Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Haymarket - a novel
Höfundur: Martin Duberman
Útgáfuár: 2003

Efni: Söguleg skáldsaga 


Árið 1886 var sprengju hent að hópi lögreglumanna sem voru að leysa upp baráttufund verkamanna á Haymarket-torgi í Chicago í Bandaríkjunum. Í kjölfarið voru átta anarkistar handteknir og dregnir fyrir dóm ásakaðir um að hafa hvatt til og jafnvel skipulagt sprengjuárásina. Þeir voru allir dæmdir sekir, þar af voru sjö þeirra dæmdir til dauða. Dómurinn yfir þessum átta mönnum olli gríðarlegu uppnámi og verkafólk um allan heiminn barðist fyrir náðun og nýjum réttarhöldum en það var almennt talið að þeir væru í alla staði saklausir og það voru engin sönnunargögn gegn þeim en þetta voru nornaveiðar sem enduðu í þessu réttarmorði. Mennirnir voru fyrst og fremst dæmdir fyrir pólitískar skoðanir sínar. Þessi atburðarás radíkaliseraði heila kynslóð fólks og má þar m.a. nefna Emmu Goldman, "Big Bill" Haywood og fjölda annara. Fjórir mannanna voru hengdir árið 1887, einn framdi sjálfsmorð í fangaklefa sínum skömmu áður en aftökurnar áttu sér stað en síðustu þrír voru að lokum náðaðir af fylkisstjóra Illinois-fylkisins árið 1892 þar sem hann taldi þá saklausa. Þessir atburðir eru taldir upphafið að þeirri hefð að 1. maí sé baráttudagur verkalýðsins. 

Höfuðpersónur þessarar bókar eru þau Albert og Lucy Parsons en Albert var einn þeirra sem teknir voru af lífi. Hann hafði barist með suðurríkjunum í Bandarísku borgarastyrjöldinni, eitthvað sem hann sagði síðar að sé það eina sem hann hafi séð eftir á ævi sinni. Stuttu síðar kynnist hann Lucy á sveitabæ í Texas þar sem hún var þjónustustúlka. Lucy var kynblendingur, af mexíkönskum, indíána og svertingjaættum og þess vegna þótti hjónaband þeirra algjörlega óviðeigandi og þeim varð ekki líft í Texas og þau flúðu því til Chicago þar sem þau gátu lifað að mestu leiti óáreitt (þó sífellt hafi verið að tala niður til þeirra fyrir að vera í "blönduðu" hjónabandi). Þau voru bæði mjög pólitísk og sem fátækt verkafólk urðu þau fljótt virk í verkalýðsstarfi í borginni. Með tímanum urðu þau, og sérstaklega Albert, þekktar ræðumanneskjur og pólitískir skríbentar og um það leiti sem Haymarket atburðurnir gerðust voru þau ritstjórar á pólitísku verkalýðsdagblaði sem hét The Alarm. Þau voru líka á þessum tímapunkti orðnir sósíalískir anarkistar (það var, eftir allt saman ekki svo mikill munur þar á milli á þessum tíma). 

Á þessum uppbyggingarárum í Bandaríkjunum var mikið innstreymi af innflytjendum og fylltu þeir raðir verkafólks í öllum helstu borgum og Chicago var engin undantekning þar á. Þess vegna störfuðu þau Albert og Lucy mjög náið með þýskum félögum sínum, en Þjóðverjar voru hvað fjölmennasti hópur innflytjenda í Chicago. Sex af þeim átta sem dæmdir voru í Haymarket-málinu voru þýskir innflytjendur. 

Við lestur þessarar sögu þar sem lesandinn fylgir sögu þeirra Alberts og Lucy fær hann innsýn inn í sögu Bandaríkjanna á þessum stormasömu árum, helstu pólitísku hitamál, aðstæður verkamanna og innflytjenda, viðhorf til kynþátta og kvenna (Lucy var mikill feministi) og þróun verkalýðshreyfingarinnar í Bandaríkjunum. Duberman gerir málefnunum og pólitískri hugmyndafræði þeirra góð skil og honum tekst að búa til mjög sannfærandi og viðkunnanlegar persónur, sérstaklega málar hann Lucy í fallegum og djörfum litum. Það er líka augljóst mál að Duberman lítur mjög jákvæðum augum á þessa Haymarket-píslarvotta (eins og þeir eru oft kallaðir) og er hlynntur skoðunum þeirra. Uppbygging bókarinnar og lýsingar á persónum og aðstæðum snerta mann djúpt og ég fann mikla samúð með höfuðpersónum bókarinnar. Duberman sýnir einnig vel hversu pólitísk réttarhöldin voru, hversu mikið réttarmorð þetta var og að þessir átta einstaklingar voru í alla staði saklausir. Ofbeldi lögreglunar og efristéttafólks í garð verkamanna, og sérstaklega radíkalista, er einnig gerð góð skil og maður sem lesandi verður einfaldlega reiður yfir hroka og valdníðslu þeirra. 

En bókin er ekki gallalaus. Þar sem Duberman er svo augljóslega sympatískur í garð þeirra persóna sem hann fjallar um þá málar hann full rósótta mynd af þeim. Og þar sem fáar persónulegar heimildir um daglegt líf þeirra (bréf, dagbækur o.s.frv.) þá hefur hann þurft að skálda talsvert við sköpun persónanna. Það er alltaf vandmeðfarið að skrifa sögulegar skáldsögur, sérstaklega eins og þessa þar sem allar persónur voru í raun til og allir atburðir gerðust í alvöru, og það er stundum erfitt að greina á milli hvað er skáldskapur Dubermans og hvað er fengið úr heimildum. Fyrir sagnfræðiáhugamann eins og mig getur það reynst frústrerandi að geta ekki greint almennilega þarna á milli. 

En almennt séð er ég mjög ánægður með þessa bók. Hún höfðar vel til mín, hún er vel skrifuð og augljóslega af alúð og einskærum áhuga höfundar, sem fyrir mér er alltaf kostur. Hann skautar einnig alveg passlega á milli þess persónulega og þess pólitíska í lífi þessara einstaklinga þannig að útkoman verður í ágætis jafnvægi, hvorki of pólitísk né of persónuleg. Einnig fannst mér skemmtilegt hvað Duberman skaut inn í textann athugasemdum um sögulega atburði sem ekki koma málinu beint við eins og rafmagnsvæðingu New York-borgar og tískustraumum tíðarandans. Það hjálpar mikið til við að búa til rétta stemningu og setja atburðina í sögulegt samhengi. Og svo sem einskonar bónus þá bætir Duberman við í lokin stutta frásögn af því hvað varð um persónur bókarinnar eftir lok hennar (því allt þetta fólk var náttúrulega til í raun og veru og þau sem eftir lifðu áttu sér að sjálfsögðu líf eftir þetta) og listar upp helstu heimildir sínar fyrir bókina, eitthvað sem sagnfræðinörd eins og ég hef gaman af. Fín bók sem ég mæli hiklaust með.

Vilhelm Vihelmsson

Til baka í umfjallanir