Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Ákæruvaldið gegn skrílnum

 

Þann 8. desember 2008 hugðust þrjátíu manns fara á palla Alþingis þar sem fram fór þingfundur. Án þess að útskýra mál sitt hindruðu þingverðir för fólksins og héldu því föstu í stigaganginum, sem leiðir upp á pallana. Tveir einstaklingar komust þó framhjá, fóru alla leið og hrópuðu á þingheim að „drulla sér út“ úr húsi sem þjónaði ekki tilgangi sínum lengur. Fyrir vikið dró starfandi lögreglumaður Alþingis fólkið út af pöllunum og fleygði því niður stigann. Fljótt fylltist húsið af lögreglumönnum og á endanum voru sjö einstaklingar handteknir; einhverjir inni en aðrir fyrir utan. Dómsmál gegn níu af þeim þrjátíu sem inn í húsið fóru var fyrst þingfest 21. janúar,  svo dregið til baka, en þingfest á ný hinn 11. mars. Málaferlin halda áfram í héraðsdómi Reykjavíkur föstudginn 9. apríl og mun það svo standa yfir næstu vikur eða mánuði. Öll níu eiga yfir höfði sér eins til sextán ára fangelsisvist, verði þau fundin sek fyrir brot á 100. grein almennra hegningarlaga. Þessi grein er skrifuð af þremur hinna ákærðu.

 

 

Dómur fjórða valdsins

„Ég er ekki alveg viss um að öllum þeim sem réðust inn í Alþingi gangi gott til. Varla þeim sem beit lögregluþjónana. Í fyrradag gekk ég fram hjá einum þeirra sem ég sá að er ákærður þar sem hann gekk ásamt vini sínum í Austurstræti. Þegar ég var kominn steinsnar frá þeim heyrði ég þá muldra: „Á ég að pissa á andlitið á þér?“Þetta voru ein fyrstu fjölmiðlaviðbrögð við dómsmálinu; orð Egils Helgasonar á bloggi sínu. Eiður Guðnason, fyrrverandi þingmaður og núverandi málfarsráðunautur var á svipuðum nótum, skrifaði um „skrílinn“ og „þetta lið“ sem „réðist inn í þinghúsið  (það voru ekki friðsamir mótmælendur) og limlesti starfsfólk og beit lögreglumann“.

 

Fjölmiðlamenn hafa verið sammála um það frá fyrsta degi að við, hin ákærðu, höfum ruðst inn í þinghúsið með hnefana á lofti og nýbrýndar tennur, til að berja þingverði og murka líftóruna úr þingmönnum og ráðherrum. Hetjunum í lögreglunni hafi bara rétt tekist að koma í veg fyrir valdarán. Fjölmiðlamenn hafa líka verið á einu máli um að við, hin ákærðu, séum ekki þess verð að ræða við. Frá því að kæra var fyrst lögð fram hefur enginn fjölmiðill haft frumkvæði að því að nálgast okkur. Fréttastofa RÚV hefur enn ekki svarað bréfi sem við sendum þangað 12. mars 2010, þar sem við buðum þeim að ræða við okkur um málið.

 

Það virðist vera hægt að afskrifa sakborningana í þessu máli sem „öfgafólk“ og „atvinnumótmælendur“ sem taki því ekki að gefa orðið. Raunveruleg atburðarás og okkar fyrirætlanir skipta engu. Klukkan tifar ennþá og á hverjum morgni grennist dagatalið um eina síðu. Kannski þau rétti að okkur hljóðnema þegar dómur fellur, þá sem dæmda glæpamenn – og hvað hafa dæmdir glæpamenn svo sem fram að færa í stofur landsmanna? Jafnóðum hafa fjölmiðlar verið sammála um að þingmenn og yfirmenn lögreglunnar séu þess verðir að ræða við. Þeim er treystandi til að setja hlutina fram á þann hátt að erfið frétt endi með þægilegri niðurstöðu.

