Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

The Battle Against Anarchist Terrorism, An International History, 1878-1934
Richard Bach Jensen
Cambridge University Press 2014

Einhverntímann á sjöunda áratug síðustu aldar las sagnfræðingurinn Richard Bach Jensen bók Barbara Tuchman – “The Proud Tower” – sem minntist stuttlega á leynilega ráðstefnu evrópskra diplómata; “International Anti-Anarchist Conference of Rome,” sem haldin var árið 1898 en nótur og minnisblöð frá þessari ráðstefnu var talið að hefðu verið brennd til að viðhalda leynd hennar. Hann vildi vita meira og allt síðan 1981 hefur hann staðið í sagnfræðilegri rannsóknarvinnu útfrá hryðjuverkum kenndum við anarkista kringum aldamótin 1900 og hvernig yfirvöld ríkja brugðust við þeim. Þessi bók hluti af þeirri vinnu. Rannsóknarstarf hans fer fram á fimm tungumálum, víða um lönd; tungumálakunnátta Jensen gefur honum aðgang að lögregluskýrslum og óútgefnum ritum sem aðrir vissu ekki af auk þess sem leynd hefur víða verið létt af eldri ríkisgögnum.

Markmið hans með þessari bók er þríþætt: Í fyrsta lagi að lýsa og skilgreina viðbrögð lögreglustofnana á alþjóðavísu við hryðjuverkum anarkista, sérstaklega hvað varðar alþjóðlega samvinnu. Í öðru lagi að efla skilning á hryðjuverkum anarkista sem fyrirbæri – sumir sagnfræðingar líkja aðferðum terrorista meðal anarkista þess tíma við aðferðir þeirra terrorista okkar samtíma sem gefa sig út fyrir að vera drifnir áfram af trúarofstæki, en Jensen hefur þar efasemdir, auk þess sem hann miðar að því að taka á mýtum um alþjóðahryðjuverkahring anarkista sem æsifréttamennska, ríkisstjórnir og anarkistarnir sjálfir (og þau sem vildu kalla sig anarkista) skópu og viðhéldu á skjön við þann veruleika sem hryðjuverkin sjálf voru. Margar ofbeldisaðgerðir frá þessum tíma sem kennt var upp á anarkista  höfðu ekkert með anarkista að gera heldur voru verk þjóðernissinna, einstaklinga sem veikir voru á geði eða útsendara lögregluembætta og ríkisstjórna. Í þriðja lagi vill Jensen skýra hvað olli því að lögregluembættum sumra ríkja gekk betur að glíma við hryðjuverkahópa meðal anarkista en öðrum. Á þessum tíma var umdeilt hvort ríkinu bæri að viðhalda lögum og reglu með fyrirkomandi eða kúgandi aðgerðum og útfrá þeim hugtökum er hægt að sjá hvernig lögregluembætti ríkja leituðust við að taka á hryðjuverkum anarkista.

Um uppruna þeirrar hryðjuverkahrinu sem kennt var upp á anarkista á árunum 1880-1890 leitar Jensen fyrst í sögu klassískra hugmyndafræðinga anarkistahreyfingarinnar; Proudhon, Bakunin, Kropotkin og Malatesta og finnur þar texta sem kalla á uppreisn og byltingu með öllum tiltækum ráðum; “propaganda by the deed”. Þó að Jensen vísi til nútíma sagnfræðinga sem leggja að jöfnu þessa hreyfingu meðal anarkista og hryðjuverk al-Qaeda var grunnur anarkistahreyfingarinnar alltaf “the Socal Question,” eða spurninguna um jafnvægi milli vaxandi iðnvæðingar og áhrifa á félagslegt réttlæti og velferð verkafólks. Jensen bendir á hversu stórt bil er milli þess sem hugmyndafræðilegir leiðtogar anarkista skrifuðu og sögðu og þeirra aðgerða sem framdar voru í þeirra nafni. Þegar örvita einstaklingar fleygðu sprengjum inn á kaffihús í nafni byltingar anarkista, áttu anarkistar bágt með að afskrifa þá þótt að þau væru andstæð aðgerðinni sjálfri. Sumir lýstu yfir stuðning við morðtilræðum gegn harðstjórum en lögðu það ekki að jöfnu við morð á smáborgurum.
 
