Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

V fyrir Vinnu 

„Atvinna er andstaða sköpunar, því sköpun er leikur.“ 

  Heimurinn fór fyrst að verða mér einhvers virði um leið og ég hætti að taka mig alvarlega sem hluta af samfélaginu og breyttist í sjálfan mig. Ríki og þjóð voru ekkert nema samansafn gríðarlegs fjölda einstaklinga sem héldu áfram að hjakka í mistökum forvera sinna. Þeir sátu fastir í hringavitleysunni allt frá fæðingu, héldu henni áfram allt til dauðadags og áráttunni til göfgunar var hún kölluð „líf.“ Bæði maður einhvern að útskýra lífið eða skilgreina það, var bara glápt á mann. Lífið var eitthvað sem heimspekingar glímdu við í bókum sem enginn las. Þeir sem hömuðust hvað mest, þeir sem „létu hjólin snúast,“ höfðu ekki tíma fyrir svo háleitar spurningar. „Allir verða nú að hafa í sig og á?!“ var hreytt á móti til að þagga niður í manni, en staðreyndirnar töluðu sínu máli og sama hversu óhugnanlegt það var, þá var svarið neikvætt. Út frá því litla sem ég hafði náð að lesa skildi ég að þeir sem höfðu hvað mest með raunverulega lífið að gera, þeir sem skópu það, þeir sem voru lífið sjálft, nærðust lítið, sváfu lítið og áttu lítið sem ekkert. Þeir gerðu sér engar grillur um skyldur eða hvort viðhalda þyrfti ríkinu. Þeir höfðu einungis áhuga á sannleikanum og engu öðru. Það eina sem þeim fannst vera hægt að gera var að skapa. Enginn gat krafist neins af þeim, því þeir höfðu þegar heitið sjálfum sér að gefa allt sem þeir gátu. Þeir gáfu ríkulega því það er eina leiðin til að gefa. Þessir lifnaðarhættir höfðuðu til mín. Mér fannst þeir ganga upp. Þetta var lífið  –  en ekki sú eftirlíking þess sem fólkið í kringum mig tilbað. 

Halldór Laxness – „Bylting hins daglega lífs“ 

Gregarius: Það eru margar ástæður fyrir því að vera ekki í vinnu. Til dæmis að gera meira af því að njóta lífsins, að lítillækka sig ekki við að verðsetja tíma sinn eða ganga í einkennisbúningi með einhvern stjóra yfir sér, eða að neita kapítalistamarkaðnum um krafta sína. Þegar ég segi „að vinna ekki“ á ég ekki við að gera ekki neitt í staðinn heldur að geta gert það sem maður vill þegar maður vill. En ég held samt að sú staðreynd að mikið af fólki getur ekki ímyndað sér hvað það ætti að gera í stað þess að vinna, sé besta ástæðan fyrir því að vera ekki á vinnumarkaðnum. Maður verður að læra upp á nýtt að stýra hvernig maður nýtir krafta sína. Það er allavega alveg öruggt að ég gæti ekki ferðast jafn mikið og ég geri, eða tekið þátt í öllum mínum pólitísku aðgerðum og verkefnum, ef ég væri í venjulegri vinnu. 

Deborah: Fyrir mér snýst þetta líka um að halda sig eins langt frá neysluhyggjunni og hægt er. Hafi ég engar tekjur freistast ég ekki til að eyða neinu í tilgangslausar vörur … en sú eyðsla myndi jafnframt gera mig háða því að hafa fastar tekjur og festa mig í einum ákveðnum lífsstíl. Það er svo auðveldlega hægt að festast í því að vera að borga af því sem maður keypti síðast, til að gleðja sjálfan sig, til að losna við kvíðann yfir því að skulda svona mikið og þannig áfram og áfram. Þar að auki þá er mun betra fyrir náttúruna að vera ekki að hvetja markaðinn til að fjöldaframleiða meira af rusli sem endar á sístækkandi haugunum. 

