Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Anarchist Studies Journal Vol 23. Number 1. 2015

Tímaritið Anarchist Studies hefur komið út í fjölda ára. Það er skrifað af fræðafólki sem eru anarkistar. Yfirleitt er komið víða við í efnistökum, sögu, heimspeki, aktivisma og/eða aktivismagreiningu, greiningu á þeim tólum sem yfirvald af ýmsu tagi beitir til mannföldastýringa og samfélagsinnlimunar- og yfirtöku, svo eitthvað sé nefnt. Þar sem nokkuð stór hópur leggur til greinar, kemur fyrir að greinar heilla mig alls ekki, annaðhvort vegna efnis (til dæmis þegar gruflað er frekar í gömlum deilum anarkista og Leninista) eða stíls (orðanoktun svo fræðileg að hún er utan við minn reynsluheim) eða bæði. En það er sjaldgæft og að lesa nýjasta hefti Anarchist Studies er bæði ánægjuleg og hrifandi skemmtun.

Þema heftisins er anarkistinn og rithöfundurinn George Woodcock. Til hans hef ég oft séð vísað en ekkert lesið eftir hann. Woodcock ólst mestmegnis upp í Englandi en bjó seinni helming ævinnar í Kanada. Hann kynntist anarkisma gegnum Marie-Louise Bernieri og aðra anarkista í Freedom útgáfuhópnum og var sjálfur ritstjóri Freedom tímaritsins í nokkur ár. Woodcock var gallharður friðarsinni og þar af leiðandi átti hann oft í deilum við byltingarsinnaða félaga sína. Fyrir utan fjöldan allan af gagnrýni á nýútkomnar bækur um ýmsar hliðar anarkisma er þetta hefti Anarchist Studies samsett af greinum um líf og ritstörf Woodcock og þau viðhorf sem lituðu hans sýn á anarkisma.

Woodcock tók á sínum tíma saman yfirlitsrit um anarkisma - The Anarchist Reader - sem hann kom í útgáfu hjá Penguin og er því eitt útbreiddasta inngangsrit um anarkisma nokkurntímann. Grein Sureyyya Eren og Ruth Kinna, “George Woodcock: The Ghost Writer of Anarchism”, rýnir í hvernig viðhorf friðarsinnans Woodcocks sjálfs lituðu bókina. Til dæmis í æviágripum sögulega þekktra anarkista lýsir hann Bakunin eins og barnalegum manni í stöðugu maníukasti. Greinarhöfundar spyrja sig að því hversu raunsæ sýn Woodcock á anarkismann hafi verið þegar Woodcock endar bókina í þeim tón að anarkisminn sé búinn að vera. Eins og fyrr segir var Woodcock sérlega uppsigað við þann byltingarsinnaða anarkisma sem var kenndur við Bakunin og virðist hafa skrifað að fyrst engin bylting hafi gengið í gegn og stríðið gegn fasistum í spænsku borgarastyrjöldinni hafi tapast sé hugsjón anarkistanna búin að vera. Friðarsinnar í anda Tolstoy og Ghandi séu fallegri ímynd anarkismans en sá anarkismi er dauðadæmdur í vondum heimi.

Greinarhöfundar setja fram spurninguna um hvað felist í því að sigra. John Dunn hefur skrifað um hvað árangursrík bylting þýði, fyrir heimspekilega afstöðu, fyrir hugmynd. Hvað þýðir það að sigra fyrir anarkista? Í fyrsta lagi, skrifa þau Ruth og Sureyyya, þegar kemur að pólitískum og félagslegum umbreytingum teygja markmið anarkisma sig út fyrir öll landamæri eða anarkisminn er virkur innan tilrauna sem eru á smáum skala og því ekki alltaf sýnilegar eða umfangsmiklar. Í öðru lagi, og þetta er sérstaklega mikilvægt, þá er markmið anarkismans aldrei að taka völdin. Þá er pælingin um að tapa komin á undarlegan stað: anarkisminn er álitinn “glataður málstaður” því þegar byltingin átti sér stað lögðu anarkistarnir ekki línurnar um hvernig samfélagið ætti að vera um leið og búið væri að ná völdum. Anarkistar sem voru virkir í byltingum sáu byltinguna aldrei sem afmarkaða uppákomu heldur sem hluta af ferli, þau börðust ekki til þess að sölsa undir sig völd og ætluðust síðan til þess að samfélagið rúllaði eftir skipunum nýrra valdhafa. Hreyfingin setti fram hugmynd og þegar hreyfingin var barin niður, átti hugmyndin að hafa verið barin niður með henni. Svipuð rök voru sett fram árið 1989: Sovétismi var Marxismi. Marxismi var kommúnismi. Þegar Berlínarmúrinn féll með Sovétisma, féll kommúnisminn og hugmyndin þar með dauð. Útfrá þessu viðhorfi virðist Woodcock hafa afskrifað byltingarsinnaðan anarkisma í sínu yfirlitsriti.

Gein Matthew Adams um bréfskrif Woodcock við Herbert Read er fallega skrifuð. Báðir voru þeir anarkistar og rithöfundar sem leituðust við að lifa samkvæmt sinni sannfæringu sem anarkistar. Báðir gerðu tilraunir við að lifa af landinu. Woodcock byggði eigið hús úr trjám sem hann felldi sjálfur og lagði sjálfur allar lagnir í húsið. Þá var nú bókabéusinn ánægður með sig.

Iain McKay sem ritstýrði nýútkomnum doðrant, sem er samantekt rita Kropoktin, tekur fyrir þá mynd sem Woodcock dregur upp af Kropotkin sem ungs æsingamanns sem á seinni árum gaf byltingar upp á bátinn og varð vísindamaður. McKay sýnir fram á að þrátt fyrir að vera vísindamaður var Kropotkin enn að skrifa fjöldann allan af greinum sem hvöttu til byltinga, margar þeirra voru skrifaðar á frönsku og hafa enn ekki verið þýddar yfir á ensku.

Ég tíni ekki fleira til um greinarnar í þessu hefti en fjallað er um yfir tuttugu nýútkomnar bækur sem tengjast hugmyndafræðinni. Ég mun halda áfram að vera áskrifandi að Anarchist Studies og halda áfram að læra meira.

Sigurður Harðarson

Til baka í umfjallanir