Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

SMÁBORGARINN 

  Almenningsálitið er smáborgurunum mikils virði. Þau lifa hjarðlífi og vita af því. Þau eru hjörð hræddra dýra og geta snúist gegn hverjum þeim sem er ekki hluti af hjörðinni. Þau skjálfa af ótta við tilhugsunina um hvað nágrönnunum gæti fundist um hvernig sonurinn lét klippa sig. Þau velta fyrir sér hvernig hægt sé að vera enn venjulegri en vinir þeirra og vinnufélagar. Þau dirfast ekki að slá garðinn nema á réttum tíma og vanda sig sérstaklega þegar kæruleysislegur klæðaburður er viðeigandi. Þau vantreysta hverju því sem gerir sig líklegt til að brjóta upp rútínuna. Ást og girnd eru fyrir þeim sjúkdómar, rétt eins og allar aðrar hvatir sem gætu leitt til útskúfunar frá hjörðinni. Þær hvatir eiga einungis við framhjáhald og strippstaði og mega ekki á nokkurn hátt menga lífsstíl hinna. Það má vera „flippaður“ þegar boltinn er í sjónvarpinu, það má drekka sig blindfullan um helgar og leigja dónamyndir í laumi en aldrei, aldrei láta sjá til sín dansandi, hlaupandi eða í asnalegum stellingum á almannafæri. Aldrei má láta óviðeigandi tilfinningar hlaupa með sig í gönur í kaffistofunni eða við kvöldverðarborðið. Ekki undir nokkrum kringumstæðum viðurkenna að maður vilji fá eitthvað annað og meira út úr lífinu en „allir aðrir“ (hverjir svo sem það nú eru).

  Þetta verða börnin auðvitað að læra líka. Það má ekki gera neitt sem passar ekki inn í hegðunarmynstur hópsins, sama hvort hópurinn er gagnfræðaskólakrakkar eða róttæklingar, enginn má láta misskiljast hver félagsleg staða hans er og því ekki gefa röng skilaboð. Ekki dansa þegar maður á að standa, ekki tala þegar maður á að dansa, hreyfingarmynstur verða að vera á hreinu. Hafa í huga að það krefst sæmilegra fjárráða að vera með. Maður þarf að vera með á hreinu hvaða menningarkimum, stjórnmálum og tískusveiflum maður vill tilheyra til að halda ímyndinni. Enginn vill hætta ímynd sinni. Hún er persónuleikabrynja og kemur í veg fyrir að einstaklingum sé slátrað af vinum sínum. Ef maður leggur ekki línurnar fyrir ímyndina utan um sjálfið leysist maður upp og feykist út í tómið… 

KYNSLÓÐABILIР

  Eldri kynslóð smáborgara hefur ekkert að gefa þeirri yngri því yfirhöfuð hafa þau ekkert sem þau geta kallað „sitt eigið“ til að gefa af. Öll viðmið þeirra eru hjómið eitt, ríkidæmi þeirra er byggt á ánauð bankanna og ekkert af því sem þeim finnst mikilvægt vísar til raunverulegrar hamingju eða fullnægju. Börn þeirra skynja þetta og standa gegn þessu svo lengi sem þau komast upp með það. Þau sem gera það ekki er þegar búið að berja til hlýðni.

  Smáborgarasamfélagið hefur samt komist af gegnum margar kynslóðir með því að greina uppreisn barnanna sem hluta af eðlilegu lífsmynstri. Þar sem hvert barn gerir uppreisn um leið og það er nógu gamalt til að hafa einhverja eigin sjálfsmynd, þá er þessi uppreisn sett fram sem óhjákvæmilegur hluti af unglingsárunum. Þannig er það bara barnaskapur þegar fólk heldur uppreisninni áfram þegar það fullorðnast. Það má benda á að í öðrum menningarhópum þekkist ekki „æskulýðsuppreisn“ sem slík né þykir vera „náttúrulegt ferli.“

