Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Outlaws of America: the weather underground and the politics of solidarity
Höfundur: Dan Berger
Útgáfuár: 2006

Efni: Sagnfræði, róttæk pólitík

Weather Underground (WU) var hópur marxist-leninískra róttæklinga í Bandaríkjunum á tímum Víetnamstríðsins sem reyndi að "færa stríðið heim" með því að sprengja upp opinberar byggingar. Það er reyndar of mikil einföldun að tengja þau bara við Víetnamstríðið því stór hluti af hugmyndafræði og starfsemi þeirra var að berjast gegn "hvítum yfirráðum" (ens: white supremacy) í Bandaríkjunum og heiminum og styðja við byltingarsinnaðar hreyfingar í þriðja heiminum annars vegar og svo róttækar hreyfingar blökkumanna og annarra minnihlutahópa í Bandaríkjunum hinsvegar.

Hópurinn þróaðist út úr stærstu hreyfingu stúdenta gegn stríðinu sem hét Students for a Democratic Society (SDS) þar sem flestir meðlimir WU höfðu verið í forystuhlutverki. Árið 1969 frömdu þau hálfgerða hallarbyltingu innan SDS og skömmu síðar leystust samtökin upp vegna innbyrðis deilna (sem hallarbyltingin var bara lítill hluti af). WU vildu færa aðgerðir andstæðinga stríðsins í róttækari átt þar sem þau töldu (réttilega) að mörg ár af passífum og ofbeldislausum (ens: non-violent) aðgerðum og fjöldamótmælum hefðu ekki skilað neinum árangri. Á sama tíma voru samtök róttækra innan minnihlutahópa á borð við Svörtu Pardusana (ens: Black Panther Party for Self-Defense, skammstafað BPP) undir ofsafengnum árásum af hálfu yfirvalda og lögreglunnar, sem ekki víluðu fyrir sér að myrða aktivista til að reyna að knésetja samtökin. Meðlimir WU sáu það því sem skyldu sína að reyna að draga hluta af athygli yfirvalda til sín til að létta undir BPP og öðrum slíkum hópum, auk fyrirætlana þeirra um að færa stríðið heim.

Í stuttu máli sagt þá færðu þau sig undir yfirborð samfélagsins, urðu neðanjarðarhreyfing, snemma árið 1970 og þaðan frömdu þau svo samtals um 26 sprengjutilræði gegn skotmörkum í Bandaríkjunum á tímabilinu 1969-1977. Enginn lést eða slasaðist í neinum af þessum tilræðum því þau hringdu alltaf og tilkynntu um sprengjurnar stuttu áður en þær sprungu til að hægt væri að rýma byggingarnar. Með öðrum orðum, skotmörkin voru byggingar (táknmyndir þeirra sem WU töldu andstæðinga sína og/eða óvini "fólksins") en ekki fólk. Skotmörkin voru valin eftir því hvað var að gerast í Bandarísku samfélagi á hverjum tíma. Þannig voru skrifstofur fangelsismálastofnunarinnar í New York fylki sprengdar eftir að lögregla og fangaverðir drápu 29 fanga í Attica fangelsinu sem höfðu framið uppreisn og hertekið eina af byggingum fangelsins. Í annað skipti var framið sprengjutilræði í Pentagon eftir að Bandaríkjamenn hófu umfangsmiklar loftárásir á Hanoi í maí 1972. Það tilræði olli tugþúsunda dollara tjóni.

Eftir að Víetnamstríðinu lauk fór hópurinn að leysast upp og í lok árs 1977 heyrði WU sögunni til. Endalok hópsins er flókið mál þar sem mikil óvild og barátta innan hópsins átti sér stað á sama tíma og miklar breytingar áttu sér stað í hugmyndafræði hópsins, sér í lagi leiðtoganna, sem bæði félagar í hópnum voru ósátt við sem og aðrir á vinstrivængnum sem höfðu áður stutt WU.

Dan Berger hefur tekist með þessari bók að lýsa í smáatriðum þróun WU sem hóp róttæklinga sem gátu ekki setið lengur aðgerðalaus á meðan yfirvöld í Bandaríkjunum murkuðu lífið úr miljónum Víetnama og kerfisbundið kúguðu samtök blökkumanna og annarra minnihlutahópa innan Bandaríkjanna. Á sama tíma gefur bókin góða yfirsýn yfir pólitíska hugsun vinstrimanna á 7. og 8. áratugunum í Bandaríkjunum sem og pólitíska atburði og viðbrögð róttæklinga við þeim á þessum tíma uppreisna og baráttu fyrir sjálfsögðum mannréttindum. Eftir lesturinn er lesandinn mjög vel upplýstur um hvað var að gerast og hversu grimm og ákveðin yfirvöld voru í tilraunum sínum til að berja niður alla andstöðu við yfirráðum ríkra hvítra karlmanna í þessu landi frelsis og lýðræðis (með allri þeirri kaldhæðni sem þeirri lýsingu fylgir).

