Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Erindi um eðli og inntak anarkismans flutt 3.febrúar 1998 í námskeiðinu "Hugmyndasaga 19. og 20. Aldar"

Fyrirlesari: Arnar Eggert Thoroddsen

Kennari: Vilhjálmur Árnason

1. Almennt um anarkismann

Anarkisminn, er tærasta birtingarmynd einstaklingshyggju í pólitískri hugmyndafræði.

Rætur anarkismans liggja í þeim efnahagslegu aðstæðum sem urðu til í kjölfar iðnbyltingarinnar miklu í Evrópu á 18. öld. Hún leiddi til aukins skrifræðis og stjórnkerfi yfir mönnum varð að ópersónulegu bákni. Fólkið sem var undir þessu kerfi hvarf sem skapandi einstaklingar og urðu að sauðsvörtum almúga sem seldur var undir almenn lög og reglugerðir sem gerðu ekki ráð fyrir einstaklingsbundinni og skapandi hugsun.

Anarkisminn hefur verið heldur misskilin hugmyndastefna, flestir samsama hann ofbeldi og upplausn af ýmsu tagi. Fræðilegir anarkistar gera aftur á móti skýran greinarmun á „chaos“ (glundroða) og „anarchy“ (stjórnleysi). Í þeirra augum ríkir glundroði og upplausn í heiminum í dag vegna þess að „stjórnleysi“ er ekki til staðar. Ef því yrði komið á þá myndi loksins samhljómur og regla á meðal manna komast á.

Það eru nefnilega hin ýmsu stjórnkerfi yfir mönnum sem eru helsti þröskuldurinn fyrir farsælu og þroskandi lífi skvt. anarkismanum og vilja fylgismenn hans að þau hverfi að hluta til eða þá algerlega.

Enginn, hvorki einstaklingar né stjórnvöld, hefur rétt á að skipta sér af okkar lífi. Við þurfum ekki á stjórnvöldum að halda til að kenna okkur rétta siðlega breytni. Gott uppeldi og virðing fyrir náunganum á að sjá til þess. Kenning Rousseau um að maðurinn sé í eðli sínu góður liggur því til grundvallar heimspeki anarkista og er anarkisminn í raun einhverskonar „rökrétt niðurstaða“ hugmyndarinnar um frelsi til handa öllum mönnum sem spratt upp úr frönsku byltingunni.

Anarkistar trúa því að þættir eins og efnahagslegt misrétti valdi því að fólk er knúið gegn vilja sínum að rjúfa hin félagslega samhljóm með glæpum og svikaplottum. Í samfélagi þar sem þörfum allra er fullnægt, efnislegum sem andlegum, sé ekki þörf á ofbeldi og ránum.

Anarkistar eru því á móti hverskyns efnislegri auðsöfnun og gerviþörfum og kjósa þá heldur einfaldan lífsstíl þar sem mannkostir hvers og eins fái að njóta sín til fulls án nokkurra hafta frá einum né neinum.

Anarkisminn leggur til að samfélögum manna sé skipt upp í litlar „kommúnur“ sem hafi algert sjálfræði. Þar myndu einhverjir aðilar sjá um stjórn ákveðinna mála en sú stjórn hefur ekkert með vald að gera heldur einungis „að málum sé háttað á hina skynsamlegasta máta“. Semsagt reglur en ekki lög.

Anarkisminn er í eðli sínu öfgastefna og hefur skýr hugmynd um algert frelsi einstaklingsins til lífs og athafna heillað suma upp úr skónum og hafa þeir tekið upp lífshætti skvt. hugmyndum anarkismans og reynt að raungera þær með ýmsum ráðum.

Dæmi um þetta væri væri Crass-flokkurinn sem varð til í Englandi í lok áttunda áratugarins er pönktónlistin var í algleymi. Hann notaði ýmis ráð (öll friðsamleg) til að breiða út boðskap anarkismans.

Helsta vandamál anarkismans sem hugmyndastefnu virðist liggja í þeirri þversögn að hún vill koma á fullkomnum  samhljómi  í samfélaginu um leið og gerð er krafa um algert einstaklingsfrelsi.

2. Helstu stefnur innan anarkismans

Nú ætla ég rétt að tipla á helstu tilbrigðum anarkismans og einnig að lýsa í stuttu máli hugmyndum helstu fræðimanna hans.

Skvt. upprunalegum hugmyndum anarkismans þá er hann í eðli sínu til vinstri á hinum pólitíska kvarða, þó að flestir anarkistar væru á móti því að stefnan sé sett í einhvern flokk. Anarkisminn boðar að samfélag allra manna verði gott ef hugmyndir hans ná fram að ganga.

