Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

 

TÆKNI 

  Stór hluti almennings hefur mikinn áhuga á nýjungum í tækni. Á sama tíma nýtist óhóflegt hlutfall sköpunargáfu fólks einungis til að finna uppá nýjum tækniundrum sem ráðskast með heiminn, í stað þess að leita nýrra leiða til að njóta hans. Í þessu speglast undirliggjandi þema í vestrænu samfélagi; verðmætamatið snýst meira um stjórnun en ánægju.

  Sumir halda því fram að skeytingarlaus hraði tækniþróunar sé eðlilegur hluti iðnaðarsamfélags. Það er þó eins líklegt að hraðinn komi til af þeim þrýstingi sem kapítalísk hagfræði setur á viðskiptahætti og þróunaraðila um að koma stöðugt fram með nýja vöru sem á að slá hinni gömlu við.

  Ef að samfélag manna á Íslandi væri laust við samkeppni í sölu og afkomu (ó-kapítalískt), gæti sú tækni sem þegar er til staðar nýst betur í stað þess að stöðugt sé reynt að setja fram flóknari hluti einungis vegna þess að þeir eru flóknari en það sem fyrir var. Tækni væri útfærð á annan hátt við þær aðstæður (t.d. væru almenningssamgöngur meira áberandi, bílar væru færri og um leið minna af mengun og slysum vegna hraðaaksturs) þannig að hún væri minni ógnun við hamingju og frelsi fólks.

  En hversu mikið af tækni nútímans þætti sjálfsögð í ó-kapítalísku samfélagi, þar sem tengsl milli einstaklinga og hópa væru ekki háð því að vera alltaf milli yfirmanna og undirsáta? Eins og er stýrist vald innan samfélags manna af flóknum kerfum sem teygja sig yfir allan hnöttinn og þessi kerfi framleiða alla þá flóknu tækni sem þekkist. Er beint lýðræði og sameiginleg ákvarðanataka innan samfélags möguleg á því stigi? Líklega ekki. Spurningin er því hversu mikið af tækniflækjum fólk myndi vilja hafa við höndina þegar unnið er í því að afnema miðstýringu í eigin samfélagi? Svo þarf að velta fyrir sér kostum og göllum tæknivæðingar einstaklingsins. Ef aðstæður væru aðrar (t.d. ef atvinnumarkaðurinn miðaðist ekki við að hlaða undir þá örfáu einstaklinga og hópa sem eiga öll framleiðslufyrirtæki á landinu) væri þá enn ætlast til þess að bílar, tölvupóstur og sjónvarp gerðu lífið meira spennandi og gefandi? Kannski fyrir einhverja. Þegar gagn og gaman tækja og tóla er metið má ekki gleyma því að athafnir og umhverfi fólks mótast af tækjunum sem notuð eru ekki síður en hvernig þeim er beitt. Til dæmis fela samskipti gegnum tölvu það í sér að sitja hreyfingarlaus og stara á skjá í ákveðinn tíma, þá einangrast einstaklingurinn frá raunheiminum, hann situr innan um aðra en er um leið einsamall á sama hátt og fólk í umferðarteppu (fólk sem hefur nafnlaus samskipti gegnum netið er gjarnan álíka kurteist og tíðkast í umferðinni á háannatíma), einnig koma þau samskipti í stað annara minna mótaðra samskipta. Væri þetta hluti af daglegu lífi í samfélagi sem snýst um að bæta líf einstaklinganna?

  Þegar talað er um að nota tæki kerfisins til að eyðileggja kerfið vill gleymast að sum þessara tóla skapa firringu við það eitt að vera notuð. Þau geta því ekki annað en aðlagað manneskjur kerfum firringarinnar og viðhaldið þeim. Í stað þess að taka því sem sjálfsögðum hlut að „meiri tækni sé af hinu góða“ og trúa stöðugt söguskoðun „framfaranna“ (þ.e. að mannkyn færist frá því að vera minna tæknilegt til þess að vera meira tæknilegt en aldrei á hinn veginn), þá ætti fólk að geta beitt tækninni að einhverju marki, eða sleppt því, til að fá eins mikið út úr lífinu og það getur. Fólk ætti að nota þau tæki sem koma að gagni í þessari baráttu en einungis þau sem raunverulega virka. Það ætti að leyfa sér að njóta vafans og losa sig við þá tækni sem kemur ekki að gagni.

