Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Ég er orðinn langþreyttur á því að þurfa að verja hugmyndafræði mína – anarkismann – fyrir ranghugmyndum hins borgaralega samfélags um stefnuna, þeim hugmyndum að anarkistar séu lítið annað en skemmdarvargar og ofbeldisseggir sem séu á móti bókstaflega öllu. Þreyttur á því að þurfa að verja hugmyndafræði sem byggir á mannúð, samvinnu, frelsis-, réttlætis- og jafnréttishugsjónum og á sér langa sögu heimspekilegra, siðfræðilegra og félagslegra hugmynda um æskilegt skipulag samfélagsins - og gagnrýni á það sem fyrir er - gegn ásökunum um að vera lítið annað en umgjörð utan um skemmdarfýsn og hatur. En skoðanasystkin mín eru mörg hver dugleg við að viðhalda ranghugmyndunum, ala á fordómunum, og baða sig svo upp úr neikvæðri umfjölluninni líkt og sigur hafi verið unninn með því einu að verða að umtali.

            Þessi umræða – upphafning allrar róttækni versus hnitmiðuð og uppbyggileg gagnrýni – er svosem ekki ný af nálinni meðal anarkista og raunar er hún ein helsta ástæða þess að hreyfing anarkista hefur alla tíð verið klofin og margklofin og þar af leiðandi aldrei áorkað neinu. Undir lok 19. aldar voru þeir ófáir anarkistarnir sem töldu „verklega útbreiðslu“ (e. propaganda by the deed) – pólitísk morð, hryðjuverk, staðbundnar uppreisnir – vera leiðina til að knésetja kapítalismann og hið borgaralega samfélag og ryðja braut anarkismans. Og kóngar voru drepnir. Og forsetar. Og kaffihús voru sprengd í loft upp, kirkjur brenndar, prestar hengdir. Og Ríkið – tröllið ógurlega – efldist með hverri sprengingunni, lögreglan valdameiri, eftirlitið hert, ekkasog ríkra ekkja hlaut samúð hinna kúguðu. Og anarkistar útlægir, drepnir, áhrifalausir og utangarðs. Blöð þeirra bönnuð, aktivistar fangelsaðir, hugmyndasmiðir (Kropotkin, Goldman o.fl.) málaðir út í horn, komnir í þá óþægilegu stöðu að þurfa að fordæma eða hampa gjörðunum en geta hvorugt gert. Hinir seku – Ravachol, Emile Henri, Leon Czolgosz – reyndust líka mis-heilir á geði, einstaklingar á jaðri hreyfingarinnar. Og ríkisvaldið nýtti sér tækifærið og gerði út menn – geðsjúka menn – sem infiltreruðu hreyfinguna, hvöttu til aukinnar róttækni og ofbeldis eða einfaldlega frömdu verkin sjálfir, og anarkisminn sem heild - sem hugmyndafræði - tók afleiðingunum. Verklegu útbreiðendurnir voru í miklum minnihluta og á jaðri hreyfingarinnar, en gjörðir þeirra höfðu afdrífaríkar afleiðingar. Anarkistar innan verkalýðsfélaga, innan byltingarhreyfingarinnar almennt, urðu ekki bara að díla við þá félaga sína sem voru tortryggnir í garð stefnunnar heldur þurftu þeir að díla við róttækari elementin innan anarkistahreyfingarinnar og tilraunir til að finna milliveg – hugmyndir um anarkisma án forskeyta (e. anarchism without adjectives) og anarkó-syndikalisma – áttu í vök að verjast gagnvart ofstækisfullum ofbeldisseggjum sem höfðu sagt samfélaginu stríð á hendur. Flestir vita hvernig sú saga endar; anarkistar urðu utangarðs í félagslegum umbótahreyfingum, tvístruðust í ótal pínku-hópa og eftir endalok spænsku borgarastyrjaldarinnar var svo komið að hreyfingin var talin dauð.

            En hugmyndir deyja aldrei, sérstaklega ekki þegar tilræðismenn þeirra reynast svo margfalt verri en allir spádómar glöggskyggnra manna gerðu ráð fyrir. Með tilkomu 68-kynslóðarinnar ofmetnu vaknaði anarkismi á ný og hefur vaxið og vaxið síðan þá. Situationistar, pönkarar, umhverfisverndarsinnar og einstaka verkalýðssinnar hafa enduruppgötvað gildi valddreifingar, einstaklingsfrelsis og róttækrar jafnaðarhyggju lausa við bákn ríkisvalds og skriffinnsku. En gömlu og gölnu deilurnar um ofbeldi, andspyrnu og ultra-róttækni erfðust því miður líka og það er bæði hlægilegt og sorglegt að horfa upp á anarkista dásama ofbeldisverk bandóðra Leninista eins og RAF (eða Baader-Meinhof gengið eins og RAF er betur þekkt sem, hópur sem m.a. var fjármagnaður af Austur-Þýskalandi heitnu, einhverju versta alræðisríki síðari ára) og hreyfing anarkista er ennþá margklofin af barnalegum egó-stríðum einstaklinga sem þykjast vita allt mest og best. Og sömu klisjurnar ganga ennþá kaupum og sölum. „þið eruð bara skemmdarvargar og óeirðaseggir“ hrópar helmingur anarkista á hinn helminginn sem svarar fullum hálsi að hinir séu ekkert nema „gamaldags stalínistar og endurbótasinnar“ sem haldi aftur af Byltingunni. Og almenningur hristir bara hausinn og leitar annað eftir nytsamlegum hugmyndum og ríkisvaldið og kapítalið halda áfram sínum daglega bisness á meðan anarkistarnir kasta drullu fram og til baka vegna þess að þeir virðast ófærir um að skilja kjarnann frá hisminu og grafa sig þar með niður í skotgrafir hins ómögulega.