Paul: Í mínu tilfelli var þetta verulega erfitt til að byrja með. Ég skal alveg viðurkenna það ... svona nokkur fyrstu árin eftir að ég lofaði sjálfum mér að ég skyldi aldrei aftur fá mér vinnu. Aðallega vegna þess að ég þekkti engan sem stóð í svipuðu eða sem gat deilt einhverri reynslu með mér. Ég þurfti að læra þetta alveg sjálfur, það er frekar glatað þegar ég hugsa til þess, því núna þekki ég svo mikið af fólki sem hefði getað hjálpað mér að aðlagast. Enginn af gömlu vinum mínum úr skóla náði þessu, þau höfðu öll náð sér í vinnu eða var haldið uppi af foreldrum sínum og þau kvörtuðu jafn mikið yfir peningum og allir aðrir meðan þau sátu sötrandi á rándýrum bar eða einhversstaðar sem ég hafði engin efni á að fara. Við hættum að hittast, einfaldlega af því að ég hafði ekki efni á því. Þá kom ömurlegt tímabil þar sem ég var mikið einn með sjálfum mér, ráfandi um í örvæntingarfullri leit að helstu nauðsynjum. En ég notaði tíma minn til að taka þátt í verkefnum sem tengdi mig nýjum vinahóp, fólki sem skildi hvað ég var að gera og hversvegna. Ég hef fengið mikla aðstoð frá þeim og lífið er miklu betra. Ég fer á fætur alla daga sprækur og fullur af lífi. Í hvert sinn sem ég sest niður til að borða án þess að hafa þóknast einhverjum til þess, er það lítill sigur fyrir mig, það er mér sönnun þess að andspyrnan gefur raunverulega möguleika.   

Jay: Það er öðruvísi hjá mér en Paul að ég ólst upp við fátækt. Ég átti aldrei neitt og þar með engin atvinnutækifæri. Að vera ekki í vinnu er bara framhald af því sem mér lærðist í uppvextinum því pabbi minn var atvinnulaus og ég varð á endanum að strjúka að heiman og búa á götunni. En með því að ákveða að gera það verður það jákvætt og mér líður ekki eins ég verði að koma mér einhversstaðar fyrir í hagkerfinu til að lifa af. Ég gæti alveg setið á rassinum í einhverju volæði og snapað einhverja skítavinnu hér og þar eða ég get gert bara það sem ég geri. Í alvöru, þar sem ég á ekki neitt, vil ég að minnsta kosti lifa lífinu út í ystu æsar við að gera hluti sem mér þykir vænt um. 

Markatov: Ég var í fullri vinnu sem byggingaverkamaður. Síðan fór ég að minnka við mig svo ég hefði meiri tíma til að vinna að minni list. Þegar ég svo missti vinnuna fór ég að taka smáverkefni eins og að setja upp sýningar fyrir atvinnulistamenn, þjónustustörf … kannski hörkuvinnu tvær til þrjár vikur í einu til að borga fyrir nokkurra mánaða frelsi. Stundum fékk ég mér einhverja ákveðna vinnu tímabundið því ég gat lært eitthvað af henni, eins og málmsuðu. Svona eins og þegar Sarah fær sér vinnu á ljósritunarstofunni í eina og eina viku í einu þegar hún er tilbúin með nýja útgáfu af tímaritinu sínu, bara svo hún geti stolist til að ljósrita. Ég fann rosa ódýrt hús hérna út á landi og ræktaði garð. Eins og er þarf ég ekki að vinna nema nokkrar vikur á ári. 

Deborah: Ef þig langar að gera þetta þá er það bara spurning um að hoppa í djúpu laugina: Segja upp vinnunni og horfa aldrei tilbaka … þú getur ekki annað en lent einhversstaðar. Ég veit ekki um neinn sem hefur ekki náð tökum á þessu fyrir rest, þegar þeir voru byrjaðir, svo fremi að þeir hefðu trú á því að þeir gætu þetta. Það er í raun ekki svo margt í þessum heimi sem getur gengið frá þér. Það er mun auðveldara að glíma við þetta gráa svæði þegar maður er kominn inn á það, þó það sé ekkert nema dauði og djöfull í augum smáborgaranna.  

