Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

 

Faith of the Faithless – Experiments in Political Theology
Simon Critchley
Verso 2012

Fyrsti hluti þesssarar sterku bókar er djúplestur á samfélagssáttmála Rousseau og greining á grunnvanda stjórnmála. Þar er átt við þann vanda sem er sköpun raunverulegra stjórnmála. Fulltrúastjórnmál eru ekki raunveruleg stjórnmál því, eins og tekið er skýrt fram í þessari bók, getur enginn verið sannur fulltrúi fjölda annarra einstaklinga, að halda því fram er ímyndun eða skáldskapur.

Leitin að raunverulegum stjórnmálum er leitin að hinu sameiginlega, hinu almenna, leitin að almennum vilja, óháð því hvort að það er raunhæft eða ekki, því eins og Oscar Wilde skrifað í Soul of Man under Socialism þá er landakort án útópíu ekki þess virði að rýnt sé í það.

Rousseau velti fyrir sér sköpun trúarbragða sem gætu sameinað og byggðust ekki á trú. Í framhaldi af Rousseau fer Critchley stuttlega yfir stjórnmálaheimspeki franska Marxistans Alain Badiou, einnig hann leitar að 'hinu almenna' og segir að ef sönn stjórnmál séu þegar menningarhópur (e. 'a people') sem skapar sjálfan sig gegnum eigið átak, sem er róttækt og staðbundið rof frá því sem áður var, sé það sjaldgæft í sögunni. En rædd eru tvö söguleg dæmi, úr Parísarkommúnunni (sem ný ríkisstjórn 'fulltrúa fólksins' murkaði lífið úr) og Shanghai kommúninni (sem 'leiðtogi fólksins', Maó kallaði anarkískt fyrirbæri og barði niður).

Þessum fyrsta hluta bókarinnar lýkur Critchley með því að furða sig á því að menn eins og Badiou haldi áfram að afneita anarkisma og fer í þriðja kafla að grufla í 'Mystical Anarchism'. Samt er fyrst komið inn á Carl Schmitt sem í bók sinni 'Political Theology' lýsti því yfir að hver einasti marktækur þáttur í samtímakenningum um ríkið, sé af guðfræðilegum toga. Þetta er ekki einungis söguleg staðreynd, segir Schmitt, heldur kerfisbundin og almenn.

Vald hins óskeikula guðs miðaldakristni færðist yfir á hinn óskeikula einræðisherra. Fram á sautjándu öld var hugtakið almannavilji guðfræðilegt hugtak sem vísaði til guðs vilja. Árið 1762, í samfélagssáttmála Rousseau, hafði almannavilji breyst í vilja fólksins og hin sjálfstæða pólitíska eining færðist frá einræðisherranum yfir til menningarhópsins. Sem skýrir afhverju Rousseau trúði því að almannavilji, rétt eins og guðs vilji, væri ófær um að hafa rangt fyrir sér. Aðvitað felur þetta í sér að vilji fólksins sé alltaf siðferðilega réttur og hverjum þeim sem setur sig upp á móti honum megi útrýma sem af hinu illa.

Carl Schmitt hafði einnig skrifað að raunveruleg pólítísk ákvörðun sé sú sem brýst frá öllu normi og frelsar sig frá öllum böndum hefðarinnar. Þar sem Critchley hefur hérna skrifað bók um tilraunir í pólitískri guðfræði komum við nú inn á 'Movement of the Free Spirit' – hreyfingu trúaðra í Evrópu miðalda sem sögðu guð einungis geta búið innra með hverjum einstaklingi, því væri kirkjan fals og kúgun. Meðlimir lifðu í litlum hópum og voru sameinaðir í trú á kærleika og afneituðu um leið siðferðilegu, lagalegu og pólitísku yfirvaldi bæði kirkju og ríkis. Norman Cohn, sem skrifað hefur ítarlega um þessa hreyfingu og aðrar svipaðar, segir að þegar hæst stóð hafi hreyfingin verið ósýnilegt heimsveldi haldið saman af tilfinningaböndum.

Critchley færir sig síðan yfir í postulan Pál sem var víst svo harður að djúplestur á honum skapar alltaf vandræði fyrir kristið fólk sem er búið að gleyma sér í trú á stofnunum. Samkvæmt Páli er trúarleg sannfæring (e. 'faith') aðgerð eða verknaður sem gerir tilkall til einhvers. Þetta á sér stað í krítískum aðstæðum fyrir samfélag, fyrir samfélag í baráttu. Einnig samkvæmt Páli er guð einungis fyrir þau sem ekkert hafa, engin völd eða auð. Trúarleg sannfæring fyrir þau sem ekki þegar trúa, er því nýr kraftur í veikleika, vald fyrir þau valdalausu. Í þeim bókum 'Movement of the Free Spirit' sem lifðu af hreinsanir kirkjunnar, er því lýst hvernig manneskjan verði að brjóta sjálfið upp til að skapa rými fyrir raunverulegan guð.

