Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

The Jungle
Höfundur: Upton Sinclair
Útgáfuár: 1906

Efni: Skáldsaga 

Þessi bók telst víst til klassískra bókmennta 20. aldarinnar. Sagan fjallar um Jurgis Rudkus sem flytur rétt upp úr aldamótunum 1900 frá Litháen til Bandaríkjanna sem ungur maður ásamt nokkrum ættingjum sem og fjölskyldu tilvonandi konu sinnar. Þau koma sér fyrir í Chicago, eyða restinni af sparifénu til að kaupa sér hús og verða sér svo úti um vinnu í aðalatvinnugreininni á svæðinu: kjötvinnslu. En ólánið eltir Jurgis og fjölskylduna því hvar sem þau drepa niður fæti eru þau svikin, niðurlægð og kúguð. Húskaupin reyndust eitt stórt svindl, launin í vinnunni eru skítur á priki (duga varla til að hafa í sig og á), vinnutíminn langur og réttindi starfsmanna engin og svo má lengi áfram telja. Sagan fylgir svo þessari ólánssögu Jurgis þar sem hann fer úr einni vinnu í aðra, fjölskyldumeðlimir deyja úr vosbúð, Jurgis lendir í fangelsi, gerist flækingur og margt fleira. 

Bókin er skrifuð í anda félagslegs raunsæis, lýsingarnar á hungri og vosbúð hræðilegar og það er lesandanum ljóst alveg frá upphafi að höfundurinn er sósíalisti því vondu karlarnir eru grimmir yfirmenn, ´gráðugir kapítalistar og spilltir stjórnmálamenn. Tilgangur sögunnar er augljóslega að ýta við lesandanum og vekja upp samúð með verkamönnum sem þurfa að þola helvíti og hungur á meðan kapítalistarnir lifa í vellystingum. Og það tekst. Svo eru einnig lýsingarnar á aðstæðum í sláturhúsunum og kjötvinnslunni almennt eru svo hrikalegar að eftir að bókin kom út var ýtt í gegn lagafrumvarpi á bandaríska þinginu um hreinlæti o.s.frv. í kjötiðnaðinum. 

Bókin er mjög góð og ég mæli hiklaust með henni en þó vil ég segja að hún er full-löng en það er svosem bara í anda tímans sem hún var skrifuð.

Vilhelm Vilhelmsson

Til baka í umfjallanir