Meðal verkamanna á Spáni og á Ítalíu var löng hefð fyrir ofbeldi gegn landeigendum og fyrirfólki þegar harðnaði á dalnum – þjófnaði, skemmdarverkum og morðum - löngu áður en anarkistar komu til sögunnar. Óskráð og ósannanlegt eru hversu mikið af hermdarverkum frá þessum tíma voru verk flugumanna sem gerðust æsingamenn innan anarkistahópa eða að hermdarverkin voru beinar aðgerðir flugumanna á mála hjá lögreglunni. Eins og stöðugt hefur verið sýnt fram á gegnum sögu ríkismyndunar í sögu mannkyns, þrífast þau sem sitja á toppi hvers valdapýramída á því að benda á óvini hingað og þangað til að hinn kúgaði almenningar sjái ekki hver hinn raunverulegi óvinur er.

Fyrir Jensen er það augljóst að hryðjuverk af hendi anarkista voru langt frá því að vera jafn umfangsmikil og af var látið. Á þessum tíma, uppúr 1890, var uppgangur massívrar fjölmiðlunar að hefjast. Sem þýddi að þetta var upphaf þeirrar hneigðar blaðamennsku að ofureinfalda staðreyndir og fella ólíkar manneskjur inn í stereotýpur. Þetta viðhorf er límið sem tengir og hnoðar saman ótengda atburði í eina heildarmynd af terrorisma. Flugumenn og uppljóstrarar urðu að finna upp leiðir til að halda kaupinu sínu og ýttu undir tilræði innan anarkistahópa, fjármögnuðu þau eða frömdu þau sjálfir. Fyrsta anarkistaritið sem kom út í París  – “La Revolution Social”, frá árinu 1880 – var beinlínis fjármagnað af lögreglustjóra borgarinnar og innihélt einungis ákall um ofbeldi og lagði til sprengjuuppskriftir auk þess sem lögreglustjórinn notaði það til að úthrópa pólitíska andstæðinga sína. Annað stærra markmið með útgáfunni var að espa upp andúð á anarkistum til að koma í veg fyrir að communards eins og Louise Michel, þá í útlegð í Nýju Kaledóníu, hlytu náðun og kæmu heim.

Sumir sagnfræðingar halda því fram að hermdarverk m.a. Emile Henry og Ravachol hafi farið fram með aðstoð flugumanna sem t.d. aðstoðuðu Ravachol við að stela dýnamíti og að ræningjaferill Maríus Jacob (sjá t.d. bókina “Jacob” frá Elephant Editions) sem, að hluta til var til að fjármagna málstað anarkista, hefði aldrei hafist ef flugumenn hefðu ekki svert mannorð hans gagnvart vinnuveitendum svo hann gat hvergi í Frakklandi haft lifibrauð sem verkamaður.

Þar sem ríkið gefur sér einkarétt á ákvörðun og útdeilingu réttlætis (rétt eins og ríkið gefur sér einkarétt á beitingu ofbeldis á sínu yfirráðasvæði) urðu skandalar þegar upp komst um ábyrgð flugumanna lögreglunnar í voðaverkum sem annars var kennt upp á anarkista.

Uppruna pólitískrar samvinnu milli löregluembætta evrópskra ríkja og rússlands má rekja til þess þróaða kerfis njósnara, ritskoðunar og almennrar kúgunar sem var innblásið og skipulagt á árunum 1815-1848 af forsætisráðherra og síðar kanslara Austurríkis – Metternich. Innan þessa kerfis Metternich voru allar póstsendingar opnaðar, útlán bókasafna skrásett svo sæist hverjir lásu róttækar bækur. Ofsóknarbrjálæði Metternich snerist um vinstrimenn og þjóðernissinna í andstöðu við keisaradæmið. Diplómatískar ráðstefnur og samningar um framsal fanga og upplýsingaskipti gengu sitt á hvað en helst stóð breska stjórnin í vegi fyrir alþjóðlegri samvinnu um algera kúgun pólitískra andstæðinga íhaldsins. Ríkisstjórn Sviss vildi einnig fara varlega með réttindi róttæklinga en áttu óhægar um vik þar sem landamæri þess lágu beint að landamærum kröfuhafa um framsal róttæklinga.

