Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Days of War Nights of Love - Crimethink for beginners
250 bls
Crimethink/the Demonbox Collective

Crimethink eru algjörlega óformleg samtök virkra anarkista og andspyrnufólks. Þau gefa út blöð og bækur, halda úti heimasíðu, gefa út tónlist og spila, svo eitthvað af því sem mest er áberandi sé nefnt. Hver sem vill getur tekið upp og kópierað verk þeirra og dreift í sínu umhverfi eða að öðru leyti starfað undir merki Crimethink svo fremi að það sé gert með hugarfari andspyrnu gegn fasískum öflum í umhverfinu.

Bókin er einkar skemmtilega sett upp og skrifuð. Höfundar efnis eru nokkrir og skrifa undir gervinöfnum, persónulegt framapot er ekki markmið hjá þessu fólki. Miðað við margar þeirra bóka sem ætlað er að skýra og fjalla um anarkisma og ástæður þess að gangi heimsmála þarf að breyta og ég hef lesið er þessi einna skemmtilegust. Það sem gerir efni bókarinnar skemmtilegt er hvað hún er blátt áfram og praktísk. Textinn er aldrei of fræðilegur, ég fékk það aldrei á tilfinninguna að einhver væri að setja sig á fræðilegan háhest. Sumt af því sem ég hef lesið, eða reynt að lesa, af andspyrnubókmenntum er hundleiðinlegt efni sem gerir þá kröfu að lesandi sé annaðhvort mjög staðfastur/staðföst í að skilja efnið eða mjög þrjósk/ur. Hér er skrifað með það að markmiði að lesandinn tengi lesefnið við sitt eigið líf, taki hugmyndirnar upp úr bókinni og geri þær virkar í hugsunarhætti sínum, lífsstíl og sínu umhverfi. 

Margt í þessari bók veitti mér nýtt sjónarhorn á gamlar hugmyndir og pælingar. T.d. kaflinn um anarkisma, “endurreisn anarkisma sem persónuleg nálgun á lífið” er einmitt sú nálgun sem ég vil fá á anarkisma. Það hefur allt of mikið verið skrifað um anarkisma sem félagsfræðilegt fyrirbæri og hann stúderaður þannig af fólki sem hafði hvorki áhuga né vilja til að lifa anarkismann. “Days of war - Nights of love” er skrifaður af fólki sem hefur sumt afneitað hinu kapitaliska samfélagi á svo afgerandi hátt að þau hafa étið upp úr ruslatunnum til að þurfa ekki að gefa kerfinu neitt. 

Annað af mörgu sem kveikti á perunni hjá mér er kafli um hvernig fólk sem kallar sig róttæklinga er að setja sig sjálft í hugmyndafræðilega kassa. Þar með er komið í veg fyrir að einstaklingurinn geti horft á umheiminn og samskipti sín við hann á árangursríkan hátt. Hin róttæka hugmyndafærði væri þarmeð farin að virka eins og kúgandi afl og nóg er af þeim fyrir.

Þetta er bók sem þarf að lesa aftur og aftur og hvert skipti átta sig betur á fyrirbærinu. Þessi bók er hugvekja fyrir alla sem lesa. Alveg sama hvort að viðkomandi hafa eitthvað verið að velta fyrir sér róttækum stjórnmálum áður eða voru rétt í þessu að slökkva á sjónvarpinu.

Uppsetningin á efninu gerir það auðvelt að grípa niður í bókina hvar sem er og byrja að lesa. Myndskreytingum er stolið víða úr myndasögum og er þar karakterum gefinn nýr og skemmtilegri texti inn á myndirnar.

Sigurður Harðarson

Til baka í umfjallanir