Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

The Party's Over - Oil, War and the fate of the Industrial Societies
Richard Heinberg
New Society Publishers (www.newsociety.com) 2003

Ég las umfjöllun um þessa bók í Total Liberty - Journal of Ethical Anarchism og í nokkra daga á eftir var ég utan við mig af áhyggjum af framtíðinni. Síðan fann ég bókina sjálfa loksins notaða í bókabúð. Ég var þá búinn að spyrjast fyrir í róttæklingabókabúðum en fékk þau svör að bækur um komandi olíukrísu hefðu allar komið út sjötíu og eitthvað og fengjust ekki lengur. Þessi bók er samt ný, kom út 2003 svo hún á við minn samtíma.

Heinberg er bandaríkjamaður sem hefur verið að skrifa um orkugjafa og menningaráhrif þeirra í fjölda ára. Þetta er hans fimmta bók. Í henni lýsir hann áhrifum komandi olíukrísu á iðnvædd samfélög. Allur fyrri helmingur bókarinnar fer í að útskýra grundvallaratriði í eðlisfræði orku og hvernig mannkyn hefur nýtt sér orku á ýmsan máta gegnum söguna og hver menningaráhrif þessarar orkunotkunar eru. Þessir kaflar gátu stundum verið ansi fræðilegir en eins og Heinberg tekur fram, þá er mikilvægt að fólk kynni sér grunninn til að skilja vandamálið. Síðan fjallar bókin um hvaða aðra orkubrunna við höfum, raforku, kjarnorku, vind- og sólarorku auk kola og etanóls en gallinn við þetta alltsaman er kostnaður við framleiðslu og stundum verri mengun en þegar hlýst af olíubruna. Olían er sá ódýri orkugjafi sem hefur gert mannkyni kleift að iðnvæðast og fjölga sér fram úr hófi. En útgangspunktur bókarinnar er einmitt sá að búið er að finna allar stærstu olíulindirnar sem til eru á þessari jörð, unnið er dag og nótt að því að brenna upp þeirri olíu sem þær eru að skila og neysla olíunnar vex stöðugt. Skilageta jarðarinnar á olíu er rétt við það að ná hámarki (við erum að tala um innan við tíu ár hérna) og þá fer hún að minnka í öfugu samræmi við neyslu mannkyns á olíu því að næsta lítið hefur verið gert til að draga úr henni eða gera neysluna skilvirkari. Ný og betri tækni til að hreinsa olíulindir og nýta olíuna betur mun ekki ná að skila sér þannig að hún hafi við neyslunni.

Þetta hefur lengi verið vitað en engar þær ráðstafanir sem hefur verið hægt að grípa til, og enn er hægt að grípa til, hafa jákvæð áhrif á efnahag ríkja sem miða efnahag sinn við stöðugt aukna þenslu. Það sem þarf að gera og hefði þurft að byrja að gera fyrir þeim áratugum sem vitað var að olíuþurrð myndi valda vandamálum í framtíðinni, er að draga úr óþarfa orkunotkun og aðlaga rekstur mikilvægra þátta í samfélagi okkar að öðrum orkulindum.

Eins og félagslegt ástand er í dag þá eru stjórnmál háð einstaklingum á framabraut sem vilja ekki styggja áhrifamikil og fjársterk iðnfyrirtæki og vilja heldur ekki styggja almenning sem vill fá að "hafa það gott" áfram. Einnig er félagsleg mismunun mjög mikil og í framtíðinni mun t.d. vetni geta drifið takmarkaðan flota af einkabílum en sá floti verður einungis til fyrir auðugt fólk. Hitun húsa og sérstaklega ræktun matvæla er stórt áhyggjuefni í framtíð með takmarkaðan og síðar engan aðgang að ódýrri orku. Heinberg skýtur á að landbúnaður án ódýrrar orku geti framleitt matvæli fyrir álíka marga og byggðu jörðina áður en iðnaður fór að blómstra með aðgangi að olíu, sem voru um tveir milljarðar! Nú lifa á jörðinni yfir sjö milljarðar. Það kann heldur enginn að rækta grænmeti eða skepnur lengur, nútímamaðurinn er háður stórmarkaðnum og öll matvæli koma til búðarinnar langt að, í stórum flugvélum og flutningabílum sem eru alltof mörg til að hægt sé að reka öll þau kerfi með annari orku en olíu. Þau samfélög sem reka efnahag sinn á túrisma munu fara illa því flugsamgöngur munu alveg örugglega ekki þola að skipta yfir á vetni.

Fjármálakerfi heimsins munu fara hroðalega út úr vaxandi kreppu og því leggjast harðar á alla sem nú skulda, bæði einstaklinga, fyrirtæki og ríki. Heilbrigðiskerfi um allan heim eru háð peningum, tölvur og önnur tækni er háð plasti sem unnið er úr olíu og engin vél snýst án smurolíu. Stríð eru þegar háð um olíulindir þar sem ríkisstjórn bandaríkjanna leggur allt kapp sitt á að halda við sínum aðgangi að olíu og leggur sig því fram um að koma á leppstjórnum í lykillandsvæðum eins og Kuwait, Írak og Afghanistan auk Venezuela svo fátt eitt sé nefnt. Heinberg bendir einmitt á, í upphafi bókarinnar, að stærstu menningarhópar mannkynssögunnar hafi hrunið þegar þá þraut aðgang sinn að ódýrri orku. Nú er komið að okkur.

Bókin er að stórum hluta miðuð við bandaríkjamenn en einnig skrifar Heinberg um afleiðingar á heimsvísu og kemur með tillögur um hvað almenningur geti gert og ábendingar um hvað stjórnvöld geti gert. Hann bendir á að íbúar lítilla samfélaga verði að taka sig saman og reyna að byggja upp orkusparandi aðferðir við rekstur sinna samfélaga auk þess að vera sjálfstæð í aðföngum matvæla með eigin ræktun og hænur í garðinum. Aðgangur að hreinu vatni gæti verið vandamál á mörgum stöðum í heiminum (minna þó á íslandi) þar sem pumpustöðvar ganga fyrir orku og smásamfélagið þarf að taka á því. Hagkerfi allra ríkja verða sífellt háðari stórfyrirtækjum sem svífast einskis til að hagræða sínum rekstri. Margar sögur eru til af því þegar einkafyrirtæki tekur yfir þjónustu við minni samfélög en leggur hana síðan niður eftir að hafa útrýmt allri samkeppni í viðkomandi bæjarfélagi þannig að íbúar þurfa að leggja á sig lengri ferðalög til að sækja þá þjónustu. Þessu þurfa íbúar hvers smásamfélags að sporna við og halda sínum fyrirtækjum og þjónustu í staðbundinni eigu og rekstri. Auk þess að stýra eigin málum í sínu samfélagi ættu íbúar að ýta á stjórnmálafólk og fyrirtæki að bregðast við fyrir samfélagið í heild í stað þess að hugsa um frama sinn á stjórnmálasviðinu. Jákvæður punktur er að þetta gæti komið alveg í veg fyrir atvinnuleysi á stórum svæðum þar sem margar hendur mun þurfa til að gera þau verk sem orkufrek tæki sinna núna.

Heinberg tekur fram í lokaorðum að það hafi tekið á að skrifa þessa bók, hann sé persónulega ekki gefinn fyrir dramatískar dómsdagsspár en þessum upplýsingum verður að koma á framfæri við sem flesta.

- Sigurður Harðarson

Til baka í umfjallanir