Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

The Lathe of Heaven
Ursula Le Guin
Gollancz 1971

George Orr líður ekki vel. Hann þorir ekki að leggjast til svefns því hann óttast drauma sína. Draumar hans breyta veruleikanum, ekki bara fyrir honum sjálfum, heldur stundum dreymir hann þannig að hann vaknar til nýs veruleika þar sem bæði umheimurinn og minni allra sem lifa í honum, um þennan heim, hefur breyst útfrá því sem hann dreymdi.

Orr lifir í okkar samtíma, í Portland í BNA, í ríki þar sem einstaklingarnir eru undir nákvæmu eftirliti og í upphafi bókarinnar er hann handtekinn fyrir lyfjamisferli, hver borgari hefur lyfjakort og hann hefur notað annara kort til að afla sér meiri lyfja en telst leyfilegt (til að svæfa drauma sína). Hann er sendur til sálfræðings sem á að hjálpa honum að losna við lyfjafíknina. Orr segir manninum sögu sína, segir honum frá fyrsta dæminu þar sem hann upplifði það að draumur hans breytti veruleikanum. Þá hafði hann verið sautján ára og kona ein, sem bjó inni á heimili fjölskyldu hans, var ástleitin við hann. Honum líkaði viðleitni hennar ekki. Eina nóttina dreymdi hann að konan hefði dáið í bílslysi. Um morguninn vaknaði hann til nýs veruleika þar sem konan hafði dáið í bílslysi sex árum áður.

Sálfræðingur Orr (sem eðlilega trúir honum ekki í upphafi) er hugsjónamaður og fer að gera tilraunir með að stjórna draumum Orr með því að svæfa hann undir dáleiðslu og segja honum hvað hann á að dreyma. Sálfræðingurinn vill einungis gera öllum gott en málið er að Orr stjórnar ekki draumum sínum og getur ekki sagt til um hvaða lausnir henti vandamálum mannkyns. Þannig að þegar sálfræðingurinn segir honum að dreyma "áhrifadraum" um að mannkyn sé hætt að berjast innbyrðis, er mannkyn í heimsstyrjöld við geimverur þegar Orr vaknar. Þegar hann er látinn dreyma að kynþáttahatur sé ekki lengur til verður mannkyn grátt á litinn, og hefur alltaf verið. Draumurinn spinnur upp lausnina án þess að þeir tveir geti haft nokkur áhrif á. Orr líkar einnig alls ekki að hafa þetta vald.

Til sögunnar koma einnig geimverur sem Orr dreymir inn í daglega veruleika manna og kona sem hann verður ástfanginn af en týnir stundum gegnum veruleikabreytingar.

Þetta er skemmtileg pæling á tvo vegu; í fyrra lagi að vandamál mannkyns verða ekki leyst með einhverju fifferíi og að enginn manneskja, sama hversu valdamikil, mun geta leyst málin. Í þeim veruleika sem bók Le Guin hefst á, er offjölgun gífurlegt vandamál og þarmeð fæðuskortur (einn draumur Orr býr til plágu og vekur hann inn í þægilega rúmgóðan heim þar sem af nógu er að taka fyrir alla en skelfing plágunnar býr enn í hugum fólks). Le Guin tekur fyrir nokkur helstu vandamál sem steðja að mannkyni nú og í þeirri framtíð sem við stefnum inn í þar sem mottó valdafólks er enn að hagnaður sé mikilvægari en jafnvægi í efnahagsmálum.

- Sigurður Harðarson

Til baka í umfjallanir