Spænska ríkið átti í hvað mesum vandræðum með að hafa hemil á anarkistum, bæði vegna þess hversu hlutfallslega margir anarkistar voru í landinu og hversu illa búið og óskipulagt lögreglustarf var í landinu. Vegna þess vildi t.d. Franska lögreglan enga beina samvinnu við þá spænsku. Spænsk lögregla og her tóku upp á því að skila af sér hópum handtekinna anarkista til Frakklands og skilja þá eftir. Eftir andmæli embættismanna í Frakklandi sá Spánverjar sér leik á borði að senda anarkistana til Englands sem á þeim tíma hafði engin sérstök lög um hverjir kæmu til landsins. Harka og pyntingar sem lögregla og her á Spáni beitti gegn anarkistum, án þess að gera nokkurn greinarmun á róttækum eða heimspekilegum anarkistum, gerði neikvæð viðhorf almennings og róttæklinga til yfirvalda harðskeittari en í öðrum evrópuríkjum.

Nokkurrar hræsni gætti í samskiptum diplómata því á sama tíma og England var oft notað sem losunarstaður fyrir handtekna anarkista, var England sakað um að vera gróðrastía fyrir sprengjukastara og tilræðismenn. Árið 1894 neitaði England enn samstarfi um heildarskýrslur yfir alla anarkista í landinu en lofaði samstarfi við t.d. hið herfilega íhaldssama Austurríki í einstökum málum sem vörðuðu anarkista. Almennt varð yfirvöldum í Englandi betur ágengt í viðureign sinni við anarkista og eru ýmsar skýringar á því.
Í fyrsta lagi voru efnislegar aðstæður verkafólks illskárri þar en í Frakklandi, á Ítalíu og á Spáni. Í öðru lagi voru stjórnmálamenn í Englandi þess tíma almennt þekktir sem heilsteyptir einstaklingar meðan skandalar af ýmsu tagi voru norm í hinum þremur ríkjunum. Einnig að fyrir 1890 hafði Scotland Yard Criminal Investigation Department (CID) brugðist við sprengjuherferð írskra sjálfstæðissinna og bæði sett lög á meðferð sprengiefnis og bætt eigið kerfi rannsóknarlögreglumanna. Eftir 1890 kom CID upp kerfi uppljóstrara þar sem hver rannsóknarlögreglumaður fyrir sig sá um sína uppljóstrara án þess að kollegar vissu af þeim og síðan báru þeir saman þær upplýsingar sem inn komu áður en metið var hvernig best væri að bregðast við. Á sama tíma og ítalska lögreglan handtók og lét dæma hundruði hófsamra anarkista í örvinglan yfir að finna ekki þá einstaklinga sem stóðu fyir einstökum tilræðum, var CID að dæma nokkra tugi anarkista í fangelsi. Ekki að CID og enska lögreglan almennt gerði ekki anarkistum lífið leitt með húsleitum og barsmíðum auk þess að borga mönnum fyrir að gera aðsúg að ræðumönnum anarkista á útifundum, þá beitti lögregla og her á Spáni pyntingum (fangar voru sveltir, haldið vakandi og karlmenn geltir í Montujich fangelsinu). Þó að umgengni CID gagnvart anarkistum mætti kalla hógværa, á spænskan mælikvarða, voru þau tilfelli þegar lögreglan leit til sín taka gegn virkum anarkistum nóg til að anarkistar í englandi gerðu sér skýra grein fyrir því að þau voru undir gagngeru eftirliti.

Þann 10. September árið 1898, í Genf í Sviss, stakk ungur ítalskur anarkisti Elísabeth, Keisarafrú Austurrríkis og Drottningu Ungverjalands, í bringuna með skerptri þjöl. Anarkistinn hét Luigi Lucheni. Hann reyndi að komast burt á flótta en náðist og Keisaraynjan lést rétt eftir árásina því stungan gekk í lunga og hjarta. Uppnámið sem þetta staka tilræði olli um alla evrópru var það mikið að uppúr því var hafinn undirbúningur að þeirri sam-evrópskri ráðstefnu sem minnst var á í upphafi þessarar greinar, um samstarf milli ríkja gegn anarkistaplágunni.

