Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

T fyrir Tamning og Tækni

TAMNING DÝRA OG MANNA

 

„Arnold Schwarzenegger kemur af verksmiðjubúi. Við erum lífrænt ræktuð.“ 

F. Markatos Dixon að spjalla um hryðjuverkalistauppákomu sem hann sýndi í líkamsræktarstöð. 

  Kannski er lesandinn farinn að velta fyrir sér hvort að við séum að fara offari í gagnrýni okkar á daglegt líf nútímamannsins og hvort að allt þetta tal um illskeytt kerfi og sjúkleika samfélagsins sé ekki yfirdrifið og sprottið af ungæðislegri uppreisn. Þar sem við erum hluti af mannkyni er erfitt fyrir okkur sjálf að játa því eða neita vegna alls þess yfirvarps og útúrsnúninga sem einkenni hegðun okkar … svo hver veit, kannski eru hlutirnir ekki svo brenglaðir þegar upp er staðið. Til að fá sjónarhorn á hvort að hin Nýja og Góða Veröld sé jafn slæm fyrir manneskjur og sumir vilja meina má líta aðeins á hinar lífverurnar sem deila henni með fólki – dýrin.

Fyrir utan dýr í teiknimyndum og auglýsingum þekkir almenningur best þau dýr sem teljast til gæludýra, þau sem búa í dýragörðum og þau sem eru sýningardýr í fjölleikahúsum og á hestasýningum. Rétt eins og smáborgarar virðast þau hafa það ágætt við að éta og sofa og leika við herra sína. En þetta er ekki það líf sem milljóna ára þróun bjó þau undir. Hundar hafa fjóra fætur svo þeir geti hlaupið um víðan völl og elt uppi bráð sína en ekki að elta spýtu klukkutíma í viku. Páfagaukar hafa vængi til að fljúga um frumskóga en ekki að sitja í þröngum búrum og syngja með sjálfum sér auk þess að læra búta úr minna músíkölskum tungumálum. Kettir hafa klær til að berjast með og veiða og skerpa á hverju sem er, þeir hafa líka eistu og eggjastokka til að merkja sér svæði og  breima og ríða og ala upp kettlinga. Þegar lokað er á þetta verða þeir feitir og aumkunarverðir af því að gera ekkert nema éta uppúr dós. Heimilisdýrum er ætla að vera hirðfífl við heimilishald nútímans og tilvera þeirra er aðlöguð hlutverki skemmtikraftsins. Hlutverk þeirra er ekki að vera dýr, með allri þeirri mögnuðu og flóknu fjölbreytni sem það felur í sér, heldur leikföng.

Hraðsoðinn samanburður við hinn almenna launþega leiðir í ljós hversu lík staða þeirra er. Hann lifir einnig einangraður frá sínu fólki í litlum myndskreyttum kössum, litlum fiskabúrum sem kallast íbúðir. Bæði nærast á fjöldaframleiddu stöðluðu fóðri sem birtist rétt eins og það væri gripið úr lausu lofti. Hvorug skepnan hefur útrás fyrir villtar hvatir, hún lifir geld með klipptar klær því það er nauðsynlegt þegar lifað er í yfirfullum borgum og úthverfum kúguð af lögfræðilegum, menningarlegum og félagslegum sáttmálum. Miðstéttarfólkið kemst heldur ekki langt frá kofanum sínum, þau eru mýld við afborganir og vinnu frá 9-5, girt af með eignum, girðingum og landamærum. Rétt eins og gæludýrin lærir fólk að hegða sér, þau eru heimilisvanin og brotin niður andlega til að aðlaga sig því að vera feit, sinnulaus og syngja falskt.

