Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Titill: The Watch
Höfundur: Dennis Danvers
Útgáfuár: 2002

Efni: Skáldsaga (vísindaskáldsaga)

Undirtitill bókarinnar segir meira en mörg orð um efni bókarinnar, en hann er: "being the unauthorized sequel to Peter A. Kropotkin's Memoirs of a Revolutionist." 

Peter Kropotkin (1842-1921) er einn þekktasti anarkisti sögunnar. Hann var af rússneskum aðalsættum og hafði meira að segja titilinn Prins en afneitaði arfleifð sinni fyrir ævilangt starf í þágu anarkisma, sósíalisma og Byltingarinnar. Hann var einnig náttúruvísindamaður og kortlagði og rannsakaði náttúru og dýralíf í Síberíu þegar hann var ungur maður. Hann skrifaði fjölmargar bækur, þar á meðal hina áhrifamiklu Mutual Aid: a factor of evolution þar sem hann setur fram kenningu sína að samhjálp og samvinna sé ekki síðri þáttur í þróun dýrategunda heldur en samkeppni. Hann var mörg ár í útlegð frá Rússlandi en eftir októberbyltinguna 1917 fluttist hann aftur til Rússlands, þá ríflega sjötugur að aldri og gagnrýndi þar einræðistilburði Leníns og Bolsévika. Jarðarför hans í febrúar 1921 var ein síðasta fjöldasamkoma anarkista í hinum ungu Sovétríkjum áður en þeim var skipulega útrýmt.  

Í upphafi bókarinnar er lesandinn við dánarbeð þessa mikla manns. Kropotkin er sjálfur sögumaður og hann segir frá því hvernig maður úr fjarlægri framtíð birtist honum, stöðvar tímann og býður Kropotkin nýtt líf í framtíðinni. Kropotkin þiggur boðið og hefur nýtt líf, aftur sem ungur maður en með allar gömlu minningarnar og reynslu heillar lífstíðar, árið 1999 og í þetta skiptið í borginni Richmond í Virginíufylki í Bandaríkjunum, þar sem hann lendir peningalaus, vinalaus og allslaus. Hann kynnist svo fólki og plottið flækist eftir því sem það kemur betur í ljós að framtíðarmaðurinn sem bauð honum nýtt líf virðist vera að leika guð með líf Kropotkins, eitthvað sem honum sem anarkista líkar að sjálfsögðu gríðarlega illa við. Ég vil ekki segja meira um plottið sjálft til að skemma ekki fyrir tilvonandi lesendum. 

Það var góð ákvörðun hjá Dennis Danvers að láta Kropotkin sjálfan vera sögumann í bókinni. Það gefur sögunni gott flæði og virkar vel til að krítísera nútímasamfélag. Kropotkin var náttúrulega fyrst og fremst 19. aldar maður og þegar hann lendir allt í einu í nútímanum (eða svo gott sem) þá er að sjálfsögðu margt sem kemur honum spánskt fyrir sjónir. Þannig fáum við sem lesendur að upplifa viðbrögð hans við ýmsu sem við tökum sem sjálfsögðum hlut í okkar daglega lífi eins og bílum og umferðarmenningu, tölvum og internetinu, plasti í öllum sínum myndum og svo að sjálfsögðu allri sögu 20. aldarinnar með atómsprengjum, köldu stríði, Hitler, Stalín, Helförinni og svo framvegis. Og þar sem Kropotkin var sósíalískur anarkisti þá eru viðbrögð hans við öllum þessum fyrirbærum að sjálfsögðu eftir því. 

Það er klárt og ljóst alveg frá upphafi bókarinnar að höfundurinn býr ekki bara yfir gríðarlega mikilli þekkingu á lífi, verkum og hugmyndum Kropotkins heldur hefur hann líka mikið dálæti á honum og er mjög sympatískur gagnvart hugmyndum hans. Og það er líklega þess vegna sem karakterinn í bókinni virkar svona sannfærandi: ítarleg þekking Danvers á "hinum gamla" Kropotkin gerir það að verkum að "hinn nýji" Kropotkin er eins og framlenging á hinum gamla í skoðunum, fasi, lífssýn og hegðun og er einfaldlega mjög sannfærandi. Það er einnig mjög augljóst að Danvers notar óhikað tilvitnanir í skrif Kropotkins til að búa til hugsanir og skoðanir hjá þessum skáldaða karakter. Og svo er staðsetning sögunnar, Richmond, engin tilviljun heldur. Höfundurinn hefur augljóslega mikla þekkingu á staðháttum og, ennþá mikilvægara, sögu borgarinnar, en hún spilar talsverða rullu í bókinni. 

Allt í allt gríðarlega skemmtileg bók. Hún er skemmtilega skrifuð, plottið er gott og spennandi og lengdin alveg passleg (þ.e. hún verður aldrei langdregin). Fyrir utan hversu mikið lesandinn getur lært um anarkisma almennt og kenningar Kropotkins sérstaklega þá er bókin og umgjörð hennar (þ.e. tilvist framtíðarmannsins og tímaflakkið) einnig ágætis vettvangur fyrir heimspekilegar vangaveltur höfundar sem og lesanda um trú og sérstaklega tilvist Guðs, örlög og frjálsan vilja. Mjög vel heppnað skáldverk sem ég mæli hiklaust með.

Vilhelm Vihelmsson

Til baka í umfjallanir