Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

 

Cartography of Revolutionary Anarchism
Michael Schmidt
AK Press 2013

Ég hef lesið eitthvað sögu anarkistahreyfinga, eins og hina rómantísku 'Demanding the Impossible' eftir Peter Marshall, sem er falleg bók um streymi hugmyndarinnar um hið anarkíska frelsi, hún hafði mikil áhrif á mig. Michael Schmidt tekur allt annan pól í hæðina því fyrir honum er anarkismi í verki skipulagðra byltingarhreyfinga verkafólks eini anarkisminn. Hann er einnig, ásamt Lucien vand der Walt, höfundur bókarinnar 'Black Flame' sem tekur þessa sögu ítarlega fyrir. En í þessari litlu, kraftmiklu bók (150 bls), sem hann kallar ritgerð, rennir hann yfir 150 ára sögu byltingarstarfsemi í verki í höndum verkafólks sem skipuleggur sig í nafni anarkismans.

Í hröðu máli lýsir hann fimm bylgjum. Sú fyrsta, á árunum milli 1868 og 1894 lýsir baráttu syndikalista og anarkista á þeim árum sem ríkið og kapítalisminn eru að breiða út vald sitt. Þá eru Bakunin og Proudhon áhrifamiklir propagandistar. Önnur bylgjan, 1895-1923, er á árum fyrstu Rússnesku byltingarinnar og síðan fyrri heimsstyrjöld, sú þriðja, frá 1924 til 1949 glímir við heimsvaldastefnu, fasisma og bolsévisma, á árunum milli 1950-1989 er kalda stríðið í algleymi en um leið eru ríki Evrópu að gefa eftir nýlendur sína í Afríku og Asíu, og fimmta bylgjan frá 1990 til dagsins í dag er hluti af sögu hruns Sovétríkjanna og alræðistilrauna kapítalista.

Hér liggur gífurleg rannsóknarvinna að baki því Schmidt rennir yfir allar hreyfingar syndikalista og anarkó-kommúnista og anarkista sem mynduðust í hverju landi fyrir sig, hvaða aðstæður lágu að myndun þeirra hvernig þær tengdust inn í aðrar hreyfingar verkafólks, hver starfsemi þeirra var og hver voru örlög þeirra. Á stundum verður þessi ritgerð því eins og hröð upptalning þar sem ég missti stöku sinnum þráðinn, en alltaf kom Schmidt aftur inn á mannlega hlutann. Það sem gerir þessa ritgerð að virkilegum innblæstri er að hún segir hnattlæga sögu, hann fjallar einnig um sögu anarkistahreyfinga í Írak og Afghanistan og í Kóreu auk annara landsvæða Asíu og Afríku sem evrópskir anarkistar hugsa sjaldan til sagnfræðilega.

Í hverju tilfelli vísar höfundur til frekara lesefnis til að áhugafólk geti víkkað sjóndeilarhring sinn en hann hefur einnig sjálfur tekið viðtöl við einstaklinga sem lifðu til að segja frá. Schmidt er róttækur blaðamaður og líklega þessvegna sem honum tekst að setja svo mikla sögu saman í eina ritgerð og um leið gera hana að auðlesinni og spennandi bók.

Persónuleg vitund mín um anarkisma hefur hingað til verið bundin við mótmælahreyfingar sem vinna á grunni lítilla samvinnuhópa, auk 'lífsstílsanarkista' , einstaklingshyggju og baráttu gegn eyðileggingu vors náttúrulega umhverfis og vistkerfis, þar á meðal primitivisma. Hreyfingum syndikalista hefur ég gefið lítinn gaum, aðallega vegna þess að það sem ég hef reynt að lesa um þessa sögu er þreytandi texti. Hér er sem sagt fyrsta bókin sem ég les um sögu og markmið anarkisma í formi verkalýðsbaráttu og núna er bókin 'Black Flame – the Revolutionary Class Politics of Anarchism and Syndicalism' komin ofarlega á leslistann!

Schmiddt er bjartsýnn og jákvæður í lokaorðum sínum:

'Sagan er ekki hlutlaus. Í skóla er okkur sagt að við höfum þörf fyrir ríkisstjórnir og yfirmenn. Okkur er sagt að mannkynssagan sé saga átaka milli mismunandi ríkisstjórna, herja og ráðandi forréttindahópa. Okkur er sagt að einungis þau ríku og valdamiklu skapi söguna. Það sem okkur er ekki sagt er að venjulegt fólk hefur barist gegn yfirmönnum sínum á hverju stigi sögunnar og að þetta stéttastríð er hinn sanni drifkraftur siðmenningar og framfara. Okkur er ekki sagt að ríkisstjórnir og kapítalismi eru ekki einungis ónauðsynleg fyrirbæri heldur eyðileggjandi fyrir allt sem skiptir máli. Sem anarkistar vitum við að fólk, jafnvel smáborgararnir, er ekki slæmt í sjálfu sér; það sem við öllum gerum er að aðlagast okkar stétt. Við réttar aðstæður, aðstæður þar sem lifað er við raunverulegt jafnræði og frelsi, höfum við séð að upp rís sterkur andi samvinnu og gagnkvæmrar hjálpar meðal almennings.'

Sigurður Harðarson

Til baka í umfjallanir