Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Demanding the Impossible - A History of Anarchism 
Peter Marshall 
Fontana press 1993

Peter Marshall rekur hér sögu anarkískrar hugsunar, hugmyndafræðinga anarkismans og hreyfinganna utan um hugmyndir og markmið anarkista. Þess bók Marshall er viðamikil, um 700 blaðsíður, en um leið er hún yfirgripsmikil, tekur til hugsuði og hreyfingar langt út fyrir það sem flestir sagnfræðingar almennt kalla anarkista. Hugsun, hefðir og andspyrna gegn yfirvaldi og fyrir jafnræði innan samfélaga er auðvitað miklu eldra en hugtakið stjórnleysi/anarkí eða anarkismi.  

Bókin skiptist í umfjallanir um helstu hugmyndafræðinga anarkisma og frjálslynda hugsuði tengda anarkistahreyfingunni. Annar hluti er saga anarkistahreyfingarinnar sem slíkrar um allan heim. Síðan tekur Marshall fyrir ákveðin lönd og sögu anarkistahreyfinga hvers lands fyrir sig. Þannig að ef fólk leggur ekki í allan doðrantinn þá er hægt að fletta upp einstaklingum og landsvæðum.

Ég snara hérna hluta úr inngangi Marshall að bókinni fólki til innblástur og hvatningar til að lesa hana. Sumar sagnfræðibækur anarkista hef ég lesið sem ég man ekkert úr, svo þurr texti var það að ég náði ekki að halda mér vakandi. Það er of mikið af góðum bókum í heiminum til að fólk eigi að eyða tíma í þreytandi og leiðinlegan texta. Fyrir hvern þann sem vill kynna sér eitthvað um andspyrnusögu og hugmyndasögu frjálslyndra og andspyrnunnar gegn kúgun og yfirvaldi mæli ég eindregið með “Demanding the Impossible – A History of Anarchism.”

Hluti af inngangi, lauslega snarað:

Anarkisma má rekja aftur um nokkur þúsund ár sem greinilega hneigð í sögu mannsins, bæði í hugsun og hegðun. Kropotkin skrifaði að „gegnum menningarsögu okkar hafa tvær andstæðar hneigðir tekist á; sú hátt skrifaða og hin almenna, keisarafylgnin og bandalög meðal almennings, fylgni við yfirvald og hið frjálslynda viðhorf. Anarkismi er hluti af þeirri síðarnefndu. Hann er hneigð sem stendur gegn hverskyns yfirráðum, hneigð sem lítur á sjálfsstýrandi samfélög sem eðlileg og hvötina til að skapa stofnanir um yfirvald sem óhugnað.

Anarkismi byrjaði að taka á sig mynd hvarvetna þar sem fólk krafðist þess að stýra sér sjálft í stað þess að sitja undir valdagráðugum minnihlutahópum, hvort sem um var að ræða galdramenn, presta, stríðsherra, hermenn, foringja eða ráðamenn. Í sögunni má lesa um anda anarkismans spretta upp í þorpum, borgum og innan ættbálka og samtaka.

Anarkismahugsunin birtist fyrst meðal Taóistanna í Kína til forna og hefur verið meðal okkar síðan. Hún er greinilega til staðar hjá Grísku heimspekingunum. Á tímum kristnitökunnar var inntak anarkismans útfært pólitískt í uppreisnum smábænda á miðöldum. Öfgavinstrisinnar eins og Diggers og Ranters í Ensku byltingunni voru innblásnir af þessum anda og sama má segja um líflega bæjarfundi í Nýja Englandi á sautjándu öld.

En þessar birtingarmyndir eru samt, strangt til tekið, hluti af forsögu anarkisma. Anarkismi gat fyrst farið að þróast sem hugmyndafræði í samhengi eftir hrun lénsskipulagsins og tengdi þá saman vaxandi tilfinningu endurreisnarstefnunnar fyrir einstaklingshyggju og trú upplýsingarinnar á félagslegar framfarir. 

Hann kom fram í því formi sem hann er þekktur í dag, við lok átjándu aldar, þá að hluta til sem andsvar við uppgangi miðstýrðra ríkja og þjóðernishyggju og einnig sem andsvar við fylgifiskum iðnvæðingar og kapítalisma. Anarkisminn vildi því ryðja úr sessi bæði auðvaldinu og ríkinu. En vígstöðvarnar urðu senn tvennar; gegn ríkisskipulaginu og kirkjunni og gegn vaxandi valdagræðgi innan sósíalistahreyfingarinnar sem þá var að koma fram.

