Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Nóvember/Desember 1999 og Apríl 2000

ÚR BIÐSTÖÐU TIL MÓTS VIÐ HIÐ ÓVÆNTA 

  Tuttugu þúsund óbreyttir borgarar lokuðu fyrir ráðstefnu á vegum Alþjóða verslunarráðsins (WTO) í Seattle. Stuttu seinna var á svipaðan hátt gengið milli bols og höfuð á ráðstefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans í Washington, D.C. Þarna voru einstaklingar og hópar fólks frá austur- og vesturströnd Bandaríkjanna að átta sig á hamingjunni sem felst í beitingu beinna aðgerða til að ná ákveðnum markmiðum, í stað þess að bíða kurteislega eftir að stjórnmálamenn og viðskiptamógúlar taki kröfur þeirra til athugunar. Mótmælendur voru ekki sammála um allar aðgerðir, þar sem sumir létu sér nægja að mála skilaboð á skilti meðan aðrir tóku út reiði sína á útstillingum stórfyrirtækja og verslanakeðja. Þrátt fyrir að skemmdarverk rími ekki við kröfur um raunverulegar aðgerðir til að binda endi á fátækt í heiminum, verður að segjast eins og er að kröfurnar hefðu ekki komist jafn mikið í fréttirnar ef hluti mótmælenda hefði ekki látið reiði sína bitna á eignum hástéttarinnar. 

14. júní 2005

ENN RÍÐA HETJUR UM HÉRUР

  Fulltrúar á tíunda málþingi álframleiðenda í heiminum sátu á Hótel Nordica og voru í rólegheitum að stæra sig af umhverfisvænum álverum (sem þó eru ekki til) og aðferðum til að láta náttúru Íslands skila alþjóðlegum stórfyrirtækjum hagnaði, þegar nokkrir anarkistar ruddust í salinn með miklum látum, sögðust hafa skilaboð til fundargesta og slettu grænlitri skyrsúpu að hætti Helga Hós á fundargesti. Settlegir ráðstefnugestirnir sem daginn áður höfðu hunsað mótmæli fyrir utan hótelið og jafnvel bent á mótmælendur og glott að þessum grænhippum urðu skelfingu lostnir þegar grænleitur vökvinn slettist á þá. Ráðstefnan fór auðvitað í uppnám við þessa innrás og Armani jakkaföt álfurstanna breyttust á svipstundu í nýju fötin keisarans.

  Skyndilega voru þeir ekki lengur hópur af einstaklingum með völd til að breyta bæði ásýnd Íslands og efnahag þess heldur kjánalegt fólk í grænflekkóttum sparifötum. Heyra mátti á göngunum eftir aðgerðina: Ísland er ekki öruggt lengur og einn af skipuleggjendunum, sem hafði verið ansi hörð í horn að taka daginn áður þegar hún skipaði lögreglu að hirða þessa ellilífeyrisþega og menntafólk sem stóð fyrir utan hótelið að reyna að gefa ráðstefnugestum upplýsingar, var alveg miður sín. „Ég hef skipulagt svona ráðstefnur í 10 ár og aldrei, aldrei hefur neitt í þessari líkingu gerst.“

  Markmið anarkistanna var fyrst og fremst að gefa ráðstefnugestum þau skilaboð að þeir séu ekki velkomnir á Íslandi og að hert innrás alþjóðlega áliðnaðarins á Ísland myndi mæta meiri hörku frá íslenskum mótmælendum. Skyrslettumálið kom umræðunni um stóriðjuframkvæmdir og Kárahnjúkavandann aftur upp á yfirborðið og hin íslensku umhverfissamtökin fengu aftur tækifæri á að tjá sig um sín málefni í fjölmiðlum, en fyrir þessar aðgerðir var eins og jörðin hefði gleypt alla mótspyrnu og andstöðu við virkjanaæðið og stóriðjuhamfarirnar. Máttleysið og uppgjöfin sem kom í kjölfar fyrstu sprengjunnar við Kárahnjúka heyrði sögunni til og andstæðingar stóriðjustefnu ríkisvaldsins byrjuðu aftur sókn sína af nýjum krafti sem náði ákveðnu hámarki með sögulegum tónleikum í Laugardalshöll í janúar 2006.

