Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Down and Out in Paris and London
George Orwell

Ég hafði ekki hugsað út í það fyrr en ég fór að lesa hann sjálfur að George Orwell skildi eftir sig mikið af mögnuðum frásögnum af eigin upplifunum. Hans er helst minnst fyrir skáldsögurnar „1984” og „Dýrabæ” sem gefa óhugnanlega sterka innsýn í skítlegt eðli ráðandi stjórnmálaafla samtímans, en innblástur fyrir pólitískt virka einstaklinga og hvern annan sem vill öðlast skilning á eðli mannsins og samfélaga mannsins, er ekki síður að finna í öðrum skrifum hans. 

Í „Down and Out in Paris and London” segir Orwell frá því lífi sem hann átti með undirmálsfólki á götum Parísar og London. Frásögn hans hefst þar sem hann býr á ódýru og illa hirtu gistiheimili innan um bláfátæka en marga hverja ansi skrautlega karaktera. Orwell lifir sjálfur á fátæktarmörkum en hefur þak yfir höfuðið og ofan í sig með því að kenna ensku. Það má samt ekki mikið út af bera og þegar hann skyndilega missir það starf hefur hann enga innkomu. Skyndilega er hann kominn á þann stað í tilverunni að lifa á hungurmörkum og oft sveltur hann heilu dagana mælandi göturnar í leit að dagsverki og húsaskjóli. Þegar hann fær loks vinnu er hann meðal hinna lægst settu í kapítalísku kerfi vinnumarkaðarins.  

Loforð um starf í London dregur hann þangað auralausan. En hann er of fljótur á sér. Starfið er ekki laust fyrr en eftir einhvern ákveðinn tíma og hann er því aftur í hópi umrenninga, í þetta sinn í London. Eftir einhverjar nætur á götunni kynnist hann reyndari mönnum sem miðla honum of reynslu sinni. Hvar sé hægt að fá gistingu og hvar hægt að ná sér í tóbak og bita að éta. Kostir heimilislausra í London um gistingu eru fáir og allir slæmir. Kuldi, vosbúð, þrengsli og fjölskrúðugt smádýralíf gefa ekki mikil tækifæri til að hvílast. Lögreglan er stöðugt á höttunum eftir betlurum (eins og þeir geri einhvern skaða annan en að minna á að misskipting auðs í samfélögum manna er ömurleg staðreynd) og almennt eru heimilislausir fyrirlitnir, einnig af þeim sem gefa sig út fyrir að vilja hjálpa þeim. 

Margir venjulegir launþegar í hinum vestræna heimi samtímans átta sig ekki á því hversu tæpt getur verið á því að einnig þau fylli skyndilega raðir eignalausra. Staðan hjá mörgum er þannig að efnislegt líf þeirra er í áskrift hjá stofnunum, bankinn á húsið og bílinn og rekstur heimilisins er á greiðslukorti. Hvenær sem er getur komið afturkippur í efnahagslífið gegnum hækkandi olíuverð eða hrun á verðbréfamarkaði sem setur fyrirtæki á hausinn og tilveru fólks um leið. 

Lýsingar Orwell á fólkinu í kringum sig, karaktereinkennum þess og draumum og svo á aðstæðunum sem það lifir við eru magnaðar. Hann er blátt áfram og beinskeyttur og hrífandi á þann hátt að ég er dauðfeginn að lifa ekki eins og hann gerði á þessum tíma. 

Mér varð hugsað til rómantískra hugmynda sumra ungra pönkara og anarkista um að lifa sem afætur á kerfinu og datt í hug hin frekar leiðinlega „Evasion” sem Crimethinc gengið gaf út. Ég mæli sjálfur hiklaust með því að fólk leitist við að lifa sem mest óháð bankastofnunum og öðrum stofnunum en eins og allir vita sem þekkja til lífsstíls heimilislausra þá getur það verið full vinna að bjarga sér um nauðþurftir í þeim aðstæðum.

Sigurður Harðarson

Til baka í umfjallanir