Fer þá Critchley að flækja málið með umfjöllun um hugmyndir Heidegger um sjálfið. Þá er eins og bókin missi aðeins þráðinn í orðaleikjum Heidegger um tilveruleysi sjálfsins. Eins og heimspekingum er tamt (og Critchely hæðist að sjálfum sér þegar hann vitnar í Rousseau um umkomuleysi heimspekinga) getur hugtakaflækjan orðið ónauðsynlega herfileg þegar heimspekingar taka sig til – þegar 'allir' vita að sjálfið er ímyndun hugsandi dýra sem fyllast örvæntingu við að horfast í augun við eigin dauðleika.

Þessi dauðleiki eða 'neind' er mögulegur grunnur 'hins sameiginlega' sem er leitað er eftir, en eftir því sem daglegur veruleiki hins siðmenntaða manns færist stöðugt fjær uppruna hans verður erfiðara að heimfæra 'hið sameiginlega' upp á manneskjur. En höldum í að Heidegger skrifaði að það sé einmitt vanmáttur okkar sem gerir okkur að manneskjum.

En frá þessu yfir í umræðu um ofbeldi. Simon Critchley og Slavoj Zizek hafa víst um árabil átt í ritdeilum þar sem Critchley gengur útfrá því að mögulegt sé að hafa áhrif á gang heimsmála án þess að taka völdin en Zizek er Marxisti og trúir enn að kapítalisminn muni ganga af sjálfum sér dauðum og aktivistar geri ekkert nema styrkja ríkið með mótmælum.

Til að fylgja sannfæringu sinni (eins og postulinn Páll og hinir sannkristnu miðaldakommúnistar), til að nálgast hið anarkíska, einlæga og raunverulega form eða ástand stjórnmála, þarf mögulega eða mjög líklega að beita ofbeldi. Critchley ræðir muninn á ofbeldi af hendi ríkisins, eins og hrottaskap ríkisins í formi nýlenduherra, og 'æðra' ofbeldis eða 'divine' ofbeldis sem bæði Walter Benjamin og Emmanuel Levinas hafa lagt út af. Báðir sjá að það er eitthvað umfram mýtur ofbeldis ríkisins, lagabálkanna og stríðs. Það sem slítur sig frá hinni viðurkenndu, lögmætu mynd ofbeldis (af hendi ríkisins, eða ofanfrá innan valdapýramída) er anarkískt. Það stendur utan við það ofbeldi sem setur lögin og viðheldur lögum og það er í nafni lífsins.

Í deilum heimspekinganna Critchley og Zizek virðist sem Zizek þoli alls ekki þessar pælingar sem blanda stjórnmálum inn í að vinna að hinu óþekkta. Hann vill einungis ræða 'realpolitik' og er í raun útópískari en nokkur heittrúaður miðaldakommi því hann trúir enn á alræði öreiganna.

Critchley sér að þegar valdalaust fólk, drifið áfram af sannfæringarkrafti frelsisþrár sem kemur beint frá hjartanu, beitir sér af hörku gegn þeim stofnunum sem sem gera tilkall til einkaréttar á beitingu ofbeldis innan samfélags, og verja þann rétt með hrottaskap, þá er ofbeldi fólksins 'æðra'. Við getum ekki gengið til kosninga og orðið frjáls því fulltrúalýðræði er skáldskapur af æðstu gráðu. Við getum ekki farið í hugleiðslu og jóga og orðið frjáls, eins og Critchley segir passíva níhilista okkar samtíma gera þegar fals nútímastjórnmála verður þeim of augljóst. Eins og Páll postuli skrifaði þá verður sannfæringarkrafturinn raunverulegur þegar samfélag er í krísum eins og þeim sem fals hins kapítalíska fulltrúalýðræðis og hnignun trúarbragða leiða af sér, þá getur hið anarkíska innan samfélaga virkjast til baráttu fyrir eigin frelsi.

Critchley segir sjálfur að eina bókin hans sem ekki sé efnisskipt sé 'Infinitely Demanding' (sjá umfjöllun hér á síðunni) en þó að 'Faith of the Faithless' fari víðar og sé því mistæk er hið undirliggjandi þema mjög mikilvægt. Nú er bara spurning um að hann skrifi aðra bók í leit að 'hinu sameiginlega' og láti guðfræðina eiga sig og rannsaki hvað tengi saman manneskjur á mannfræðilegum grundvelli. Heimspekileg nálgun á anarkíska mannfræði í stíl heimspekilega anarkistans Simon Critchley er alveg örugglega bók sem myndi tengja saman marga spennandi punkta.

Sigurður Harðarson

Til baka í umfjallanir