Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

SINNASKIPTI RIMBAUD VIÐ BANABEÐIР

„LÍFIÐ ER ANNARSSTAÐAR” – Skrifaði Rimbaud í dagbók sína, mánuði áður en hann fór frá býli móður sinnar.

  Á banabeði játaði Arthur Rimbaud kristna trú, sem hann áður fyrirleit og setti enn fordæmi þess að lifa lífinu til fullnustu. Hann fæddist annar í röðinni af fjórum börnum landsbyggðarkonu í Frakklandi. Sextán ára hljópst hann á brott, lifði heimilislaus á götum Parísar og skrifaði ljóð sem voru bæði draumkennd og full af guðlasti. Hann kynntist skáldinu Verlaine og gisti hjá honum þangað til að eiginkona Verlaines neyddi hann til að fara. Verlaine hafði orðið ástfanginn af honum og hélt honum áfram uppi þrátt fyrir hneykslið sem samkynhneigt samband þeirra olli. Rimbaud setti París á annan endann, sló hattana af prestum á götum, réðist með orðum og gjörðum á vinsæl skáld sem Verlaine kynnti hann fyrir og eyðilagði hjónaband hans. Þeir flúðu saman til sveita, fluttu síðan til London og lifðu í aumri fátækt þangað til Rimbaud fékk ógeð á Verlaine, sem sagðist ekki geta lifað án hans, og yfirgaf hann. Í örvæntingu sinni skaut Verlaine á Rimbaud svo hann særðist á úlnlið. Lögreglan komst í málið og Verlaine var fangelsaður í tvö ár, ekki fyrir árásina heldur fyrir kynvillu. Á meðan flúði Rimbaud til býlis móður sinnar, þar sem hann lauk við ljóðabálk sem átti eftir að breyta ritlist að eilífu. Átján ára lagði Rimbaud frá sér pennann og tilkynnti að hann væri hættur skáldskap. Hann lærði fjögur tungumál í viðbót (þýsku, arabísku, rússnesku og hindústaní – hann kunni þegar m.a. frönsku, ensku og latínu) og lagðist í ferðalög. Hann gekk yfir Alpana. Gekk til liðs við Hollenska nýlenduherinn en strauk síðan þegar herinn var kominn til Indónesíu. Þar slóst hann í hóp þýskra fjöllistamanna og fór með þeim í sýningarferð um skandinavíu, heimsótti síðan Egyptaland og vann sem verkamaður á Kýpur. Meðan á þessum ævintýraferðum stóð hrjáðu hann alvarleg veikindi en hann lét það ekki stöðva sig. Tuttugu og níu ára gamall var hann fyrsti hvíti maðurinn til að ferðast til Ogaden svæðisins í Eþíópíu og skýrsla hans um ferðalagið (sem var birt í tímariti Geographical Society) vakti mikla athygli hjá mörgum menntastofnunum.

  Rimbaud flutti til Eþíópíu sem vopnasmyglari, varð mjög náinn íbúunum, bjó með innlendri konu og vingaðist við konunginn. Hann fékk bréf frá þekktu ljóðatímariti í Frakklandi, þar sem hann var sárbændur um að leiða þá nýju bókmenntahreyfingu sem hafði sprottið útfrá skrifum hans, en hann lét ekki svo lítið að svara því. Hann snéri ekki aftur til Evrópu fyrr en hann fékk æxli í hægra hnéð og neyddist til að ferðast á sjúkrabörum þúsundir kílómetra aftur til Frakklands þar sem fóturinn var tekinn af. Hann var svo útkeyrður að ást hans á lífi og sannleika fékk að víkja. Hann játaði syndir sínar fyrir presti áður en hann dó, þrjátíu og sex ára að aldri.

  Rimbaud vissi betur en að spara sig fyrir gröfina. Hann eyddi öllu sem hann átti í þessum heimi. Hann brenndi upp peninga, heilsu, vini, fjölskyldu til að kynda lífsneistann. Þannig að þegar dauðinn sótti hann, fékk hann ekkert, ekki einu sinni mann með stoltið eða skynsemina í lagi.