Það er spurning hversvegna þetta staka tilræði af hendi anarkista olli tilfinningasveiflum víða um heiminn og varð til þess að efla baráttu ríkja gegn anarkistum þegar önnur mun blóðugri tilræði höfðu átt sér stað. Hér var ungur og hraustur karlmaður að myrða netta konu sem á yngri árum var kölluð “fegursta kona evrópu”, einnig bætti við hrylling almennings að fórnarlambið var þekkt fyrir góðgerðastarf og hafði upplifað persónulega erfiðleika, m.a. þar sem einkasonur hennar hafði fallið fyrir eigin hendi. Lucheni var, eins og sumir aðrir tilræðismenn þess tíma, rótlaus og reiður ungur maður sem hafði notið fárra tækifæra til að komast áfram í lífinu. Hann fann í hugmyndum anarkista farveg fyrir reiði sína. Val hans á fórnarlambi kom líklega til af því að keisaraynjan væri táknmynd hástéttarinnar, þó að í sjálfu sér væri hún meinlaus einstaklingur samanborið við marga stjórnmálamenn þess tíma. Talið er að Lucheni hafi ekki stúderað anarkíska heimspeki lengi áður en hann ákvað, í þeirri leikrænu tjáningu sem var honum eðlislæg (í bréfi til fjölmiðla lýsti hann sjálfum sér sem “þeim hættulegasta meðal anarkista”) að fremja stóran táknrænan glæp í nafni hugsjónarinnar.

Eftirköstin voru hrikaleg um alla evrópu, ekki bara fyrir fólk sem kallaði sig anarkista eða var hugsjónum þeirra vinveitt heldur var ítalskt verkafólk víða hrakið burt úr þeim löndum sem það hafði sest að og óður múgur réðst inn í verslanir og skóla tengdum ítölum. Þar sem tilræðið var framið af ítala á svissneskri grund og fórnarlambið var Austurískt og Ungverskt var málið þrælpólitískt. Ekkillinn, Franz Josef, keisari Austurríkis, í samstarfi við Wilhelm II keisara þýskalands, sem hafði verið aðdáandi keisaraynjunnar, ýttu af stað þeim pólitíska vilja til að sameina evrópsku ríkin gegn anarkistum.

Jensen fer nákvæmlega yfir þau diplómatísku samskipti sem fóru fram í aðdraganda ráðstefnunnar, þessarar ráðstefnu sem var sú fyrsta sinnar tegundar; fyrsta alþjóðaráðstefnan gegn terrorisma og sú eina sem skipulögð hefur verið gagngert gegn anarkistum. Anarkistum var, yfirlýsingum ráðamanna, oft líkt við plágu eða sníkjudýr og var grunnurinn að skipulagi ráðstefnunnar fenginn að láni frá skipulagi alþjóðlegra ráðstefna um hreinlæti sem vopn gegn smitsjúkdómum!

Ráðstefnan stóð í mánuð og í upphafi hennar voru íhaldssömustu ríkin leiðandi; Rússland, Þýskaland, Austurríki-Ungverjaland og Tyrkland. Samningaviðræður gengu sitt á hvað varðandi skilgreininar á anarkisma, framsal pólitískra fanga, dauðarefsingar við tilræðum við ríkisfulltrúa. Fulltrúar Englands voru meðal frjálslyndari afla á ráðstefnunni, en samhliða henni hafði þingmaðurinn Sir Howard Vincent, fyrrverandi stjórnandi CID, frumkvæði að algerlega leynilegri (ekkert sem rætt var þar var sett á blað) ráðstefnu fimmtán lögreglufulltrúa um lögreglustarf gegn anarkistum og öðrum glæpamönnum. Á þessari ráðstefnu lögregluyfirvalda fór fram umræða og þjálfun í “portrait parlé” –  “antropometry”, eða þjálfun í vísindalegu lögreglustarfi til að finna einstaklinga útfrá líkamlegum sérkennum (notkun fingrafarakerfis kom fyrst í notkun árið 1895 hjá Scotland Yard). Þetta má kalla upphaf þeirrar innrásar yfirvalda inn í einkalíf almennings sem síðan þá hefur stöðugt aukist og víkkað sig út.
Að öðru leyti voru niðurstöður ráðstefnunnar ekki færðar í lög í neinu af þátttökulöndunum. Þar sem ráðstefnan var leynileg var óhægt um vik að kynna niðurstöður hennar fyrir fjölmiðlum og almenningi og beita þeim til árása á almenningsfrelsi með lagasetningum.

