Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Anarchism - arguments for and against
Höfundur: Albert Meltzer
Útgáfuár: 1981 (mín endurskoðaða útgáfa: 2000)

Ég keypti þessa bók í von um að fá haldbær og auðvelt rök fyrir anarkisma til að geta vísað til við rökræður og annað spjall, og að sjálfsögðu bara til að auka þekkingu mína á anarkisma. Það sem ég fékk var pirrað áróðursrit, vitagagnslaust. Alveg frá innganginum yfir á síðustu síðu tuðar Meltzer (sem lést árið 1996, þá 76 ára gamall) yfir því að þessir eða hinir séu ekki raunverulegir anarkistar, séu bara egóistar eða tískufrík og eigi ekkert skylt við anarkisma. Í stuttu máli sagt þá viðurkennir hann einungis byltingarsinnaða sósíalíska anarkista (anarcho-syndikalista) sem raunverulega kyndilbera anarkismans. Allir aðrir eru bara plat. Í viðbót við það er bókin allt of Bretlandsmiðuð, sum rökin eru illskiljanleg fyrir þá sem ekki þekkja til breskra stjórnmála og svo eru rökin einfaldlega léleg og einfeldningsleg. Meira að segja seinni hluti bókarinnar þar sem Meltzer tekur fyrir rök andstæðinga anarkista og reynir að gera grein fyrir þeim og svara þeim er barnalegur og oft á tíðum illskiljanlegur. Ég fékk þá tilfinningu þegar ég var að lesa þessa bók að ég væri að lesa pirrað lesendabréf frá úrillum og einangruðum sérvitringi. Forðist þessa bók eins og heitan eldinn. Ef þið viljið góðan inngang að anarkisma og hugmyndafræði hans þá mæli ég með bókinni Um Anarkisma eftir Nicolas Walter, þýdd af Sigurði Harðarsyni og gefin út af bókaútgáfu Andspyrnu og fáanleg á bókasafni Andspyrnu í Kaffi Hljómalind við Laugaveg.

Vilhelm Vihelmsson

Til baka í umfjallanir