Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Rolling Thunder - An Anarchist Journal of Living Dangerously
Nr. 11
Vor 2014
www.crimethinc.com

Miðað við efnistök hefur Rolling Thunder, eitt af tímaritum CrimethInc hópsins, líklega aldrei verið réttnefndara - “Journal of Living Dangerously” - því meginuppistaðan er frásagnir þátttakenda í uppreisnum okkar tíma, frá “Arabíska vorinu” til Occupy auk þess stórhættulega athæfis að vera virkur anarkisti í Ísrael. Þegar ég skrifa uppreisn, á ég við uppreisn sem krefst frelsis frá kúgun. Það eru margir hópar í uppreisn um allan heim, hafa alltaf verið og munu alltaf verða, en af þeim eru fleiri en ekki sem krefjast umsvifa til að kúga aðra, handhafar sannleikans, hópar sem vilja verða hið nýja kúgandi ríki. Rolling Thunder fókuserar eðlilega ekki á þessa uppreisnarhópa heldur uppreisnir sem anarkistar taka þátt í og ýta undir.

Eins og flestir hef ég lesið hitt og þetta um “Anarchists Against the Wall” í Ísrael en vissi lítið meira en nafn hópsins segir til um. En hér er afar fróðlegt viðtal við langtíma þátttakanda í anarkistahreyfingu Ísrael. Hann/hún rekur forsögu og þróun samtímaanarkisma í bland við uppruna pönks og hreyfingar um lífsréttindi dýra í Ísrael og skýrir viðhorf til friðsamlegs aktivisma í illdeilum milli Ísrael og Palestínu.

Bakgrunnur anarkistahreyfingarinnar í Ísrael er hluti af viðsnúningi gyðinga frá því að vera hrædda fólkið sem var slátrað í gettóum, til hins sterka gyðings sem gat slegið frá sér. Ísraelskir Anarkistar sjötta áratugar síðustu aldar sáu ekki ríkið sem óvin sinn því ríki Zíonista var, jafnvel fyrir þeim, eina vörn gyðinga gegn fjandsamlegum heimi. Um og uppúr 1990 gerðu anarkistar og pönkarar uppreisn gegn þessu viðhorfi og sérstaklega gegn vaxandi ofbeldi hersins. Viðmælandi rekur hvernig þessi hreyfing mótaðist og uppúr henni varð til það sem núna er “Anarchists Against the Wall”.

Almennt er það sem gerir þessa grein sérstaklega fróðlega er hvernig viðmælandi skýrir hugsanagang í þessum heimshluta á skjön við umræðu innan anarkistahreyfinga í Evrópu og Bandaríkjunum. Til dæmis þýðir friðsamlegur aktivismi eða “nonviolence” hér, mótmælagöngur og mótmælastöður, en fyrir Palestínumann þýðir að engin skotvopn eru notuð, heldur er barist einungis með grjóti og molotovkokteilum.

Önnur sterk og góð grein er frásögn tyrknesks anarkista sem var hluti af götubardögunum kringum Taksim torg í Istanbúl. Hér er líka rakin forsaga sem ég þekkti ekki, af vinstrihreyfingu sem varð fyrir fjöldamorðum lögreglu og hers á 1. Maí mótmælum 1977, á þessu sama torgi. Um leið fær Taksim torg nýja pólitíska merkingu, bæði fyrir yfirvöld og mótmælendur.

Bardagar eru harðir en það sem er áberandi er hvernig er glímt við menningarlega árekstra meðal þeirra sem annars standa saman gegn lögreglu og her. Í hliðargrein eru hópar þátttakenda grófflokkaðir í pólítísku fótboltabullurnar í Carsi (að hugsa sér, pólitískt þenkjandi fótbóltaáhangendur!), anarkista, LesbianGayBisexualTrans aktivista, anti-kapítalíska múslima, meðlimi vinstrisinnaðra verkalýðsfélaga og regnhlífarhópinn Musterekler sem var þegar að verja Gezi garðinn áður en baráttan sprakk í loft upp framan í ríkisstjórn hins íhaldssama forsætisráðherra Erdogan.

Víkjum sögunni til North Carolina, USA, þar sem fimm aðilar segja frá áralangri baráttu gegn “Gentrification” - yfirtöku og innlimun rótgróinna íbúahverfa í nýgróðaplön fjársterkra framkvæmdamanna. Fyrst eru ráðagerðir kynntar um “framfarir” með nýjum byggingum og “fullri þátttöku íbúa” en um leið er húsaleiga keyrð upp til að ýta efnaminni fjölskyldum burt og laða að fjársterkara fólk.

Félagslega meðvitað fólk veit að það eru ekki götur og verslanamiðstöðvar sem mynda borgir heldur fólkið sem býr í þeim og þau tengsl sem það myndar sín á milli. Kapítalistar munu aldrei skilja þetta. Í þessari sögu er reist íbúðasamsteypa, ljót bygging sem er kölluð “græn og væn” og planið er að selja íbúðirnar.

Andstæðingar yfirtökunnar skrattast í fyrirtækinu, þurfa að glíma við þá íbúa sem sjá sjálfir hagnað í aðstæðunum, horfa upp á gamla vini neyðast til að flytja burt og lenda í afkáralegum aðstæðum þegar einn auraapinn mætir á anarkistamiðstöðina og býður þeim nær fría aðstöðu í nýbyggingunni gegn því að þau hætti að vinna gegn henni.

Fræðilegar greinar í þessu hefti fjalla m.a. um líftíma pólitískra hreyfinga, samstöðupólitík sem angar af pólitískri rétthugsun, byltingarstrategíu og að færa sig af netinu út í lífið. Fastir liðir eru bókaumfjöllun og innlegg í orðskýringabók anarkista.

Eins og alltaf er Rolling Tunder skínandi fallega uppsett með skýrri framsetningu og fallega prentað. Grípandi ljósmyndir með aktivistagreinunum og listræn framsetning mögnuð.

Mikilvægt tímarit fyrir alla anarkista og aktivista og fólk sem vill læra meira.

Sigurður Harðarson

Til baka í umfjallanir