Berger byggir bókina að miklu leyti upp á viðtölum sínum við fyrrum meðlimi WU auk nokkurra annarra róttæklinga frá þessu tímabili (m.a. fyrrum meðlimi Black Panthers og SDS, svo dæmi séu tekin) og það gefur bókinni mannlega mynd og sýnir vel þankagang þeirra en einnig gagnrýni þeirra sjálfra á aðgerðir sínar nú þegar rúm 30 ár eru liðin. Ég held líka að það hjálpi Berger við að halda fræðilegri fjarlægð frá atvikunum sem hann fjallar um að hann var ekki fæddur þegar þetta átti sér stað (hann er ári yngri en ég, sem gerir mig mjög öfundsjúkan því ekki hef ég ennþá náð að skrifa bók, hvað þá svona vandaða og góða).

Það er líka stór plús við bókina að fyrstu hundrað blaðsíðurnar eða svo er svo gott sem ekkert fjallað um WU heldur farið yfir árin áður en þau stofnuðu hópinn og þróun vinstrihreyfingarinnar, sérstaklega SDS, á 7. áratugnum og fjallað um þá gríðarlegu gjá sem myndaðist á milli ungmenna og eldri kynslóða á þessum tíma hippa, fíkniefna, frjálslyndis í kynlífi, rokk og róls og andstöðu við stríð og kynþáttafordóma. Berger er einnig ófeiminn við að gagnrýna þar sem þess er þörf á sama tíma og honum tekst vel upp með að setja atburðina í samhengi við tíðarandann. Notkun hans á neðanmálsgreinum er mjög ítarleg og vönduð og þetta er ein af fáum bókum sem ég hef lesið þar sem ég fletti reglulega upp til að sjá hvaða heimildir hann notar og hvaða athugasemdir hann bætir við aukalega utan við megintextann.

En þar kemur líka upp fyrsta gagnrýni mín á bókina. Mér finnst hann of oft notast við "secondary" heimildir, þ.e. hann tekur tölfræðilegar sem og aðrar mikilvægar upplýsingar upp úr öðrum bókum sem fjalla um svipuð málefni ( t.d. ævisögur þáttakenda og aðrar fræðibækur um tímabilið) í stað þess að leita í heimildir á borð við dagblöð frá tímanum sem um er rætt. Ég hef enga sérstaka ástæðu til að rengja hann eða heimildir hans en það hefði verið gott fyrir mig sem sagnfræðing að sjá hver upphaflega heimildin er án þess að þurfa að leggjast í rannsóknarvinnu sjálfur. Þetta á sérstaklega við í fyrri hluta bókarinnar en er þó gegnumgangandi vandamál. Önnur gagnrýni á bókina er að hann er svolítið gjarn á að endurtaka sig og ítarlegri ritstýring hefði komið sér vel. Í þriðja lagi finnst mér líka vanta á köflum nánari útskýringar varðandi ýmis smáatriði, sér í lagi hvað varðar hugtök og fyrirbæri sem eru sér-bandarísk og illskiljanleg fyrir okkur sem ekki þekkjum mjög vel til smáatriða bandarískrar menningar og hugtakanotkunar. Einnig hefði ég viljað sjá fleiri tilvitnanir í samtímaheimildir utan vinstrihreyfingarinnar. Hvað hafði New York Times að segja um WU?

En þetta eru smávægileg atriði sem draga ekki úr heildaráhrifum bókarinnar því hún er í heildina séð gríðarlega fræðandi, passlega fræðileg, þ.e. Berger tapar sér ekki í fræðimáli og djúpum siðfræðilegum vangaveltum en er heldur ekki of yfirborðskenndur né missir sig í pólitískum áróðri þó hann geri það alveg ljóst frá upphafi að hann skrifi sem vinstrisinni og aktivisti en ekki bara sem sagnfræðingur, og svo er bókin einfaldlega skemmtileg aflestrar fyrir lesanda eins og mig sem hefur gríðarlegan áhuga á sögu róttækra vinstrihreyfinga. En þetta eru smávægileg atriði sem draga ekki úr heildaráhrifum bókarinnar því hún er í heildina séð gríðarlega fræðandi, passlega fræðileg, þ.e. Berger tapar sér ekki í fræðimáli og djúpum siðfræðilegum vangaveltum en er heldur ekki of yfirborðskenndur né missir sig í pólitískum áróðri þó hann geri það alveg ljóst frá upphafi að hann skrifi sem vinstrisinni og aktivisti en ekki bara sem sagnfræðingur, og svo er bókin einfaldlega skemmtileg aflestrar fyrir lesanda eins og mig sem hefur gríðarlegan áhuga á sögu róttækra vinstrihreyfinga.

Vilhelm Vilhelmsson

Til baka í umfjallanir