði ofbeldi sem leið til að koma á anarkísku samfélagi og vildi frekar að farin yrði sú leið að fólk myndi neita að hlýða yfirboðurum sínum. Hann hafnaði og efnahagslegum kommúnisma og vildi að hver maður ætti að geta haft stjórn á sínum afurðum vinnu sinnar (Edwards, P. (ritstj.), 1967).

Anarkó-kapítalistar hafa m.a. notað þessa hugmynd Tucker til þess að réttlæta nafnbót stefnu sinnar.

Einstaklings-anarkisminn virðist vera á skjön við samfélagslegar rætur anarkismans og því vafamál hvort að það eigi telja þessa hugmyndafræði sem anarkisma. Fræðimenn virðast stundum taka hugmyndir úr stefnum sem þeim líst vel á og móta síðan nýja hugmyndafræði sem getur stangast á við grunheimspeki upprunalegu stefnunnar þó að þessir ákveðnu fræðimenn trúi því að þeir séu að vinna innan þeirrar stefnu. Þetta gæti átt við þá kapítalista sem segjast vera anarkistar.

Margar stefnur þrífast í dag innan anarkismans t.d. feminískur anarkismi, „grænn“ anarkismi og  menningarlegur anarkismi. Síðan er það spurningin um anarkískan kapítalisma, en eins og komið hefur fram er hart deilt um tilveru hans óhindrað (Elkin, G., Flood, A., McKay, I., Neal, D. et al., 1998).

3. Anarkó-kapítalismi

Í umfjölluninni hér að ofan er anarkisma skipt í tvennt þ.e. samfélagslegan anarkisma (sósíalískan) og einstaklingshyggju-anarkisma. Munurinn á þessum tveimur stefnum liggur í mismunandi skoðunum þeirra á  því hvers vegna það eigi afnema yfirráð. Sú fyrri vill ríkið burt samfélagsins vegna en sú síðari einstaklingsins vegna.

Bryan Kaplan, hagfræðiprófessor og boðberi anarkísks-kapítalisma gerir eftirfarandi greinarmun á anarkisma. Hann skiptir honum annars vegar í samfélagslegan anarkisma líkt og þann sem nefndur er hér að ofan, þar sem að einstaklingbundnu eignarhaldi er hafnað og jafnræði á milli allra er boðað.

Síðan nefnir hann anarkó-kapítalisma. Þar er áhersla lögð á einkaeignarréttinn og að einkarekin fyrirtæki verði ráðandi í efnahagskerfi anarkísks samfélags. Ójafnrétti og misskipting eigna og auðs er eðlileg útkoma hins algera frelsis öllum mönnum til handa (Kaplan, B., 1998).

Meginmunurinn á þessum tveimur greinum anarkisma skvt. Kaplan liggur í því hvernig fara á með eignarhald.

Við skulum líta á tengsl anarkó-kapítalisma og einstaklingshyggju-anarkisma. Óneitanlega er viss samhljómur með þeim einstaklings-anarkisma sem Stirner boðar. Stirner er þó mun heimspekilegri og eru hans hugmyndir runnar úr Hegelskum pælingum um andann frekar en úr einhverjum praktískum hugrenningum um hvernig samfélagið eigi að vera (Stromberg, R., 1994).

Hugmynd anarkó-kapítalismans um eðlilegt ójafnrétti og misskiptingu auðs er þó greinilega runnin undan þeim forsendum Stirners að maðurinn eigi að nota frelsið til að rækta sjálfan sig óháð meðbræðrum sínum.

Anarkó-kapítalisminn réttlætir sig þó mest sem anarkíska hugmyndafræði með tilvísun í einstaklingshyggju-anarkisma þann sem Tucker boðar. Hann talaði um getu hins frjálsa markaðs til að koma á stofnunum til að lögvernda borgara og hann hafði sýn um anarkisma byggðan á séreignarrrétti (Kaplan, B., 1998).

Frjálslyndisstefna  sú sem gat anarkó-kapítalisma er kölluð „minarchist“ frjálslyndistefna („minarchist“ = sama og engin yfirráð), kennd við Robert Nozick. Hún boðar að ríkisstjórnir eigi að takmarka við stofnanir sem vernda einkaeignarrétt einstaklinga undan ofbeldi og ólögum. Þetta væru hlutir eins og lögregla og dómstólar. Þessu mótmæla anarkó-kapítalistar og vilja að þessar stofnanir séu einnig settar á hinn frjálsa markað (Kaplan, B., 1998).

