Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Collapse: How Societies choose to fail or succeed
Jared Diamond

Ég er með áhyggjur af vistkerfi því sem allar lífverur á plánetunni lifa við. Stundum geng ég með þessar áhyggjur alla daga og það truflar mig jafnvel í daglega lífinu. Áhyggjur eru yfirleitt ótti við hið óþekkta. Því er um að gera að lesa sér til, að lesa Collapse er góð leið. 

Diamond tekur hér dæmi bæði úr mannkynssögunni og úr samtímanum og bendir á hvernig umgengni við vistkerfi hafði allt að segja um það hvort að samfélög manna komust af eða ekki. Hann tekur ekki bara katastrófísk dæmi heldur bendir líka á hvar brugðist var við á réttan hátt og komið í veg fyrir stórslys. Hann bendir einnig á bæði góð og slæm dæmi um framkomu olíufyrirtækja á náttúrusvæðum í stað þess að hamra einungis á slæmu dæmunum eins og oft vill verða í umfjöllunum um umhverfisvandamál.

Diamond rekur söguna gegnum jarðfræðileg og fornleifafræðileg sönnunargögn. Eitt dæmi sem hann rekur er af Páskaeyjum í miðju Kyrrahafinu. Smám saman eyðilögðu íbúar eyjunnar skóglendið þar til þeir höfðu ekki efni í báta og höfðu þá ekki aðgang að fiskimiðum sínum. Blómstrandi samfélag færðist aftur í þróun og voru á steinaldarstigi mannæta þegar evrópumenn römbuðu á eyjuna á sextándu öld. Saga Páskaeyju er auðvitað miklu ýtarlegri og flóknari en ég fer ekki út í hana hér.

Diamon tekur Ísland sem dæmi um þar sem rétt viðbrögð komu í veg fyrir algera eyðileggingu vistkerfisins. Innflytjendur frá Noregi komu til Íslands og sáu þar land sem leit út rétt eins og heima hjá þeim svo þeir fluttu inn sauðfé og hjuggu skóg óafvitandi að íslenskur jarðvegur er í grunninnn eldfjallaaska sem fýkur um leið og bindingin er horfin. Ströng lög um sauðfjárbeitingu komu í veg fyrir umhverfisslys lýsir Diamond. Hann ætti að vita hverju yfirvöld á Íslandi standa nú fyrir með virkjunum og stóriðjuplottum. 

Diamond bendir á dæmi þess að menningarleg fyrirbæri meðal innflytjendahópa geti orsakað stórslys: Þegar víkingar komu til Grænlands var þar hlýskeið og fallegt um að litast. Þeir höfðu þá með sér kindur og kýr, beittu skepnum og heyjuðu. Þeir fyrirlitu inúíta og kölluðu þá “skrælingja.” Þegar harðnaði í ári og búfénaður féll virðist sem blátt bann við fiskáti hafi verið í heiðri haft og enginn hvítur maður lagðist svo lágt að læra af inúítum hvernig fólk lifði af á norðurhjara. Því dó byggð víkinga út á grænlandi þegar ísar lokuðu á siglingar milli grænlands og evrópu.

Annað dæmi um menningarleg áhrif sem stórslys, eru englendingar í Ástralíu. Til að hafa hlutina svolítið “eins og heima” fluttu þeir inn kanínur til að hafa á vappi í kringum sig. Kanínustofninn stækkaði eins og kanínum einum er lagið og er enn að eyðileggja gróðurlendi fyrir búfénaði og villtum dýrum. Refi fluttu bretar inn til veiða og til að éta kanínur en refirnir útrýmdu fuglategundum í staðinn.

Fjöldamorðin í Rúanda 1994 hef ég alltaf lesið sem kynþáttastríð. En í raun var ekki um neinn kynþáttamun að ræða heldur tók Belgíska nýlendustjórnin upp á því að flokka fólk með stimpli í vegabréf í Hútúa og Tútsa. Stimplunin var ákveðin eftir því sem embættismenn lásu í andlitsfall einstaklinganna. Diamond útskýrir að í raun hafi þetta ekki verið stríð milli þessara tveggja hópa heldur kom rígurinn sem leiddi til blóðbaðsins til af vistfræðilegum orsökum. 

Í Rúanda byggist hefðbundinn landbúnaður á því að fjölskylda lifir af rúmum hektara lands með ræktun. Börnin flytja að heiman þegar þau vaxa úr grasi og fá sinn eigin hektara annarsstaðar. Fjölgun fólks í ríkinu gerði það að verkum að uppkomin börnin gátu ekki lengur flutt að heiman. Þetta olli gífurlegum félagslegum þrýstingi í samfélaginu. Tútsar voru taldir betur efnaðir og öfundsverðir. Meðal Hútúa voru stórir hópa æsingamanna sem hvöttu til þess að öllum Tútsum yrði slátrað og eftir að leiðtogi Hútúa var myrtur var, á hundrað dögum, um 800.000 Tútsum og hófsömum Hútúum slátrað. 

Sannleikurinn er sá að á landssvæðum þar sem varla var að finna Tútsa meðal íbúanna voru samt mörg þúsund manns myrt. Fólkið var sturlað af því að reyna að lifa á aðþrengdu vistkerfi. Þetta vistfræðilega vandamál er enn óleyst svo og mörg önnur. 

Í raun er jörðin staðsett rétt eins og Páskaeyja; ein í alheiminum og enginn getur komið til hjálpar þegar illa fer fyrir jafnvægi vistkerfis hennar. 

Bókin er góð og hjálpaði mér að skilja umhverfisvandamál heimsins. Skilningurinn dregur úr ótta mínum og hvetur mig frekar til að hefjast handa en samt er maður ekki laus við svartsýni eftir þennan lestur. Diamond tekur í bókarlok fyrir ýmis algeng rök gegn því að ástandið sé jafn slæmt og bókin lýsir og ræðir þau. Hann spólar samt nær alveg yfir þá staðreynd að aðgangur mannkyns að ódýrri orku er að verða uppurinn og miðað við sumt sem ég hef lesið er hann allt of bjartsýnn. Hvað sem því líður er bókin lærdómsrík lesning og skemmtileg því hún kemur öllum við.

Sigurður Harðarson

Til baka í umfjallanir