Burtséð frá áhrifum anti-anarchist ráðstefnunnar í Róm á milliríkjasamstarf lögreglunnar í evrópu gerði morðið á Elísabetu Keisaraynju það að verkum að ríkisstjórn þýska keisaradæmisins gat nú þrýst í gegn tillögu sem leynilega hafði verið samin 1894, um söfnun og miðlun upplýsinga um allar hreyfingar og aðgerðir anarkista á landvísu. Fram að þessu hafði almenningsálitið verið andstætt þessháttar starfsemi vegna tíðra stjórnmálahneyksla og ríkin í S-þýskalandi höfðu staðið gegn valdmiðjun í Berlín. Þar sem fórnarlambið Elísabet var fædd í Bavaríu féll þessi andstaða.
1899 gaf Berlínarlögreglan út fyrsta “Anarkistaalbúmið” sem önnur lögregluembætti gátu falað af stofnuninni. Fyrsta útgáfa innihélt nöfn og heimilisföng 240 anarkista auk ljósmynda og rithandarsýnishorni ef til var. 4. Apríl 1899 kom síðan út fyrsta útgáfa af dagblaði um eftirlýsta menn með nafnalista burtrekinna erlendra anarkista á forsíðu.

Eftir 1901 voru stjórnvöld í Rússlandi og þýskalandi enn í samstarfi um nauðsyn þess að mynda alþjóðlegt löggæslukerfi gegn anarkistum. Bæði þýski keisarinn og Tsar Rússlands voru í uppnámi eftir að Leon Czolgosz myrti McKinley bandaríkjaforseta, kröfðust aðgerða og sendu nýjar tilllögur kallaðar “the St. Petersburg protocol” til allra þátttökuríkja upphaflegu anti-anarchist ráðstefnunnar. Þau ríki sem tóku vel í tillögur ríkjanna voru önnur íhaldssöm ríki; Rúmenía, Serbía, Tyrkland og Búlgaría auk Danmerkur, Svíþjóðar og Noregs (Nicholas II Tsar Rússland var barnabarn Dönsku konungshjónanna) en frjálslyndari ríki eins og England og Sviss neituðu af ýmsum ástæðum, ekki síst þar sem í Rússlandi var enginn vilji til að vanda skilgreiningar á hvaða einstaklingar væru anarkistar og hverja þeirra ætti að flokka sem hættulega. Í Rússlandi voru morðtilræði gegn háttsettum aðilum framin af byltingarsinnuðum sósíalistum frekar en anarkistum og í þýskalandi kallaði hinn maníski keisari eftir dauðarefsingu við hverjum þeim sem á nokkurn hátt kenndi sig við anarkisma.

Á sama tíma var Roosevelt bandaríkjaforseti að kalla eftir útrýmingu anarkistahreyfingarinnar en hafði samt ekki áhuga á þátttöku í eftirlitskerfi með anarkistum, kannski vegna þess að þeim aðgerðum um persónueftirlit og framsal sem þýski keisarinn og rússlenski tsarinn kölluðu eftir áttu að vera leynilegar en bandarískt lýðræði gerði ráð fyrir þvi að allar samþykktir væru bornar undir þingið. Á þessum tíma var forsætisráðherra Ítalíu maður að nafni Gilotti, honum er lýst sem alþýðuvænum manni sem sneri frá áherslu forvera sinna á hefnd og refsingu og lagði vinnu og fjármagn í fyrirbyggjandi aðgerðir og kom ítölskum lögreglumönnum fyrir í flestum löndum þar sem burtfluttir anarkistar voru virkir. Gilotti vann gegn terrorisma með því að afneita honum frekar en að taka þátt í dramatíseringu fjölmiðla. Gilotti hafði beitt atkvæði sínu gegn setningu sérstakrar lagasetningar gegn anarkistum, ekki afþví að hann bæri virðingu fyrir anarkistum heldur vildi hann höndla þá eins og hverja aðra glæpamenn og gerði sér grein fyrir að hörð viðbrögð gegn pólitískum glæpum breytti morðtilræðum að hetjudauða fyrir málstaðinn. Því gaf hann, eins og breskir ráðamenn með flauelshanska á stálhnefanum, anarkistum mátulegt rými að tjá sig og leit á reiðiskrif í anarkistapressunni sem aftöppun á þrýsingi sem annars gæti leitt til aðgerða. Hann hætti fjöldahandtökum og hætti að beita hernum sem vopni meðal almennings.

Soldán Ottoman veldisins hafði mikinn áhuga á samstarfi gegnum St. Petersburg protokolinn þar sem hann kallaði alla andstæðinga sína Anarkista þegar í raun var um að ræða tilræði af hendi Armena, sem eins og þekkt er, vörðust þjóðarmorði af hendi Ottomana. Jensen minnist á einn belgískan anarkista sem slapp naumlega við dauðarefsingu í Tyrklandi eftir að hafa aðstoðað Armenska tilræðismenn við að komast yfir sprengiefni.