  Svo að það sé á hreinu þá er hin gamla ímynd vísindaskáldsagna, af tæknivæddum draumaheimi sem lögð er útfrá tölvuvæddum bílum, skelfingin ein. Eins og er getur varla nokkur maður gert við bíl sjálfur. Fólk verður að gera sér grein fyrir því að ef allt væri tölvustýrt væri viðhald og stjórnun í höndum lítils minnihluta fólks með sérþekkingu á því sviði. Hinn almenni maður hefði lítinn skilning eða stjórn á þeim heimi sem hann lifði í. Allir praktískir þættir tilverunnar væru í höndum „sérfræðinga.“ Nú þegar er þetta nálægur veruleiki og gerir heiminn fjarlægan og flókinn gagnvart þeim sem ekki eru „sérfræðingar.“  

Tækniheimur, afhverju ertu með svona stór augu og afhverju ertu með svona stór eyru?  

  Einhvern tímann var bent á að landakortið væri ekki það sama og landsvæðið. Sá sem lét hafa þetta eftir sér vildi benda á hversu huglæg tilvera mannsins takmarkaðist þegar hún lendir í samstuði við raunveruleikann.

  Tæknivæddu fólki er haldið í hjörðinni með rafrænum prikum og ýtt frá landsvæðinu inn á landakortið -  frá því raunverulega til sýndarheimsins  - þar til ekki verður um neina árekstra að ræða milli hins afstæða og veruleikans. Sýndargeimur rafeindanna er kort sem gagnast vel við að einfalda fólk og rökstyðja tilvist þess, lýsa því, fylgjast með því, spá fyrir um hegðun þess, heilaþvo það, negla það niður og stjórna því. Netheimurinn er lokuð stía þar sem allt er leyfilegt en ekkert er hægt. Á að nota netið til að upplýsa sig? Þegar netið er notað er notandinn lýstur upp.

  Samskipti milli manna eru orðin eitt form ósýnilegrar stýringar. Netheimurinn gerir notendur hluta af tengineti og allir saman verða þeir framlenging á kerfinu. Því meira sem fólkið tengist hvert öðru því hraðar breiðist áróðurinn út á meðal þeirra. Þau stýritæki gærdagsins, sem byggðu á samskiptum, virkuðu þannig að stjórnmálamenn könnuðu viðhorf kjósenda, unnu úr upplýsingunum og leiðréttu vankanta á ímynd sinni með að flikka uppá eigið orðagjálfur. Í dag felst stýring gegnum samskipti á því að hlaða á vinnandi fólk símboðum, farsímum og tölvupósti. Áróðursþemu nútímans eru einkar athyglisverð: Neytendur þurfa meiri upplýsingar og þurfa þessvegna ekki bara að tengja sig við kerfið heldur og að ganga um hlaðnir samskiptatækjum hvert sem þeir fara.

  Í framtíðinni eru það ekki lengur almennir neytendur sem eru óvirkir áhorfendur að sjónleik samfélagsins. Áhorfendur storma á sviðið. Nú eru allir hluti af sjónleik Stóra Bróður og áróðurinn gegn honum er úrelt fyrirbæri. Í framtíðinni munu ekki bara fjölmiðlar og önnur álíka fyrirbæri rugla í fólki. Fólk ruglar í sér sjálft og umgengst hvort annað inni í miðli þar sem enginn veruleiki er mögulegur. Fólk fjarlægir sig sjálf frá veruleikanum inn í netheiminn. 

      NÝ HÖNNUN TENGSLA

      TENGSL FJARLÆGÐARINNAR

      FÓLK TENGIST ÁN ÞESS AÐ ÞURFA AÐ HITTAST

      FÓLK TENGIST ÁN ÞESS AÐ EIGA AÐ HITTAST 
 
 

ÞEGAR VIÐ NOTUM TÆKI – NOTA ÞAU OKKUR 

Ég þrái framtíð sem enginn getur spáð fyrir um 

  Það er skipulagningin sjálf sem heldur fólki að verki í þessu kerfi. Þar sem skipulagningin er aukin eykst vinnuharkan. Því meira sem fólk leggur á sig því meira er að gera. Mannskepnur sem í upphafi fóru um án þess að vera bundnar af neinu hafa verið mýldar. Fyrst við bóndabýlið, seinna í verksmiðjum borganna, síðan við skrifstofuna og loks við geislabaug tölvuskjásins. Fyrir þrjátíu árum voru engar tölvur á skrifstofum. Í dag neyðast milljónir einstaklinga til að loka sig af inni í neonlýstum, gluggalausum kössum megnið af þeim tíma sem þau eru vakandi (megnið af þeim tíma sem þau eru lifandi?). Þau sitja undir stöðugu eftirliti með augun límd við blikkandi blámann og hátíðnisuð vélanna í eyrunum, potandi í merkingarlaus tákn.

Lítið framhjá gulrótinni sem vinnur fólk á sitt band, lætur það hlýða, lagar það að kerfinu, verðlaunar það og hælir því um leið og hún á að hughreysta það. Myndi fólk láta svona ef það gæti valið á milli þessa og að bara lifa lífinu, ef það hefði sinn eigin hátt á að afla matar, éta, vera með öðru fólki, ríða, dreyma, sofa, teikna, syngja, dansa og bara vera manneskjur, atvinnulaus, ónotuð, frjáls og laus við að elta annara markmið? Frumþarfirnar væru þvílíkur munaður miðað við það sem er kallað „munaður“ í dag.

