Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

EthicsOrigin and Development
Peter
Kropotkin
Black
Rose Press 1992

Um daginn rölti ég inn í verslun með notaðar bækur og tónlist. Þar seldi ég nokkra titla og fann síðan Ethics eftir Kropotkin á hillu. Mér fannst það góð skipti. Þetta eintak er úr átta binda ritröð Black Rose Books og kom út 1992 í umsjón George Woodcock.

Núna í vor 2014 kom út mikil samantekt rita Kropotkins hjá AK Press, Direct Struggle Against Capital: A Peter Kropotkin Anthology, tekið saman af Ian McKay, en í grein í tímaritinu Anarchist Studies útskýrir hann að þó að yfirleitt sé vísað til Kropotkin sem fræðimanns hafi hann sem anarkisti verið byltingarsinni og aktívisti en ekki einungis „vitringur“. McKay vísar til ritraðar Black Rose sem eins af því sem kynnir Kropotkin sem anarkískan fræðimann en hin nýja anþólógía taki einnig til verka hans sem byltingarsinna.

Við lestur Ethics verður mér títt hugsað til þess Kropotkins sem kynntur er í inngangi Woodcocks og N. Lebedev, hins rússneska ritstjóra ritsins: gamall og slitinn, bláfátækur og vonsvikinn vegna svika valdasjúkra kommúnista, en samt í hörkuvinnu við að ná að ljúka ritum sínum um siðferði mannsins frá sjónarhóli anarkistans. Bókasafn hans hafði orðið eftir í Englandi og þar með þau tilvísunarrit sem hann þurfti á að halda við vinnu sína. Næringu höfðu gömlu hjónin uppúr garðholu eiginkonu hans.

Eftir Kropotkin hef ég hingaðtil einungis lesið Mutual Aid – A Factor in Evolution sem hafði djúp og sterk áhrif á mig og mína anarkísku vitund. Ethics hafði Kropotkin hugsað sér sem framhald af Mutual Aid og varð ég spenntari fyrir henni fyrir vikið. Upphafs- og útgangspunktur Kropotkins er að siðferðisvitund sé náttúrulegt ferli. Eins og hann skrifar um í Mutual Aid er samkeppni hluti af lífi flestra skepna en það er hæfileikinn til að vinna með öðrum og að finna til með öðrum sem gerir manneskjum og öðrum dýrum kleift að komast af. Ekki síður en samkeppni.

Myndun samfélaga var hluti af lífinu á jörðunni áður en maðurinn varð til. Einnig Darwin skrifar í Descent of Man að siðferðisvitund sé hluti af náttúrunni. Vandamálið sem etískir fræðimenn í Evrópu miðalda áttu við að etja í sínum athugunum var kristni og vald kristinnar kirkju. Ímyndunarafli kristlinga sem boða að öll siðaboð komi frá himnum var framfylgt með ruddalegu ofbeldi. Samkvæmt kirkjunnar mönnum var heimurinn umvafinn illsku, svo mikilli illsku að guð þurfti að fórna syni sínum fyrir syndir mannanna. Þessi heimssýn var ráðandi í evrópu í 1500 ár.

Í Englandi var Francis Bacon einna fyrstur að halda fram þeirri hugsun að siðferðileg hegðun sé náttúruleg hegðun. Thomas Hobbes er síðan alltaf minnst fyrir andstyggð á manneskjum þar sem helst er vitnað til hans útfrá því sem hann skrifaði að líf manna án kúgandi ríkisvalds yrði „hraksmánarlegt, ofbeldisfullt og stutt.“ Þetta viðhorf hans skýrir Kropotkin útfrá því að Hobbes var aristókrati og á árunum 1639-1649 var byltingarástand í Englandi – en Hobbes hataði byltingarmenn. En þó að Hobbes gengi útfrá því að manneskjur læri ekki að hegða sér nema undir styrkri hendi sterks ríkis var afneitun hans á áhrifum trúarbragða á siðferðisvitund mikilvægt skref í átt til þess að opna umræðuna.

Spinoza kom síðan fram frjáls frá kristilegri dulspeki og sá siðferði í tengslum manns og náttúru og gerði auðvitað allt brjálað meðal guðfræðinga. Á 17. öld var það fræðimaður að nafni Shaftesbury sem skrifaði hvað mest um uppruna siðferðis en þrátt fyrir að hann þyrfti, eins og margir aðrir, að haga orðum sínum þannig að trúaðir drægju ekki upp hnífana var hann mjög framsækinn fyrir sinn samtíma og ræddi í sínum ritum gagnkvæma hjálp meðal dýra og manna.

Á svipuðum tíma í Frakklandi voru bækur La Rouchefocauld og Essais Michel Montaigne mjög vinsælar en rit framsæknari fræðimanna eins og La Mettrie og Claude Helvétius fordæmdar og brenndar við opinberar athafnir – af opinberum böðli! – af ríkisstjórn og kirkju því samkvæmt þessum hóp fræðimanna sem kölluðu sig Encyclopædiste byggðust siðaboð á að finna hamingju, og að allir menn hefðu jafnan rétt til hamingju – sem rímaði ekki við tilverugrundvöll hástéttarinnar.

Adam Smith skrifaði síðan The Theory of Moral Sentiment sem var svo vinsæl á átjándu öld að hún var endurútgefin tíu sinnum. Þar skrifaði Smith um hvernig siðferðileg hegðun mótast útfrá félagslegum upplifunum. Manneskjur finna til með öðrum og gleðjast með öðrum og verða þannig siðferðilega meðvitaðar verur. Þar sem veruleiki okkar samtíma er að hluta til skapaður af kapítalisma er einungis minnst á Smith fyrir frjálsan markaðsboðskap en hvergi minnst á að kannski var hann fyrst og fremst að skrifa um siðferði meðal manneskja.

Skamkvæmt Kropotkin einkenndist nítjánda öldin af þremur nýjum straumum: pósitívisma í nafni Auguste Comte og Feuerbach í Þýskalandi; þróunarpælingunni sem kom fram með Darwin og Herbert Spencer vann áfram í smáatriðum; og sósíalisma sem átti sér upphaf í Frönsku byltingunni og þróaðist áfram undir áhrifum frá hröðum uppgangi iðnvæðingar og kapítalisma í Evrópu.

Það væri of langt mál í þessari litlu umfjöllun að rekja hvað Kropotkin skrifar um kenningar og rit þessara fræðimanna en síðustu kaflar þessa ætlaða fyrra bindis um kenningasögu siðferðis útfrá sjónarhóli anarkista fjalla aðallega um rit Herbert Spencer og heimspeki Feuerbach.

Eins og ég sagði í upphafi um bókina Mutual Aid – A Factor in Evolution þá dýpkar anarkísk vitund við lestur hennar. Sama á við um lestur Ethics jafnvel þó að Kropotkin sjálfum hafi ekki enst aldur til að ganga frá henni og segja allt sem hann vildi sagt hafa. Ég er fróðari eftir að hafa lesið þessa bók, lífssýn mín er auðugri og ég er betri anarkisti. Um leið vil ég segja að ég þurfti að lesa hana í áföngum. Minn hugur meltir einungis ákveðið magn af hugmyndaflæði á dag og þar sem hér er rekin saga hugmynda er þetta mikið flæði en ritstíll Kropoktins um leið mjög læsilegur. Kropotkin var ekki að skrifa fyrir aðra fræðimenn heldur fyrir þann almenning sem í hans huga var möguleg uppspretta byltingar og rit hans sem nú eru hluti af því sem kallast klassískur anarkismi eiga enn fullt erindi.

Sigurður Harðarson

Til baka í umfjallanir