Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

The State
Harold Barclay
Freedom Press 2003

Harold Barclay er mannfræðingur sem kennir við háskóla í Kanada. Hann hefur skrifað nokkrar bækur sem benda á að samfélög án ríkis, ríkisstjórnar og ríkisstofnana eru langt frá því að vera mannkyni fjarlæg fyrirbæri. "The State" er lítil og nett ritgerð (rétt rúmar hundrað blaðsíður í vasabrotsformi) sem leitast við að útskýra eðli ríkja, mismunandi form þeirra og uppruna. Í lok bókarinnar er síðan kafli þar sem fram koma hugleiðingar Barclay um ríki samtímans og framtíð þess.

Barclay bendir strax á að ríki og samfélag er sitthvort og samfélag manna og lífið almennt hafa þrifist hið besta án ríkis og lagasetninga (af 70.000 ára sögu homo sapiens komu ríkisfyrirbæri til fyrir einungis 6000 árum). Samfélög hafa ákveðnar reglur og ýmsar aðferðir við að refsa og umbuna, ef samfélagið þróast í átt til ríkismyndunar festi ríkið þessháttar reglur í lög. Nútímaríkið stendur saman af
"lögreglumönnum, réttarvaldinu, fangelsisyfirvöldum og þeim sem setja lögin. Gegnum þjón sinn, ríkisstjórnina, lýsir ríkið yfir einkarétti til að beita ofbeldi innan samfélagsins og einungis ákveðnir fulltrúar ríkisins, t.d. lögregluþjónar, mega taka fólk af götunum og setja í fangelsi. Einungis ákveðnir hópar, þ.e. rétturinn, má ákveða sekt og sakleysi og meta réttmætar refsingar í samræmi við það sem aðrir, þeir sem setja lögin, hafa sett á." (bls. 16).

Barclay bendir á muninn á valdi og yfirvaldi þar sem í samfélögum manna án ríkisstjórnar geta einhverjir aðilar verið áhrifaríkir án þess að samfélagið leyfi þeim, eða þeir hafi áhuga á, að festa sig í sessi sem yfirvald. Í samantekt fyrsta kafla setur Barclay dæmið upp þannig að samfélag án yfirvalds (anarkí) stjórnist af reglum hefðanna og einnig, en í minna mæli, af reglum tengdum dulúð og trúarbrögðum. Undir ríkisstjórn taka lagasetningar yfir mörg hlutverk hefða og dulúðar sem stýritæki. En það er ekki þar með sagt að það sé "náttúruleg" eða "eðlileg" þróun að innan samfélaga myndist ríki. Af þeim 192 ríkjum sem við lýði eru í dag komu 158 þeirra til af yfirtöku nýlenduherra. Þegar nýlenduherrarnir snáfuðu heim til sín (eftir að hafa auðgast og byggt upp heimafyrir með nýtingu á náttúruauðlindum nýlendanna) gáfu þeir nýsjálfstæðu ríkinu módel að stjórnskipulagi sínu í kveðjugjöf.

Barclay fer síðan yfir mismunandi gerðir ríkja og ástæður fyrir falli þeirra: Þau ná ekki að aðlagast breyttu umhverfi (t.d. breyttum orkugjöfum), þau breiða of mikið úr sér þannig að stjórnin hefur ekki yfirsýn, þau keyra sig út á styrjöldum (Barclay nefnir Stóra-Bretland sem dæmi um ríki sem þoldi ekki tvær heimsstyrjaldir), eðli stjórnunarhátta er einn þáttur (t.d. ofstjórnun og samkeppni meðal ráðandi stétta), vinsældir ríkisleiðtoga og það sem á kannski helst við núna og verður ríkjum að falli er mengun og eyðilegging náttúruauðlinda.

Þróun ríkis er, samkvæmt Barclay, háð nokkrum þáttum:

 1. Fólksfjölda (það stofnar enginn ríki yfir nokkur hundruð manns)
 2. Föst búseta (þú setur ekki ríkisstjórn yfir flökkufólk)
 3. Ræktun og landbúnaður (svo aðgangur að næringu sé til staðar)
 4. Dreifing (Ríkið hefjur tekjur af m.a. skattprósentu af öllum viðskiptum og vöruflutningum)
 5. Herskipulag (Ekkert ríki án hernaðar, stríð væri ekki til nema fyrir ríkið. Barcley greinir muninn milli ránsferða og skipulags hernaðar)
 6. Ættmenni við völd (auðveldara að byggja upp pýramídaskipulag)
 7. Viðskipti (efnahagur)
 8. Sérhæfing atvinnugreina (stéttamyndun)
 9. Einkaeign og stýring á auðlindum
 10. Pýramídaskipulag á félagskerfi
 11. Hugmyndafræði utan um yfirburði/undirgefni (Samfélag sem ekki hefur hugmynd um möguleikann á að einhver geti sett sig þeim ofar, tekur ekki vel í að einhver reyni það. Þetta kemur líka inn á að enginn hafi áhuga á að setja sig öðrum ofar).

 

Í lokaorðum um framtíðina lýsir Barclay m.a.hvernig samsteypufyrirtæki eru að glíma við ríkisstjórnir og þrýsta á lagabreytingar sér til hagræðingar og t.d. geta nú fyrirtæki kært ríki fyrir að hindra starfsemi sína með umhverfisverndarlögum!

Ég ætla ekki að fara nánar útí pælingar Barclay en get ekki annað en mælt með lestri hennar fyrir alla einstaklinga sem eru vaxa úr grasi í samfélagi nútímans, þar sem ekkert á sér stað án þess að handbendi ríkisins komi þar nærri. Barclay segir í lokaorðum að markmið ritgerðar sinnar hafi verið að benda á að þjóðir heims hafi verið blekktar til að taka ríkinu fagnandi og vekja spurningar um hvernig það kom til og hvort það eigi að vera þannig.Bókin vakti mig harkalega til umhugsunar og svaraði mörgum spurningum mínum auk þess að velta um koll mörgum rökum þeirra sem andmæla anarkistum í gagnrýni þeirra á ríkið. Lýsingar Barclays á aðferðum ríkja við að festa sig í sessi yfir samfélagi með þjóðernisáróðri og fánadýrkun fylltu mig óhugnaði, vegna þess hve raunveruleg þessi fyrirbæri eru í mínum daglega veruleika. Ritgerðin bendir einnig á að ein af ástæðunum fyrir velgengni kristni og islam er að það eru eingyðistrúarbrögð og henta þannig ríkisfyrirkomulaginu: Ein stjórn/einn guð og þú skalt ekki aðra yfirmenn hafa.

Barcley tekur harkalega á lýðræðisfyrirkomulaginu, skýtur á greiningar og gagnrýni Marx og sakar sósíalista um einfeldningshátt í sinni gagnrýni. Hann gefur engin loforð um draumaheim og dásamar á engan hátt hæfileika manna til að lifa saman í sátt og samlyndi. Hann er fræðimaður sem bendir á staðreyndir þess efnis að ríkisfyrirkomulagið sé ekkert frekar náttúruleg þróun samfélags manna en samfélag án yfirstjórnar.

- Sigurður Harðarson

Til baka í umfjallanir