 

Með þessari þríliða allsherjarsamþykkt fjölmiðla hefur tekist vel að veita upplýsinganeytendum landsins einhliða einmiðla... – afsakið – fjölmiðlaumfjöllun um málið. Því má spyrja: Er eitthvað því til fyrirstöðu að Páli Magnússyni, Davíð Oddssyni og Ólafi Þ. Stephenssen verði falið vald til að dæma í málinu? Það yrði í það minnsta þrískipt vald.

 

Árás á leiksviðið

Fulltrúalýðræðið hefur alið upp lítinn hóp fólks sem eyðir sínum tíma og okkar peningum í leiksýningu til að réttlæta að það striti við að koma í veg fyrir breytingar á handritinu – og stóran hóp fólks sem afhendir vald sitt, frelsi og ábyrgð með því að stíga reglubundið á sviðið og veita handritinu blessun sína. Þjóð, hagsæld, almannahagur, framfarir, velferð, stöðugleiki, friður og lýðræði – öllum þessum orðum er beitt til að viðhalda hugmyndinni um að allt sé best eins og það er – félagslegar breytingar séu í besta falli óþarfar en í versta falli hættulegar. Orðið „lýðræði“ vaknaði þannig einn daginn óvænt sem málaliði í herbú ðum andstæðinganna. Áttunda desember 2008 - og allan þann vetur - hrópuðu margir slagorðið „Lýðræði! Ekki kjaftæði!“ Krafa slagorðsins er skýr og fólst í þeim misskilningi að lýðræði fæli í sér að fólk móti samfélag sitt sjálft: Valdið til fólksins! Burt með pakkið!

 

Valdhafar eru stöðugt fyrir augum okkar og eyrum. Andlit þeirra mæta okkur í fréttablöðunum eins og mygluð morgunsól og kveðja okkur á kvöldin með samantekt sjónvarpsins á „best of“ úr orðagjálfri dagsins. Vald þeirra er sama eðlis og trúarbrögð: það þarfnast stöðugrar áminningar svo við gleymum því ekki. Einungis þannig getur það viðhaldist. Valdhafarnir sjálfir höndla hins vegar ekki að sjá okkur, hyskið, lýðinn, skrílinn - nema þegar við beygjum okkur og lútum höfði, valdi þeirra til dýrðar. Siv Friðleifsdóttur brá svo mikið við að heyra einhvern segja satt í þinghúsinu – „Drullið ykkur út, þetta hús þjónar tilgangi sínum ekki lengur!“ hún faldi sig bakvið  ræðupúltið. Handritið gerði ekki ráð fyrir þessu málfari, þessum skítuga þegn með þennan skítuga munn. Óþægð verður ekki liðin en líklega var það þó boðhátturinn sem gerði útslagið.

 

Haustið 2008 afhjúpaðist fyrir öllum að lýðræðið er kjaftæði. Mikilvægi þess að stíga inn í leikritið og rugla í handritinu var – og er – aðkallandi. Við þrjátíu sem trufluðum helgileikinn í þetta skiptið, hvorki vorum né erum ein um þá hugsun. Síðar meir þennan vetur átti fólk sem langþreytt var á sitjandi stjórnvöldum, valdníðslu þeirra og hroka, eftir að brenna í sundur sjónvarpskapla til að koma í veg fyrir að flokksformenn fengju að ljúga óhindrað í beinni útsendingu, hindra aðgang ráðherra að ríkisstjórnarfundum og koma loks í veg fyrir að þingfundir hæfust eftir að jólum stjórnmálastéttarinnar lauk þann 20. janúar 2009. Við vorum ekkert að elta neina peninga og vonum a ð við höfum ekki verið ein um það. Við mótmæltum ekki vegna efnahagsáfalla heldur vegna þeirrar valdníðslu sem framin hefur verið í þinghúsinu áratugum saman, undir yfirskini þess að þar eigi sér stað réttlætisbarátta fyrir betra samfélagi undir mislitum flöggum. Við stigum inná leiksviðið því það er gallað frá grunni.