            Af einhverjum ástæðum virðast allt of margir missa af þeirri staðreynd að til er grátt svæði. Það er hægt að vera anarkisti, byltingarsinni, aktivisti, róttæklingur, án þess að skipa sé á bak við annað hvort Gandhi eða John Brown, Gustav Landauer eða Johann Most. Þegar kemur að byltingu mun verða ofbeldi. Það er sorgleg, en sönn, staðreynd. Og þegar „mótmælin ganga skrefi of langt“ (að mati yfirvalda) mun lögreglan beita ofbeldi og þá er full ástæða til að svara því fullum hálsi. En ofbeldið sem slíkt er hvorki æskilegt né aðdáunarvert. Það er fínt að vera viðbúinn. Kunna að búa til molotov-kokteila, vita hvar hægt sé að grafa upp handhæga steina. En það er hrein og bein vitfirring að gleðjast yfir slösuðu fólki, jafnvel þótt það séu lögregluþjónar. Að ganga til mótmæla í þeim eina tilgangi að slasa fólk og efna til fjöldaslagsmála skilar engum árangri en ef hægt er að koma á æskilegum breytingum án ofbeldis ætti það að sjálfsögðu að vera markmiðið. Það þarf, í stuttu máli sagt, að gera greinarmun á markmiðum og meðulum, langtíma- og skammtímamarkmiðum. Best væri að fá lögregluna í lið með sér. Þannig hafa allar raunverulegar byltingar átt sér stað; franska byltingin, rússneska byltingin og varnir spænska lýðveldisins þegar herinn gerði uppreisn. Í öllum þeim tilvikum vann verkalýðurinn vegna þess að vöðvafjall valdsins – lögreglan og herinn - neitaði að hlýða, ekki vegna þess að lítill hópur aktivista var einarður í Kenningunni. Það sem á eftir kemur krefst hins vegar uppbyggilegs aðhalds og gagnrýni, ekki bölsýni og besserwisser-háttalags. Samstarfs á gagnrýnum grundvelli anarkismans, stanslausum tilraunum til að færa farveg byltingaraflsins í átt frelsis og réttlætis án þess að hrekja frá sér þeim öflum sem keyra byltinguna áfram.

            Það er freistandi að leita til sálgreiningarinnar og útskýra óeirðafíkn margra aktívista út frá pathologiskri örvæntingu þeirra sem vilja gjörbreytt ástand en sjá ekki fram á það, en slíkar útskýringar eru ódýr leið til að afskrifa margþættar og fjölbreytilegar ástæður þess að fólk leiðist út í níhíliska andúð á samfélaginu með tilheyrandi ofbeldisdýrkun. Ég hef sjálfur staðið í þeim sporum; hatast út í þunglynda jarðarfararsálma íslenskrar mótmælahreyfingar og kaffiveitinga Samtaka hernaðarandstæðinga þegar vopnum hlaðin herskip liggja í Reykjavíkurhöfn í góðu yfirlæti, þegar „artivistar“ fremja gjörning á hálendinu og klappa sér svo á bakið og flýja svo til baka í hlýju listagallería og ríkisstyrktra þjóðrembusýninga, þegar bankastyrktir ábrjóstberjarar halda tónleika gegn græðgisvæðingu og keyra svo heim á tíu milljón króna jeppum. En ég hef líka horft upp á sjálfskipaða fulltrúa anarkista berja unglingsstrák í miðjum mótmælum fyrir að tala við lögregluþjón, brenna örfáar eigur fátæks fólks í nafni „byltingar“ sem er ekkert annað en uppþot blindfullra pönkara sem hafa misst samastað sinn og horft á sjálfumglaða aktivista berja í útrétta hönd fólks sem vantar haldreipi en grípur alls staðar í tómt, einnig hjá anarkistum. Eitthvert mest lýsandi dæmi um það hversu úr tengslum íslenskir anarkistar eru við veruleikann sem þeir búa í er að marxistar hafa yfirtekið helstu aðferðir og hugmyndir anarkista um verndun heimila gegn útburðarhótunum ríkisvaldsins með stofnun Heimavarnarliðsins. Á meðan eru íslenskir anarkistar vælandi á heimasíðum og eyða tíma sínum í að rífast um hvort unglingar í Borgarnesi séu að hneigjast til anarkismans vegna þess að þeir í blindfullu æði köstuðu bensínsprengju í lögreglustöð!

            Það breytir í raun engu hvort þjóðfundurinn sé anarkískur, hvort þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave sé blekking þjóðrembusinna, hvort heimavarnarliðið sé skipulagt eftir hugmyndum um concensus-ákvarðanatöku. Það sem skiptir máli er hvernig við bregðumst við þessum augljósu skrefum í átt til anarkísks samfélags, með uppbyggilegri og jákvæðri gagnrýni eða með gegndarlausu niðurrifi og besserwisser-hætti. Hvort við nýtum þá augljósu viðurkenningu á grundvallarhugmyndum anarkismans sem er að eiga sér stað í kjölfar hrunsins til þess að ýta þróuninni áfram í rétta átt eða málum okkur áfram út í horn með barnalegum stælum og einstrengingshætti. Er ekki kominn tími til að við reynum að ná tengslum við fólk í stað þess að þykjast bara alltaf vita allt best?

 

VV

Til baka í greinar