  En í hvert skipti sem andspyrnan verður virk þá efla fyrirtæki eins og Landsvirkjun (gjarnan kölluð Illvirkjun) áróðursstríð sitt. Fyrirtækið er að eyða milljónum af skattpeningum vinnandi fólks til að fegra og falsa upplýsingar um afleiðingar stóriðjustefnu. Það þarf hugrekki og sköpunargleði til að sporna við þessu stóriðjuæði sem virðist hafa gripið um sig á Íslandi. Andspyrnan er lifandi núna og fólk úr öllum samfélagsgeirum er að vinna leynt og ljóst að því að upplýsa almenning um skaðsemi þess að selja landið svona ódýrt með skammtímalausnum sem munu ekki undir neinum kringumstæðum leysa hinn svokallaða landsbyggðarvanda. Ekki er hægt að núa því um nasir umhverfisverndarsinna að hafa ekki getað komið með nein mótrök eða uppbyggilegar hugmyndir um hvað annað væri hægt að gera til að leysa þennan vanda.

  Auðvitað er landsbyggðavandinn mikill og segja má að hluti vandans sé kvótabrask og skammtímalausnir. Áhugavert er að skoða tölur um fólksflótta að austan, hann hefur aldrei verið meiri en eftir að álver og landsins stærstu stíflu fór að rísa á þeim slóðum. Aftur á móti þá hefur orðið gríðarleg aukning af erlendu vinnuafli, frá norður Kína og Póllandi. Þetta fólk fær ekki sömu laun og réttindi og íslenskir kollegar þeirra og þannig hefur ríkinu og öðrum atvinnurekendum tekist að grafa undan þeirri réttindabaráttu sem verkalýðshreyfingarnar hafa staðið í síðustu áratugi. Andspyrnutjaldbúðir við Kárahnjúka síðastliðið sumar og aðfarir ríkisvaldsins að þeim sem mótmæltu þar dró upp á yfirborðið hve alvarlega sjúkt þetta svokallaða lýðræði Íslendinga er orðið. Ofsóknir á hendur mótmælendum voru í engu samræmi við eðli mótmælanna sem fóru að öllu leyti friðsamlega fram þó að þær væru í eðli sínu nokkuð öðruvísi en Íslendingar eiga að venjast. Þ.e.a.s. fólk hlekkjaði sig við vinnuvélar til að stöðva vinnu og vekja athygli á málstað sínum. Þó verður að benda á að hliðstæðar aðgerðir hafa átt sér stað á Íslandi ber þar helst að nefna þegar tveir Íslendingar hlekkjuðu sig við hvalveiðiskip og þegar útsendingar kanasjónvarpsins voru stöðvaðar. Sérsveitum lögreglu var sigað á mótmælendur næstu vikur og mánuði eftir tjaldbúðirnar, símar þeirra hleraðir, þeim veitt eftirför og þeir handsamaðir án nokkurs tilefnis. Þá var tuttugu og einum þeirra útlendinga sem tóku þátt í mótmælunum hótað brottvísun frá landinu þrátt fyrir að engar kærur væru gefnar út á þá sem mótmæltu stóriðjustefnu ríkisvaldsins.

  Ísland er eitt af ríkustu löndum í heimi en undir hvaða rössum sitja peningarnir? Sú staðreynd að ákveðinn hópur valdamikils fólks er sannfærður um að stóriðjuvæðing sé jákvætt og nauðsynlegt skref, kemur til af því að þessir einstaklingar eru að koma sér betur fyrir í valdapýramídum íslensks efnahagskerfis og stjórnkerfis. Þessir einstaklingar eru á framabraut í stjórnmálum og vilja því hampa fyrirferðamiklum framkvæmdum. Þessi hópur trúir þeirri kapítalísku meinloku að efnahagskerfi sé ekki gott nema það sé í þenslu. Líka þegar stærsta ósnerta náttúrusvæði Evrópu þarf að gjalda þess. Verkafólk er alveg jafn blint í sömu trú á gróðahyggju og valdastöður. Það situr neðst í valdapýramídanum og lifir í voninni um að komast hærra. Minnimáttarkennd landsbyggðarfólks yfir því að fjölmiðlar minnast ekki á austfirði nema í sambandi við „landsbyggðarflótta“ sýnir sig í fagnaðarlátum yfir leit álrisanna að ódýrri orku. Að byggja stórt og dýrt án þess að hugsa til langtíma, er prik í kladda kapítalista og þau vilja fá að vera með. Ráðgjafar bankanna benda á hversu alvarleg mistök þetta eru en þeir eru ekki pólitíkusar og hugsa því ekki í fjögurra ára tímabilum milli kosninga. Andspyrnuhópar erlendis benda m.a. á hvernig stórfyrirtækin sem eru að koma sér fyrir á Íslandi ryðja skóga í Mið- og Suður- Ameríku til að ná í hráefni til bræðslu. Eina ástæða þeirra til að vilja vinna það hráefni á Íslandi er ódýr raforka og engin andstaða valdahópa.  