Þau dýr sem eru lægra sett en gæludýrin hafa það verra: Kjúklingarnir, fastir í eigin skít í eggjaverksmiðjum með klippta gogga svo þeir goggi ekki hvern annan til dauða. Kanínurnar sem augun eru kerfisbundið brennd úr til að prófa öryggisstaðla fyrir sjampó. Kálfarnir sem eyða sinni stuttu vesældarævi í þröngum stíum. Hlutdeild þeirra endurspeglast í stöðu verkafólks í verksmiðjum, uppvaskara í íhlaupavinnu, ritara og sjoppustelpum kvikmyndahúsanna. Sama hvernig sjálfstætt starfandi yfirmenn líta á starfsfólk sitt þá metur markaðurinn þau öll með sama kerfi skeytingarleysis. Það er sama kaldlynda græðgin og gerir kjötiðnaðinum kleift að horfa á slátrun milljóna dýra sem hið besta mál og gerir atvinnurekendum kleift að berja frá sér kröfur um bættar vinnuaðstæður og hærri laun. Rétt eins og kjúklingar og kýr sem hafa verið ræktuð til úrkynjunar svo þeim er ókleift að lifa af utan búranna sinna, þá hefur verkamaður nútímans enga hugmynd um hvernig lífið gæti verið ef ekki væri plast og steinsteypa eða hvernig hann eða hún á að fá útrás fyrir orku sína ef enginn rekur á eftir. Hvert ætti hann hvort sem er að fara, hvert er hægt að flýja? Eru enn til ábúðarhæf lönd sem enginn hefur gert tilkall til? Myndi hann ekki eyðileggja þessi lönd líka með því að yfirfæra þangað þá lærðu stjórnsemi sem hugur hans hefur verið smitaður af? Flótti hans yrði þá ekkert annað en enn eitt skrefið í skriði steinsteypunnar á leið sinni yfir heiminn, nema ef honum tækist með öllu að afneita hinum iðnvædda kapítalisma.

  Að lokum eru það villtu dýrin sem enn lifa af í umhverfi menguðu af olíulekum, gosflöskum sem fleygt er út um bílglugga og loftmengun, svo ekki sé minnst á vegalagnir og sportveiðimenn. Eftir því sem byggðin teygir sig lengra eyðileggjast náttúruleg vistsvæði þeirra, í staðinn læra þau að lifa af úrgangi manna, eða drepast. Dúfur gera sér hreiður úr sígarettustubbum í stað trjágreina, rottur læra að lifa í holræsum og kakkalakkar fjölga sér sem rándýr hinna nýju tíma. Þessi villtu dýr borganna finna sér lífsviðurværi í ruslinu og deila búsvæði með heimilislausu fólki en dýrunum farnast þó betur. Dýrum sem lifa rétt utan við mesta þéttbýli borganna, íkornum og þvottabjörnum, má líkja við hústökufólk, lífræna bændur og pönkara; veiðimenn og safnara neðanjarðarandspyrnunnar. Öðrum tegundum villtra dýra, eins og höfrungum og mörgæsum, má líkja við þá afar fáu ættbálka innfæddra sem enn hafa ekki glatað menningu sinni eða verið settir á safn. Framtíð þeirra allra er ófögur þar sem stálvindar stöðlunarinnar geysa yfir plánetuna.

  Það er ekki þar með sagt að mannkyn hafi misreiknað sig í einhverri stórri áætlun sem „Móðir Náttúra“ hefur mótað fyrir það eða að manneskjan hafi í sér „náttúrulega“ mælikvarða á heilsu og hamingju. Í hvert skipti sem menn reyna að lýsa hvað „náttúra“ sé varpa þeir yfir fyrirbærið þeim lögmálum sem þeirra eigið samfélag fer eftir, eða heimfæra upp á hana allt það sem þeim finnst menningu sína vanta. Náttúra er líka síbreytilegt fyrirbæri. Eins og staðan er núna er náttúrulegt umhverfi kjölturakka, ól og hundakofi. Ef menn hafa eyðilagt hinn náttúrulega heim með sinni „siðmenningu“ þá hlýtur einnig það að hafa verið hluti af „náttúrulegum“ forlögum (því er nokkuð til sem ekki kemur frá náttúrunni? Er mannkyn blessað eða bölvað af kröftum sem eru yfirnáttúrulegir?). Spurningin er ekki hvernig mannkyn geti farið aftur að hlýða hinu náttúrulega, heldur frekar hvernig það geti aðlagað sig heiminum allt í kring á þann máta að það virki. Getur mannkyn skapað heim þar sem menn og dýr lifa í sátt við hvert annað án þess að nokkur sé öðrum æðri og enginn munur á því náttúrulega og því menningarlega eða því kunnuglega og því ókunnuga? Er hægt að flýja stálskóginn inní þann græna sem svífur fjarlægur í draumum manna? 

 

Til baka í greinar