Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Off the Map
Crimethinc (www.crimethinc.com) 2003

"Off the Map" eru samantekin skrif tveggja stúlkna frá bandaríkjunum sem þær settu á blað meðan stóð á ferðalagi þeirra yfir evrópu. Handritið var fyrst gefið út sem "zine" - ljósritað og heftað - en eftir að Crimethinc komust í eintak af því var handritið gefið út sem bók.

Ferðalag stúlknanna, Hib og Kika, er sérstakt að því leyti að þær gera nær allt án peninga. Fara milli staða á puttanum, sofa úti eða gista hjá fólki sem þær kynnast á leiðinni eða hústökubyggingum sem þær frétta af og borða það sem þeim er gefið eða þær geta nappað. Þær hefðu getað gist á farfuglaheimilum og borðað á veitingastöðum en þeim er umhugað að geta ferðast frjálsar og óháðar peningakerfinu "því þú færð það sem þú greiðir fyrir. Borgaðu mikið og þú færð dýrt líf. Taktu það sem er frítt og þú færð frelsi" (bls. 107). Þannig að á ýmsum tímapunktum á ferðalaginu eru þær ótrúlega skítugar, bitnar af skordýrum, útkeyrðar og pirraðar og standa í skuggalegum úthverfum um miðjar nætur eltandi óljósar leiðbeiningar að næsta svefnstað. Tóm vitleysa myndu margir vilja segja en þessi hugsunarháttur og lífsstíll Hib og Kika leiðir til þess að þær kynnast hliðum á mannlífinu sem hótelgestir á ferðalagi ná aldrei að vita af. Þær eru reiðubúnar að taka því sem að höndum ber, meðvitundin um að það er þeirra eigin ákvörðun er þeim svo mikilvæg. Þær útskýra hugsunarhátt sinn fyrir einum manni sem þær kynnast þegar hann tekur þær upp á puttanum með því að spyrja hvort hann hafi lesið ævintýrið um Stikilsberja-Finn. Hann jánkar því og þá segja þær honum að þær hafi lesið um hann líka en alltaf verið að leita að stelpum í bókunum sem hefðu eitthvað merkilegra hlutverk en að bara vera þær sem hetjurnar urðu skotnar í. Svo að með þessu ævintýraflakki voru þær að skrifa eigin útgáfu af Stikilsberja-Finni.

Ýmiskonar karakterum kynnast þær á leiðinni og þær læra að dæma ekki útfrá ytra útliti. Englar geta líka klæðst eins og bissnessmenn. Pönkarar og annað fólk sem þær hitta og gefur sig út fyrir frjálslyndan lífsstíl getur eins verið áhugalausir drullusokkar.

Ritstíllinn er mátuleg blanda af vel skrifaðri ferðasögu sem hengir sig ekki um of á smáatriðin né býr til tímafrek atriði úr einhverju sem skiptir ekki máli, og rómantískri sýn á lífsstíl flakkarans sem býr sér heimili hvar sem mjúkt er undir og sólin skín. Skotið er inn anarkista- og feministapólitík til að tengja hugsunarhátt þeirra við lífsstílinn. Ég verð að taka það fram að ég sé ekki hvernig þjófnaður og anarkismi tengist þó að Crimethinc heimspekin hafi búðarþjófnað í hávegum sem einhverja hefnd á því kapitalistakerfi sem nærist á lífi okkar allra. Ef við ætlum að vinna okkur áfram að betra samfélagi gerum við það ekki með því að stela frá hvoru öðru. En það breytir því ekki að bókin er góð, skemmtileg aflestrar og kveikti í mér ævintýralöngun um leið og mig langaði að vera sá aðili sem tekur vel á móti gestum í mínu umhverfi. Með því að kynnast öðru fólki á þann hátt sem höfundar þessarar bókar gera erum við að læra meira um lífið og þannig verður lífið auðugra og meira þess virði að lifa því.

Sigurður Harðarson

Til baka í umfjallanir