Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

 

Proudhon
George Woodcock
Black Rose Books 1956


Pierre-Joseph Proudhon (1809-1865) hafði á sínum tíma mikil áhrif sem félagslegur hugsuður og róttæklingur í Frakklandi og víðar í Evrópu. Hann var einn af áhrifamestu róttæku rithöfundum nítjándu aldar ásamt Marx og Bakunin. Hann var fyrsti maðurinn til að lýsa sér sem anarkista í ræðu og riti og hefur verið kallaður
faðir anarkismans.“

Proudhon fæddist inn í fjölskyldu fátækra verkamanna og var sjálfur í fjárkröggum alla ævi. Bæði kom það til af stolti hans og áherslu á persónulegt sjálfstæði í fjármálum auk þess sem bækur hans – sem voru margar hverjar það vinsælar að hann hefði getað lifað góðu lífi af sölu þeirra – voru háðar lögbanni yfirvalda og höfundurinn sektaður og fangelsaður fyrir að setja fram hugmyndir sínar. Þegar þessi ævisaga George Woodcock kom út var hún fyrsta bókin sem komið hafði út um Proudhon á ensku en mikið hefur auðvitað verið skrifað um hann á frönsku.

Þrátt fyrir að vera anarkisti og baráttumaður fyrir frelsi var Proudhon íhaldssamur í sama stíl og karlmenn almennt með sama félagslega bakgrunn, með staðlaðar hugmyndir um hlutverk kvenna innan fjölskyldunnar. Þessi íhaldssemi sýndi sig meðal annars í andstöðu Proudhon við yfirlýsingar annarra anarkista um frjálsar ástir. Það tók hann langan tíma að þróa hugsun sína úr böndum kristilegrar hugsunar og menntunar.

Fyrstu greinaskrif hans byggja á kristilegu siðferði og eru ádeila á heilagleika eignarhalds. Greinin
What is Property?“ vakti athygli á honum og greinin Warning to Proprietors“ árið 1842 leiddi til ákæru saksóknara þar sem Proudhon var kærður fyrir æsinga meðal almennings, árás á stjórn konungs og móðgun við kaþólska trú. Hann var sýknaður einungis vegna þess að fólkið sem sat í kviðdóm skildi ekki hvað hann var að fara í greininni. Það kom sér auðvitað vel að vera laus við fangelsisvist og sekt – enn betra var að ákæran gerði hann að hetju í augum róttæklinga þrátt fyrir að viðhorf hans stönguðust á við viðhorf marga annarra sósíalista þess tíma.

Heimspekirit hans frá 1843 The Creation of Order In Humanity er litað af pósitívisma August Comte. Andstætt einstaklingshyggju Max Stirner – sem lýsir einstaklingnum sem grundvelli alls veruleika og samfélagi sem kúgandi andstæðingi einstaklingsins – skrifaði Proudhon um einstaklinginn sem grunneiningu innan samfélags sem leggur til skipulag þar sem hver manneskja getur starfað og fullnægt sínum þörfum. Einstaklingar geta ekki lifað út af fyrir sig. Í náttúrulegu ástandi er ekkert fyrirbæri einangrað, allt tengist en um leið er það meira en samansafn einstaklinga því summan er sameiginlegt afl eða vitund. Þessi hugmynd um sameiginlegt afl eða vitund varð síðan stöðugur og mikilvægur þáttur í þeim hugmyndum sem Proudhon setti fram á lífsleiðinni.

Í þessu riti kemur Proudhon fram með efnahagslega sögutúlkun árum áður en Marx og Engels skrifuðu Kommúnistaávarpið. Samkvæmt Proudhon stendur félagslegt skipulag á efnahagslegum grunni, en drifkraftur einstaklinga og það réttlæti sem félagslegar umbreytingar ættu að heyra undir, hlýða ekki kalli efnahagskerfa. Umbreytingar í átt að félagslegu réttlæti verða ekki með pólitískri byltingu heldur félagslegri byltingu, með náttúrulegri þróun áðurnefndar sameiginlegrar vitundar um eigið mikilvægi. En til þess þarf hver einstaklingur að taka þátt. Bylting getur orðið nauðsyn, réttur og skylda, en byggist hún ekki á þekkingu og skilningi almennings er hún einskis virði.