Gregarius: Sé fólk ekki tilbúið til að vera alveg án tekna, þá eru margir aðrir möguleikar. Ég áttaði mig snemma á möguleikunum í götulist og fann út að ef ég kom mér á framfæri við hlaupatíkur stórfyrirtækja voru þeir tilbúnir að borga mér fimmtíuþúsundkall og jafnvel meira fyrir stakar sýningar. Ég bjó til voða fínt nafnspjald, fékk mér kynningarfulltrúa og svo sýni ég kannski tuttugu sinnum á ári þegar þeir eru með fundi og ráðstefnur. Þetta er eins og rán um hábjartan dag. Þetta heldur mér uppi og restina af árinu er ég að grafa undan þeirra starfi. Það eru fleiri möguleikar. Væri ég ekki að þessu fengi ég mér launaða stöðu hjá einum af þeim aktívistahópum sem ég vinn með sem sjálfboðaliði. Anna vinkona mín er framkvæmdastjóri fyrir verslun með róttækar bækur og þau laun sem hún fær þar gera henni kleift að létta undir með nokkrum vinum sem hafa það ekki jafn gott. Að vilja deila með þeim sem hafa minna en maður sjálfur er afar mikilvægur þáttur í því að lifa án fastrar vinnu. Ég er ekki að segja að maður verði að sjá fyrir öllum heldur að átta sig á því að fólk getur haft eitthvað meira fyrir sér en peninga. Einn gaurinn sem gistir hjá Önnu tekur ýmis verk að sér fyrir bókabúðina, brýtur saman fréttabréfið og heftar það, því hann hefur tíma til þess en enginn annar. Þegar allir eru ákveðnir í því að gefa hvort öðru allt sitt er frábært að geta hætt að dæma fólk, hætta að pæla endalaust í hnattvæðingu eða að kenna viðskiptaheiminum réttlæti og bara gefa og deila með fólki. 

Jay: Ég var bara á puttanum í nokkur ár, betlandi með öðru heimilislausu fólki … átti í harðri baráttu við þunglyndi en ég gerði ýmislegt fleira með þessu. Hélt mér vakandi á einn eða annan hátt. Til dæmis þegar ég svaf í bókasöfnum, þá kenndi ég sjálfum mér að nota tölvurnar þar, svo nú get ég sett upp heimasíður og dót fyrir vini mína … svo datt ég í lukkupottinn í fyrra þegar ég, fyrir algera tilviljun, hitti Liz úti á götu. Hún er rithöfundur að atvinnu, hún er mjög svöl þó hún komi ofar en ég úr samfélagsstiganum, reyndar þekkti ég dætur hennar fyrir. Hún var að kafna í verkefnum. Hún á að skila af sér alls kyns leiðindagreinum fyrir flugvélatímarit, svo þegar hún komst að því að ég er líka ágætur penni fór hún að láta mig sjá um sum verkefnin og gaf mér hluta af greiðslunni fyrir. Nú er ég sá eini hérna með sæmilegar tekjur meira að segja í samanburði við þá vini mína sem ólust upp vel settir. Heimurinn mun alltaf koma manni á óvart svo fremi að maður gefi honum tækifæri til þess. 