  Þessi látlausi mótþrói ungdómsins leiðir til þess að stórt gap er milli kynslóða smáborgarans en þetta gap er jafnframt mikilvægt til að viðhalda tilveru smáborgarans sem slíkri. Þar sem þau fullorðnu verða alltaf í hlutverki fulltrúa þess sem má ekki hrófla við og unglingarnir eru ekki enn farin að sjá að þeirra uppreisn hefur verið innlimuð í hið óhreyfanlega, gerir kynslóð eftir kynslóð þau mistök að halda sjálfa eldri kynslóðina vera uppsprettu þessa leiðindalífs í stað þess að átta sig á að ömurleiki daglega lífsins er afleiðing miklu stærra eymdarkerfis. Þau vaxa úr grasi og verða sjálf að smáborgurum, blind á þá staðreynd að þau eru að taka við hlutverki fyrrum óvina sinna og eru enn ófær um að brúa kynslóðabilið til að læra af einstaklingum sem tilheyra öðrum aldurshópum … hvað þá að þau geti byggt upp einhverskonar sameinaða andspyrnu með þeim. Þannig að allar kynslóðir smáborgara líta út fyrir að standa í illdeilum en sem hlutar samfélagsvélarinnar, vinna þau í raun saman að því að tryggja fullkomna firringu fyrir alla. 

GOÐSÖGNIN UM RÉTTA HEGÐUN FJÖLDANS 

  Til að réttlæta sinn lífsstíl treystir smáborgarinn á að til sé einhvers konar almenningur sem flest fólk tilheyrir. Hann þarf á þessum ímyndaða fyrirbæri að halda því félagsleg eðlisávísun hans er jafn brengluð og skilgreining hans á lýðræði: Hann heldur að sama hver meirihlutinn er, sama hvað hann vill eða hvað hann gerir, þá hljóti það að vera rétt. Honum finnst ekkert skelfilegra en sú þróun sem hann er farinn að finna mikið fyrir; að það sé enginn meirihluti lengur, ef hann var þá einhvern tímann til.

  Samfélag nútímamanna er svo brotakennt og samsett úr svo mörgum ólíkum þáttum að það er út í hött að tala um „almenning.“ Þetta er goðsögn sem, að hluta til, er tilkomin vegna ópersónuleika stórborgarlífsins. Nær allir sem maður mætir á götu eru ókunnir. Í huganum tengir maður alla þessa nafnlausu einstaklinga við fjöldann sem kenndur er við „almenning“ en við þá einingu fer maður síðan að tengja alla eiginleika sem maður telur þá ókunnu hafa. Þau hljóta að vera hluti af hinum þögla meirihluta, þessu ósýnilega afli sem lætur allt vera eins og það er. Maður gerir ráð fyrir að þau séu eins og „venjulega fólkið“ sem maður sér í sjónvarpsauglýsingunum. En auðvitað er staðreyndin sú að til að öllum líði eins og eitthvað vanti upp á líf sitt, þá vísa þessar auglýsingar til ímyndar sem enginn mun nokkurn tímann ná fullkomlega. „Almenningur“ er sambærilegur við þessa ímynd. Hann heldur öllum á mottunni án þess að nokkurn tímann sýna sig og hann er álíka raunverulegur og hin fullkomna fjölskylda tannkremsauglýsinganna.

  Enginn hefur meiri áhyggjur af þessari fjöldaeiningu (sem er ekki til) en uppreisnargjörn afkvæmi smáborgaranna. Þau nöldra yfir því hvernig þau geti skipulagt mótmælin sín þannig að þau nái til „fjöldans,“ rétt eins og það sé til einhver ákveðinn „fjöldi“ sem þarf að höfða til. Samfélagið sem þau eru hluti af er samsett af fjölda annara samfélaga og það er bara spurning um hvert þeirra þau vilja nálgast. Hugmyndir þeirra um „réttan“ klæðaburð og tungutak er heldur ekki besta leiðin til að höfða til þeirra hluta af samfélagsinu sem róttækar hugmyndir gætu höfðað til. Sá „fjöldi“ sem flest þeirra vilja dressa sig up fyrir á pólitískum uppákomum, á sér uppsprettu í smáborgarahugsýn foreldra þeirra og situr djúpt í sálinni. Hún er táknræn fyrir öryggisleysið og sektarkenndina sem þau komust aldrei yfir sem unglingar. Það færi betur á að þau losuðu sig undan oki smáborgarans algerlega með því að hreyfa sig, tala og ganga um eins og þau langar sjálf, þótt að einhver gæti séð til þeirra. Ekki síst þegar þau eru að reyna að koma einhverjum ákveðnum málstað á framfæri, því ekkert pólitískt framtak hjá fólki í dulargervi getur verið mikilvægara en að vinna að heimi þar sem fólk þarf ekki að dulbúa sig til að vera tekið alvarlega.

