Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Homage to Catalonia 
George Orwell

Ég hef alltaf verið með það bak við eyrað að lesa mér aðeins til um spænska borgarastríðið. Þar sem komið hefur verið inn á það í þeim sagnfræðiritum anarkista sem ég hef lesið hefur yfirtaka bænda, verkamanna og leiguliða á stórum hlutum Spánar á verksmiðjum og ræktunarlandi og hvernig þeir skipulögðu allan rekstur í samvinnu, verið rómantíserað, kannski fram úr hófi. Orwell fór til Spánar til að berjast með herflokkum kommúnista, sósíalista og anarkista gegn herliði fasistans Franco. Hann hafði hugsað málið þannig að ef að allir drepa einn fasista þá væri heimurinn betri staður. Góð pæling því hlutirnar virtust vera frekar mikið á hreinu þegar hann lagði upp í spánarför sína.

Það fyrsta sem Orwell varð var við og honum fannst ankanlegt var að það var langt í frá til nógu mikið af vopnum fyrir alla þá sem vildu berjast. Rétt eins og þeim væri ekki dreift jafnt á alla herflokka. Annað sem hann átti aldrei eftir að venjast var spænski hugsunarhátturinn að hlutirnir færu að gerast „manana.”

Það sem gjarnan hefur gleymst við rómantíseríngu þessa stríðs kemur skýrt fram í lýsingum Orwells á aðstæðum allra þeirra sem komu til að berjast gegn fasisma af hreinni hugsjón. Stríð er og verður viðbjóður, alveg sama hversu falleg hugsjónin er. Stríð er alltaf dauði, drulla, hungur, ringulreið og ótti nema fyrir þá sem sitja langt fyrir aftan víglínuna og stjórnast með hlutina. Orwell lýsir af einstakri rithæfni lífsbaráttunni í fremstu víglínu. Reglugerðir eru mátulega losaralegar (hermennska almennt snýst ekki manneskjur heldur eru hermenn verkfæri sem mega missa sín - herflokkur hugsjónamanna er ennþá hópur af fólki að vinna saman að ákveðnu markmiði) en málið er að það er ekki til mikið af neinu, eða of lítið er til af öllu, hvort sem það er vopn, föt eða matvæli. Hvað eftir annað leggja menn sig lífshættu á einskismannslandi við að næla í kartöflur eða annað sem hægt er að éta. Góðan nætursvefn er aldrei að hafa, raunverulega bardaga ekki heldur, það kemur ekki fyrr en seinna.

Þegar Orwell kemur til Barcelona í upphafi stríðsins sér hann anda anarkismans hvívetna í fasi fólks. Enginn er þéraður lengur, enginn er öðrum æðri. Allir vinna saman gegn ofbeldi fasismans. Þegar Orwell síðan kemur í leyfi eftir nokkra mánuði á vígstöðvunum upplifir hann að smáborgarhátturinn er koma sér fyrir aftur. Íbúarnir eru ekki lengur í tengslum við baráttu hermannanna á vígstöðvunum og fólk horfir útundan sér á skítuga hermannabúninga. Eitthvað er í aðsigi og í löngum köflum bókarinnar lýsir Orwell sínu sjónarhorni á flókið ferli svika Stalínista og ríkisstjórnar Spánar við byltinguna. Hópar Trotskýista og Anarkista eru skyndilega gerðir útlægir sem svikarar við byltinguna með ófrægingarherferð í dagblöðum kommúnista. Þeim er stungið á fangelsi sem og hverjum þeim útlending sem barðist í þeirra röðum, í þeirri trú að allir vinstrisinnar stæðu þarna saman gegn fasisma. Orwell svíður það sárt að margur góður drengur sem lagði á sig langt ferðalag og mikið erfiði auk þess að leggja sig í lífshættu fyrir hugsjónir sínar, er skotinn vegna ofsóknabrjálæðis fyrrum samherja sinna. Einnig rekur hann hvernig blaðamenn sem sátu sem fastast á sínum rassi í Englandi og Frakklandi taka þátt í ófrægingarherferðinni án þess að hafa nokkurntímann komið á spænska grundu. Rétt eins og í dag tóku erlendir blaðamenn við fréttatilkynningum frá stofnunum sem hentaði þeim að trúa og semja upp úr þeim fréttir, án þess að beita nokkurri rannsóknarblaðamennsku. 

Eins og ég koma að áður var þetta flókið og ruglingslegt ferli og Orwell tekur fram að í hans bók sé einungis hans sjónarhorn en sagnfræðingum gæti reynst erfitt að finna út hvað raunverulega átti sér stað vegna þess að allt sem var skráð á sínum tíma er litað af áróðri andstæðra fylkinga.

Orwell og kona hans verða sjálf að flýja Spán til að lenda ekki í fangelsi. Hann skrifaði „Homage to Catalonia” sex mánuðum eftir heimkomuna svo hún kemur mér fyrir sjónir sem lifandi vitnisburður um þessa atburði. Orwell var magnaður penni, blátt áfram og laus við skrautmælgi. Það gerir frásagnir hans að lifandi lesningu og því er þessi bók mikilvæg fyrir hvern þann sem vill kynna sér andspyrnusagnfræði.

Sigurður Harðarson

Til baka í umfjallanir