Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Mutual Aid - A Factor in Evolution
(Anarchist Classics)
Peter Kropotkin
Freedom Press 1998
Fyrst gefin út 1902

Mér var snemma kennt um kenningar Darwins um samkeppni í náttúrunni. Þær eru álitnar jafn mikill sannleikur í dag og kenningar kirkjunnar voru taldar vera stuttu áður en Darwin fæddist. Hér á ég við kenningar Darwins um að í náttúrunni sé það samkeppni sem stýri afkomu tegundanna og þannig verði það einungis þeir hæfustu sem lifa af og fái þannig meira rými til að starfa. Kropotkin var einnig líffræðingur og vann að athugunum á lífríki bæði dýra og manna. Í þessari bók hrekur Kropotkin kenningar Darwins um að samkeppni sé ráðandi afl meðal dýra og manna og setur á móti fram kenningar um að það ekki síður gagnkvæm aðstoð og gagnkvæmur stuðningur en samkeppni sem tryggi afkomu tegundanna.

Samkeppniskenningunni hefur verið haldið á lofti af hugmyndafræðingum auðvaldshyggjunnar þar sem þeir vilja telja sjálfum sér og öðrum trú um að náttúruöflin séu að verki þegar lítill hluti samfélaga manna er auðugur meðan fjöldinn allur er á vergangi á sama tíma.

Í inngangi að Mutual Aid, bendir John Hewetson á að saga ríkisstjórna og stéttaskiptingar í samfélögum sé ekki nema um 7.000 ára gömul en kommúnísk samfélög hafi verið til allt frá því að nútímamaðurinn fór að ganga um jörðina, eða í um 70.000 ár og að grundvallarregla samhjálparinnar hafi verið til í samfélögum dýra miklu lengur.

Fyrstu kaflar bókarinnar fjalla einmitt um samhjálp í dýraríkinu. Kropotkin tekur dæmi allt frá maurum og býflugum til fugla og spendýra sem vinna saman að veiðum og öryggisgæslu, búa sér til samfélög og skipuleggja meira að segja sameiginlegar skemmtanir. Þessi lesning kom mér þannig skemmtilega á óvart þar sem ég ólst upp við dýralífsmyndir í sjónvarpinu sem sýndu líf dýranna sem stöðuga baráttu. Kropotkin bendir einnig á dæmi úr dýraríkinu um tegundir sem leggja sig fram um að forðast samkeppni þegar ekki er um beinan stuðning og hjálpsemi að ræða. Maurar frá mismundandi búum forðast hverjir aðra í stað þess að berjast. Afkvæmi finna sér ný búsvæði til að ekki þurfi að slást um fæðuna á ákveðnum svæðum. Samkeppni á sér auðvitað stað líka en er alls ekki jafn gegnumgangandi og margir hafa haldið fram. Textinn er bæði fræðilegur, þar sem Kropotkin vitnar stöðugt í aðra fræðimenn, og lifandi og greinilegt að karlinn hefur verið mikill náttúruunnandi, því oft skrifar hann um hegðun dýra af barnslegri gleði, eins og þegar hann skrifar um félagslyndi þeirra.

Næstu kaflar bókarinnar fjalla um hvernig þættir samhjálparinnar hafa sýnt sig í þróun mannsins. Hann bendir á að mannskepnan, eins veikbyggð og hún er, hefði aldrei náð langt ef að hún hefði ekki notið sömu viðmiða gagnkvæmrar hjálpar og stuðnings og er lýst meðal dýranna. Sú skoðun að maðurinn hafi alltaf lagt stund á stöðuga samkeppni til persónulegs ábata án nokkurs tillits til heildarinnar, hefur notið mikils stuðnings meðal rithöfunda og sagnfræðinga sem einblínt hafa á óaldir og styrjaldir og horft blindu auga á hvernig almenningur lifði af allt það sem á dundi.

Kropotkin rekur síðan hvernig stuðningur fólks við hvort annað settist inn í félagslegt skipulag ættbálka, meðal hópa hirðingja og í þorpum sem síðar breyttust í borgir miðalda. Í borgunum til dæmis mynduðu iðnaðarmenn með sér samtök sem sáu fyrir þörfum sinna félaga, skipulögðu verslun og vöruskipti og sinntu lagalegum deilum án þess að bein yfirvaldsmynd væri til staðar. Þessi samtök iðnaðarmanna börðust fyrir tilverurétti sínum gagnvart uppgangi lénsherra og smákónga í nokkur hundruð ár. Þegar þar kemur í mannkynssögunni að yfirvaldið fer að skipta sínum hópum upp í þjóðir og skipta landssvæðum niður í lönd, taka stjórnir ríkjanna yfir borgirnar með þvingun eða opinskáu ofbeldi og hið félagslega skipulag samhjálparinnar var brotið niður, því yfirvöld telja sig hljóta að vita og geta betur. Almenningi var ætlað að borga fátækraskattinn og horfa síðan á þau fátæku svelta meðan þau biðu eftir að ríkið stæði við sitt.

Almenningur er enn í dag að skipuleggja sig, innan sinna samfélaga, framhjá yfirvöldum, til að betrumbæta sín samfélög. Nágrannar skipuleggja foreldrarölt og hverfamiðstöðvar. Vinnufélagar standa saman að uppákomum fyrir sig og sína. Þetta eru ekki þættir sem er ætlað að halda skipulagi samfélagsins gangandi heldur lítil atriði sem gefa til kynna að fólk er langt frá því dautt úr öllum æðum hvað varðar að taka ábyrgð á lífi sínu og annara, þrátt fyrir að í margar kynslóðir hafi ríki og borg haft yfirstjórn (og sett lög á) þætti eins og menntun, heilsugæslu, gatnagerð og sorphreinsun svo fátt eitt sé nefnt.

Mutual Aid er afskaplega holl lesning fyrir hvern þann sem horfir á fréttir dags daglega og kemst ekki hjá því að hugsa sem svo að "eðli mannsins" gangi út á að ota sínum tota algerlega án tillits til annara manneskja. Einnig fyrir okkur öll sem höfum alist upp það sem hluta af náttúrulegri hringrás að þættir samfélagsins séu skipulagðir af utanaðkomandi stofnunum og að hugmyndir um annað séu ávísun á ringulreið. Í þessari bók lesum við að það skipulag sem við lifum við er sögulega nýtilkomið og því alls ekki sjálfsagt. Við áttum okkur betur á því að við erum hluti af þróun og þar með að við getum haft áhrif á framtíð samfélags okkar.

- Sigurður Harðarson

Til baka í umfjallanir