Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

No Gods No Masters - An Anthology of Anarchism
Book One
Daniel Guérin
AK Press 1998

Hér hefur Paul Sharkey snarað yfir á ensku úrvali rita anarkistahreyfingarinnaru sem Daniel Guérin (sem skrifaði á frönsku) tók saman. Samantektin fer í gegnum ýmis áður óútgefin skjöl, bréf, ritdeilur, yfirlýsingar og skýrslur sem skilgreina og fara yfir sögu, kenningar, skipulag og aðgerðir anarkistahreyfingarinnar. Bækurnar (sem eru tvær í þessari prentun, AK Press hefur nú, árið 2005, gefið bæði bindin aftur út í einu bindi) fara yfir kenningasmiði hreyfingarinnar, hvatamenn hennar og aðgerðasinna. Þarna koma fram bæði nöfn sem þegar eru vel þekkt eins og Max Stirner, Mikhail Bakunin og Peter Kropotkin en einnig minna nafntogaðir einstaklingar sem þó voru virkir anarkistar af lífi og sál en hafa kannski ekki fengið athygli nema innan anarkistahreyfingarinnar.

Inngangur með stuttu æviágripi fylgir hverjum kafla en hver kafli er tileinkaður einum einstaklingi og er m.a. hér að finna ýmsar ritgerðir og greinar sem aldrei hafa verið birt áður. Sumt af þessu er þrautleiðinlegt aflestrar en annað bráðskemmtilegur og lifandi byltingarhvetjandi texti. Það sem dregur úr lestrargleði minni við að lesa þessa bók eru byltingarfræðingar að deila á kenningar hvers annars og sitt samfélag sem ég átta mig ekki alltaf alveg á þar sem flest af þessu var skrifað yfir kannski 150 árum. Því næ ég ekki alltaf að tengja við þann baráttuanda sem var í huga höfundarins á þeim tíma. Líka er um að kenna öllum þeim stóru orðum sem þessir "skeggjuðu kallar" fylla skrif sín af og ég á í vandræðum með að skilja stundum því engin þýðing á þessum orðum er til á íslenskri tungu. Það er engin hefð fyrir heitum umræðum eða ritdeilum um stéttabaráttu og uppreisn verkalýðsins gegn átroðningi yfirvalda í íslenskri félagssögu og því ekki til orðaforði yfir hann í mínum huga.

Þetta er skemmtilegt úrval fyrir anarkistagrúskarann, byltingarsagnfræðinginn og bókaorminn og gaman fyrir áhugafólk að grípa í eina og eina grein hér og þar í bókinni, en að lesa allar 300 blaðsíðurnar er alls ekki nauðsynlegt fyrir þann sem langar að fræðast um kenningar anarkista. Til þess eru til mun hentugri rit.

- Sigurður Harðarson

Til baka í umfjallanir