Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

 

The Anatomy of Fascism
Robert O. Paxton
Penguin 2004

Þegar fyrst er horft á fasisma utanfrá, lítur í fljótu bragði út fyrir að um sé að ræða hóp rudda fylgjandi mælskum og hrífandi leiðtoga sem samhliða félagslegri upplausn og efnahagskrísu byggir upp fylgi meðal almennings. Þó að fasismi í því formi sé algengur, er, í þeim tilfellum þar sem fasismi hefur náð að verða hluti af ríkiskerfinu, hann mun flóknari.

Fyrir marga sem rannsakað hafa fasisma hefur verið auðvelt að horfa utan frá og segja suma menningarhópa vera í eðli sínu öðrum móttækilegri fyrir fasisma (og þessvegna komi fasismi aldrei fram í “mínum” menningarhóp).

Vandinn við að skilja fasisma felst einnig í því hversu auðvelt er að einblína á stakar sögulegar uppákomur eins og þegar ítalskir fasistar þrömmuðu til Rómar og ´tóku yfir´ borgina og ´Kristallnacht´ þýskra nasista og hugsa söguna útfrá þeim sem afdrifaríkum staksteinum í uppgangi þessara pólitísku hreyfinga, eins og fasistar vildu sjálfir meina, en þá er horft framhjá hvernig fasismi varð hluti af daglegu lífi og hélt sér við með hjálp ´venjulegs´ fólks, jafnvel vel meinandi einstaklinga, auk elítunnar og háttsettra aðila innan stjórnkerfisins í hverju landi.

Í þessari bók ræðir Paxton m.a. hversu takmarkandi beinar skilgreiningar eru þegar markmiðið er að skilja fasisma. Flest fræðafólk kallar fasisma hugmyndafræði. Hitler talaði endalaust um ´heimssýn´(weltanschauung) og Mussolini um ´fascist creed´. Útfrá því skilgreinist fasisti sem einstaklingur sem aðhyllist hgmyndafræði fasisma – hugmyndafræði verandi kerfi hugmynda beitt sem verkfærum til heimsumbreytinga. Útfrá þessu ætti að skoða fasisma sem “isma”, eins og íhaldssemi, frjálslyndi og sósialisma. -isma sem byggðu á heimspekilegum kennisetningum sem grunni lýðræðislegar umræðu.

Fasismi hinsvegar stílaði inn á tilfinningar með táknrænu helgihaldi (ritual) og sýningum. Fasistar hafa enga þörf fyrir neinn grundvallarsannleika eða heimspeki heldur beita tilfinningarökum um æðri kynþætti og að vaðið sé yfir tilverurétt þeirra kynþátta. Einn ítalskur fasisti lýsti tilfinningu sinni þannig: “Dýpt og sannleikur hugmyndafræðinnar liggur í möguleikum hennar til að hrinda í framkvæmd hugsjónum okkar og aðgerðum”.

Fasisminn umbreytti stjórnmálum með því að ryðja rökræðustjórnspeki úr vegi með beinni upplifun og, eins og Walter Benjamin varaði við árið 1936, þá er engin upplifun fasistum æðri en stríð.

Í stað þess að leita að þeim hugsuðum sem fundu upp fasisma er kannski betra að skoða hvað almenningur óttaðist mest – eins og samfélaglegt hrun og úrkynjun sem Oswald Spengler skrifaði um í “Decline of the West” árið 1918.

Sá jarðvegur sem hentar uppgangi fasisma var til staðar í krísum evrópuríkja eftir 1918. Fornaldarlegir stjórnmálamenn höfðu fram að því aldrei þurft að hafa bein afskipti af almenningi og kunnu ekki að tala til fólks. Hefðbundin stjórnmál gerðu ráð fyrir að pólitísk rökræða tilheyrði litlum hópi löggjafa sem áttu að vita lýðnum betur. Fasistar buðu kjósendum upp á stórkostleg sjónarspil og buðu þeim að taka þátt í þeim um leið. Í magnaðri ævisögu ítalska skáldsins dAnnunzio, sem var fyrirrennari fasistahreyfingarinnar á Ítalíu, kemur einmitt fram að á hans tíma voru fæstir ítalir læsir en flestir þekktu leikhúsin og stórkostleg táknræn þjóðernishyggja skáldsins var færð ólæsum almenningi af sviðinu.