Proudhon bölvaði seinna meir þessari bók sinni, sem vakti litla athygli á sínum tíma, en í henni komu samt sem áður fram grunnstef sem Proudhon skrifaði útfrá síðar meir.

Til að eiga í sig og á sinnti Proudhon um tíma skrifstofustörfum hjá iðnaðarfyrirtæki í Lyon, með þeim fyrirvara að hann tæki nokkurra mánaða frí á hverju ári til að sinna ritstörfum í París. Þar sem Proudhon kom
utan af landi“ þekkti hann ekki aðstæður iðnverkafólks og í Lyon lærði hann beint af verkafólkinu um samstöðu og mutualisma meðal þeirra. Árið 1844 kynnist hann þýskumælandi róttæklingum sem voru þeir Karl Marx (þá 25 ára gamall) og Mikhail Bakunin. Bakunin hafði þá, ásamt fleirum, unnið að útbreiðslu hugmynda Proudhon í Þýskalandi en Marx varð hins vegar hans þekktasti pólitíski andstæðingur.

Á þessum tímapunkti má greina upphaf hins djúpstæða, sögulega 19. aldar aðskilnaðar milli frjálslyndra og valdasinnaðra sósíalista og rekur Woodcock nákvæmlega hvað átti sér þar stað. Ég fer ekki nánar út í þá umræðu hér en vil þó nefna að Marx skrifaði litla bók,
The Poverty of Philosophy, sérstaklega gegn Proudhon og vísaði titillinn beint í bók Proudhons, The System of Economic Contradictions or the Philosophy of Poverty, en í henni fer Proudhon víða í lasti gegn þeirri staðreynd að þau sem auðinn skapa eigi ekkert meðan aðrir honum safna. Einnig olli guðlast höfundar herfilegri hneykslan. Flókinn ritstíll Proudhon gerir það að erfitt er að greina beint hvaða lausnir höfundur setur fram en meðal annars kemur þar fram kenning um gagnkvæmni – eða sósíalísk sýn á samfélag skipulagt útfrá vinnu verkafólks.

Mikið af þessari bók Woodcock byggir á aðgangi hans að einkabréfum Proudhon sem var afkastamikill bréfritari samhliða ritsmíðum og bóklestri. Hann var vel lesinn í skáldskap auk heimspeki og stjórnmálum, og áður en hann hóf að stunda ritstörf hafði hann kennt sjálfum sér nokkur tungumál eins og þýsku og hebresku auk þess að læra prentiðn. Í bréfum til vina hafði hann lýst yfir skömm á því að menn með köllun til róttækra ritstarfa kvæntust, en árið 1847 bað hann um hönd ungrar konu sem hann þekkti ekkert en leist vel á. Varð ráðahagnum vel tekið en árið eftir skall á bylting. Þau fátækustu meðal verkafólks höfðu fengið sig fullsödd. Margir höfðu orðið til þess að vara sitjandi ríkisstjórn við eldfimu ástandinu en ekkert hafði verið aðhafst til að bæta aðstæður þeirra sveltandi. Proudhon hugsaði með hryllingi til þess ofbeldis sem nú tæki við.

Um sama leyti fékk hópur róttækra sósíalista hann með í útgáfu dagblaðsins Le Represant du Peuple. Árásir Proudhon í greinaskrifum á ríkisstjórnir og hvatningar hans til beinna aðgerða og uppreisna höfðu mikil áhrif meðal almennings. Upplag og útbreiðsla blaðsins óx hratt og þó að Proudhon hefði enga leiðtogastöðu var núorðið litið á hann sem leiðandi afl í hreyfingu sósíalista, þó hann reyndi sjálfur ekkert til þess og var ekki síður vís til þess að bölsótast út í verkamenn í greinaskrifum en að upphefja þá.