David Friedman, sonur hagfræðingsins Milton Friedman, er einn helsti og öflugasti talsmaður þessa svo og anarkó-kapítalisma. Friedman vill að allar stofnanir samfélagsins verði einkavæddar og er sannfærður um að það sé eina leiðin til þess að samfélagið virki sem best. Til að sýna fram á að svoleiðis samfélag geti virkað í raunveruleikanum hefur hann ritað pistil um  goðaveldi Íslendinga. (Friedman, D. D., 1998).

Ef lögreglustarfssemi kæmist á frjálsan markað myndi hún sýna árangur í starfi sem aldrei fyrr að mati Friedman. Hinn ósýnilega markaðshönd Adams Smith sæi til þess að allt væri í jafnvægi . Smith er í hávegum hafður hjá anarkó-kapítalistum ásamt öðrum klassískum 19. aldar þjóðhagfræðingum. Þeir hagfræðingar nútímans sem kalla sig frjálslynda eru einfaldlega of linir í sinni afstöðu segja Friedman og félagar (Kaplan, B., 1998).

4. Gagnrýni á anarkó-kapítalisma

Þessi gagnrýni er fengin úr „An Anarchist FAQ Webpage“ (Elkin, G., Flood, A., McKay, I., Neal, D. et al., 1998) sem er gífurlega yfirgripsmikil síða á internetinu um allt er tengist anarkisma. Hún var upprunalega sett á laggirnar í þeim eina tilgangi að mótmæla hugmyndinni um anarkó-kapítalisma. Hún er mjög svo fræðileg og akademísk þó það segi reyndar í inngangsorðum hennar að markmið hennar sé að kynna hvað anarkismi standi raunverulega fyrir og benda á rök fyrir því af hverju þú ættir að gerast anarkisti. Fræðileg áhersla síðunnar liggur í sósíalískum anarkisma. Hún er í umsjón fjögurra anarkískra hugsjónamanna og er hún samstarfsverkefni fjölda fólks víðs vegar um heiminn.

Gagnrýnin er mjög hvöss og eru stóryrðin hvergi til spöruð þar sem að netverjar telja þetta vera baráttu anarkismans við sinn „gamla“ fjanda, þ.e. kapítalismann. Þeir tiltaka að út frá evrópskri hefð sé litið á orðið frjálslyndi („libertarian“) út frá sósíalísku eður kommúnísku sjónarhorni. Í Bandaríkjunum hefur þetta hugtak þó verið tengt hægri stefnu og sumir hægrimenn eru farnir að kalla sig anarkista. Ein afleiðing þess er anarkó-kapítalismi.

Þetta telja hinir „sönnu“ anarkistar vera hið versta orðskrýpi. Þeir segja að þó að boðberar anarkó-kapítalisma þykist vinna innan anda anarkismans með því að nota orðið „anarkó-“ þá séu hugmyndir þeirra engu að síður í mótsögn við hugmyndir og eðli anarkismans. Meginvillan hjá anarkó-kapítalistum felst í að líta svo á að hugmyndafræði anarkismans gangi einungis út á að mótmæla hvers kyns yfirráðum yfir mönnum. Þeir líti þar með framhjá því að anarkisminn mótmælir einnig hverskyns ójöfnuði og einkaeignarrétti og sé þess vegna í eðli sínu and-kapítalískur. Orðið „anarkó-kapítalismi“ er því alger þversögn.

Anarkó-kapítalistar hafa vísað í hugmyndir einstaklingshyggju-anarkista eins og Benjamin Tucker máli sínu til stuðnings en anarkistar mótmæla og segja að sá meiður anarkismans sé alveg jafn and-kapítalískur og sósíalíski/samfélagslegi anarkisminn.

Umjónarmenn áðurnefndrar vefsíðu útskýra greinarmuninn á einstaklingshyggju-anarkisma og sósíalískum anarkisma út frá efnahagslegum forsendum. Þeir segja að margar hugmyndir einstaklingshyggjumanna séu góðar en sósíalíski anarkisminn henti betur nútíma samfélagi ef að alger jöfnuður  á að geta komist á meðal borgaranna. Einstaklingshyggjan býr nefnilega yfir þáttum sem geta leyst kapítalísk öfl óforvandis úr læðingi ef illa er haldið á spöðunum.

Einstaklingshyggjusinnar vilja hafa markaðsbundið efnahagskerfi en sósíalískir-anarkistar vilja hafa notkunarbundið efnahagskerfi sem þýðir að allir eiga hlutina, enginn einn getur gert tilkall til þeirra.