Svonefndir samfélagslegir eða sósíalískir anarkistar vilja frelsa einstaklinginn frá höftum stjórnkerfisins (ríkisins) svo að hann geti unnið samfélaginu sem heild mestan og bestan veg. Þessi vinstri anarkismi hefur verið kallaður hinn „sanni“ anarkismi og falla flestir fræðimenn hans í þann flokk. Til er afbrigði af anarkisma sem fer langt til hægri í hugmyndafræði sinni og má deila um hvort að það afbrigði geti talist anarkismi

Upphaf anarkískrar hugsunar eins og við þekkjum hana í dag má rekja til Gerrard Winstanley (1609-1660). Meginhugmyndir hans voru á þá leið að landeignum skyldi skipt í litlar kommúnur sem stjórnað væri af verkamönnunum sjálfum. Afurðum landsins yrði svo skipt bróðurlega á milli þeirra sem ræktuðu það. Það var einnig skoðun hans að það væru órjúfanleg tengsl á milli einkaeignarréttar og skorts á frelsi.

Hugmyndir William Godwin eru taldar undanfari anarkisma sem sjálfstæðrar hugmyndafræði og flestir fræðimenn setja upphafspunkt anarkisma hjá honum. Hugmyndir hans bera sterkan keim rómantrískrar sýnar frönsku byltingarinnar á getu mannsins til að koma öllu í lag með beitingu hreinnar skynsemi. Að þessu leyti var Godwin á móti byltingu og beinum aðgerðum til að koma á breytingu í samfélaginu. Menn eiga að fylgja eigin skynsemi til þess að meta hvað sé rétt og rangt en ekki utanaðkomandi lögum sem meina manninum að þróast og þroskast.

Godwin var á móti öllu stofnunum, sem og samfélagslegum tengslum sem fela í sér að einn maður ráði yfir öðrum og gekk hann svo langt að nefna starf sinfóníustjórnenda sem dæmi um það síðastnefnda. Hann sá framtíðarskipulag samfélagsins sem laustengt net lítilla kommúna sem myndu einkennast af jafnræði með tilliti til samskipta og skiptingu efnahagslegra þarfa.

Pierre Joseph Proudhon varð fyrstur til þess að kalla sig opinberlega anarkista.

Proudhon lýsti því yfir að eign væri stuldur („property is theft“). Verkamennirnir skapa gildi afurðanna með vinnu sinni og þeir væru síðan sviptir framleiðslu sinni. Verkamennirnir ættu að stofna með sér lítil félög eða samtök („syndicates“) og dreifa afurðunum á sem réttlátastan hátt. Proudhon er því upphafsmaður anarkó-syndíkalisma („anarcho-syndicalism“)  sem náði fótfestu hjá verkalýðsfélögum margra landa í kringum aldamótin, einkum Frakklands.

Proudhon var á móti ofbeldi  til að koma breytingunum á. Verkamennirnir ættu að koma þeim á með friðsamlegri umbreytingu á kerfinu með því að leiða ríkið og starfsemi þess hjá sér og stofna með sér áðurnefnd samtök.

Einn þekktasti anarkistinn er án efa Mikhail Bakunin en hann er talinn vera upphafsmaður róttæks anarkisma sem einkennist af ofbeldi og beinum aðgerðum til að koma á breytingum. Þessi tegund anarkisma hefur valdið því að fólk hefur verið tortryggið í garð stefnunnar og finnst hún vera tæki til að koma á glundroða og örvilnun. Hugmyndafræði Bakunins hefur verið kölluð “collectivism” eða samráðshyggja og snýst í stuttu máli um að það að verkamennirnir eiga að vinna saman að falli ríkisins.

Stefna Bakunins að taka upp beinar aðgerðir fékk snemma hljómgrunn. Þeir sem framfylgdu þessari stefnu hófu að sprengja allt og alla í loft upp. Öllum táknum ríkisvaldsins svo sem opinberum byggingum var reynt að gereyða og gerðar voru tilraunir til að koma fulltrúum þess fyrir kattarnef og endaði erfingi Austuríkis-Ungverjalands lífið vegna þessa og var fyrri heimsstyrjöldinni þar með hleypt af stokkunum.

Engir gengu eins langt í þessum hryðjuverkum og hinir rússnesku níhilistar (virkir á milli 1860 og 1880). Að mati þeirra yrðu umbætur bara mögulegar ef ríkinu yrði eytt bókstaflega. Eyðing samfélagsins var eini uppbygggilegi hluturinn í stöðunni. Níhilistinn Sergei Nechayev kemst að kjarna heimspeki þessarar „undirgreinar“ anarkismans með eftirfarandi setningu: „Við verðum að helga okkur algerlega eyðileggingu, stöðugt, látlaust, linnulaust, þar til að allar stofnanir eru á bak og burt fyrir fullt og allt“. (PI, bls.136).

