Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

 

Stutt samantekt innan andófssagnfræði 

Núna

  Sagnfræði getur verið stórhættuleg fólki sem vill snúa heiminum á réttan kjöl. Sökkvi maður sér í söguna getur fylgt því tilfinning um að vera hluti af einhverju orsakasamhengi, hlekkjaður við einhverja keðjuverkun sem ákveður alla mögulega hluti fyrirfram. Þegar maður horfir á sjálfan sig sem hluta af einhverri gríðarlegri stórri samfellu, er auðvelt að gleyma því að mannkynssaga er tiltölulega nýtt fyrirbæri.

  Mannkyn hefur verið til í meira en hundrað þúsund ár þannig að, ef eitthvað, þá er siðmenning síðustu nokkur þúsund ára frávik frá því sem mætti kalla „venjulegt.“ Fólk upplifði tímann á allt annan hátt áður en farið var skipt honum niður í fortíð og framtíð og síðan greina hann enn frekar niður, þar til hann fór að fljúga frá fólki. Forsögulegur tími var ekki línulegur. Tíminn endurtók sig í hringlaga tímabilum eða spírallaðist í endurtekningum, endalaust nýr og alltaf einstakur. Tíminn gat ekki ginnt fólk í gildru eða farið framhjá því, hann gat aðeins borið það að augnablikinu. Áður en siðmenningin fór að skrifa söguna voru hvergi landamæri eða staðlar sem náðu yfir allan heim. Þá var tíminn ekki heldur bundinn neinni reglu eða kerfi. Maður gat farið nokkrar dagleiðir heimanfrá sér og gengið inní gjörsamlega nýja heima, gegnum tíma og rúm sem einfaldlega var ekki hægt að mæla.

  Þau sársaukafullu augnablik sem fólk upplifir brenna í minni þess meðan tímabil mikillar hamingju geta gleymst. Eftirá getur það lýst yfirborðslegum smáatriðum, en sjálf tilfinningin er þá búin að bráðna saman við allar aðrar ánægjustundir. Þetta kemur ekki til af því að hamingjan sé formlaust ástand, heldur að hún er hluti af heimi sem sagnfræðin nær ekki utan um. Sagan getur ekki neglt niður eða lýst þeim hlutum sem gera lífið að því undursamlega dýrmæti sem það er, það er aðeins hægt á persónulegum grundvelli. Sagnfræðin er blind á þessa þætti, rétt eins og rannsóknartæki vísindamanna.

  Ekki lesa sagnfræðihluta þessarar bókar sem sögu andspyrnufólks eða hreyfinga og brautryðjenda þeirra, heldur sem kort af fortíðinni þar sem alvöru líf skaut upp kollinum til að minna fólk á að það mun alltaf koma aftur.

Frá níundu og fram á elleftu öld  

ÍSLENDINGAR LIFA ÁN STJÓRNVALDA 

  Stéttaskipt samfélög eru ófrávíkjanlega ríkisbundin. Mannfræðingum hefur reynst erfitt að finna dæmi um annað en þó er bent á eitt dæmi um samfélag sem var stéttaskipt en um leið laust við að tilheyra ríki og það er Ísland til forna. Frá níundu til elleftu aldar skiptist Ísland milli frjálsra manna og leiguliða. Úr hóp frjálsra manna völdust höfðingjar sem, með sínum fjölskyldum, mynduðu einskonar hástétt. Höfðingi hafði áhrif á hvernig fé dreifðist milli manna, hann heimti skatt og beitti stöðu sinni til að sölsa undir sig land. Í hverju höfðingjadæmi bjuggu um þúsund manns og ætlast var til þess af höfðingja að miðla málum þegar upp komu deilur vegna eigna eða mannvíga. Þó að höfðingi nyti óljósrar friðhelgi var hann áhrifamaður einungis svo lengi sem honum gekk vel að sannfæra fylgjendur sína um að hann væri fremstur meðal jafningja. Drægi samfélagið stuðning sinn tilbaka, var höfðinginn valdalaus. Hann hafði ekkert lögreglulið á bakvið sig. Slæmur höfðingi fékk ekki vilja sínum framgengt, fylgi hans hrundi og veldi hans um leið. Frjálsum mönnum sem líkaði ekki við höfðingja sinn var fært að neita stuðningi sínum við hann og taka sér annan. Höfðingjadæmið var ekki fullveldi heldur samningur milli höfðingja og frjálsra manna sem frjáls maður gat haldið eða rift að vild.