Það var auðvitað Franska byltingin sem lagði grunninn að mörgum þeirra baráttumála sem hreyfing vinstrisinna gerði að sínum á nítjándu öld. Meðan á byltingunni stóð mátti finna anarkísk viðhorf og skipulagningu í mörgum hverfum og sveitarfélögum. En hugtakið „anarkisti” var enn notað sem skammaryrði af Jakobínum og fylgjendum Girondin þegar þeir réðust gegn þeim landlausu og reiðu hópum sem vildu afnema ríkisstjórn og koma á bandalagsmyndun.

Hinn raunverulega föður anarkismans er að finna hinum megin við sundið. Það var William Godwin sem setti fram fyrstu skýru yfirlýsinguna um lífsskoðanir anarkista og horfði með fögnuði til þess að „hin hryllilega vél” pólitískrar yfirstjórnar væri tekin í sundur.

Á nítjándu öld varð mikið flæði af anarkískum kenningum og anarkistahreyfing þróaðist. Þýski heimspekingurinn Max Stirner setti fram einarða einstaklingshyggju þar sem hann afneitaði bæði ríki og ríkisstjórn. Fyrsti einstaklingurinn til að kalla sig anarkista var frakkinn Pierre-Joseph Proudhon. Hann lagði áherslu á að einungis samfélag laust við ásetta stjórnun gæti komið á náttúrulegu skipulagi. „Rétt eins og maðurinn sem leitar réttlætis í jafnrétti, leitar samfélagið skipulags í stjórnleysi (anarchy).” Hann setti fram þessi mögnuðu slagorð „Stjórnleysi er skipulag” og „Eignarhald er þjófnaður.”

Rússneski byltingarmaðurinn Mikael Bakúnin lýsti anarkisma sem „kenningar Proudhons útvíkkaðar og útfærðar þar til afleiðingar þeirra eru virkar í raun.” Hann gerði hugtakið „anarkí” þekkt meðal almennings, tók í því orði saman báðar þær merkingar sem því hafa verið gefnar: Útbreidda óhlýðni almennings í byltingarhug og það stöðuga samfélagsskipulag samstöðu og frelsis sem á eftir kæmi. Þar sem hann var heillandi dæmi um virkan anarkista hjálpaði ímynd hans til við að móta ímynd nútímahreyfingar anarkista.

Á seinni hluta aldarinnar reyndi hinn aðalsættaði skoðanabróðir hans, Peter Kropotkin, að gera anarkismann meira sannfærandi með því að þróa hann sem kerfi um félagslega heimspeki byggða á vísindalegum grunni. Hann útfærði enn frekar sameignarstefnu Bakúníns – sem byggðist á dreifingu arðsins samkvæmt innleggi í verki – með því að gefa henni kommúnískara yfirbragð. Ítalinn Errico Malatesta olli einnig straumhvörfum þegar hann brást við vísindalegri nálgun Kropotkíns með áherslu sinni á viljann í félagslegri baráttu. Á þessum tíma var Benjamin R. Tucker í Ameríku búinn að taka upp hagfræðikenningar Proudhons en þróaði með þeim sterka mynd af einstaklingshyggju.

Þó að Tolstoy hafi almennt ekki kallað sig anarkista vegna þess hvað sá titill var tengdur við ofbeldi, þróaði hann anarkíska gagnrýni á ríkið og eignarhald byggða á kenningum krists. Af því leiddi að hann hjálpaði til við að þróa áhrifamikla friðarsinnahefð innan anarkistahreyfingarinnar.

Á tuttugustu öld bætti Emma Goldman mikilvægri feminismavídd við anarkismann og nú á síðari tímum hefur Murray Bookchin á sláandi hátt tengt anarkisma við félagslega vistfræði. Anarkískir hugsuðir seinni tíma hafa aðallega verið uppteknir við aðlögun hugmynda og viðmiða anarkista að samtímanum. Rússneska byltingin og spænska byltingin voru mikilvægar tilraunir fyrir anarkismann fyrir seinni heimsstyrjöld. Eftir hana dró nokkuð úr flæði anarkismans en það hvarf ekki, félagsleg samsetning hreyfingarinnar varð hinsvegar meira miðstéttarbundin og frá því á sjötta áratugnum hafa nýja vinstrihreyfingin, friðarhreyfingin, feministahreyfingin og hreyfing umhverfisverndarsinna allar tekið upp mörg þemu anarkismans.

Til baka í umfjallanir