Paul: Ég er mikið á háskólabókasafninu, bókasöfn eru frábær, alla hluti ætti að skipuleggja sem almenningseign, rétt eins og þau. Þarna get ég fengið ókeypis bækur, kvikmyndir (þarna eru sjónvörp og myndbandstæki til notkunar fyrir hvern sem er), aðgang að netinu, kyrrlát herbergi sem ég get sofið í, salerni. Svo er ég nútíma veiðimaður og safnari, er með á hreinu hvar ég get hirt upp klósettpappír, eldspýtur, diska og silfurborðbúnað úr dýrum veitingahúsum, ókeypis kassettur þegar plötubúðirnar eru með útsölu. Það er svo mikið af dóti sem er hent í hinum vestræna heimi að það er alveg út í hött. Þú getur fengið hvað sem er upp úr ruslagámi, hvort sem þig vantar mat eða húsgögn. Einu sinni fann Jay helvíti fínan gítarmagnara sem virkaði! Það er líka hægt að hjálpa til í smærri fyrirtækjum og fá það sem af gengur í staðinn. Stundum stal ég stórum dósum af niðursoðnum ólífum út um bakdyrnar á einu útibúi kaffihúsakeðju og skipti þeim fyrir burritos á pínulitlum veitingastað. Svo er hægt að stela úr búðum eða að fá gefins hluti frá pirruðu starfsfólki, það er mjög auðvelt því það er svo mikið af óánægðum launþegum að maður á aldrei að þurfa að borga fyrir t.d. ljósritun eða snúða. Ég skipti nokkrum hljómplötum fyrir gott reiðhjól sem var aldrei sótt á verkstæðið þar sem vinur minn vann. Svo eru til margar leiðir til að svindla á kerfinu, um leið og þú kynnist öðru fólki sem lifir eins og þú þá koma ábendingar héðan og þaðan; almenningssímar sem hægt er að hringja úr ókeypis, frímerki eða strætókort. Sumt er að finna í bókinni eftir Abbie Hoffman – Steal This Book þar sem hann t.d. finnur út hvaða erlend smámynt passar í almenningssíma fyrir hundraðkalla en er miklu minna virði svo hægt er að hringja ódýrar.

  Það er mikilvægt að aðlagast því að lifa án þess að eiga mikið af fötum eða aukahlutum en það getur líka verið reynsla sem gerir mann sterkari, það þarf ekkert að vera niðurlæging í því þó það sé það í augum smáborgarans sem stendur álengdar og veit ekki neitt um mann. Og eitt … það er mikill sparnaður í því að reykja ekki, drekka ekki og nota ekki nein vímuefni. 

Jackson: Ég var heppinn. Ég gerði bara hluti sem mér fannst gaman að gera og núverandi tekjulind mín bara kom upp í fangið á mér. Ég var mjög áhugasamur um gamlar myndasögur, eitthvað sem vinir mínir skildu alls ekki, og ég áttaði mig á því að ég gat stórgrætt á því að falsa þær. Það er ekkert rangt við það, fólkið sem vill þetta dót hefur efni á því og það gæti ekki fengið þetta öðruvísi. Þetta er líka mun öruggara athæfi heldur en sumra vina minna sem eru á framabraut í glæpaheiminum og stela bílum. Ég hef það gott, svo myndu sumir þeirra vina minna sem koma ekki nálægt neinu sem heitir atvinna, hafa það mun verra ef ekki nyti stuðnings fólks eins og mín. Ég veit vel að það er ekki mjög byltingarsinnað að vera glæpamaður og ekki heldur að vera listamaður eða skemmtikraftur eins og sumt hitt fólkið sem þú ert að taka viðtöl við, fer eftir því hvernig á það er litið. En í alvöru … allt í þessum heimi snýst um málamiðlanir þangað til við getum breytt öllu saman. Það er bara spurningin um hvað þú heldur að verði áhrifaríkasta leiðin til að miðla málum. Vegna þess sem ég geri hef ég nóg af lausum tíma og jafnvel peninga aukalega til að leggja í betri hluti. Annað sem ég vildi koma að, er að þessi lífsstíll hefur virkilega breytt tengslum mínum við náungann. Þegar maður er á atvinnumarkaðnum er samkeppni og spenna og bara hatur milli manna og það verður svo auðvelt að halda sig yfir aðra hafinn. En nú er ég bara ósjálfrátt góður við annað fólk og leita leiða til að hjálpa því. Það er líka auðveldara að láta sér lynda við aðra því mér finnst ekki eins og annað fólk sé nein ógnun við mig … nema löggan auðvitað. 