  Umfram höfðingjadæmin voru þing eina form stjórnmála á Íslandi til forna. Þing voru haldin í hverju hérað fyrir sig og síðan alþingi fyrir allt landið. Á þingum komu saman frjálsir menn leiddir af höfðingjum sínum og ræddu sameiginleg vandamál. Þing var ekki eins og þær ríkisstofnanir sem þekkjast í dag þar sem þau höfðu ekki vald til að skipa menn í lögreglustörf né á nokkurn hátt annan knýja fram að farið væri eftir ákvörðunum þess. Það var upp á almenningi komið hvort að ákvörðunum þings var framfylgt sem þýddi yfirleitt að þeir sem áttu hlut að máli myndu reyna að leysa málið. Dómum var oft ekki fylgt eftir og í annan stað enduðu tilraunir til eignaupptöku með erjum.

  Helsta ástæða þess að svona stjórnarfarsleg heild laus við miðstýringu entist svo lengi, er öfund höfðingja gagvart völdum annara höfðingja sem leiddi þá til þess að spyrna móti því að vald yrði miðstýrt. Valdabarátta milli höfðingja leiddi að lokum til þess að einn höfðingi náði yfirhöndinni og setti Ísland undir norska kónginn. Svo virðist sem stéttskipt samfélag sem er laust við ríki sé óstöðugt fyrirbæri og meira að segja með ólíkindum að það hafi verið til eins og á Íslandi þar sem það felur í sér of mörg fyrirbæri sem minna á ríkisfyrirkomulag.

  Svo lengi sem samfélög eru stéttskipt munu þau enda undir ríkisstjórn. Ekki við öðru að búast. Hafi maður hástétt til staðar mun hún sjá til þess að ríki myndist til að verja stöðu sína og hagsmuni.  

 

 

 

Í gegnum miðaldir

FYLGJENDUR HINS FRJÁLSA ANDA 

  Í nær tvö þúsund ár var kaþólska kirkjan með kverkatak á Evrópu. Hún gat það því í Evrópu þess tíma hafði kristin trú einkarétt á tilgangi lífsins. Í heimspeki kirkjunnar var ekkert í þessum heimi einhvers virði. Maðurinn var óhreinn og óguðlegur, fastur á einskis nýtri jörð og allt fallegt var langt utan seilingar; í himnaríki.* Eini milliliður milli þessa heims og næsta var kirkjan og aðeins í gegnum hana gat fólk komist að tilgangi lífsins.

  Fyrsta uppreisnin gegn þessari einokun var dulspeki. Dulspekingar voru staðráðnir í að upplifa hina ójarðbundnu sælu persónulega og gerðu hvað sem til þurfti til að ná að heimsækja himnaríki - sveltu sig og strýktu og lögðu stund á allskonar afneitanir og sjálfspyntingar til að fá fram augnablik guðlegs innsæis og snúa aftur til að segja frá hvaða blessunarástand biði trúaðra. Með tregðu tók kirkjan opinberlega fyrstu dulspekingana í sátt, en bak við tjöldin þótti þeim fáheyrt að einhver dirfðist að virða að vettugi þeirra himnesku einokunarstöðu sem eini milliliður guðs og manna. En kirkjunnar menn voru samt rólegir því að sögurnar sem dulspekingarnir sögðu studdu þá kenningu kirkjunnar að allan verðleika og tilgang væri að finna í annari tilvist.