  Saga Rimbaud getur verið öllu ævintýrafólki fordæmi. 

 

desember 1900

DROTTNING DRAGKEISARA  STÍGUR INNÍ SUFI PARADÍS 

„Lífið er hér.“

– Úr dagbók Isabelle, mánuði áður en hún dó. 

  Leið Isabelle Eberhardt liggur yfir suðurhluta alsírsku eyðimerkurinnar til Touggourt. Hún er dulbúin sem ungur arabískur karlmaður og ferðast í fylgd hundruða manna og kvenna sem öll eru klædd vönduðum, margbrotnum klæðum íbúa eyðimerkurinnar. Lyktin af byssupúðri liggur í loftinu og ómur af flautum og trumbum fylgir þeim er þau ríða hægt til fundar við El Hachemi, ættarhöfðingja Sufi hirðingja, en Isabelle hafði leynilega gengið í söfnuð hans. Þegar þau nálgast höfðingjann er hann, ólíkt litríkum mannfjöldanum, klæddur einföldu, grænu silki, með grænan túrban og í hvítri dulu eins og hæfir afkomanda spámannsins El Djilani. Manngrúinn hyllir hann og kallar „Ya O Djilani!"“ Eyðimörkin í kring, sem alla jafna virðist líflaus auðn, lifnar við af hópum fólks. Virðulegir hirðingjar hópast saman í rykinu, á meðan breitt er úr litríkum flöggum með látum og hestar stappa niður hófunum af óþreyju. Þegar liðið hefur safnast saman liggur leiðin að gríðarstórri sléttu, þakinni grafreitum, þar sem reiðmenn og hestar leyfa opnu svæðinu að grípa sig og láta vaða á þeysireið „að því er virtist að endimörkum jarðarinnar“ skrifaði Isabelle seinna. Fantasían stóð í tvo daga og Isabelle er enn þann dag í dag eina evrópska konan sem hefur upplifað þennan viðburð. Hún var þá 23 ára gömul.

  Isabelle fæddist árið 1877 í Sviss, dóttir rússneskrar aðalskonu í útlegð og armensks anarkista í dulargervi prests. Faðir hennar ól hana upp sem anarkista á sveitasetri utan við Genf. Við sextán ára aldur var hann búinn að kenna henni að tala rússnesku, frönsku, þýsku og ítölsku og að lesa Kóraninn á arabísku. Nítján ára flutti hún til Genfar, en þar vann hún sem ritari fyrir rússneskan hryðjuverkahóp í útlegð. Á kvöldin dulbjó hún sig sem ungan sjóliðastrák og gat skoðað dimmustu skúmaskot í Genf Viktoríutímans, skríðandi frá einum skuggalegum bar til hins næsta.

