Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Bakunin - the creative passion Höfundur: Mark Leier
Útgáfuár: 2006
Efni: Ævisaga, sagnfræði, pólitík

Michael Bakunin er almennt kallaður "faðir anarkismans." Hann var fæddur í Rússlandi árið 1814 og var af rússneskum aðalsættum. Faðir hans var undir miklum áhrifum Upplýsingarinnar og veitti því börnunum sínum mikla, og óháða, menntun. Michael varð snemma mjög áhugasamur um heimspeki og pólitík og varð fljótt byltingarsinnaður. Hann var sendur í herskóla og honum var ætlaður frami innan rússneska hersins en hann þoldi illa valdboðið og innrætinguna sem átti sér stað innan hersins og stakk að lokum af og eftir stutta dvöl í Moskvu - þar sem hann var þáttakandi í framsæknum leshringjum róttæklinga, sem margir hverjir urðu síðar frægir menn, t.d. rithöfundurinn Turgenev - fór hann til Þýskalands og tók þar þátt í pólitík og róttækri heimspeki. Hann skrifaði margar greinar og tók þátt í uppreisnum og þessi aktivismi hans gerði hann mjög óvinsælan meðal yfirvalda, bæði í þeim ríkjum sem hann dvaldi í (Austurríki og þýskum sjálfstjórnarsvæðum) og í heimalandi sínu. Hann var á endanum handtekinn og eyddi nokkrum árum við slæmar aðstæður í þýskum og rússneskum fangelsum og var loks sendur til Síberíu. Þaðan tókst honum að stinga af og endaði aftur í Evrópu þar sem hann tók virkan þátt í byltingarstarfsemi, nú orðinn sósíalisti og fljótlega anarkisti. Hann lenti í miklum deilum við Karl Marx um hugmyndafræðileg yfirráð yfir fyrsta Alþjóðasambandinu og um hvaða leiðir bæri að fara í átt að frelsun verkalýðsins og byggja upp réttlátari og frjálsari heim. Hann var gríðarlega áhrifamikill sem og alræmdur um sína lífstíð (það voru deilur hans og Marx sem og klofningur milli fylgismanna þeirra sem bundu enda á fyrsta Alþjóðasambandið) en "gleymdist" um tíma eftir að sovét-kommúnismi varð alsráðandi meðal vinstrimanna en hefur svo smám saman verið að "enduruppgötvast" síðustu áratugi samhliða auknum áhuga á anarkisma og öðrum sósíalískum leiðum sem ekki leiða til einræðis og kúgunar í anda Sovétríkjanna. Auk þess eru fræðimenn fyrst nú síðustu 2-3 áratugi að viðurkenna og fjalla um anarkisma sem raunverulega og pólitíska stefnu með ríka sögu og innihaldsríka heimspeki og kenningar Bakunins eru stór hluti þeirrar sögu. Bakunin kom við sögu í mörgum af helstu atburðum 19. aldarinnar eins og byltingarinnar í París 1848 og Parísarkommúnunni 1871 og auðvitað stofnun verkalýðshreyfingarinnar og sósíalisma sem alþjóðlegrar, pólitískrar hreyfingar. Hann þekkti einnig og var í slagtogi með (og baráttu gegn) mörgum af þekktustu mönnum 19. aldarinnar eins og Karl Marx, Richard Wagner, Turgenev, Alexander Herzen, Mazzini og Garibaldi svo einhverjir séu nefndir. Bakunin lést svo í Berne í Sviss árið 1876. 

Mark Leier hefur hér skrifað stórvirki. Þessi bók er líklega besta ævisaga sem ég hef nokkuru sinni lesið. Auk þess að fjalla ítarlega um ævi þessa merka manns þá fer Leier einnig ítarlega yfir hugmyndafræðilega þróun hans og heimspeki hans og skrif, eitthvað sem sárlega vantaði í bók E.H. Carrs um Bakunin sem kom út árið 1937 og ég las fyrir nokkrum árum síðan. Leier fer líka oft langt út fyrir efnið til að útskýra umheiminn eins og hann var á tímum Bakunins eins og t.d. pólitíska og félagslega sögu Rússlands (með nákvæmri útskýringu á t.d. bændaánauðinni) og þessir útúrdúrar Leiers auka skilning manns á umfjöllunarefni hans og útskýra betur þær aðstæður sem sköpuðu Bakunin sem hugmyndafræðing og einstakling. Hann notar einnig reglulega líkingar við nútímann til að útskýra atburði og hugtök og það undirstrikar nauðsyn þess að skrifa bók eins og þessa því hugmyndir Bakunins eiga ekki síður við í dag heldur en á þeim tíma sem hann var uppi á. Auk þess fjallar Leier á mjög krítískan hátt um aðrar bækur og greinar sem skrifaðar hafa verið um Bakunin og vitnar mikið til þeirra þannig að maður fær mun betri heildarsýn yfir rannsóknir fræðimanna á þessum merka manni. Það hafa nefnilega verið skrifaðar nokkrar bækur um Bakunin sem draga upp dökka mynd af honum, sem væri svosem í fínu lagi ef þær væru ekki byggðar á varhugaverðum sálfræðitúlkunum sem byggja á lélegum rökum og taka skrif Bakunins úr öllu samhengi. En Leier byggir gagnrýni sína heldur ekki bara á eigin skoðunum og lesningu heldur vitnar til annarra fræðimanna, t.d. vinnu Marshall Shatz, sem hafa markvisst skotið niður þessar sálfræðitúlkanir með öflugri heimildavinnu. 

Og þó Leier skrifi augljóslega um Bakunin í jákvæðu ljósi þá er hann heldur ekki feiminn við að gagnrýna hann þar sem við á og allt í allt fær maður að mínu mati nokkuð heilsteypta sýn á hver Bakunin var og hverjar hugmyndir hans voru, og það ómengað af bjánalegum sálfræðitúlkunum sem reyna að sálgreina löngu dauðan mann í gegnum handahófsvalin brot úr skrifum hans. Og yfirgripsmiklir útúrdúrar Leiers gefa manni einnig heilsteypta innsýn í sögu 19. aldarinnar og þær gríðarlegu breytingar sem áttu sér stað í menningarlegri, pólitískri og efnahagslegri skipan heimsins sem þá áttu sér stað. 

Í viðbót við aðdáunarverða heimildavinnu - og lógískrar, en jafnframt krítískrar, lesningar Leier á öðrum verkum um Bakunin - er bókin einfaldlega vel skrifuð og oft hnyttin og sniðug. Leier er einnig sparsamur í notkun neðanmálsgreina sem gerir textann aðgengilegri og þægilegri í lesningu fyrir menn eins og mig sem gjarnan vilja fletta upp á neðanmálsgreinum til að sjá hvaðan tiltekin heimild er komin. Eini gallinn er að bókin er svolítið seinlesin (ég var rúman mánuð að komast í gegnum hana, en það eru svosem aðrar ástæður fyrir því) og kaflarnir eilítið of langir. En allt í allt alveg frábær bók og skyldulesning fyrir alla anarkista, sósíalista, kommúnista og áhugamenn um sagnfræði.

Vilhelm Vihelmsson

Til baka í umfjallanir