Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

 

Gone To Croatan – Origins of North American Dropout Culture

Ritstjórar Ron Sakolsky og James Koehnline

AK press og Autonomedia 1993

 

Sögurnar af dreifingu og endurdreifingu Homo Sapiens um lönd og álfur jarðarinnar eru margar og heillandi þó að þær séu ekki alltaf fallegar því þar sem ný bylgja kom að landi voru aðrar manneskjur og aðrar lífverur þegar fyrir, stundum sló í brýnu, stundum var samlífi gott í einhvern tíma.

Mótunarsaga þess fyrirbæris sem í dag er kallað Bandaríki Norður Ameríku er löng og flókin og langt frá því lokið, því bylgjurnar voru margar og sú saga er hluti af nokkur hundruð ára langri sögu nýlendustefnu evrópskra konungsríkja hverra tilverugrundvöllur var og er kúgun heimafyrir og ofbeldisstefna útávið.

 

Í bók sinni frá 2012, “The Many Headed Hydra – The Hidden History of the Revolutionary Atlantic”, fara Peter Linebaugh og Marcus Rediker yfir heillandi og ljóta sögu uppreisna þeirra kúguðustu undir þessari ofbeldisstefnu. Hluti af greinasafninu “Gone to Croatan” er einmitt grein eftir þá, vísir að þeirri bók og umfjöllunarefnið skylt því ýmsir höfundar reka sögu hópa sem rákust undan ofbeldi þeirra ríkja sem deildu um yfirráð yfir Norður Ameríku meðan hún var enn ókannað land fyrir evrópubúa.

 

Hér lesum við um strokuþræla sem blönduðust frumbyggjum indíána og lifðu af landinu. Bláfátæka evrópubúa sem áttu ekkert í sínu heimalandi en sýndu aðlögunarhæfni og þrifust utan þeirra. Hér eru veiðimenn sem börðust fyrir eigin sjálfstæðri tilveru gegn herveldum evrópu, litla menningarhópa sem skópu eigin tungu úr blöndum af ensku, frönsku og staðbundnum mállýskum.

 

Þeim var öllum ýtt burt, gert að samlagast eða útrýmt á endanum. Grunnur þess ofbeldis var sú kynþáttahyggja sem litaði viðhorf evrópubúa og gerði ráð fyrir því að allir sem ekki voru hvítir væru réttdræpir. Seminólar, blendingar afrískra þræla og indíana í Florida, börðust gegn ofurefli til að halda því landi sem þeir gerðu tilkall til. Sjálfstæðir veiðimenn Métis blendingafólksins í Kanada lentu í efnahagslegri samkeppni við fyrirtæki Hudson Bay í skinnaútflutningi. Litlir hópar Calico indíana sem lifðu af ræktun og veiðum þar sem nú er New York voru þvingaðir til að verða leiguliðar auðugra fjölskyldna og eins og hefur alltaf verið þá bregst ríkið harkalega við þegar manneskjur neita að vera viðfangsefni.

 

Önnur dæmi um sögurnar og mannfræðidæmin í þessu safni eru Ishmael flakkaraþjóðin, samsett af Afríkönum sem voru þá strokuþrælar, Indíánum og fátækum bleiknefjum. Þessi samheldni hópur um 10.000 einstaklinga var með fastar ferðir um miðríki bandaríkjanna og var komin þar á undan öðrum landnemum. “Whiskyuppreisnin” í Pennsylvaníu 1786-1787 þar sem auka innkoma landnema var helst af sölu á heimabruggi en nýstofnað yfirvaldið vildi leiðrétta eigin fjárhagshalla með því að skattleggja þessa innkomu. Bændur brugðust hart við, margir þeirra óárennilegir viðureignar, sjóaðir í hernaði eftir borgarastyrjöldina, og ráku skattheimtumenn af höndum sér sem leiddi til blóðugra bardaga við herflokka.

 

Á nokkurnveginn sama tíma í Massachusetts lifðu Yeoman smábændur af sjálfsþurftarbúskap með nokkrum hekturum og einni kú og söfnuðu skuldum um leið því engir eiginlegir peningar voru í umferð á sama tíma og þeir sem fluttu inn munaðarvarning eins og sykur kröfðust greiðslna í lausafé. Yfvöld hlustuðu ekki á bónir bænda um að sett yrði upp kerfi með lausafé, deilan harðnaði þartil bændur börðust við herflokka og tóku út reiði sína á illa liðnum kaupmönnum.

 

Þetta safn er mestmegnis bæði skemmtileg og áhugaverð lesning, stundum varð mér hugsað til hinnar mögnuðu bókar “The Art of Not Being Governed” eftir James C. Scott þó að umfjöllunarefni hans í þeirri bók hafi verið flakkandi hópar á hálendi Suðaustur Asíu, þá er viðfangsefnið það sama; Hópar manneskja sem leitast við að lifa óáreitt og sinna sínu en ríkið gerir tilkall til algerra yfirráða á ákveðnu svæði og bregst við af hörku.

 

Munurinn á þessum frum-ameríkönum að margir þeirra voru sjálfir drukknir drullusokkar í stríði við raunverulega frumbyggja Norður Ameríku samhliða því að standa í stappi við útsendara ríkisins sem var að nema landið, einnig án tillits til þess að þar bjó fólk fyrir. Rasisminn og mannhatrið var bæði gegnumgangandi og sjálfsagt. Lífsstíll skinnaveiðimanna byggðist á að drepa allar loðnar skepnur sem þeir fundu; bifur, ref, otra, til að koma skinnum á markað fyrir hástéttarpakk.

 

Höfundar eru margir í þessu safni og sumir þeirra horfa með rómantík tilbaka. Nokkrir greinarstúfar fara út í greiningar á anarkískri pólitík hópanna sem um er fjallað, einn spyr hvort að við getum kallað þetta “Temporary Autonomous Zone” sem Hakim Bey gerði að umræðuefni á sínum tíma en ég nennti ekki einusinni að lesa það. Þetta safn er núna yfir 25 ára gamalt svo að sá bókalisti sem vísað er til fyrir frekari lestur er kannski ekki úreltur en örugglega mikið búið að bætast við síðan þetta var sett saman.

 

Ein grein, “The Iroquois Influence on Women´s Rights” eftir Sally Roesch Wagner, sker sig úr en hún lítur yfir skrif þeirra kvenréttindakvenna og fyrstu feministanna meðal bandaríkjamanna uppúr 1850, sem kynntu sér stöðu kvenna meðal Iroquoi Indíana samanborið við stöðu kvenna meðal hvítra kristinna evrópubúa. Indíanakonur á þessum tíma höfðu haft meira að segja um hverjum þær giftust og hvort þær skildu við menn sína, áttu eigin hesta og tjöld og höfðu jafnvel áhrif á ákvarðanir meðal stríðsmanna ættbálkanna. Á sama tíma voru evrópskar konur réttindalausar gagnvart eigin hjónabandi, eignalausar því allt, einnig þær sjálfar, voru undir nafni eiginmannsins.

 

Ég þarf að lesa meira um tilurðu bandaríkjanna en útfrá því sem ég hef kynnt mér hingað til þá er ekkert fallegt við þá sögu.

 

Sigurður Harðarson

 

p { margin-bottom: 0.21cm; }

Til baka í umfjallanir