Báðar stefnurnar eru sammála um að notkunarréttur hluta eigi að koma í staðinn fyrir eignarrétt en einstaklingshyggju-anarkistar hafna því að undir þennan rétt falli afurð verkamannsins. Auk þess viðurkenna þeir rétt fólks til að selja aðgang að gæðum sem það notar til framleiðslu eins og til dæmis akurlendi, ef það myndi kjósa svo. Ef hluti akurlendisins væri ekki í notkun þá væri hverjum sem er frjálst að nota það.

Þessi hugmynd er hluti af undirgrein anarkisma, svonefndri gagnkvæmishyggju („mutualism“) sem Proudhon þróaði. Þessi samhjálp á milli verkamanna átti að stuðla að endalokum kapítalísks arðráns.

Einstaklingshyggju-anarkistar óttast að þeir missi frelsi sitt til að skipta við hvorn annan er þeim hentar á kostnað þess að vera neyddir í einhverskonar bindandi verkamannasamtök sem þeir komast ekki undan.

Sósíalískir anarkistar viðurkenna fúslega í þessu sambandi að hver eintaklingur hafi frelsi til að velja hvort hann starfi einn eða með öðrum. Samvinna og samráð verði vegna aðstæðna en ekki vegna skipana að ofan. Fólk hefur því fullt leyfi til að vinna í friði og skipta við aðra eins og þeim sýnist og er ekkert kapítalískt við það.

En ef reynt er að gera eignarkröfu í nafni frelsis í þeim tilgangi að arðræna aðra þá mótmæla sósíalískir anarkistar hástöfum. Þetta væri tilraun til að koma á yfirráðum í nafni frelsisins. Því að arðrán þýðir að sumum safnast meira fé en öðrum. Það veldur svo því að sumir fá meira vald en aðrir í krafti auðsins. Vald yfir auðlegð og gæðum getur leitt af sér að vald yfir öðru fólki. Það þýðir að sumt fólk missir frelsi sitt.

Sósíalískir anarkistar benda og á að sú hugmynd að fólk megi selja aðgang að framleiðsluvettvangi geti leitt af sér að einkaeignarrétturinn komist á í anarkísku samfélagi sem leiðir óhjákvæmilega til þess að einhverskonar valdaþrep byrja að myndast.

Einnig benda þeir á að hinn frjálsi markaður geti óhjákvæmilega af sér volduga aðila innan hans sem hefta frelsi annara til að komast inn á þennan markað.

Það er vegna þessa sem sem anarkistar segja að anarkó-kapítalismi gangi ekki upp þar sem að anarkisminn boðar algert frelsi og enginn yfiráð en kapítalisminn leiðir einmitt óhjákvæmilega af sér miskiptingu frelsis ásamt yfiráðum í krafti auðlegðar.

Lokaorð

Ég er sammála því að ef saga og hugmyndafræði anarkismans er skoðuð þá er ekki hægt að tala um anarkó-kapítalisma frekar en hægt er að tala um öfgasinnaða jafnaðarmenn. Það ætti frekar að kalla þessa kapítalísku hugmyndafræði öfga-kapítalisma (extreme capitalism) eða frjálslyndan kapítalisma (libertarian capitalism). „Anarkó“ forskeytið er þversögn.

Orðabókarmerking orðsins „anarcho“ myndi ganga upp sem lýsing á öfga-kapítalisma Friedmans. Orðið „anarchy“ er upprunnið úr grísku, „an archos“ sem þýðir „engin ríkisstjórn“.

Merking orðsins í pólitísku tilliti er gildishlaðið líkt og orðið kapítalismi. Orðið kapítalismi þýðir bókstaflega „auðvaldshyggja“ en er fyrir löngu orðið tákn fyrir svo miklu fleiri hluti. Það er því er ekki skrýtið að allt hafi orðið vitlaust í röðum anarkista eins og raunin hefur orðið þegar erkióvinurinn eins og þeir vilja meina, ætlar að gera tilkall til hugmyndafræði þeirra.

En það er í raun ekki undarlegt að þessi staða sé orðin að veruleika ef við skoðum eðli anarkismans. Eins og ýjað hefur verið að virðist anarkisminn eiga létt með að sveiflast á milli öfga til vinstri og hægri líkt og vinstri/hægri ásinn sé orðinn hringur og að örþunn lína skilji að vinstri öfgar og hægri öfgar.