Hann var tilnefndur sem fulltrúi til þingkosninga og sendi hann af því tilefni frá sér tuttugu þúsund orða yfirlýsingu sem var nokkuð stór biti að kyngja fyrir almenning en er lýsandi fyrir hversu óstöðvandi maðurinn var þegar hann var á annað borð sestur niður með penna, blað og hugmynd. Með setu á þingi, við hlið rithöfundarins Victor Hugo meðal annarra, setti anarkistinn sig í rangar aðstæður – sú staðreynd varð honum fyrst ljós eftir að verkafólk hóf vopnaða baráttu gegn yfirvöldum og hann var í raun tímabundið orðinn hluti af yfirvaldinu.

Proudhon varð beint vitni að hrottalegu ofbeldi hersins gegn verkafólkinu og tók þátt í uppreisninni einungis með því að hjálpa særðum og með tilraunum til að stilla til friðar. Hann var síðan sakaður um að bera að minnsta kosti siðferðilega sök í þessari byltingartilraun. Viðbrögð hans og annarra á ritstjórn dagblaðsins fólust í því að verja uppreisnarfólkið og krefjast þess að hluta af öllum skuldum þeirra fátækustu væri felldur niður. Í eftirmála nýafstaðinnar byltingartilraunar þótti þetta ansi gróft og bönnuðu yfirvöld blaðið í kjölfarið, en upplag þess var þá 40 þúsund eintök. Ritstjórnin hófst þegar handa við stofnun nýs blaðs, Le Peuple, sem seldist þegar upp í sama magni.

Í næstu kosningum komst Napoleon Bonaparte til valda og fyrir greinaskrif gegn honum var Proudhon dæmdur í þriggja ára fangelsi. Vistin var langt því frá svo herfileg: hann gat sinnt ritstörfum og fengið konu sína í heimsókn og var í raun mjög virkur meðan á fangelsisvist hans stóð – skrifaði þrjár bækur, ritstýrði þremur dagblöðum og skrifað mikið í þau sjálfur, hitti fjöldann allan af merkilegum einstaklingum að máli og varð fjölskyldumaður. Félagsleg staða hans sem pólitísks fanga gerði það að verkum að það sem hann skrifaði var nú lesið af enn fleirum.

Proudhon hafði hugsað sér að skrifa bækling undir titlinum Les Confessions dun Revolutionaire,“ en var á sex vikum búinn að skrifa heila bók sem er rannsókn á byltingahreyfingu Frakklands á árunum 1789 til 1849 og þykir ein af hans betri bókum.

Árið 1851 kom síðan út The General Idea of the Revolution sem er, eins og allt sem Proudhon skrifaði, sterk í harðri gagnrýni á ríkisstjórnir og kenningar yfirvaldi til stuðnings. Þegar kemur að uppbyggilegum hugmyndum ber hins vegar á ákveðnum naivisma – ofurtrú á rökhugsun mannsins og getu til að greina og vinna að því sem er gott fyrir alla. Eins og Woodcock bendir á eru hugmyndir frjálslynda sósíalista um breytingar óhjákvæmilega lausar í sér – og ættu að vera það þar sem allar hugmyndir um útópíu sem framfylgt er með stífni og ofbeldi eru ávísun á fjöldamorð eins og saga vopnaðra útópista síðustu hundrað ára sýnir.

Í Frakklandi uppúr 1852 var andrúmsloft stjórnmála enn frekar kúgandi en áður. Fyrir rithöfunda eins og Proudhon þýddi það útskúfun sem gerði honum erfitt um vik að sjá fyrir sér og sínum. Næsta bók hans, The Philosopy of Progress, heimspekirit með pólitískum undirtóni, var skrifuð undir eftirliti lögreglu sem gaf leyfi fyrir útgáfunni en tók fram að útgefendur gætu samt verið kærðir fyrir útgáfu hennar. Enginn prentari þorði að snerta við bókinni og Proudhon brást við með útgáfu í Belgíu en lögreglan í Frakklandi setti lögbann á innflutning hennar til Frakklands. Um leið þorði enginn útgefandi í Frakklandi að höndla eldri bækur Proudhon.