  En einn góðan veðurdag birtist ný tegund af dulspeki. Þau sem lögðu stund á hana voru karlar og konur sem höfðu farið í gegnum dulspekiferlið, en komu út með allt aðra frásögn. Þau sögðu sambandið við guð geta verið varanlegt. Um leið og þau fóru í gegnum sína umbreytingu, fundu þau að ekkert skildi milli himnaríkis og jarðríkis, á milli heilagleika og dauðleika eða milli guðs og manna. Þau voru að öllu jöfnu kölluð Bræðralag hins Frjálsa Anda. Þetta villutrúarfólk kenndi að eina erfðasyndin væri sú skipting heimsins sem blekkti mannkyn til eilífrar útskúfunar og fordæmingar, því ef guð var heilagur og góður og hafði skapað alla hluti, þá voru sannarlega allir hlutir góðir og allt sem þurfti til að öðlast fullkomnun var að átta sig á þessu.

  Þannig að þetta villutrúarfólk varð guðir á jörðu. Þau þurftu ekki að berjast gegnum tilveruna til að nálgast himnaríki heldur var það staður sem þau lifðu á nú þegar. Hver tilfinning sem þau fundu í hjarta sínu var fullkomlega falleg og heilög og jafn sönn og rétt og hvert hinna heilögu boðorða. Hún var einnig mikilvægari en siðir og lög manna, því allar tilfinningar voru sköpun guðs. Samkvæmt opinberun þeirra var maðurinn og heimurinn fullkominn, því gátu þau gengið útfrá sjálfum sér en ekki guði sem miðpunkt alheimsins. Kirkjunnar vald og hennar hlutdræga heimsýn hafði hingað til þýtt að ef guð hefði ekki fundið upp mannfólkið, þá væri það ekki til. En þar sem villutrúarfólkið viðurkenndi nú aðeins eigin upplifanir af guði, var guð til svo lengi sem þau voru til.

  Bókin Schwester Katrei er ein þeirra heimilda sem hafa varðveist frá þessum tíma en hún lýsir leit konu einnar að guðleika gegnum dulspeki. Samkvæmt bókinni hrikti í trúarheimi miðalda þegar konan tilkynnti skriftaföður sínum: „Herra minn, fagnaðu með mér, því ég er orðin guð."

  Fylgjendur  hins frjálsa anda var aldrei skipulögð hreyfing eða trúfélag. Þau voru æðrulausir ferðamenn sem fóru milli landa í leit að ævintýrum. Leyndarmál þeirra bárust um allan heim meðal fólks af öllum stéttum. Þetta voru landshornaflakkarar sem neituðu að vinna, ekki vegna sjálfsafneitunar, heldur vegna þess að þau töldu sig vera of góð til þess og þau bentu á að allir sem vildu gætu verið það líka. Þau voru samkvæm sjálfum sér og neituðu að eyða lífinu í að selja sannfæringu sína, einsog margir hefðbundnir fylgjendur krists gera (og kommúnistar og jafnvel anarkistar líka), heldur einbeittu sér að því að lifa samkvæmt sannfæringu sinni - sem reyndist auðvitað mun áhrifaríkara.

  Kaþólska kirkjan svaraði auðvitað fyrir sig með því að slátra þessum villutrúarmönnum í þúsundatali. Hógværari viðbrögð en fjöldamorð hefði riðið kirkjunni um koll, því þessi frjálslynda guðfræði gróf alvarlega undan valdi hennar en þrátt fyrir ofbeldi kirkjunnar náðu leyndarmál hins frjálsa anda að dreifast víða. Þau hafa ferðast óséð og óskráð í gegnum bakdyr sögunnar og valdið félagslegu umróti hundruðum ára seinna og víðs fjarri uppruna sínum.** Í mörgum tilfellum varð vald kirkjunnar næstum því að engu gert vegna þessara ófyrirsjáanlegu andspyrnuhreyfinga.  

* Jafnvel í dag þá kennir Kristni að allt það góða í manninum sé guðseign og að allt sem er ófullkomið sé manninum að kenna - þannig að fyrir hinum kristna guði er aðeins til  fólk sem er svívirðilegt og gallað.

** Lesið má sér til um Ranters, Diggers, Anababtista og Antinomians í sagnfræðibókum eftir anarkista.

 

Til baka í greinar