 

Um leið og við stungum litlu tá inn fyrir, með þeim smávægilegu afleiðingum að leikritið frestaðist í örskamma stund, fór af stað varnaráætlun með sírenum og piparúða. Ógnin sem við erum sögð hafa skapað, sú sem gerði það að verkum að „sjálfræði Alþingis var hætta búin“, var einfaldlega sú að við – einstaklingar sem þurfum að lifa við geðþótta- og eiginhagsmunaákvarðanir þingheims – ákváðum einu sinni að leggja orð í belg, opna á okkur munninn, hætta að vera hlýðin.

 

Með valdi skal veru móta

Það er til náttúrulegt afl: Foss sem steypist niður kletta, verður að straumhörðu fljóti sem rennur eftir landinu og sameinast loks sjónum. Jarðflekar sem mæta hvor öðrum, skarast og móta þannig fjallgarða. Eldur sem þenur út bergið og spýtist út um jarðskorpuna. Það er til vald sem sést þegar lífvera eignast afkvæmi, elur það upp og kennir því allt það sem hún hefur lært af lífi sínu. En köllum það frekar ást og ábyrgð; þegar hún kennir afkvæminu hvernig best er að afla lífsnauðsynja, nauðsyn þess að huga að sér sjálfu og þeim sem því eru næstir, hvernig lesa má í umhverfið, leysa úr erfiðleikum, nota skynsemi og brjóstvit til að meta aðstæður, verða sterk og sjálfstæð vera.

 

Valdabáknið sem við búum við á ekkert skylt við þessi öfl. Þau öfl sem stýra mannlegu samfélagi hafa vald sitt ekki frá náttúrunnar hendi. Það er ónáttúrulegt og því fátt eðlilegra en að við forðumst það, brjótumst undan því af fullum krafti. En það er ekki svo auðvelt. Uppeldisstofnunum ríkisins er gert að koma í veg fyrir að við getum flogið úr hreiðrinu og lifað á þann hátt sem okkur hentar eða langar. Þær veita okkur veganesti sem einungis nýtist okkur innan ramma kerfisins; í sandkassanum sem okkur er gert að lifa í. Þar megum við moka, byggja hús, borða sand, blanda með hori – jibbí! – en ekki voga okkur að taka upp á því af sjálfsdáðum að tæma kassann, brjóta hann, breyta l agi hans, byggja yfir hann - hvað þá að yfirgefa hann! Okkur er ætlað að vera þægir þegnar frá fæðingu til dauðadags.

 

Óþægð líðst ekki. Löngun til að skapa eigið líf og samfélag er ekki í boði. Líkamlegu andófi í krafti þeirrar löngunar er mætt af allri hörku ríkisins. Með ákærunum á hendur okkur er sett fordæmi um að ekkert andóf verði liðið, engin frávik séu leyfð. Refsingin vofir alltaf yfir; alltaf hörð. Þeim sem hlýða er hins vegar umbunað. Þau fá að vera samþykktir þegnar, sáttir þrælar, samkvæmt stimpluðu og samþykktu handriti. Þann 8. desember 2008, þegar okkur var meinaður aðgangur að þingpöllunum, kom í ljós að handritið er ekki bara lélegt, heldur er það endalaus og tilbrigðasnauður einleikur. Við sem bara búum hérna eigum að láta okkur nægja að klappa leikarann upp þrisvar e f hann tekur upp á því að hneigja sig og skrifa svo „hvað var gaman“ á spjallsíðum. Við getum klappað minna endrum og eins. Við getum jafnvel púað. En sviðið er frátekið og handritið stendur.

 

„Ofbeldisfullt öfgafólk“

Fordæming fjöldans á atburðunum 8. desember komst á fullt skrið eftir að einróma fjölmiðlar lögðust á árarnar. Annar hver bloggari virtist hafa fengið beina útsendingu af atburðarásinni í stofuna hjá sér. Vinstri græn sögðust skilja að fólk væri reitt og auðvitað hefðu allir rétt á að mótmæla, en ofbeldi væri ekki ásættanlegt. Hvaða ofbeldi? Eina ofbeldið sem átti sér stað í þinghúsinu þennan dag var þegar þingverðir meinuðu okkur stjórnarskráarsnepilsbundinn rétt okkar til að fara upp á þingpallana og þegar lögreglan tók við keflinu, hrinti fólki niður stiga þinghússins, handjárnaði, henti í gólfið og hindraði för þess.

