Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Life Under the Jolly RogerReflections on Golden Age Piracy
Gabriel Kuhn
PM Press 2010

Þessi bók hins afkastamikla penna Gabriel Kuhn er þriðja bókin sem ég les um sögu sjóræningja, skrifaða með anarkistagleraugum. Hinar tvær eru Pirate UtopiasMoorish Corsairs & European Renegadoes eftir Peter Lamborn Wilson og The Devil's Anarchy eftir Stephen Snelders. Sá síðarnefndi er hollenskur sagnfræðingur sem skrifar sína litlu bók útfrá hollenskum sjóræningjasögum á meðan Wilson er súrrealisti og rithöfundur sem í sinni bók einbeitir sér að þeim sjóræningjum sem áttu skjól á ströndum Marokkó.

Meðal anarkista hefur oft verið dregin upp rómantísk mynd af gullöld sjóræningjanna, þeirra lífsstíl og skipulagi. Sést þetta kannski best á þeim fjölda sjóræningjafána sem er sýnilegur þar sem anarkistar koma saman. En rómantíkin er almennari en svo að einungis anarkistar falli fyrir henni því mikill markaður er einnig með barnaföt og búninga í sjórængjastíl. Rétt er að sjóræningjar voru flestir sjómenn sem kusu sér þennan lífsstíl þar sem lífið fyrir óbreyttan áhafnarmeðlim á skipum ensku og hollensku ríkjanna var það herfilegt að betra var að reyna sig við sjórán og deyja sem frjáls maður. Þegar vel bar í veiði var fengnum sólundað í næsta strandskjóli sem bauð upp á gleðikonur og áfengi.

Í sinni bók tekur Kuhn fyrir rómantíkina og rýnir í mýtur um beint lýðræði eða mögulegt anarkískt skipulag á skipunum, skipulagðan hernað gegn útbreiðslu kapítalisma, gagnkvæma aðstoð, ævintýrasögur um að stela frá þeim ríku og gefa þeim fátæku og siðferðilega meðvitund meðal gullaldarsjóræningja svo fátt eitt sé nefnt.

Ætli skipstjóri sem að halda stjórn á dalli setnum hungruðum vopnuðum mönnum sem hafa engu að tapa og hafa verið edrú of lengi, gerir hann það ekki með silkihönskum heldur ruddalegu ofbeldi. Sérstaklega ekki þegar hann komst yfir skipið með því að ræna því og slátra fyrri áhöfn, neituðu meðlimir hennar að verða undirmenn hans. Sjóræningjar sextándu aldar voru mótaðir af ofbeldi, ekki rómantískum hugmyndum um hinn frjálsa mann. Sjóræninginn átti alltaf von á því að vera drepinn og einungis er vitað um örfáa einstaklinga sem ekki voru drepnir fyrir aldur fram.

En sjóræningjar stóðu saman. Áhafnarmeðlimir fengu bætur ef bardagi leiddi til fötlunar. Þeir voru andstæðingar heimsvaldastefnu og kapítalisma einungis af því að þeir rændu kaupskipum í eigu spænsku og ensku krúnunnar – til þess að komast af – ekki til þess að mynda samfélag skipulagt án yfirvalds. Um leið voru sumir skipstjórar tækifærissinnar sem áttu til að sigla tímabundið undir ensku flaggi og vera þá með opinbert leyfi til að ræna spænsk skip en missa síðan leyfið – rændu þeir „óvart“ enska kaupmenn í framhjáhlaupi.

Kuhn er vandvirkur og víðlesinn í úttekt sinni á því sem anarkistar og aðrir róttæklingar geta lært af skipulagi og lífstíl gullaldarsjóræningja. En það að taka upp tákn þeirra breytir engu fyrir gang og yfirgang heimsmála – til þess þarf svo miklu meira að gerast.

Óneitanlega eru lausgirtari sögur um sjóræningja mun skemmtilegri aflestrar en yfirveguð og gagnrýnin bók eins þessi. En sjóræningjasögur eru eins og Íslendingasögur hvað varðar trúverðugleika: þær eru munnmælasögur settar á blað löngu seinna. Langi anarkista raunverulega til að skilja hvernig lífið var undir svarta hauskúpufánanum og af hverju nútíma anarkistar hampa þeim fána er úttekt Gabriel Kuhn fróðleg og mikilvæg.

Sigurður Harðarson

Til baka í umfjallanir