Deborah: Ef maður býr einhvers staðar þar sem möguleiki er á að taka þátt í hústöku, eins og í New York eða á meginlandi Evrópu, þá er það auðvitað besta leiðin til að fá þak yfir höfuðið. Þar borgar maður enga leigu og nýtir rými sem annars væri bara iðnaðarúrgangur – rétt eins og að hirða sér heimili upp úr ruslagámi! Um leið er maður að byggja upp rými sem er öllum opið en er ekki einkafangelsi í úthverfi. Vinkona mín, Mo, bjó fyrir nokkrum árum í bílnum sínum. Á tímabili svaf Sarah þar yfir daginn meðan hún vann á næturvöktum á ljósritunarstofunni. Það getur verið vesen að hafa auga með eigum sínum en það minnir mann á að eiga ekki of mikið og að lána það út sem maður vill ekki burðast með. Lykilatriðið er auðvitað að vera hugmyndaríkur … eins og ef maður hefur ekki í nein hús að venda þá er hægt að skipuleggja mótmælatjaldbúðir við stúdentagarðana  eða einhversstaðar og gista bara í búðunum – bara ekki gleyma að fullyrða við fjölmiðla að maður sakni heimilis síns og sjónvarpsins afskaplega mikið.   

Paul: Grundvallaratriði í því að taka ekki þátt í vinnumarkaðnum er að losna frá því hagkerfi sem kennir hverjum manni að vinna að sínum eigin hag og þess í stað læra að vinna með öðrum. Maður leitar uppi hópa af fólki sem er í sömu hugleiðingum og leitast við að átta sig á því hvað hver og einn hefur til brunns að bera, það þarf ekki endilega að vera áþreifanlegt en innan hópsins lítur fólk eftir hvoru öðru. Þetta á sérstaklega við búsvæði. Í byrjun, meðan ég var einn, leigði ég í alls kyns kompum en það var samt of dýrt fyrir mig svo ég fór að setjast að í vöruskemmum, sofa í bókasöfnum eða á enn verri stöðum. Nokkur ár af ævinni hef ég notað til að ferðast milli heimshorna og gist hjá vinum hingað og þangað til að þurfa ekki að borga fyrir gistingu. Það er fínt en samt er maður þá að treysta á að einhver annar borgi brúsann. Best er að ná saman fólki til að mynda samvinnuhóp um sameiginlegt húsnæði sem hentar alls kyns starfsemi um leið, í stað þess að vera bara griðastaður undan þvargi skóla og vinnu eins flest íbúðarhúsnæði er ætlað að vera. Þetta gæti verið vöruhús eða gamalt stórt hús með kjallara og eigandann víðsfjarri. Það má borga leiguna, eða hluta af henni, með tónleikum eða með leigu fyrir æfingahúsnæði hljómsveita. Sitt af hverju tagi. Þetta er rétt eins og að kaupa stóran bíl með öðrum í stað þess að allir hafi sitt hvorn bílinn. Með því að búa saman er fólk ekki bara að deila byrðum lífsbaráttunnar heldur einnig að læra hvernig ná má samkomulagi og gera hlutina saman, það er mikilvægast. 

Elise: Ég veit ekki hvað aðrir geta gert í sambandi við húsnæði, möguleikarnir eru líklega endalausir. Það var yfirgefinn kofi bakvið hús, þar sem nokkrir krakkar sem ég þekkti bjuggu. Það var bara einn veggur á honum en ég endurbyggði hann með efni frá byggingasvæði og gerði úr honum þetta líka fína litla hús með viðarstó og hvaðeina. Meira að segja leiddi ég símalínu út í það frá húsinu þeirra, bjó til matjurtagarð, bar á hann með eigin hægðum. Í ársbyrjun hafði ég enga hugmynd hvernig ætti að gera þetta nema það sem ég hafði lært af því að vinna við lífræna ræktun á bóndabæ. Það var alveg magnað að finna út að ég gæti þetta allt saman. 