 

Auðvitað voru þarna stympingar. Við afhentum lögreglunni ekki hendur okkar á silfurfati og buðum þeim að skella þröngum stálhringjum utan um þær. Nei, við brugðumst við ofbeldinu með því að standa staðföst og neita að fara. Það er borgaraleg óhlýðni á frumstigi. Það er kannski helst til marks um friðsemd okkar þennan dag, að lýsingar á meintum verkjum þingvarða eru af marblettum og „eymslum“ sem mennirnir gætu allt eins hlotið við að negla mynd upp á vegg. Það sér hver sem vill að ef þrjátíu manns hefðu ruðst inn á Alþingi til að láta handalögmál ráða, hefðu örfáir miðaldra þingverðir ekki haft mikið við því að segja.

 

Okkur er sagt að með viðveru okkar í þinghúsinu hafi sjálfræði Alþingis verið hætta búin – svo alvarleg hætta að rannsaka skal hvort við eigum ekki heima í skammarkróknum það sem eftir er. Þennan dag frestaðist þingfundur lítillega. Einum og hálfum mánuði seinna var þingfundi frestað um heilan sólarhring og dagana á eftir gekk svo erfiðlega að halda fundi, vegna mannmergðarinnar sem fyrir utan var, að ekki leið á löngu þar til sauð upp úr og boðað var til kosninga. Ekki óskum við þeim þúsundum sem á Austurvelli stóðu sömu málsmeðferðar og við göngum nú í gegnum, en það er vert að spyrja hvers vegna höfðað er mál gegn okkur níu, úr þúsunda manna hópi.

 

Er það vegna þess hversu auðvelt er að stimpla okkur sem ofbeldisfullt öfgafólk með grímur og hettur, „mótmælendur úr röðum anarkista“ eins og Morgunblaðið sagði, góðkunningja lögreglunnar og skríl? Líkt og þau sem mótmæltu við Alþingi fyrir 61 ári þegar 100. gr. hegningarlaga var beitt í fyrsta og eina skipti til þessa. Er það vegna þess að í Búsáhaldavonbrigðunum voru þúsundir „venjulegra“ borgara og fullt af „frægu fólki“? Yrði því ekki tekið sem ofsóknum ef allt þetta fólk – sem vissulega truflaði þingstörf og gerði það að verkum að þingmenn þurftu að flýja í gegnum undirgöng til að komast af vettvangi – væri kært fyrir brot á hegningarlögum? Ef Hallgrímur Hel gason væri kærður fyrir árás á Geir Haarde? Ef Rassi Prump, Jónsi og austuríska barónessan (ef hún fór þá einhvern tíma niður af svölunum) yrðu kærð fyrir að vega að sjálfræði Alþingis? Eru ákærurnar gegn okkur einfaldlega eina leiðin sem saksóknari þorir að fara, eins og Mörður Árnason orðaði það, til að „ná sér loksins niður á pakkinu – fyrir hönd hinnar eilífu íslensku yfirstéttar“?

 

Uppgjöf eða upplausn?

Ákæran yfir okkur kristallar hatur og ótta yfirvalda í garð óhlýðni og afskipta. Hún er leið niðurlægðra valdastofnana til að klóra í bakkanna og halda reisn sinni. Refsa. Allt til að breiða yfir vangetu sína. Við, hin ákærðu, erum aðeins táknmynd fyrir óhlýðni og mótmæli þúsunda manna síðasta vetur. Verðum við fundin sek við lítil viðbrögð samfélagsins, þá er ekki bara búið að gefa tóninn, heldur er ægivaldið staðfest. En það er sama hvernig á málið er litið, niðurstaðan verður alltaf sú sama: Yfirvöld eru lúserar. Ósigur þeirra í þessu máli er óhjákvæmilegur.