  Hún þráði að sleppa frá einangrun Evrópu og eltast við gamlan draum um að skoða goðsagnakennd lönd Afríku og tvítug að aldri ferðaðist hún með leynd til norður-Alsír dulbúin sem ungur arabískur námsmaður. Þar fann hún fyrir því frelsi sem fylgir sönnu sjálfstæði og sem ögrun við evrópsk gildi þessa tíma náði hún sér í elskhuga af öllum gerðum. Eftir stutt tímabil ásta og ánægju, samfara því að fullkomna arabískuna, gekk hún til liðs við stúdenta í stuttri uppreisn gegn frönsku nýlendulögreglunni í miðjarðarhafsborginni Bone. Vopnuð hníf og skammbyssu náði hún að særa og drepa að minnsta kosti einn lögreglumannanna í götubardögum sem dreifðust um alla borg. Til að sleppa við handtöku fór Isabelle í felur og skaut upp kollinum mörgum mánuðum seinna í París, sem blaðamaður af „tyrkneskum“ uppruna. En hún þráði að komast í eyðimörkina sem henni hafði ekki tekist í fyrstu ferð, þannig að með leynd sneri hún aftur, enn dulbúin sem ungur arabískur karlmaður. Hún ferðaðist suður að sléttunum víðáttumiklu, gekk til liðs við ættbálk eyðimerkurhirðingja, varð dulspekingur og giftist ungum arabískum stríðsmanni. Hún lifði af morðtilraun af hendi manns sem tilheyrði fjandmannahóp á mála frönsku landstjórnarinnar í Alsír. Réttað var yfir launmorðingjanum og nafn Isabelle varð vel þekkt í Alsír vegna réttarhaldanna. Hún nýtti sér umtalið til að fá aftur blaðamannsstöðu, í þetta sinn hjá fransk-alsírsku fréttablaði. En frægðin kom henni einnig í koll því hún var undir smásjá franskra, svissneskra og rússneskra yfirvalda vegna ýmissa umdeildra aðgerða sem hún hafði tekið þátt í. Þannig að hún ákvað að elta franska herinn sem var að gera innrás í afskekkt landamærahérað í Marokkó. Isabelle fór að vanrækja verkefni blaðamannsins þegar hún kynntist Sufi dulspekingi sem bjó í földu fjallavirki. Hún hvarf í nokkra mánuði. Hvaða heimum hún var týnd í getur enginn sagt til um. Hún birtist aftur í landamærabæ, örþreytt og veik af malaríu. Líkami hennar eyðilagður vegna þess átakamikla lífs sem hún lifði. Hún fórst stuttu seinna í skyndilegu flóði, 27 ára gömul.

  Ævisaga Isabelle og þær hugsanir sem hún skildi eftir í dagbókum sínum minnir á að hugsi maður ekki eins og túristi þegar lagt er í ferðalög getur það leitt mann til heima sem varla hefði verið hægt að ímynda sér. Hver sem gæti upplifað einungis brot af ástríðufullri leit Isabelle að lífinu myndi víkka sjóndeildarhring sinn meira en nokkur túristi fær nokkru sinni upplifa.

 
Nítjánda öldin

ÞINGEYSKIR BÆNDUR ÁTTA SIG Á EIGIN ANARKISMA 

  Um miðja nítjándu öld, í Þingeyjarsýslu, stofnuðu bændur með sér hópa til sjálfsmenntunar. Bændur lásu sjálfir og fyrir aðra upp úr bókum og tímaritum flestum á danskri tungu. Fyrir utan klassísk skáldverk eftir höfunda eins og Fjodor Dostojevskí, Victor Hugo, Emile Zola og Charles Dickens og þá höfunda sem hæst bar á Norðurlöndunum voru bændur að kynna sér hugmyndir anarkista. Bækurnar, sem seinna urðu grunnur fyrir bókasafn Þingeyjarsýslu, voru m.a. Mutual Aid, Memoirs of a Revolutionist og Fields, Factories and Workshops eftir Peter Kropotkin, The Bible of Anarchy eftir Jaeger, News From Nowhere eftir William Morris, tíu bækur eftir Tolstoy og eftir Henry George; Progress and Poverty og Social Problems and Protections or Free Trade.

  Hugmyndafræði anarkismans, sem kynnt er m.a. í bókum Kropotkin og Morris og kemur mikið við sögu í lífssýn Tolstoys, varð bændum hvatning til stofnunar eigin samvinnuhópa um verslun og vörudreifingu. Þannig urðu fyrstu kaupfélögin til og einnig Samvinnuhreyfingin. Síðustu áratugi nítjándu aldar óx hreyfingin hratt og umsvif hennar um leið. Snemma á tuttugustu öldinni var hreyfingin að breytast í skrifræðisbákn sem seinna hrundi um sjálft sig, þar sem aldrei var horft í leiðirnar þegar markmiðin voru ákveðin.

 

 

Til baka í greinar