Jay: Það er auðvitað erfiðast að fá læknishjálp. Fyrir utan lönd eins og Kanada og lönd í N-Evrópu, þar sem almennt er gott heilbrigðiskerfi, þá er þetta vandamál líka fyrir fólk sem er í fullri vinnu. En maður reddar þessu alltaf einhvern veginn. Einn vinur minn er alltaf að veikjast eða slasast og fá sýkingar á tónleikaferðalögum og hann finnur alltaf einhvern sem gat hjálpað honum. Mamma einhvers vinar var læknir, eða einhver annar er í hjúkrunarnámi. Ein vinkona hans sem fer oft með þeim á tónleikaferðalög er öll í vúdú og fornum lækningaaðferðum. Hún er svöl. Ég heyrði af strák sem gerði sér upp slys í vinnunni til að láta þá borga fyrir brjósklosaðgerð. Ég held hann hafi fengið sér þessa vinnu í þessum eina tilgangi. Einn gæi sleppir því bara að borga sjúkrahúsreikningana. Það hjálpar líka til að vera á ferðinni … auðvitað er hægt að gefa upp falskt nafn. Ég mæli með því að taka vítamín. 

Markatos: Fólk spyr hvað ég vilji gera í framtíðinni, í sambandi við börn og svoleiðis. Kvænast góðri konu, finna mér starf og komast á framabraut og eignast fínt hús. Ég er orðinn fullorðinn og ég sé það ekki gerast að ég lendi í einhverri andlegri krísu seinna og óski þess að ég hefði skipt öllu sem ég hef fyrir það kjaftæði. Í alvöru, ef ég myndi deyja á morgun, þá held ég að ævintýri síðustu ára væru mér meira virði en fimmtíu ár af hverskyns öðruvísi lífi. Ég hef verið í samböndum þar sem hinn aðilinn var ekki tilbúinn að ganga jafn langt og ég geri og það hefur valdið mér hugarangri, en þannig ósætti er hægt að leysa, það er ekki ómögulegt. Ég vil samt ekki vera með einhverri sem neitar að samþykkja minn lífsstíl, það væri fáránlegt. Hvað varðar börn, þá sé ég margar góðar ástæður fyrir því að eignast þau ekki og eins og stendur býst ég ekki við að vilja það nokkurn tímann. En ég hjálpa vinum mínum með þeirra börn. Svo ég er ekki að útiloka þau úr þessum lífsstíl. Nokkrar góðar vinkonur mínar eru einstæðar mæður og ég geri eins og ég get til að hjálpa, passa fyrir þær, færi þeim grænmeti úr garðinum og svoleiðis. Þær eru frábærar og geta áfram sinnt  ýmsum félagslegum störfum ... ég vil samt koma því að, að félagslega kerfið í þessu landi er algerlega í rusli og býður engan stuðning við einstaklinga eins og þær, sérstaklega ekki þar sem þær eru að reyna að gera góða hluti fyrir annað fólk. En það verður allavega gaman að fylgjast með þessum börnum vaxa úr grasi. 

Elise: Mig mun alveg örugglega langa til þess að eignast börn einhvern tímann. En þegar um er að ræða stöðugleika og öryggi þá geri ég mér engar grillur um að peningar, heilbrigðistryggingar og allt það geti séð um meira langtímaöryggi heldur en raunverulegt samfélag sem ber umhyggju fyrir fólki. Ég held að annaðhvort setjum við krafta okkar í að lifa af samkvæmt leikreglum dagsins í dag eða reynum að skapa heim sem gerir þær reglur marklausar. Einhver verður einhvern tímann að hefja það starf. Ég veit að ef ég beini mínu lífi að því að reyna að byggja upp samfélag við annað fólk, deili því sem ég hef að bjóða með þeim og geri hlutina eins og mér finnst að eigi að gera þá, þá mun fólk vera til staðar fyrir mig og mín börn þegar á þarf að halda. Það eru þegar til staðar heilsumiðstöðvar fyrir konur og félagsleg aðstoð í ýmsu formi, það þarf bara meira af fólki eins og mér til að halda þeim gangandi. 