 

Verðum við fundin sek bætumst við í stóran hóp fólks sem dæmt er fyrir hugsjónir sínar, fólk sem yfirvöld ofsækja. Og yfirvöld tapa. Ef við hljótum fangelsisdóma bætumst við í hóp fólks sem situr inni fyrir hugsjónir sínar og uppreisnir, þaggað er í og því refsað. Og yfirvöld tapa. Ef dæmt verður okkur í vil, þá er aðför yfirvalda gegn okkur það vanhugsuð að hún stenst ekki þeirra eigin lög. Og yfirvöld tapa. En við vinnum samt ekki. Eini mögulegi sigurinn í stöðunni er að þetta samfélag þori að standa uppi í hárinu gegn órétti og leggja til atlögu við lélegan leikara sem skelfur raunar nú þegar á beinunum. Þá vinnum við. Og yfirvöld tapa.

 

 

Andri Leó Lemarquis, Steinunn Gunnlaugsdóttir og Snorri Páll Jónsson Úlfhildarson

 

-----

 

Níumenningarnir eru kærðir fyrir brot á eftirfarandi lögum:

 

100. gr., 1. mgr.

Hver, sem ræðst á Alþingi, svo að því eða sjálfræði þess er hætta búin, lætur boð út ganga, sem að því lýtur, eða hlýðir slíku boði, skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár, og getur refsingin orðið ævilangt fangelsi, ef sakir eru mjög miklar.

 

 

106. gr., 1. mgr.

Hver, sem ræðst með ofbeldi eða hótunum um ofbeldi á opinberan starfsmann, þegar hann er að gegna skyldustarfi sínu eða út af því, og eins hver sá, sem á sama hátt leitast við að hindra framkvæmd slíks starfa eða neyða starfsmanninn til þess að framkvæma einhverja athöfn í embætti sínu eða sýslan, skal sæta fangelsi allt að 6 árum. [Ef brot samkvæmt þessari málsgrein beinist að opinberum starfsmanni, sem að lögum hefur heimild til líkamlegrar valdbeitingar, má beita fangelsi allt að 8 árum.] [Beita má sektum, ef brot er smáfellt.]

 

 

107. gr.

Hafi verknaður, sem í 106. gr. getur, verið hafður frammi af mannsöfnuði, skal forgöngumönnum og leiðtogum upphlaupsins refsað með þyngri refsingu að tiltölu, og má þá beita allt að 8 ára fangelsi. [Aðrir þátttakendur upphlaupsins, sem ofríki hafa haft í frammi eða ekki hafa hlýðnast skipun yfirvalds er skorað hefur á mannsöfnuðinn að sundrast, skulu sæta fangelsi allt að 6 árum eða sektum ef brot er smáfellt.]

 

 

122. gr., 1. og 2. mgr.

Hver, sem hindrar það, að löglegur mannfundur sé haldinn, skal sæta sektum eða [fangelsi allt að 1 ári], eða fangelsi allt að 2 árum, ef miklar sakir eru, einkum ef ofríki eða ógnun í framferði hefur verið viðhaft. Raski nokkur fundarfriði á lögboðnum samkomum um opinber málefni með háreysti eða uppivöðslu, þá varðar það sektum eða [fangelsi] allt að 3 mánuðum.

 

 

231. gr.

Ef maður ryðst heimildarlaust inn í hús eða niður í skip annars manns, eða annan honum óheimilan stað, eða synjar að fara þaðan, þegar skorað er á hann að gera það, þá varðar það sektum eða [fangelsi]allt að 6 mánuðum. Þó má beita fangelsi allt að 1 ári, ef miklar sakir eru, svo sem ef sá, sem brot framdi, var vopnaður eða beitti ofbeldi eða hótun um ofbeldi eða brot er framið af fleirum saman.

Til baka í greinar