  Ef erlent ríki tæki yfir Ísland myndi það koma á leppstjórn og fá innlenda aðila til að sjá um iðnað og rekstur sem ætti að skila öllum hagnaði beint undir hið erlenda ríki. Þetta hefur þekkst hjá nýlenduherrum fyrri tíma sem ruddust inn í eyjar Asíu, yfir Ameríku og Afríku. Í dag eru til fjölþjóðafyrirtæki sem eru valdameiri en stjórnir sumra ríkja eða hafa sterk ítök í þeim. Fyrirtækin eru eins og ríki án ákveðins landsvæðis. Stórfyrirtæki kaupa upp ríkisstjórnir sem með lagasetningum trufla fyrirætlanir þeirra eða draga þær fyrir dóm fyrir að trufla viðskipti.

  Á Íslandi er sitjandi ríkisstjórn og aðrir aðilar að greiða götu erlends valds til einkanotkunar á landi, tækjum og orku og sem er með einkarétt á öllum hagnaði af umsvifum sínum og rekstri. Þetta er nýlendustefna pökkuð inni í þunna kápu viðskiptasiðferðis. Þessi stefna teygir sig yfir allan heiminn og hvarvetna beygja yfirvöld sig fyrir valdi og peningum.

 

    Ef það kallast að vinna að bættum hag fólksins í landinu að flytja inn verkamenn, eyðileggja óspillta náttúru og bjóða uppá framtíðarstarf í álverum sem skila öllum arði til fjölþjóðafyrirtækja með vafasamt mannorð, þá eru yfirvöld á réttri leið. En ef fjölbreytt atvinnulíf hjá sjálfstæðu fólki í fallegu landi, þekktu fyrir ómengaða náttúru, á að vera hluti af framtíðinni, þá þarf almenningur í landinu að berjast fyrir því. Ástæður álfyrirtækja fyrir sókn inn á náttúru Íslands er ekki umhyggja fyrir efnhag landsins heldur að hér er ódýr raforka og engin andspyrna. Fólkið í landinu þarf að sýna andspyrnu.

Það er skylda hvers föðurlandsvinar að verja land sitt fyrir ríkisstjórn þess. 

ANDSPYRNUVERKEFNI FRAMTÍÐARINNAR 

  Fyrir einstaklinga sem líður stundum eins og heimurinn sé á hvolfi og að samfélag sitt bjóði upp á fátt umfram menntun sem þjálfun fyrir vinnumarkað sem er frjálslynd útgáfa af þrælamarkaði, er margt hægt að gera til að hafa áhrif. Byggingareiningar heimsins eru einstaklingarnir (frekar en kerfin þeirra) og því breytir maður heiminum með því að hafa áhrif á einstaklinga. Einstaklingar mynda fjöldahreyfingar og þær breyta heiminum á hverjum degi. Því mun öll umræða, hver bæklingur og smárit sem er skrifað og lesið af opnum huga, sá fræi. Öll umræða sem gagnrýnir kerfi firringar og kúgunar og setur fram nýjar tillögur er holl ögrun. Einstaklingar sem taka höndum saman um nýja uppbyggingu er ekki bara góður grunnur að nýrri framtíð heldur gerir það fólk sem tekur þátt, sig sjálft frjálsara en áður.  

  Ekki líta á fólk sem er á annari skoðun en þú, sem óvini. Það fer svo mikil orka í hatur og það er svo ætandi efni, það er hægt að eyða allri ævinni í að hata einhver kerfi eða einstaklinga án þess að það skili nokkru. Reyndu frekar að brjóta þínar eigin reglur til að skilja hvernig kerfin sem þú stendur gegn, virka og hvernig fólkið innan þeirra hugsar. Þannig áttar þú þig á því að hver manneskja getur verið endalaus uppspretta möguleika. Þú skalt einnig læra að þinn hugsunarháttur getur jafn auðveldlega breyst í kerfi sem hleypir ekki öðrum að og gerir hugsunarlaust ráð fyrir því að þeir sem ekki skilja það sé fífl. Þessvegna verður þú alltaf að vera á varðbergi gagnvart því sem breytir fólki í stofnun.

  Þú getur rétt að fólki bækur, hvort sem þú skrifar þær eða safnar þeim saman, þú getur myndað hópa sem stefna að því að hafa áhrif á samfélagið sem þeir eru myndaðir í. Þú getur einnig myndað hópa sem hafa að markmiði sínu að verða fyrirmyndir með því að búa til ný óháð samfélög með öðrum viðmiðum og reglum en því sem við ólumst upp í. Hvað sem þú gerir … ekki gefast upp. Ef þú ert að einhverju leyti búin/n að átta þig á því að lífið er annarsstaðar þá muntu aldrei geta lifað með sjálfum/sjálfri þér ef þú gefst upp. 

Til baka í greinar