  Félagslegur uppruni er engin afsökun fyrir þá taugatæpu bóhema sem nota sína pólitík til að greina sig frá öðrum í stað þess að tengjast þeim. Þau halda sig þurfa að skilgreina sig á móti einhverjum og örvænta við að halda í einhverja ímynd. Þau þekkjast úr á sjálfumgleðinni og sýndarmennskunni þegar þau lýsa hugmyndafræðinni sem þau tóku upp og oflátungshættinum þegar þau lýsa sjálfum sér sem „aðgerðafólki“ við öll tækifæri. Pólitískar „aðgerðir“ eru sérstaða þeirra og „sérstaða“ er lykilorðið … meðan það breytist ekki mun heimurinn ekki breytast. 

HJÓNABAND OG AÐRAR BREYTUR FYRIR KÆRLEIK OG SAMFÉLAG 

  Að fjölga sér er mikið mál fyrir konur og karla smáborgarans. Þau geta einungis átt börn við mjög sérstakar aðstæður, allt annað er „óábyrgt,“ „óráðlegt“og „óhentugt uppá framtíðarplön að gera.“ Til að eignast börn verða þau að vera reiðubúin að gefa eftir hvern vott af því eigingjarna frelsi sem einkenndi æskuárin. Eignarhald vinnumarkaðarins á tíma þeirra og samkeppni lífsgæðakapphlaupsins hefur eyðilagt það félagslega kerfi sem áður fyrr dreifði ábyrgðinni við barnauppeldi. Hver fjölskyldueining er lítil herstöð, lokuð og læst gagnvart umheiminum og hver eining er tilfinningalega einangruð auðn. Móðir og faðir verða að gefa sjálf sitt eftir til að ganga inn í hlutverk uppalanda og fyrirvinnu. Í heimi smáborgarans er engin önnur leið til að sjá fyrir barni. Þannig hefur frjósemi smáborgaraparsins verið snúið gegn frelsi þeirra og náttúrulegum hluta mannlífsins er búið að breyta í félagslegt stýritæki.

Hjónabandið og kjarnafjölskyldan eru afleiðingar þessarar hörmungar, til mikillar ógæfu fyrir allt fólkið sem annars gæti verið elskendur. Ævintýrakonan sem varðveitir sjálfstæði sitt um leið og hún heldur girnd sinni og kynferðislegum áhuga ferskum, veit vel að ást og kynhvöt geta ekki lifað af þegar flett er ofan af þeim, sérstaklega ekki við jafn þurrlegar aðstæður og flest gift fólk lifir við. Eiginmaðurinn horfir á einu ástkonuna sem honum leyfist að njóta og þá einungis að kvöldi dags þegar öll önnur kúgunaröfl hversdagsins eru búin að keyra hann út og pirra hann. Eiginkonan lærir að loka á og refsa sér fyrir „óraunsæja“ og „óþarfa“ þrá eftir rómantík og óvæntum uppákomum. Þau lifa saman í ófullnægðu helvíti. Það sem þau þurfa á að halda, er raunverulegt samfélag svo að foreldrahlutverkið hætti að vera óþægileg „ábyrgð“ og þau geti upplifað þau ævintýri sem þarf til að þau geti áfram notið þess að vera saman í stað þess að týna hvoru öðru.  