Þau ríki sem skrifuðu undir samstarf að eggjan þýskalands og rússlands settu upp sérstakar skrifstofur til höfuðs anarkistum innan sinna lögregluembætta, einungis til að safna og miðla persónuupplýsingum um anarkista, ljósmyndum af þeim, aðsetur þeirra og ferðir og anarkistarit í útgáfu. Þetta starf þróaði frekar þau kerfi persónunjósna sem fyrir voru eða varð grunnur að þeim stofnunum sem þykja norm í dag.

Í bókarlok fer höfundur yfir hvernig, í helstu ríkjum evrópu, dró úr árásum og hversvegna. Árásir voru algengastar og blóðugastar þar sem kúgunin var hvað mest, eins og á Spáni og Ítalíu allt þar til Gilotti komst til valda á Ítalíu. Með auknu lýðræði urðu skotmörk byltingarsinnaðra anarkista óljósari því þó að stjórnvöld á Spáni væru enn fasísk undir Franco og öðrum miður þokkalegum einræðisherrum voru þau um leið að gefa sig út fyrir að vera lýðræðisleg með rekstri stjórnmálaflokka og fjölmiðla sem stýrðu almenningsáliti. Anarkistar í Rússlandi voru önnum kafnir við að berjast gegn bolsévikum eftir að raunveruleg markmið bolsévikanna urðu ljós.

Í apríl 1934 voru konungur Jugóslavíu og utanríkisráðherra Frakklands myrtir í sprengjutilræði í Marseilles. Tilræðismennirnir voru þrír króatískir þjóðernissinnar sem unnu með fullum stuðningi Mussolini.
Uppúr þessu tilræði og með tilkomu þriðja ríkisins, Helfararinnar, hreinsana Stalíns og annars hryllings á fyrri hluta síðustu aldar, voru hryðjuverk anarkista ekki lengur sú ógn við siðmenntað samfélag sem almennt var talið eftir 1930.

Þegar ég byrjaði að lesa þessa bók Jensen, vildi ég lesa nánar um þennan hluta af sögu anarkistahreyfingarinnar en um leið er þetta bók um þróun persónunjósna, hvernig ríkin þróuðu leiðir til að skrásetja hreyfingar einstaklinga og diplómatískar þreifingar um uppbyggingu alþjóðakerfa um persónunjósnir.

Borin saman við bók Alex Butterworth – “ The World that Never Was, A True Story of Dreamers, Schemers, Anarchists and Secret Agents” um sama efni, finnst mér bók Butterworth renna betur í lestri samhliða því að vera mjög fróðleg, meðan bók Jensen fer dýpra ofan í smáatriði diplómatískra samskipta. Báðar bækurnar eru byggðar á auknu aðgengi að eldri lögregluskýrslum og Jensen nýtur þess að vera fjöltyngdur og getur því unnið með texta á nokkrum tungumálum.

Báðir höfundar sýna málstað anarkistanna skilning og Jensen gerir greinarmun á anarkistum og síðan einstaklingum sem voru rótlausir, reiðir einstaklingar, svo reiðir að ekkert annað kom til greina en að drepa og eyðileggja, og gripu á lofti nokkur slagorð frá anarkistum, en gáfu sér ekki tíma til að hugsa dýpra eða lengra. Þessir einstaklingar voru oft afskrifaðir sem veikir á geði og voru það kannski þar sem þau voru afkvæmi samfélags þar sem kúgun var boðorð dagsins, verkafólk hafði engin réttindi, lýðræði var ennþá á umræðustigi og evrópu var stýrt af fáeinum fjölskyldum keisara og konunga sem giftu sig innbyrðis. 

Hið hráa ofbeldi sem þýskalandskeisari kallaði eftir er ekki lengur opinber stefna. Anarkistar hafa lagt mikla vinnu í að rífast sín á milli hvernig eigi að taka á flauelsklæddum stálhnefa ríkisins og starf anarkista innan verkalýðshreyfinga fallið fyrir loforðum kapítalismans um sameinað mannkyn sem neytendur. Skotmörkin eru óljós því öll höfum við verið gerð hluti af kerfinu sem nærist á daglega lífinu. Þannig vann ríkið baráttuna gegn beinum aðgerðum anarkista. Ekki með því að hálshöggva þá alla, heldur með því að innlima okkur öll.

Sigurður Harðarson

Til baka í umfjallanir