  Mannshuganum hefur verið breytt í upplýsingasamplara (hugurinn fær þó að reika við venjulega líkamlega vinnu). Fólk þjónar vélum, það vinnur hráan veruleikann yfir á tölvutækt form. Fólk nýtist sem líkamlegar vélar eða þýðendur, þ.e. sem milliliðir milli tölvukerfa. Í þjónustukerfum verður starfsfólkið að ganga í einkennisbúningum og vera með lógóið sitt á áberandi stað, það fer með línurnar sínar og handleikur kostinn í plasthönskum. Vélarnar skapa manninn í sinni mynd. Tæknin notar fólk, það er ekki bara fólkið sem notar tæknina. Tækni er ekki eitt ákveðið fyrirbæri, það er heildræn samsetning tengsla milli grunnþátta og kerfa. Þau sem halda því fram að tækni sé „hlutlaust verkfæri“ eða að hún sé samansafn stakra „hluta“ sem notendur geta pikkað út eftir þörfum, átta sig ekki á því að tækni er flókin heild. Hún er birtingarmynd ákveðins skipulags og getur þess vegna ekki annað en stefnt að æðra skipulagi með aukinni miðstýringu og hinni óhjákvæmilegu hnignun mannlegrar íhlutunar. Það er alltaf hægt að auka afköstin en þau verða aldrei nógu mikil.

Hin refsandi rafvædda hönd birtist pípandi, klædd í harðplast. Skyndilega eru allir önnum kafnir við windows og sá sem ekki vill með í leikinn þramma, hann fær ekki að éta. Sama á við um vinnuna og áhugamálin, bæði eru samskipti. Að spila ekki með og vera „óupplýstur“ er andfélagslegt. Fólk mun kafa sífellt dýpra í rafvæðinguna og hætta að sjá dagsljós, hætta að finna ferskt loft, fá ferskan mat, fá hreyfingu, félagsskap, hlýju, snertingu við menn eða dýr. Fólk skrimtir: Þunglyndi, víðáttufælni, fíkn, átröskun, kvíði, áráttu-þráhyggja, sjálfsvíg og lyfseðlar.

  Hellisbúinn hefði aldrei sætt sig við þetta. Ekki heldur fjögurra ára manneskja. En netheimurinn dreifir mannfjöldanum og tæmir göturnar. Fólk lifir núna siðmenntaða tíma innan um blokkirnar (skrifstofublokkir, íbúðablokkir), horfir í skjáinn og lætur skemmta sér.  

 

 

(Að endingu tekur F. Markatos á þessu öllu saman) 
 
  
 

MÁ ÉG KYNNA ALMENN VÍSINDI 

Jamm, það er búið að leysa málið

en ég sá það aldrei sannað

Það var einhver, en ekki ég

sem lenti á tunglinu 
 

  Það er ekkert að verkfærum, tækni og vísindum. Sem tegund, fann mannkyn upp og byggði sinn heim en sem einstaklingar hefur það möguleika til að ákveða hvernig heim það vill og reisa hann. Þannig er ævintýri uppfinningarinnar lifað. Það er réttur allra. Þetta er það sem kallast almannavísindi.

  Almannavísindi eru ekki ný af nálinni, þau eru jafn gömul mannkyni. Hvítir sloppar, hin vísindalega aðferð og miðstýrð kerfi tækninnar eru ný fyrirbæri. Um leið og mannkyn þróast mun það læra að sjá þessa hluti sem óeðlileg frávik frá þeirri innbyggðu vísindalegu sköpunarþrá sem er hluti af hverjum og einum. Sem almennir vísindamenn áttar fólk sig á því að Vísindin sem rétta að þeim útskýringar á alheiminum kenndu þeim að treysta ekki lengur eigin snilld eða eigin sköpunargáfu. 

      ALMANNAVÍSINDI GEGN HINNI RÉTTU“ VÍSINDALEGU AÐFERР

  Vísindaleg aðferð er ákveðið tungutak og tilraunaform sem er staðlað um allan heim. M.a. er hún leið vísindamanna til að pakka inn niðurstöðum rannsókna sinna þannig að þær sé aðgengilegar fyrir aðra vísindamenn. Þannig verður hin vísindalega aðferð net sem sameinar framtak allra vísindamanna í heiminum. Með þessu stórvirka stýritæki vinna vísindamenn saman til að fara framúr öllum þörfum manna og færa fólk inn í þeirra nútíma ennþá hraðar en talið var hægt.