Við skulum skoða hvernig hægt er að færa sig úr stefnu sem boðar að allir séu jafnir og beri virðingu fyrir einstaklingsbundnum hæfileikum hvors annars yfir í stefnu sem boðar ræktun á hæfileikum og færni einstaklinga óháð meðbræðrum sem geti óhjákvæmilega af sér ójöfnuð:

1. William Godwin leggur upp með frumdrög að anarkískri hugsun í lok 18. aldar sem einkennist af rómantískri trú á að maðurinn geti með skynsemi sinni greint rétt frá röngu og að það muni leiða til jöfnuðar í samfélaginu þar sem gagnkvæm virðing á milli manna ræður ríkjum.

2. Proudhon, oft kallaður faðir anarkismans og fyrstur til að kalla sig slíkan á prenti, þróar anarkisma sem leggur hið samfélagslega eðli mannsins til grundvallar. Menn eigi að vinna saman að uppgangi samfélagsins og gæta þess að afurðir vinnunnar séu innan vébanda þeirra sem skapi þær.

3. Hugmyndir Proudhons um vinnuna, en þó einkum hugmyndir hans um anarkískt skipulag bankakerfisins  fá hljómgrunn í Bandaríkjunum, m.a. fyrir tilstilli Benjamin Tucker. Margir af þessum Bandarísku Proudhonistum segja síðar skilið við anarkíska hugmyndafræði þegar þeir missa trúna á að eintaklingar geti komið anarkískum samfélagsbreytingum á. Þeir finna hugmyndum sínum farveg í frjálslyndri einstaklingshyggju líkt og þeirri sem boðuð var af klassísku hagfræðingunum (Chisholm H., (ritstj.), 1910). Úr þessum farvegi koma síðar mjög svo frjálslyndir fræðimenn eins og Robert Nozick (Kaplan, B., 1998).

4. Upphefst nú hin mesta hringavitleysa varðandi merkingu orðsins frjálslyndur eða „liberal“ og sósíalískir anarkistar í Evrópu og frjálslyndir markaðshyggjumenn í Bandaríkjunum nota það jöfnum höndum í mismunandi merkingu. Að lokum taka nokkrir af þessum frjálslyndu hagfræðingum sem voru hvað öfgafullastir í afstöðu sinni af skarið og lýsa því yfir að fræðilegt sjónarhorn þeirra sé í eðli sínu anarkískt. Þar með er anarkó-kapítalisminn orðinn að veruleika (Kaplan, B., 1998).

David Friedman, anarkó-kapítalisti númer eitt, fjallar um þá stefnu í bók sinni „The Machineries of Freedom- a Guide to Radical Capitalism“ (Friedman, D. D., 1998). Það hefði kannski verið réttast að kalla anarkó-kapítalismann „radical-kapítalisma“ (róttækur kapítalismi) í stað þess að vera hætta sér yfir í garð anarkistana því þangað finnst mér Friedman og fylgismenn hans eiga harla lítið erindi. Það hefði og sparað mikið af (óþarfa) púðri.

Heimildir

Baradat, L. P. (1993). Political Ideologies : Their Origins and Impact (5th ed). New Jersey: PrenticeHall.

Chisholm, H. (ritstj.) (1910). The Encyclopædia Britannica (Eleventh edition). Cambridge: Cambridge University Press.

Edwards, P. (ritstj.) (1967).  Encyclopedia of Philosophy. New York: Macmillan.

Elkin, G., Flood, A., McKay, I., Neal, D. et al. (1998). An Anarchist FAQ Webpage (Version 7.1 ) (síðast uppfært 14. apríl 1998). Internet. Slóð: http://www.geocities.com/CapitolHill/1931/

Friedman, D.D. (1998). David D. Friedman's Home Page. Internet. Slóð: http://www.best.com/~ddfr/

Kaplan, B. (1998). Anarchist Theory FAQ Version 5.2 (síðast uppfært 25. september 1997).   Internet. Slóð: http://www.gmu.edu/departments/economics/bcaplan/anarfaq.htm

NN (ártal vantar). The Alternative to Government: Anarchism.  Birt í ljósrituðu hefti: Hugmyndasaga 19 og 20 aldar (Ljósritað efni). Safnað hefur Vilhjálmur Árnason. Vormisseri 1998. Háskóli Íslands. Heimspekiskor.

Stromberg, R. N. (1994). European Intellectual History since 1789 (Sixth Edition). New Jersey: Prentice Hall.

Til baka í greinar