Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Fragments of an Anarchist Anthropology
David Graeber
Prickly Paradigm Press (www.prickly-paradigm.com) 2004

David Graeber er aðstoðarprófessor í mannfræði við bandarískan háskóla. Hann byrjar þessa ritgerð á að spyrja hvers vegna anarkismi sé svo sjaldgæfur í akademíunni þegar grundvallaratriði anarkismans - sjálfræði, samvinna, samhjálp og beint lýðræði - eru í uppsveiflu um allan heim þar sem fólk er að taka saman höndum og gera hlutina í eigin framtaki og á eigin forsendum. Kannski er Marxismi bara ásættanlegur í akademíunni þar sem Marx var líka menntamaður og setti fram fræðilegar kenningar um byltinguna meðan upphafsfólk anarkismans taldi sig ekki vera að segja neitt nýtt því þeir litu þannig á að grundvallaratriði anarkismans hefðu verið til jafn lengi mannkyni. Því hefði aldrei verið búinn til anarkismi sem fræðigrein. Anarkistar hafa heldur aldrei viljað verða til þess að segja til um hvernig annað fólk á að hegða sér, það er algerlega andstætt upprunalegu hugmyndinni og þessvegna verður aldrei til skýrt afmörkuð anarkistastefna eða raunveruleg anarkísk uppskrift að draumasamfélagi. Málið hefur alltaf verið að skapa félagslegt svigrúm sem byggir á frelsishugsjóninni og frjálsir einstaklingar fá að skipuleggja sig án þvingunar.

Það er þar sem Graeber telur mannfræðina geta komið að málum því það hafi verið mannfræðingar sem hafi rannsakað þau samfélög sem stýra sér sjálf og þau hagfræðikerfi sem þrífast án markaðar. Hann fer síðan stuttlega yfir nokkra einstaklinga sem hafa tengt mannfræði við anarkisma gegnum söguna áður en hann fer að skoða andsvar við yfirvaldi sem sjálfsagðan þátt í samfélögum manna. Hann bendir á dæmi þar sem byltingar hafa átt sér stað með því að almenningur fór að sniðganga yfirvaldið þangað til yfirvaldið koðnaði niður því viðfangsefni þess tóku ekki mark á því. Á sama hátt og "þjóð" er ekki til nema sem hugmynd er uppreisnarandinn lifandi afl. Efasemdarfólk myndi auðvitað benda á að þessi dæmi séu "bara einhverjir hópar villimanna" afþví að flestir horfa á samfélag sem ríki eða þjóðríki og átta sig ekki á að samfélag byggt á því sama og anarkistar vilja sjá breiðast út er aldrei "ríki". Graeber bendir á þessar hugmyndir efasemdarfólks eru byggðar á sama hroka og taldi það sjálfsagt að brjóta niður og útrýma þeim samfélögum sem þrifust í Afríku og Ameríku þegar Evrópumenn komu þangað fyrst.

Sama á við þegar rætt er um hugtakið lýðræði; fæstir sem búa við hina vestrænu útgáfu af lýðræði geta viðurkennt stjórnmálaástand eða skipulag sem lýðræði ef einstaklingarnir í viðkomandi samfélagi eru ekki að krossa á miða eða að rétta upp hendur í einhverskonar kosningum. Graeber útskýrir "consensus decision making" eða "samþykkta ákvarðanatöku" (já, ég veit þetta er frekar slök tilraun til nýyrðasmíðar) þar sem allir aðilar innan hóps komast að sameiginlegri niðurstöðu. Í stað þess að kjósa málefni inn eða út eru málin rædd fram og tilbaka þar til allir hafa fengið að koma fram með sína hlið. Þegar kemur að því að finna sameiginlega niðurstöðu eða "samþykkta ákvörðun" hópsins, eru tvær leiðir til mögulegs andsvars; viðkomandi getur sett sig til hliðar, sem sagt lýst yfir að "ég er ekki sátt(ur) við þetta og mun ekki taka þátt en ég mun ekki standa gegn því að einhver önnur/annar framkvæmi" eða "blokkerað" sem er sama og neitunarvald. Það eru til ýmsar útfærslur af þessu en aðalmálið er að benda á að þetta er ein mynd af raunverulegu lýðræði þegar lýðræðishugmyndinni hefur verið stolið af fylgjendum flokkakerfis sem fá umboð til yfirvalds í gegnum einhverskonar kosningakerfi. Graeber tekur einnig fyrir hvað hugtakið "bylting" er orðið merkingarlaust í gegnum markaðssetningu ýmiskonar óþarfa- eða ruslvarnings. Merkingin sem loðir við orðið tengist einnig valdaránum og ofbeldi og þýðir þannig hausaskipti á yfirvaldinu þegar raunveruleg bylting er jafnvel að eiga sér stað hvarvetna þar sem fólk er að skipuleggja sig sjálft í raunverulegu lýðræði án þess að yfirvaldið festi hönd á hvað er um að vera. Graeber nefnir dæmi frá autonomum á Ítalíu þar sem síðustu áratugina hústökumenning hefur blómstrað og félagsmiðstöðvar verið teknar yfir og þessir kjarnar unga út kynslóðum af sjálfstætt hugsandi fólki sem harðneitar verksmiðjuvinnu því kapitalismi er mannfræðilega séð ekki annað en nútíma þrælahald þar sem við leigjum okkur út sjálf í stað þess að við séum seld eða leigð af öðrum.

Þar sem atvinna er þrælahald nútímans horfir Graeber m.a. á hvað það er sem heldur okkur í vinnunni í allt of stóran hluta af ævinni. Það er ekki rými hér til að fara í allar hugmyndir Graeber um skipulagningu samfélags án yfirvalds en hann bendir á dæmi frá rannsóknarefnum mannfræðinga sem gera hugmyndirnar að meiru en draumórum skemmtilegrar skáldsögu. Höfundur lýkur þessari ritgerð með því að bíta þá hönd sem hann fæðir og skamma kollega sína fyrir feimni við að vinna með anarkistum og miðla hinni ríkulegu og gagnlegu þekkingu mannfræðinnar til hópa sem vilja skipuleggja sig án yfirvalds.

Sigurður Harðarson

Til baka í umfjallanir