Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

 

Under Three Flags – Anarchism and the Anti-Colinial Imagination
Benedict Anderson
Verso 2005

Það var ekki fyrr en ég gerðist búsettur fjarri íslandi sem áhugi minn tók að vakna á sögu nýlendustefnunnar og áhrifum hennar á þann heim sem við erfum. Má segja að vitund mín um tilvist þessarar ofbeldis- og kúgunarstefnu útávið, oft af hendi ríkja sem í raun voru frekar smá á heimsskalanum, hafi ekki vaknað fyrr, því ekki man ég eftir mikilli umræðu um þennan hluta pólitískrar sögu á Íslandi, nema innan lítilla hópa leitandi róttæklinga.

Þessi bók er magnað verk og ótrúlega ánægjulegur lestur miðað við hversu umfangsmikil og flókin hún er. Benedict Anderson er pennanafn Aaron L. Binenkorb, prófessors í alþjóðafræðum sem í þessari bók setur fram sláandi söguskoðun á grasrótarstjórnmálum og menningu við lok 19. aldar, litaða af herskárri anarkistahreyfingu Evrópu og Ameríku (Suður frekar en Norður) og baráttu gegn yfirráðum heimsvelda í nýlendum sínum og heimafyrir. Andersen segir söguna útfrá upphafi þjóðernisvakningar meðal Filippseyinga og rekur áhrif tveggja pólitískt meðvitaðra filippískra rithöfunda þess tíma, sem í dag eru þjóðhetjur sjálfstæðisbaráttu Filippseyja, og hvaða áhrifum þeir urðu fyrir í bókmenntum og pólitík Evrópu og víðar, sem síðan leiddi til sterkra áhrifa meðal þeirra sem börðust gegn yfirráðum spænsku krúnunnar og klerkaveldi. Anderson hefur persónuleg tengsl við Filippseyjar og þessvegna skrifar hann útfrá þeim frekar en öðrum hnitum.

Sagan er flókin og margir koma við sögu en samt er lestur bókarinnar heillandi yfirsýn yfir hrun heimsvelda, baráttu anarkista gegn allri kúgun og baráttu undirokaðra samfélaga gegn ofbeldi erlendra ríkja. Um leið segir af herfilegu ofbeldi þegar uppreisnir voru barðar niður með fjöldamorðum, handtökum og pyntingum og af aftökum í kjölfar sprengjutilræða anarkista og annara uppreisnarmanna.

Eins og höfundur lýsir í inngangi leitast bók hans við að “kortleggja aðdráttarafl anarkisma milli herskárra þjóðernissinna víða um heim”. Eftir dauða Marx árið 1883 var alþjóðavitund anarkismans ráðandi afl í sjálfsvitund róttækra vinstrimanna. Anarkistar voru þá eins og nú í andstöðu við heimsvaldastefnur, en tæknilega séð höfðu þeir ekkert á móti þjóðernishyggju sem var nýsprottin og á smáum skala. Auk þess voru anarkistar sneggri til en kommúnistar að verða hluti af ferðalagi róttækra hugmynda meðal alþjóðlegs verkalýðs. “Malatesta varði fjórum árum í Buenos Aires – óhugsandi fyrir Marx eða Engels, sem fóru aldrei útfyrir Vestur Evrópu. Hátíðahöld fyrsta maí í Bandaríkjunum snúast um minningu anarkista innflytjenda – ekki Marxista – sem teknir voru af lífi áríð 1887.” (úr inngangi)

Filippískri rithöfundurinn og læknirinn Rízal skrifaði tvær skáldsögur sem gerðu hann að táknmynd andstöðu Filipsseyinga gegn yfirráðum nýlenduherra. Rízal ferðaðist víða, dvaldi langdvölum í Evrópu og pikkaði upp áhrif frá rithöfundum sem bæði skrifuðu skáldskap gegn nýlendustefnu eigin ríkja, eins “Max Havelaar” eftir Edward Dekker og á skjön við ætluð gildi sinna samfélaga, Anderson minnir t.d. á Joris-Karl Huysman og skáldsögu hans “Against Nature” (titillinn hefur einnig verið þýddur sem “Against the Grain”). Mikilvægi imyndaraflsins á uppreisnarhreyfingar er heillandi því, eins og Anderson kemur að voru t.d. áhrif skáldsögunnar “Germinal” eftir Emil Zola mjög sterk og umfangsmikil.

Á þessum árum hafði ekki enn neitt eitt ljótt og fyrirferðamikið tungumál höslað sér völl sem alþjóðamál heldur höfðu flakkandi uppreisnarseggir hrafl í nokkrum tungumálum á hraðbergi. T.d. Dvaldi Rízal nokkrar vikur í Japan og heillaðist svo af menningu Japan þess tíma að hann pikkaði upp nægilega mikið af Japönsku til að geta tjáð sig við einmana Japana sem hann hitti og síðan túlkaði fyrir á sameiginlegu flakki þeirra um Bandaríkin, sem varð innblástur fyrir þennan einmana afkomenda samúræja, til að verða uppreisnarmaður þegar heim var komið.

Útfrá varðveittum bréfaskriftum og rannsóknum annara dregur Anderson upp mynd af hluta þeirra tengslakerfa uppreisnarseggja sem fylgdust með hver öðrum og voru hver öðrum innblástur frá ólíkum hornum hins byggða heims.

Þrátt fyrir umfang þessarar stúdíu er bókin, eins og áður segir, mjög læsileg, kaflarnir stuttir og hoppa auðveldlega milli heimsálfa. Auk þess er bókin stutt, 230 bls og því langt frá því yfirþyrmandi verkefni fyrir fróðleiksfúsan bókaorm umkringdan öðrum heillandi, ólesnum bókum, að setjast niður með hana.

Sigurður Harðarson

Til baka í umfjallanir