  Þar sem nútíminn er drifinn áfram af vísindalegu aðferðinni segir hann fólki að engin þörf sé á að endurtaka neitt. Setningin „það er búið að gera þetta“ er runnin frá þessu viðhorfi. Þetta tilsvar er dauðinn fyrir vísindaleg uppátæki og svona verður vísindalega aðferðin hvatning fyrir framgang hópa en ekki einstaklinga.

  Þannig að gagnrýni almennings á „vísindalegu aðferðina“ beinist ekki að „vísindum“ þar sem þau eru grundvallartæki tegundarinnar sem almenningur tilheyrir. Hún beinist ekki að „aðferð“ því aðferð er útfærsla vísinda. Hinsvegar beinist gagnrýnin að áherslunni á tilkalli hennar til þess að vera eina réttmæta aðferðin og telur hana vera glæpsamlega. Harðstjórn áherslunnar er hluti af tungutaki sem leitast við að taka alla forvitni og framtakssemi mannkyns og keyra hana saman í eina rannsóknaraðferð, það er svik við bæði vísindin og mannkynið. 

      ALMANNAVÍSINDI OG LISTIR 

  Vísindi og listir eru af sama meiði. Bæði byggja hugvit og sköpun útfrá athugunum og reynslu úr daglega lífinu. En vísindin sitja nú í höndum fárra aðila og eru því almenningi fjarlæg.

  Firring vísindanna hefur einnig smitast yfir í listirnar. Listaverk allt frá veggjakroti yfir í niðursoðnar hægðir hafa færst yfir í þetta-er-búið-að-gera-áður leikinn. Gagnrýnendur og sagnfræðingar sem láta sér annt um rökhyggju, skipulag og sinn persónulega frama, ýta undir þetta ferli með því að halda sig við listir sem passa við línulega framvindu listasögunnar. Þetta er list sem er stillt inn á tæknihyggju.

Almannavísindamenn gefa því kerfi langt nef, sem einungis vill sjá tilbúna vöru og vilja endurheimta mikilvægi uppgötvunarferlisins í vísindum og listum. Almannavísindamenn sjá fegurðina, ævintýrið og mikilvægi þess að finna hjólið upp aftur þannig að hreytingum eins og „það er búið að gera þetta“ svara þeir með „en ég var ekki búinn.“ Almannavísindamenn líta á uppgötvun sem einskonar leik og eru þannig lausir við þann hefðbundna framgang sem er búinn að stela sköpunargáfunni frá hinum óinnvígðu og breyta vísindum og listum í ósnertanlega söfnuði. 

      ALMANNAVÍSINDI ÁSTARINNAR 

  Atvinnuvísindamenn má finna hvar sem er í dag sem milliliði milli fólks og heimsins sem það byggir. Læknar, hönnuðir, trúmenn og sálfræðingar mynda prestastétt þess iðnaðar sem tengir hinn lítilsverða einstakling við heilsuna, umhverfið, guð, hamingjuna og jafnvel ástina.

  Ég ímynda mér að hefði ég ekki séð fólk kyssast í sjónvarpi þá hefði ég sjálfur fundið upp á því en ég get ekki verið viss. Gegnum fjölmiðlabáknið er fólk svo mettað af ástarímyndum að þessi eðlislæga hvöt verður að viðfangsefni sérfræðinga.   

Þrifalegir leikarar og klámmyndastjörnur fylgjast með þegar fólk fálmar sig áfram, aulalegt með keppi og ónóga lýsingu áður en þau stökkva fram á sviðið til að sýna hvernig á að gera þetta almennilega. Það flottasta sem nokkur elskhugi getur gert er að hefja sig yfir þennan barning glansímynda og finna sína eigin leið. 

      ÞANNIG AÐ ALMANNAVÍSINDI KALLAST ÞAÐ ÞEGAR… 

  …fólk finnur sína eigin leið í daglega lífinu. Það er ekki of seint að finna upp flugvélina, reiðhjólið og kossinn. Það er enn mikið að rannsaka þegar kemur að þyngdarlögmálinu, krabbameini, sálfræði og ánamöðkum. Allir ættu að gerast efahyggjufólk og kanna hvort að heimurinn sé kúlulaga – og finna út að hann er það ekki.

  Svo fólk skyldi ekki kalla peninga verðmæti, þeir eyðast hraðar en skósólar. Fólk ætti að viðurkenna snilld sína, það er lifandi afl sem skerpist þegar unnið er á því. Fólk ætti að nota tíma sinn því sé hann notaður með snilldinni verður hann ótakmarkaður. Fólk skyldi kalla lífið verðmæti umfram nokkuð annað, það eru einu gæðin sem fólk getur bæði safnað af græðgi og gefið af gæsku. Að lokum ætti fólk að fjölga sér og dreifa! 
 

 

Til baka í greinar