Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Mississippi To Madrid: Memoir of a Black American in the Abraham Lincoln Brigade
Höfundur: James Yates
Útgáfuár: 1989

Efni: Ævisaga

Eitthvað um 40.000 'útlendingar' börðust sem sjálfboðaliðar gegn fasistasveitum Francos í spænsku borgarastyrjöldinni. Þaraf voru milli 80 og 100 svartir Bandaríkjamenn. James Yates var einn þeirra. Í þessari stuttu en vönduðu bók rekur hann sögu sína frá uppvexti sínum í hinu djúpa suðri Bandaríkjana, þar sem það eitt að vera svartur á hörund gat kostað þig lífið, og fram að lokum spænsku borgarastyrjaldarinnar. 

James Yates fæddist árið 1906 inn í fátæka fjölskyldu í sveitum Mississippi. Sem unglingur flúði hann í norðurátt því samkvæmt almannarómi á hans heimaslóðum var lífið í norðurríkjunum laust við þá kynþáttahyggju sem gegnumsýrði allt í suðrinu. Hann komst þó fljótt að því að sögurnar um efnahagslega velgengni og fordómalaust samfélag voru eintómur uppspuni. Sem verkamaður í Chicago hóf hann þáttöku í verkalýðsmálum og náði smám saman að feta sig upp metorðastigann í vinnunni sinni. Hann tók einnig þátt í réttindabaráttu svartra. En svo skall Kreppan á árið 1929 og hann, líkt og miljónir annarra, missti vinnuna. Í leit að vinnu endaði hann í New York og komst þar í kynni við kommúnista og hóf þáttöku í starfi þeirra. 

Árið 1935 réðust fasistasveitir Mussolinis inn í Eþíópíu, sem þá var nánast eina sjálfstæða ríkið í Afríku og átti þarmeð huga og hjörtu svartra Bandaríkjamanna. Innrásin olli því mikilli reiði meðal þeirra og óeirðir brutust út víða í stórborgum Bandaríkjanna. Mörgum langaði að fara til Eþíópíu og berjast gegn fasistunum en stríðinu lauk áður en hægt var að skipuleggja förina yfir hafið. Þegar spænska borgarastyrjöldin braust svo út í júlí 1936, þar sem herinn, með dyggum stuðningi fasista, gerði byltingu gegn lýðræðislega kjörinni vinstristjórn landsins, og ljóst varð að spænskur almenningur ætlaði sér ekki að gefast upp heldur berjast gegn fasistunum, tóku vinstrisinnar um allan heim við sér og flykktust til Spánar til að hjálpa Spánverjum að verjast gegn fasistunum. Mussolini studdi fasistana og sendi þeim vopn og hersveitir og svartir Bandaríkjamenn sáu þá að, vildu þeir berjast gegn fasisma og hefna fyrir hernám Eþíópíu, var hið eina rökrétta í stöðunni að fara til Spánar og taka upp vopn. Þar á meðal var James Yates, en hann var vörubílstjóri í stríðinu og flutti vistir og fólk fram og til baka. Á þeim ferðalögum heimsótti hann margar af helstu vígsstöðvum stríðsins, þar á meðal Madrid sem var undir umsátri nánast alla styrjöldina. Hann fór til baka til Bandaríkjanna þegar þáttöku sjálfboðaliðanna í styrjöldinni var lokið seinnipart árs 1938. Hann hafði hvort eð er særst alvarlega er óvinaflugvél varpaði sprengjum á trukkinn hans og síðustu mánuði sína á Spáni var Yates á sjúkrahúsi. 

Þetta er alveg afbragðs bók. Stíll Yates er einfaldur en heillandi. Á einföldu máli lýsir hann listavel hvernig lífið var fyrir svarta Bandaríkjamenn á fyrri hluta 20. aldarinnar. Hann lýsir ekki bara ástandinu í Mississippi á barnsárum sínum heldur því hvernig mörg hundruð ár þrældóms, kúgunar og kynþáttamismununar gegnsýrðu hugarfar, hegðanir og lífssýn svartra í suðurríkjum Bandaríkjanna á þessum árum. Lýsingar hans eru því góður mælikvarði á það hugarástand sem var ríkjandi. Reyndar eru lýsingar hans svo framúrskarandi að umræddir kaflar eru upplagðir sem kennsluefni, að mínu mati. 

Frásögn hans frá spænsku borgarastyrjöldinni er einnig vönduð. Yates lýsir vel hryllingi stríðs en jafnframt nauðsyn þess að berjast gegn fasisma með öllum tiltækum ráðum. Skrif hans undirstrika og skýra vel fyrir lesandanum hversu hugsjónafullir sjálfboðaliðarnir í spænsku borgarastyrjöldinni voru ásamt því hversu þakklátur hinn almenni Spánverji var í garð sjálfboðaliðanna og hversu mikið þeir hötuðu Franco og fasistasveitir hans. Gerið sjálfum ykkur greiða og lesið þessa bók ef þið mögulega getið.

Vilhelm Vihelmsson

Til baka í umfjallanir