Fyrri heimsstyrjöldin sló harkalega á almennar draumsýnir evrópubúa um bjartsýni og óstöðvandi framfarir siðmenntaðra tíma auk þess að sá efasemdum um hversu djúpt risti á hugsjónir frjálslyndra um almennt bræðralag milli manna. Fram að því höfðu stríð í Evrópu verið staðbundin en sú massaslátrun sem seinni heimsstyrjöldin varð, uppúr smáskærum á balkanskaga, dró úr tiltrú fólks á eigin siðmenningu. Stríðið skildi jafnframt eftir sig herskara rótlausra eftirlifandi hermanna sem vildu frá útrás fyrir reiði sína og vonbrigði. Samhliða þessu fyrirleit almúginn leiðtoga sína og treysti engum þeirra. Hugmyndir sósíalista og kommúnista unnu á meðal almennings og það skelfdi íhaldsmenn sem í bæði í tilfellum fasistahreyfingarinnar á Ítalíu og nasistahreyfingarinnar í Þýskalandi, kusu að líta framhjá ofbeldi og öfgum fasista og buðu þeim samvinnu í ríkisstjórn vegna ótta við vaxandi hreyfingar vinstrimanna.

Annað sem skóp félagslegan jarðveg fyrir uppgang fasisma var þegar seint á 20. öld myndaðist umræða sem gaf kynþáttahugtakinu aukið líffræðilegt og erfðafræðilegt vægi. Á sama tíma var ímyndunaraflið tekið í þjónustu þjóðarhugtaksins og útfrá þessu varð til umræða um æðri kynþætti eins og Aría (fyrirbæri sem spratt upp úr ímyndunarafli 19. aldar mannfræðinga) og rétt þeirra til að ráða yfir þeim óæðri. Væri síðan gengið útfrá því að þjóð eða ´volk´ væri hið æðsta markmið var ofbeldi í nafni hennar mannbætandi. Skáld eins og hinn ítalski d,Annunzio dáðu stríðsofbeldi og lýstu fjálglega hvernig jörðina þyrsti í blóð hinna ungu hetjudauðu.

Eins og stjórnmálafólk almennt, sérstaklega þegar glíma þarf við vanda tengdum tímabundnum óvinsældum, þurfa fasistar á óvinum að halda. Hinn hefðbundni óvinur sem hefðbundnir stjórnmálamenn hömpuðu eftir þörfum var handan við landamæri en áróður fasista hamraði á óvinum innan samfélagsins, sérstaklega sósíalistum og kommúnistum en einnig glæpamönnum, hommum og í þýskalandi sérstaklega, gyðingum. Ofbeldi var og er alltaf grunneining í bæði hugmyndum og í verki hjá fasistahreyfingum og Paxton fer yfir hvernig, eftir að hafa komið sér fyrir í ríkisstjórnum með fölskum málamiðlunum í boði íhaldsmanna, fasistar ruddu úr vegi, með morðum, pólitískum andstæðingum.

Samhliða þessari bók las ég “A Short History of World War II” eftir Norman Stone og “The Pike: Gabriele D'Annunzio – Poet, Seducer & Preacher of War” eftir Lucy Hughes-Hallett, báðar bækurnar, en kannski sérstaklega ævisaga skáldsins, heillandi og vel skrifaðar bækur, þrátt fyrir að fjalla um herfilega atburði og manneskjur. Gegnum sameinaðan lestur þessara þriggja bóka hef ég fengið þá yfirsýn yfir atburði seinni heimsstyrjaldarinnar – hvað gerðist, hversvegna og hvernig fór – sem mig hefur lengi langað að fá. Þetta gat ég án þess að missa alla trú á manneskjum, frekar að ég hugsaði sem svo, að kannski væri bara allt í lagi með hinn siðmenntaða heim í dag, miðað við hina sturluðu tíma heimsstyrjaldanna tveggja.

Þó að mikil ömurð sé að því, í dag, að vita af djúpstæðri mannfyrirlitningu þeirri sem vilja helst sjá allt flóttafólk drukkna á örvæntingarferðum sínum á lekum bátum, þá virðist sem mannhatur hafi verið svo útbreitt og almennt vegna stríðanna að næsta fáir höfðu neikvæða skoðun á lofthernaði gegn almennum borgurum innan evrópu eða fyrstu kjarnorkuárásunum heimsins, gegn borgurum í japan.

Ég spyr mig að því hvort að þau vonbrigði og sú vantrú á eigin siðmenningu sem var hluti af frjóum jarðvegi fyrir fasisma eftir fyrra stríð, séu nú aftur til staðar að einhverju leyti, í t.d. Bandaríkjum Norður Ameríku, þar sem loforð kapítalismans eru að kafna í vaxandi ójöfnuði.

 

Til baka í umfjallanir