  Þeim líður ekkert betur þó að þau hafi stöðugan aðgang að mat,  afþreyingu og þægindum. Eins og allir puttaferðalangar, allar hetjur og hryðjuverkamenn vita, þá hafa þessir hlutir gildi einungis þegar þeir eru ekki til staðar. Þessara hluta er virkilega hægt að njóta þegar maður rambar á þá í leit að einhverju merkilegra. Stöðugur aðgangur að munaði gerir hvern mann daufan gagnvart þeim gæðum sem felast í þeim. Smáborgarinn er búinn að gefa upp leitina að raunverulegri spennu í lífinu því honum hefur verið lofað þessu öryggi. En ef hann leggur ekki eitthvað undir í lífinu þá gefur öryggið ekkert meira en félagsskap hinna fanganna. 

GLEÐI HLUTVERKALEIKSINS 

  Með því að kveikja á sjónvarpi eða fara í bíó er hægt að fá snögga yfirsýn yfir þær langanir smáborgarans sem hann fær ekki útrás fyrir. Hann eyðir eins miklum tíma og hann getur við þessar útgáfur sýndarveruleika því eðlisávísun hans segir honum að þær geti boðið honum upp á meiri spennu og ánægju en líf hans sjálfs. Það sorglegasta er samt að ef hann breytir ekki lífi sínu, þá er næsta víst að þetta sé alveg satt. Haldi hann áfram að heimfæra langanir sínar uppá afþreyingarmarkaðinn og borga fyrir eftirlíkingu af þeim, mun hann áfram vera fastur í hlutverki.

  Draumar hans koma samt ekki alltaf fallega út í lit og hljóði. Þeir eru jafn sýktir af valdafíkn og stjórnun og samfélag hans er. Það næsta sem hann kemst því að tjá langanir sínar blátt áfram er fantasían um hina algeru eyðileggingu sem birtist aftur og aftur í brjálaðasta bíódraumnum. Það er þó ekki alvitlaust. Þegar öllu er á botninn hvolft, er nokkuð annað að gera en að eyðileggja þegar heimurinn er samsettur úr verslanamiðstöðvum og skemmtigörðum?

  Smáborgarinn er ekki fær um að sjá langanir sínar sem neitt annað en veikleika sem beri að ýta burt með lyfjum eða lyfleysum, því líf hans hefur aldrei snúist um að finna hamingjuna. Á kostnað alls annars er hann búinn að eyða nokkur hundruð árum í að hækka alla staðla um lífsafkomu. Nú í kvöld situr hann í stofunni, umkringdur tölvum, heimabíói, dósaopnurum, tilbúnum mat og farsímum og hefur ekki hugmynd um hvað er að.

  Aðeins með því að horfa beint fram á veginn tekst smáborgaranum að komast hjá því að ímynda sér að engin önnur leið sé möguleg til að lifa. Hann heldur að allir í heiminum myndu vilja vera smáborgarar, allt frá bláfátækum innflytjendum til munka í Tíbet, ef þeir bara hefðu efni á því. Hann böðlast áfram við að viðhalda þessum tálsýnum, án þeirra yrði hann að horfast í augu við þá staðreynd að hann er búinn að brenna upp lífi sínu fyrir ekki neitt.

  Smáborgarinn er ekki einstaklingur, hann er ekki raunveruleg persóna. Hann er meinvörp innra með öllum sem lesa þetta. En lækningin hefur verið fundin.

 
 

ÞÚ SKALT HEGÐA ÞÉR RÉTT JAFNVEL ÞEGAR ÞÚ HELDUR ENGAN SJÁ TIL ÞÍN, ÞAU SEM ÞÚ SÉRÐ EKKI MUNU KJAFTA FRÁ. 

FÓLK SEM EKKI ER Á „RÉTTRI“ BRAUT Á ERFIÐARA MEÐ AÐ TAKA  „RÉTTAR“ ÁKVARÐANIR 

DÓMGREIND BYGGIST Á HLÝÐNI 
 

Til baka í greinar