Það var svo ekki fyrr en árið 1858, eftir miklar ofsóknir lögreglu, að Proudhon tókst að gefa út næstu bók sína, Justice in the Revolution and the Church, sem Woodcock lýsir sem dýnamískri sýn á tilveru mannsins, félagslegt skipulag og þann heim sem manneskjur og samfélög lifa í. Bókin seldist hratt og vel þangað til Proudhon var aftur dæmdur til sekta og fangelsisvistar fyrir hana. Hann fór í útlegð til Belgíu með fjölskyldu sinni og ekkert stöðvaði hann við ritstörfin. Í bókinni War and Peace tók Proudhon fyrir alþjóðapólitík – titilinn lánaði hann vini sínum Tolstoy fyrir skáldsögu hins síðarnefnda – og síðar þjóðernishyggju í sterkri ádeilu sem leiddi til beins umsáturs belgískra þjóðernissinna um heimili fjölskyldunnar. Þá var Bonaparte búinn að gefa Proudhon upp sakir svo hægt var um vik að snúa aftur til Parísar.

Proudhon hætti aldrei að skrifa. Hann var óstöðvandi. Hann skrifaði um samfélag skipulagt í bandalögum lausbundnum í samningum milli smárra hópa og um falska mynd lýðræðiskerfis sem hin auðuga hástétt heldur gangandi. Hann hélt áfram að hugsa og koma hugmyndum sínum á blað þrátt fyrir að missa tvö börn úr sjúkdómum, eigið heilsuleysi – hann jafnaði sig aldrei fullkomlega eftir að hann lifði af kólerufaraldur sem gekk yfir París – og fátækt, ofsóknir yfirvalda og gagnrýni af hendi margra þeirra sem hefðu betur fagnað hugmyndum hans. Síðustu vikurnar sem hann lifði var hann rúmfastur og las dóttur sinni fyrir – ennþá með bók í smíðum.

Sagnfræðingar lýsa áhrifum hans innan þeirra hreyfingar verkafólks í Frakklandi sem var í mótun á þessum tíma, sem meiri en nokkurs annars, jafnvel meiri en áhrifa Marx. Hugmyndir hans um sósíalískt skipulag án yfirvalds voru alltaf flæðandi, því eins og hann skrifaði sjálfur: Ég vantreysti þeim rithöfundi sem tuttugu og fimm árum seinna þykist enn vera samkvæmur sjálfum sér.“ Samkvæmt Woodcock er sannleikurinn í þessari setningu sá að lifandi hugsun er sú eina hugsun sem enn getur breyst og mótast.

Þær hugmyndir sem Proudhon setti fram voru virkar í Parísarkommúnunni 1871 og mótuðust enn frekar í meðförum Bakunins og Kropotkins sem og innan hreyfinga syndikalista. Proudhon hafði ekki trú á neinni einni byltingu eða útópísku plani. Hans æðsta hugmynd var hið lifandi eða dýnamíska samfélag sem haldið er lifandi og í hreyfingu með stöðugri gagnrýni. Og það samfélag er aldrei hægt að mynda með stífu og fastmótuðu plani.

Miðað við það hvernig Woodcock lýsir ritstíl Proudhon og einstökum ritum eftir hann finnst mér ekki liggja á að lesa neina af þeim. Hugmyndir hans eru lifandi og í mótun í þúsundum annarra anarkistarita. Þessi mjög læsilega úttekt á manninum og þeim hugmyndum sem hann setti fram dýpkaði þekkingu mína á sögu anarkismans og nægir mér hvað varðar þennan merkilega einstakling og ötula baráttumann fyrir frelsi einstaklinga og samfélags.

Bók Woodcock hefur persónulegan stíl þar sem hann unnir viðfangsefninu innilega og er þar af leiðandi ófeiminn við að rýna í það sem Proudhon gerði miður vel um leið og hann dáist að krafti hans og því hversu ötull hann var við að halda því starfi áfram sem hann unni mest og fannst mikilvægt. Sagan segir af mörgum sem hófu rithöfundarferil af róttækri einlægni en voru fyrr en varði búnir að taka við þægilegri stöðu innan stjórnkerfis með málamiðlanir og mögulegar umbætur sem afsökun. Proudhon, hins vegar, hélt áfram að þróa hugmyndir sínar og gafst aldrei upp þrátt fyrir mótlæti.

Sigurður Harðarson

Til baka í umfjallanir