Prinsinn Kropotkin var undir sterkum áhrifum frá Bakúnin þó að hann sneri síðar á lífsleiðinni frá því að ofbeldisfullar aðgerðir væru leiðin til breytinga. Hann trúði því að ríkið eyðileggði hið samfélagslega eðli manna og sneri þeim gegn hvor öðrum í stað þess að þeir myndu nýta skynsemi sitt og vit til að vinna saman að farsælli samfélagsgerð.

Rithöfundurinn Leo Tolstoy boðaði kristilegan anarkisma án ofbeldis. Hann vissi að það myndi taka langan tíma að koma á samfélagi án stjórnkerfis þar sem að hugsun manna þyrfti að taka gagngerum breytingum og það myndi ekki gerast á einni nóttu. Hann er því heimspekilegur anarkisti eða „friðvænlegur“(„pacifist“)  anarkisti.

Snúum okkur næst að einstaklingshyggju-anarkismanum eða „individualist-anarchism“. Max Stirner er einn helsti hvatamaður þessarar stefnu sem boðar afnám yfirráða til þess að einstaklingurinn nái sem mestum lífsgæðum sjálfum sér til handa án tillits til þeirra sem í kringum hann standa.. Stirner hafnaði ríkinu og samfélaginu og lagði upp með þá skoðun sína að eini raunveruleikinn væri maðurinn sjálfur (þessi stefna hefur einnig verið kölluð Egóismi, Individualistismi) og sá hann tilveruna fyrir sér sem samtök einstaklinga sem bæru gagnkvæma virðingu fyrir hvor öðrum sem “einstökum” einstaklingum. En þar sem að hið eina raunverulega fyrir manninn er hann sjálfur þá ber hann hvorki ábyrgð né skyldur gagnvart neinu nema sjálfum sér.

Vandamálið við einstaklings-anarkismann er að hann virðist á skjön við samfélagslegar rætur anarkismans og því vafamál hvort að það eigi telja þessa hugmyndafræði sem anarkisma. Fræðimenn virðast stundum taka hugmyndir úr stefnum sem þeim líst vel á og móta síðan nýja hugmyndafræði sem getur stangast á við grunheimspeki upprunalegu stefnunnar þó að þessir ákveðnu fræðimenn trúi því að þeir séu enn að vinna innan sömu stefnu.

3. Tengsl anarkismans við aðrar hugmyndafræðilegar stefnur

 

Anarkó-syndíkalismi varð til er anarkistar gengu í frönsku verkalýðsfélögin um 1880 og náði þessi stefna útbreiðslu í Frakklandi, Spáni, Ítalíu og rómönsku-Ameríku. Syndíkalismi byggist á kenningum Proudhon eins og áður er getið en einnig á kenningum franska heimspekingsins George Sorel og gengur út á að verkalýðsfélög eigni sér framleiðslutækin og starfsmenn stjórni verksmiðjunum. Munurinn á anarkisma og anarkó-syndíkalisma er að seinni stefnan reynir að nota hugmyndafræði syndíkalismans til að hrinda drauminum um anarkískt sæluríki í framkvæmd. Verkamenn áttu að standa saman og leggja niður vinnu og með þess háttar beinum aðgerðum var kominn möguleiki á því að kollsteypa kapítalismanum.

 

Anarkisminn á rætur í sósíalisma 19. aldar og lengi vel var rætt um helstu kyndlabera anarkismans sem róttæka sósíalista. Hinn hugmyndafræðilegi munur á þessum tveimur stefnum felst í því að anarkistar gátu ekki sætt sig við þá tilætlun Marxista að nota ríkið til að koma á byltingu. Þó að skvt. kenningu Marx og Engels myndi ríkið gufa upp eftir að verkalýðurinn yrði tímabundið við völd þá óttuðust anarkistar að ríkið yrði notað til áframhaldandi kúgunar á þeim sem væru ekki við völdin hvort sem valdahafarnir væru burgeisar eða vel meinandi Marxistar. Marxismi og anarkismi stefna semsagt báðir að ríkislausu samfélagi en anarkistar vilja að ríkið hverfi strax og í stað þess sé komið á litlum sjálfstjórnarkommúnum.

Einnig eru til stefnur eins feminískur anarkismi, „grænn“ anarkismi, menningarlegur anarkismi og jafnvel kapítalískur anarkismi.

 

Til baka í greinar