Paul: Fólk spyr stundum hvort mér líði ekki eins og sníkjudýri þar sem ég lifi á því sem gengur af í samfélaginu. Ég hef nú heldur betur skoðanir á þeirri afstöðu. Í fyrsta lagi þá veit ég vel að það geta ekki allir hérna gert svona lagað. Margir þurfa að sjá fyrir fjölskyldum, öðrum finnst allt í lagi að starfa „innan kerfisins“ eða þá að fólk er nógu fátækt fyrir. Þar að auki væri ómögulegt að lifa eins og ég geri í landi eins og Brasilíu þar sem minna er af að taka. Þar eru samtök landlausra bænda sem taka yfir ræktunarlönd eins og við tökum yfir auð hús en það er samt öðruvísi. Allavega, finnst mér að við sem getum skipulagt líf okkar án atvinnu höfum góða ástæðu til að gera það, því ekki njóta allir þeirra forréttinda. Ég er ekki með neina sektarkennd yfir því að hafa þessa möguleika umfram aðra svo lengi sem ég beiti mér fyrir því að aðstæður annarra verði betri. Mér finnst að þau okkar sem höfum þau forréttindi að geta stigið út úr kerfinu eða sem erum jafnvel að vinna að því að brjóta það niður, við erum ábyrg gagnvart öllum hinum um leið og okkur sjálfum. Sérstaklega vegna þess að neðar í götunni býr bláfátækur þriggja barna faðir sem vinnur alla daga vikunnar í verksmiðju og um allan heim eru milljónir einstaklinga sem hafa ekki færi á þessu. Þar sem svo mikið fer til spillis í okkar samfélagi, hversvegna ekki reyna að láta það koma að gagni í stað þess að búa til meiri úrgang, meiri neyslu? Hvað með þau sem taka þátt í því, líður þeim ekki eins og sníkjudýrum þar sem kerfið þeirra er að eyðileggja náttúru og bæla niður allar hugsjónir manna? Enginn er eyland, það er samt ekki spurning um hvort maður er bara að halda sjálfum sér uppi – hver sem heldur því fram hefur þá alltaf gert það á annarra kostnað – heldur hvort maður er að beita öllum brögðum til að gera heiminn að betri stað? Fólk spyr líka hvernig færi ef fleiri myndu lifa eins og ég, hvort að ekki væri þá af minna að taka. En það verður betra að lifa svona eftir því sem fleiri gera það, svo ég held að því fleiri sem lifa utan við kerfið því betra. Í öðru lagi, segjum sem svo að það eigi sér stað og það sem af gengur dugi okkur ekki, það er þá bara gott líka. Hafi maður fjöldann allan af fólki sem er harðákveðið í því að vilja fá meira út úr lífinu en stöðu á samkeppnismarkaði og þrýsting stórfyrirtækja á alla þætti tilveru sinnar og það fólk kemst ekki lengur af með því að hirða molana sem falla af markaðsborði kapítalistakerfisins … já, þá ertu með hóp af byltingarsinnuðum einstaklingum sem eru til í slaginn. Ef kraftur þeirra og ákefð er smitandi ganga fleiri í lið með þeim og krefjast aðgangs að þeim eignum samfélagsins sem búið er að einkavæða. Þá, eins og skáldið sagði, er svo málum komið að ekki verði aftur snúið. 

Gregarius: Ég veit að ég get gert þetta eins lengi og ég vil. Ég er alsæll með að hafa áttað mig á mörgum ólíkum þáttum tilverunnar, hliðum á lífinu sem ég hefði aldrei séð ef sjónarhorn mitt á það væri meira staðlað en það er. Ég hef líka kynnst svo mörgu frábæru fólki sem er að gera alveg geðveika hluti, fólki sem myndi leggja það á sig að hjálpa mér og benda mér á nýjar leiðir þyrfti ég á því að halda. Ég hef nógu mikla trú á sjálfum mér til að vera reiðubúinn að láta reyna á allskyns plön sem ég fæ í hausinn, án þess að horfa tilbaka. Fyrir hvern þann sem vill eiga ríkulegt ævintýralíf mæli ég alvarlega með því að gera fáránlega hluti eins og að hætta endanlega í vinnunni. 

 

Til baka í greinar